Hoppa yfir valmynd
5. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 116/2013

Fimmtudaginn 5. júní 2014


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara 11. júlí 2013 um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 15. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 19. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1944 og 1945. Þau eru í sambúð og búa í 109 fermetra eigin húsnæði að C götu nr. 72 í sveitarfélaginu C.

Kærendur eru bæði lífeyrisþegar og fá lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Einnig fá þau vaxtabætur. Mánaðarlega hafa þau til ráðstöfunar 352.126 krónur að meðaltali.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að framfærslukostnaður og afborganir lána hafi hækkað í kjölfar efnahagshrunsins. Vegna aldurs og örorku hafi þau ekki haft tök á að auka við sig vinnu. Kærandi B hafi keypt fiskiskipið E en með þeim kaupum hafi hann vonast til að geta aflað frekari tekna. Það hafi ekki gengið eftir og var skipið því leigt út. Leigugreiðslur hafi að sögn kærenda farið til greiðslu viðhalds á skipinu. Kærendur hafi af framangreindum ástæðum þurft að framfleyta sér með lánum. Þau hafi síðan selt skipið.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 41.942.268 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Stóran hluta skulda kærenda má rekja til fasteignakaupa og viðhalds á íbúðarhúsnæði. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2009.

Kærandi B sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 15. febrúar 2011 en kærandi A 24. febrúar 2011. Umsóknirnar voru síðan sameinaðar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. september 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Jafnframt var þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Þegar ákvörðunin var tekin lá fyrir að kærandi A hafði áður fengið staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og fékk samkvæmt honum algera eftirgjöf samningskrafna sinna. Þar sem umboðsmaður skuldara taldi hana ekki ráða við þær kröfur sem tryggðar væru með veði í fasteign hennar mat embættið málið svo að aðstæður væru til að heimila kæranda A að leita einnig greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Með bréfi umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda til umboðsmanns skuldara 5. nóvember 2012 tilkynnti umsjónarmaðurinn að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil með vísan til 15. gr. lge. Hafi kærandi B afsalað fiskiskipi til sonar síns án þess að viðunandi endurgjald hafi komið fyrir og kynni kærandinn því að hafa gert riftanlega ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. júlí 2013 var heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar felld niður. Byggðist sú ákvörðun á því að óhæfilegt þætti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 11. júlí 2013 verði felld úr gildi. Jafnframt er farið fram á að umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt. Með því mæli sanngirnis- og réttlætissjónarmið.

Umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína aðallega á því að sú ráðstöfun að selja fiskiskipið E með afsali 31. mars 2010 feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 131. gr. gþl. Umboðsmaður vísi til þess að yfirtaka á veðskuldabréfi við Landsbankann, sem hvílt hafi á skipinu, hafi ekki átt sér stað og að ekki hafi verið lögð fram haldbær gögn vegna þess endurgjalds sem fengist hafi fyrir skipið. Umboðsmaður hafi einnig komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi verið komin í vanskil með aðrar skuldir á þeim tíma er afsalið fór fram og því ógjaldfær í skilningi gþl. Kærendur mótmæla þessari afstöðu umboðsmanns harðlega.

Að mati kærenda hafi þau lagt fram haldbær, skrifleg gögn því til stuðnings að um eðlileg lögskipti hafi verið að ræða við sölu skipsins 31. mars 2010. Ákveðið hafi verið að söluverð þess skyldi vera í lægra lagi; um 6.000.000 króna enda hafi verið óvíst á þeim tíma hvort hægt væri að sigla því. Síðan hafi skipið sokkið í höfninni og verið ónothæft í nokkurn tíma.

Í bréfi umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda komi fram að kaupandi skipsins hafi reynt að gera veðskuldabréfið upp við Landsbankann. Því liggi fyrir að kaupandinn hafi sannanlega yfirtekið kröfuna og hafi viljað greiða hana en kröfuhafinn hafi ekki viljað taka við greiðslunni þar sem umsókn kæranda B um greiðsluaðlögun hafði verið samþykkt.

Kærendur hafi nú lagt fram yfirlýsingu G hæstaréttarlögmanns og fyrrum lögmanns kærenda, vegna nafnbreytingar á nefndu veðskuldabréfi. Þar lýsi lögmaðurinn því yfir að það hafi farist fyrir að nafnbreyta skuldabréfinu vegna veikinda hans. Einnig komi skýrt fram í yfirlýsingunni að yfirtaka veðskuldabréfsins hafi átt sér stað og að kaupandi hafi greitt seljanda 1.500.000 krónur. Jafnframt liggi afsal fyrir í málinu en  það hafi verið móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík 30. júní 2010. Í yfirlýsingu lögmannsins komi einnig fram að seljandi hafi gert upp 2.000.000 króna skuld sína við kaupanda. Með afsali 13. febrúar 2013 hafi kaupandi skipsins selt það til ótengds aðila, X ehf., sem jafnframt hafi yfirtekið veðskuldabréfið.

