Hoppa yfir valmynd
5. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 206/2012

Fimmtudaginn 5. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. október 2012 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 24. maí 2011 um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 5. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. desember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 12. desember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 25. desember 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1961. Hann er einhleypur og býr í 205 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C. Húsið er í eigu kæranda og fyrrverandi sambýliskonu hans. Hjá kæranda búa sonur hans fæddur 1992 og dóttir fædd 1997. Sonur kæranda hefur verið í endurhæfingu vegna athyglisbrests og ofvirkni en er án atvinnu og fær ekki atvinnuleysisbætur.

Kærandi hefur verið atvinnulaus frá 1. mars 2012 en hann starfaði áður um 16 ára skeið hjá fyrirtækinuX. Kærandi er 75% öryrki. Fram til þess tíma er kærandi missti atvinnu sína voru mánaðarlegar tekjur hans 312.000 krónur að frádregnum sköttum og gjöldum.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til mikillar hækkunar lána. Hafi kærandi og þáverandi sambýliskona hans keypt fasteignina að B götu nr. 1 vorið 2006. Hafi þau ekki getað selt fyrri fasteign sína fyrr en vorið 2007 en þau hafi þurft að selja þá eign verulega undir markaðsverði. Einnig hafi tekjur heimilisins lækkað töluvert þegar kærandi og fyrrum sambýliskona hans slitu samvistum í ársbyrjun 2009. Laun kæranda hafi aðeins nægt til framfærslu og því hafi hann ekki getað greitt af lánum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 52.873.104 krónur og eru þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga sinna á árunum 2004 til 2006.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. maí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom í fyrsta lagi fram að kærandi hefði ekki lagt til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir eða frá 24. nóvember 2010. Er umsókn kæranda var samþykkt hafi greiðslugeta hans verið um 75.000 krónur á mánuði að teknu tilliti til framfærslu. Í bréfi umsjónarmanns komi í öðru lagi fram að kærandi hafi vanrækt greiðslu fasteignagjalda að fjárhæð 349.302 krónur, sem til hafi fallið eftir að greiðsluskjól komst á og hann hefði með réttu átt að greiða samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst 19. mars 2012 þar sem hann hafi gefið kæranda færi á að gefa skýringar vegna þessa. Jafnframt hafi kærandi verið upplýstur um hverjar afleiðingar það kynni að hafa ef hann veitti ekki fullnægjandi svör. Hafi kærandi svarað erindinu símleiðis og meðal annars borið við óvæntum kostnaði er fylgt hafi búferlaflutningum dóttur kæranda til hans í október 2011. Umsjónarmaður telji þetta ekki fullnægjandi skýringar á vanrækslu kæranda.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 22. maí 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust andmæli kæranda bréflega. Hafi hann borið því við að hafa þurft að framfleyta börnum sínum tveimur; dóttur sinni sem þá var fimmtán ára og liðlega tvítugum syni sínum sem verið hafi í starfsendurhæfingu næstliðin tvö ár. Einnig kvaðst kærandi hafa greitt inn á uppsöfnuð vanskil vegna fasteignagjalda. Þá hafi kærandi afhent umboðsmanni vitnisburð ráðgjafa hjá Velferðarþjónustu sveitarfélagsins um líðan dóttur sinnar og mikilvægi þess að ekki yrðu breytingar á aðstæðum hennar.

Með bréfi til kæranda 19. október 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 24. maí 2011 um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur en skilja verður málatilbúnað hans þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur að ekki hafi verið reynt til hlítar að liðsinna sér í þeim erfiðleikum sem hann og heimili hans standi frammi fyrir. Frá upphafi hafi hann gert umsjónarmanni ljóst að illa gengi að leggja til hliðar þá peninga sem ætlast hafi verið til að hann legði til hliðar. Laun hans hafi naumlega dugað til að reka heimilið. Kærandi hafi margbeðið starfsfólk umboðsmanns skuldara um aðstoð vegna eignaskipta við fyrrverandi maka en því hafi ekki verið sinnt. Hafi hann einnig þráspurt starfsmann umboðsmanns um það hvort tekið væri tillit til félagslegra aðstæðna hjá skjólstæðingum embættisins og hafi starfsmaðurinn sagt svo vera. Þó sé ljóst á ákvörðun umboðsmanns, þar sem honum hafi verið vísað úr greiðsluaðlögun, að ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna kæranda á nokkurn hátt. Kærandi kveður sig aldrei hafa dregið dul á neitt sér viðvíkjandi og hafi svarað öllum fyrirspurnum eftir bestu getu, hafi eftir því verið leitað. Hann hafi aldrei verið boðaður á fund umboðsmanns til að fara yfir stöðuna eftir að umsjónarmaður vísaði málinu aftur til umboðsmanns skuldara.

Kærandi telur að máli sínu hafi verið kastað á milli starfsmanna umboðsmanns skuldara og hafi greinilega ekki verið vilji til að leysa málið á sanngjarnan hátt. Hann hafi aldrei séð umsjónarmann sinn, einungis starfsmenn hans en hann hafi aðeins einu sinni verið boðaður á fund þeirra. Aldrei hafi verið rætt efnislega við hann um frumvarp það sem kröfuhafar hafi hafnað og frumvarpinu hafi ekki verið fylgt eftir á nokkurn hátt.