Í bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara hafi sérstaklega verið tekið fram að farist hafi fyrir að nafnbreyta bréfinu bæði vegna fyrri sölunnar og síðari yfirfærslu. Fram komi að vilji allra aðila stæði til þess að nafnbreyta veðskuldabréfinu og gera upp kröfuna. Yrði það gert við fyrsta hentugleika en fram sé komið að kröfuhafi hafi neitað móttöku greiðslu vegna greiðsluaðlögunarumleitana kæranda B.

Með vísan til þessa telji kærendur að umboðsmaður skuldara haldi því ranglega fram að ekki hafi verið lögð fram haldbær skrifleg gögn til stuðnings fullyrðingum þeirra um þau lögskipti er átt hafi sér stað vegna sölu á skipinu. Sönnunarbyrði um annað hvíli á umboðsmanni skuldara. Ekki verði séð hvernig unnt sé að rökstyðja framangreind lögskipti á annan hátt en með skriflegri yfirlýsingu hæstaréttarlögmanns sem hafi jafnframt gert afsal vegna sölu skipsins. Yfirlýsingin eigi sér vitaskuld stoð í gögnum málsins og sé staðhæfingum umboðsmanns um annað hafnað sem röngum. Krafa umboðsmanns um önnur skrifleg gögn, svo sem millifærslur, reikninga og fleira, sé með öllu óraunhæf enda hafi lögskipti þau sem um ræði farið fram með peningum á milli aðila en eðlilegt sé að menn geri upp kröfur sín á milli með peningum.

Það sé engum málum blandið að kaupandi skipsins sé sonur kærenda. Tengdum aðilum sé þó ekki meinað að eiga eðlileg lögskipti sín á milli. Eins og fram sé komið hafi kaupandi og seljandi gert upp sín á milli skuld að fjárhæð 2.000.000 króna við nefnd lögskipti. Sú skuld sé tilkomin vegna persónulegs láns sonar kærenda til þeirra vegna fjárhagserfiðleika þeirra. Sú krafa umboðsmanns að kærendur geri grein fyrir því hvernig eða hvenær stofnast hafi til skuldar þeirra við kaupanda sé einnig með öllu óraunhæf enda eðlilegt að nákomnir aðilar geri með sér samkomulag um fjárhagsaðstoð án þess að fullmótuð skuldaskjöl þurfi ávallt að vera til staðar. Kærendur telji því að fullnægjandi skýringar og gögn hafi verið lögð fram í málinu.

Hvað viðkomi tilvísun umboðsmanns til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. gþl., sé ljóst að umrædd lögskipti geti með engu móti talist riftanleg í skilningi gþl. enda kærendur gjaldfær þegar nefnd ráðstöfun hafi átti sér stað. Þegar litið sé til athugasemda löggjafans með e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. megi sjá að um almenna heimild til synjunar sé að ræða ef vandi skuldara verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Í þessu sambandi séu sérstaklega nefndar skuldir í kjölfar falls bankanna haustið 2008 og skattskuldir. Kærendur hafi ekki stofnað til skulda vegna falls bankanna og skuldir þeirra séu heldur ekki skattskuldir.

Í almennum athugasemdum með lge. segi:„Það skal áréttað að ekki er gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni eru til. Miða skal eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju en jafnframt hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hlýtur vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.“ Af þessum orðum löggjafans liggi fyrir að beita skuli þröngri lögskýringu þegar ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé skýrt og túlkað. Þessi skýring sé í samræmi við það yfirlýsta markmið og tilgang lge. að ávallt skuli skýra og túlka lge. með hagsmuni skuldara að leiðarljósi en tilgangur lge. sé að leitast við að aðstoða skuldara úr greiðsluerfiðleikum.

Þegar litið sé til þess að um eðlileg lögskipti hafi verið að ræða og þess að kærendur hafi verið gjaldfær þegar afsal skipsins fór fram sé með engu móti hægt að líta svo á að lögskiptin séu riftanleg í skilningi gþl. Í þessu sambandi sé einnig vísað til yfirlits frá Creditinfo þar sem fram komi að kærendur séu aðeins með skráðar kröfur á vanskilaskrá í janúar 2013. Sýni þetta gjaldfærni kærenda þegar afsal skipsins fór fram. Hvíli sönnunarbyrði um hið gagnstæða á umboðsmanni skuldara sem ekki hafi sýnt fram á ógjaldfærni kærenda á umræddum tíma, að um gjöf hafi verið að ræða eða fært sönnur fyrir því að um óeðlilegt endurgjald hafi verið að ræða.

Hvað varði tilvísun umboðsmanns til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kærendur fært rök fyrir því að vegna verulegs fjárhagsvanda þeirra hafi þau séð sig knúin til að nýta þá fjármuni sem þau öðluðust vegna sölu skipsins til almennrar framfærslu. Sú krafa umboðsmanns að leggja hafi átt það endurgjald til hliðar styðjist ekki við ákvæðið sem eigi aðeins við um það tímabil sem leitað sé greiðsluaðlögunar. Þar sem greiðslur vegna sölu skipsins hafi átt sér stað áður en ákvörðun umboðsmanns um að heimila kærendum að leita greiðsluaðlögunar hafi verið tekin 12. september 2011, hafi þeim ekki borið lagaleg skylda til að leggja þá peninga sem þau hafi fengið vegna sölu skipsins til hliðar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Einnig telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og andmælareglu 13. gr. laganna. Í málinu hafi verið lögð fram yfirlýsing fyrrum lögmanns kærenda sem staðhæfi að þau lögskipti sem um ræði hafi verið með ákveðnum hætti. Umboðsmaður fullyrði að yfirlýsingin eigi enga stoð í gögnum málsins án þess að embættið hafi rannsakað málið. Þá liggi fyrir í málinu að kærendum hafi ekki gefist kostur á að andmæla þeirri staðhæfingu umboðsmanns að skuld að fjárhæð 2.000.000 króna hafi ekki verið studd skriflegum gögnum þegar þvert á móti hafi legið fyrir yfirlýsingar fyrrnefnds hæstaréttarlögmanns. Með vísan til þessa liggi fyrir að kærendur hafi ekki getað tryggt réttindi sín og hagsmuni og leiðrétt rangar staðhæfingar umboðsmanns áður en umboðsmaður sem stjórnvald tók ákvörðun í málinu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda hafi útbúið frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun og sent það til kröfuhafa. Einn kröfuhafanna, Landsbankinn, hafi hafnað frumvarpinu með eftirfarandi rökum: „Í frumvarpinu kemur fram að fiskibátur skuldara E sé seldur. Landsbankinn hvílir á 1. veðrétti með lán nr. M sem stendur nú miðað við daginn í dag í kr. 2.725.200. Krafan er listuð upp sem samningskrafa með lánsveði og óskað er eftir niðurfellingu á henni. Hafi báturinn verið seldur hefði söluandvirðið átt að koma til niðurgreiðslu á veðkröfunni eða að nýr kaupandi hefði átt að taka hana yfir.“ Í bréfi umsjónarmanns komi fram að Landsbankinn hafi óskað eftir afriti af kaupsamningi svo hægt yrði að sjá hvort skuldin hafi átt að vera greidd niður að fullu við kaupin eða hvort kaupandi hafi átt að yfirtaka hana. Einnig hafi verið óskað upplýsinga um hvort hagnaður hafi verið af sölunni sem kærendum hafi þá borið að leggja til hliðar.

Í bréfi umsjónarmanns komi einnig fram að ekki hafi komið til greiðslu þegar skipið hafi verið selt þar sem það hafi verið ónothæft og óvíst hvort hægt yrði að sigla því. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa hafi skipið sokkið í höfninni og verið ónothæft um tíma. Samkvæmt kaupsamningi hafi kaupandi átt að gera upp kröfuna. Það hafi tafist sökum þess að ekki hafi verið hægt að nota skipið. Þegar kaupandi hafi svo reynt að gera upp kröfuna hafi það ekki verið heimilað þar sem krafan sé skráð á skuldara í greiðsluaðlögun. Landsbankinn hafi ekki heimilað að taka á móti greiðslunni nema að fenginni yfirlýsingu frá embætti umboðsmanns skuldara. Þrátt fyrir þetta hafi afsali verið þinglýst á kaupandann.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuli skuldara gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kærendum bréf 14. júní 2013 þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Hafi embættið farið fram á að kærendur veittu því upplýsingar studdar skriflegum gögnum um hvort og þá hvenær umsamið söluverð skipsins, 6.000.000 króna, hafi verið innt af hendi. Hafi verið tekið fram að slík gögn gætu til að mynda verið millifærslur úr heimabanka, reikningar, kvittanir eða önnur sambærileg gögn sem sýnt gætu fram á að umsamið endurgjald hafi í reynd verið innt af hendi. Kærendur hafi látið embættinu í té yfirlýsingu sem undirrituð hafi verið af lögmanni þeim er annaðist afsalsgerð vegna sölunnar. Samkvæmt yfirlýsingunni hafi kaupandinn yfirtekið veðskuldabréfið, greitt kæranda B 1.500.000 krónur en eftirstöðvunum, 2.000.000 króna, hafi verið skuldajafnað til greiðslu skuldar seljanda, þ.e. kæranda B, við kaupandann. Taki kærendur fram að þar sem nafnbreyting veðskuldabréfsins hafi farist fyrir muni þau við fyrstu hentugleika hlutast til um að hún fari fram í samræmi við vilja allra aðila.

Skipinu var afsalað 30. mars 2010. Við skoðun málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi komið í ljós að í afsalinu sé svohljóðandi ákvæði um kaupverð: „Verð: Kr. 6.000.000,00 sex milljónir kr. Kaupandi yfirtekur veðskuld á 1. veðrétti við NBI hf. kr. 2.500.000,00 dags. 16.09.2009, veðskuldabréf með vöxtum. Kaupverðið er að öðru leyti greitt. Gjaldaskipti vegna ofangreinds veðskuldabréfs hafa farið fram, svo og önnur gjaldaskipti.“ Þá segi í afsalinu: „Með tilvísun til ofangreinds lýsist kaupandinn einn og réttur eigandi hins selda. Sérstakur kaupsamningur er ekki gerður.“

Embætti umboðsmanns skuldara hafi kallað eftir gögnum frá Landsbankanum sem varði tilgreint veðskuldabréf, útgefnu af kæranda B 16. september 2009 og þinglýstu á 1. veðrétt skipsins. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafi engin yfirtaka farið fram á skuldabréfinu og engin beiðni um yfirtöku borist.

Við vinnslu málsins hafi einnig komið í ljós að kaupandi skipsins hafi selt það til X ehf. með afsali útgefnu 13. febrúar 2013. Í afsalinu segi: „Afsalshafi yfirtekur lán á 1. veðrétti við Landsbankann h.f., upphaflega kr. 2.500.000, útgefið 16.09.2009, verðtryggt.“ Nafni skipsins hafi verið breytt og heiti það nú N.

Í ljósi þessa sé að mati umboðsmanns ástæða til að kanna hvort framangreind ráðstöfun á skipinu feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi umsækjandi efnt til fjárfestinga eða gert aðrar ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti. Í 1. mgr. 131. gr. gþl. sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laganna megi krefjast riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Þeir sem skyldir séu skuldara í beinan legg teljast vera „persónulega nákomnir“ aðila samkvæmt 2. tölul. 3. gr. gþl. Fyrir liggi í málinu að afsalshafi skipsins, F, sé sonur kærenda. Hann teljist því nákominn kærendum í skilningi gþl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gþl. teljist frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl.

Frestdagur í máli kæranda B sé 15. febrúar 2011 en þann dag hafi umsókn hans um greiðsluaðlögun verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Þar sem afsali skipsins hafi verið þinglýst 31. mars 2010 teljist ráðstöfunin hafa verið gerð fyrir frestdag í skilningi 2. mgr. 131. gr. gþl. enda hafi afsalið verið gert tíu og hálfum mánuði áður en umsókn kæranda B hafi verið móttekin hjá embættinu. Af þessu telji umboðsmaður skuldara ekki verða ráðið annað en að um sé að ræða riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. gþl.

Af því sem fram sé komið megi ljóst vera að yfirtaka kaupanda skipsins á greiðsluskyldu samkvæmt tilgreindu veðskuldabréfi hafi aldrei farið fram þrátt fyrir ákvæði þess efnis í afsali. Af því leiði að gera verði ráð fyrir að eðlilegt endurgjald vegna skipsins hafi verið sem nam söluverði þess eða 6.000.000 króna. Hafi hagnaður verið af sölunni hafi kærendum borið að leggja þá fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur ekki lagt fram haldbær gögn sem varpað geti nánara ljósi á það hvort eðlilegt endurgjald hafi komið fyrir skipið þegar kærandi B seldi syni sínum það. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þessa efnis hafi embættinu ekki borist umbeðin skrifleg gögn, svo sem millifærslukvittanir, reikningar eða önnur sambærileg gögn sem fært geti sönnur fyrir því að umsamið endurgjald hafi verið innt af hendi við sölu skipsins.

Kærendur hafi lagt fram yfirlýsingu frá lögmanni þeim er hafi annast lögskipti vegna afsals á skipinu þess efnis að kaupandi skipsins hafi greitt kæranda B 1.500.000 krónur í peningum. Eigi þetta sér enga stoð í gögnum málsins. Þá hafi fullyrðingar um að kærandi B hafi skuldað syni sínum og kaupanda skipsins 2.000.000 króna, sem hafi verið skuldajafnað á móti kaupverðinu, hvorki verið studdar skriflegum gögnum né skýringum um hvernig eða hvenær stofnast hafi til þeirrar skuldar. Loks telji umboðsmaður að yfirlýsing kærenda, þess efnis að þar sem nafnbreyting títtnefnds veðskuldabréfs hafi farist fyrir muni kærendur nú nafnbreyta bréfinu, sé sérkennileg í ljósi þess að kaupandi skipsins, sonur kærenda, hafi selt skipið til þriðja manns. Fram komi í afsali 13. febrúar 2013 að afsalshafi yfirtaki áhvílandi lán á 1. veðrétti. Þrátt fyrir að þriðji maður, X ehf., hafi samkvæmt síðastnefndu afsali yfirtekið veðskuldabréfið af seljanda, syni kærenda, hafi sonur kærenda í reynd aldrei yfirtekið skuld samkvæmt veðskuldabréfinu og því sé kærandi B enn sem fyrr skráður greiðandi þess.

Umboðsmaður skuldara telur að kærendur verði að bera hallann af því að hafa ekki sannað nefnd atriði.

Telji umboðsmaður samkvæmt framangreindu að ráðstöfun kæranda B á nefndu fiskiskipi með afsali til sonar síns sé riftanleg ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. gþl. Ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum að undantekningarákvæði gþl. eigi við þar sem kærendur hafi þegar verið í vanskilum með aðrar skuldir sínar á þeim tíma er afsalið hafi farið fram og því hafi þau verið ógjaldfær í skilningi gþl.

Kærendur telji að þau hafi lagt fram fullnægjandi gögn um það endurgjald sem komið hafi fyrir skipið. Þau álíti einnig að umboðsmaður skuldara haldi því ranglega fram að slík gögn liggi ekki fyrir og að embættið beri sönnunarbyrðina fyrir því að umrædd ráðstöfun hafi verið riftanleg. Þessu vísar embættið á bug enda hafi engin gögn verið lögð fram um raunverulegt endurgjald fyrir skipið utan yfirlýsingar hæstaréttarlögmanns sem ekki hafi verið studd neinum gögnum. Álíti umboðsmaður skuldara því að sönnunarbyrðin hvíli á kærendum enda hafi embættið leitt að því líkur að umrædd ráðstöfun teljist riftanleg en kærendur hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi gögnum að eðlilegt endurgjald hafi komið fyrir skipið. Skrifleg yfirlýsing þriðja aðila geti ekki talist fullnægjandi gögn að þessu leyti.

Í öðru lagi komi fram í greinargerð kærenda að þau hafi ekki verið ógjaldfær þegar umrædd ráðstöfun átti sér stað. Á öðrum stað í greinargerðinni sé vísað til „veruleg[s] fjárhagsvanda þeirra“ á umræddum tíma. Kærendur hafi þegar verið í vanskilum með hluta skulda sinna á þessum tíma en að auki hafi flestar skuldir þeirra farið í vanskil þremur til sex mánuðum síðar. Það sé því mat embættisins að kærendur hafi verið ógjaldfær á tíma ráðstöfunar.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður skuldara talið að ekki yrði hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. gþl.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur fara fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 11. júlí 2013 verði felld úr gildi. Jafnframt er farið fram á að umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til e-liðar. Nánar tiltekið er það mat umboðsmanns að sala kæranda B á fiskiskipinu E hafi verið gjafagerningur í skilningi 2. mgr. 131. gr. gþl. Sé það annars vegar vegna þess að kaupandi bátsins, sonur kærenda, hafi hvorki yfirtekið né greitt áhvílandi skuld við Landsbankann. Hins vegar sé það vegna þess að við afsalið hafi meintri skuld kærenda við son sinn verið skuldajafnað upp í kaupverð skipsins en engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti skuldina. Kærendur mótmæla hvoru tveggja. Þau telja kaupanda í raun hafa yfirtekið nefnt veðlán og að fullnægjandi skjöl hafi verið lögð fram til sönnunar á því að kærendur hafi skuldað syni sínum tilgreinda fjármuni. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á umboðsmanni skuldara.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Að mati kærunefndarinnar kemur hér til skoðunar hvort kærendur hafi sýnt fram á skuld við son sinn og að hluti kaupverðs skipsins hafi runnið til að greiða þá skuld. Verði ekki sýnt fram á að skuld hafi verið fyrir hendi má draga þá ályktun að