Kærandi vísar til þess að hann hafi 282.000 krónur til ráðstöfunar á mánuði og þurfi með þeim peningum að fæða og klæða þrjá einstaklinga. Honum sé algerlega fyrirmunað að sjá hvernig hann eigi að halda eftir 75.000 krónum af þeirri fjárhæð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar kemur fram að í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingarnar verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki greiðsluaðlögunar 24. maí 2011 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Hafi kæranda því mátt vera ljóst frá upphafi að honum bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem hann hefði aflögu í lok hvers mánaðar.

Frá byrjun desember 2010 og fram til loka september 2012 hafi kærandi haft 6.265.122 krónur í heildartekjur að frádregnum skatti samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum. Árið 2011 hafi kærandi fengið 44.697 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og árið 2012 séu áætlaðar barnabætur hans 169.538 krónur. Einnig hafi kærandi fengið greiddar 550.630 krónur í vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu 1. ágúst 2012. Verði því lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 6.861.837 krónur í tekjur hið minnsta frá því að hann komst í greiðsluskjól í lok nóvember 2010 til septemberloka 2012 eða í rúmlega 22 mánuði. Samkvæmt því sé gengið út frá því að kærandi hefði átt að geta lagt fyrir um 1.898.050 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 86.275 krónur á mánuði í 22 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan og hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjanda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og umsækjendur geti sýnt fram á með haldbærum gögnum.

Samkvæmt framangreindu sé hér miðað við að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið um 247.284 krónur á meðan hann naut greiðsluskjóls og sé gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum í þeirri tölu. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum, enda liggi fyrir að heildarfjárhæð útgjalda hafi verið eitthvað minni þegar frestun greiðslna hófst. Miðað sé við framfærslukostnað októbermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Af gögnum málsins sé ljóst að dóttir kæranda hafi ekki flutt til hans fyrr en í október 2011. Við útreikninga umboðsmanns sé þó gert ráð fyrir að kærandi hafi staðið straum af framfærslu hennar að öllu leyti frá því að skotið var yfir hann greiðsluskjóli.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 1.898.050 krónur í greiðsluskjólinu. Hann hafi borið því við að kostnaður vegna heimilishalds hans hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um. Þetta hafi kærandi þó hvorki stutt fullnægjandi gögnum né lagt fram reikninga vegna stærri, óvæntra útgjalda.

Fyrir liggi að kærandi hafi lengi vanrækt greiðslu fasteignagjalda vegna húseignar sinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé alls 1.068.221 króna í löginnheimtu og þar af hafi 349.302 krónur fallið í gjalddaga frá því að greiðsluskjól kom til í nóvember 2010. Verði ekki hjá því komist að telja að með hátterni sínu hafi kærandi stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður talið að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi gerir athugasemdir bæði við málsmeðferð umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns. Hann hafi ekki verið boðaður á fund umboðsmanns til að fara yfir stöðu málsins eftir að umsjónarmaður vísaði málinu aftur til umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt 15. gr. lge. skal kæranda gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin um niðurfellingu heimildar til greiðsluaðlögunar. Með bréfi umboðsmanns skuldara 22. maí 2012 var kæranda veitt færi á því. Kærandi svaraði bréfinu skriflega 9. ágúst 2012. Með hliðsjón af þessu getur kærunefndin ekki tekið undir athugasemdir kæranda um að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem honum hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls. Í öðru lagi er hún byggð á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld og þannig stofnað til skulda.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum á kærandi 96.000 krónur inn á bankareikningi sínum. Að mati umboðsmanns skuldara hafi sú upphæð átt að vera 1.898.050 krónur enda hafi kærandi átt að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 24. nóvember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi verið 75.000 krónur þegar umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara, þar sem lagt er til að heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður, kemur fram að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun hafi greiðslugeta skuldara verið áætluð 101.247 krónur á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kæranda ætti að vera um 86.275 krónur á mánuði að meðaltali.

Kærandi kveðst hafa til ráðstöfunar 282.000 krónur á mánuði en ekki 312.000 krónur eins og umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir. Sé miðað við þá fjárhæð og þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara byggði ákvörðun sína á, hefði kærandi átt að getað lagt fyrir um 43.000 krónur á mánuði eða alls 946.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi ekki haft aðstæður til að leggja fyrir því ráðstöfunartekjur hans hafi allar farið til framfærslu. Hann hafi til dæmis orðið fyrir talsverðum kostnaði þegar dóttir hans flutti til hans en meðal annars hafi hún verið fatalítil. Kærandi hefur þó ekki lagt neitt fram sem skýrir þennan háa framfærslukostnað.

Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins telur kærunefndin ekki hjá því komist að miða við að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 946.000 krónur í greiðsluskjóli. Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu. Fellst kærunefndin því á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi kveðst hafa greitt niður eldri vanskil fasteignagjalda á tímanum en sú staðhæfing er ekki studd gögnum. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á þeim fasteignagjöldum sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að fasteignagjöld væru á meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því einnig á sjónarmið umboðsmanns skuldara þess efnis að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum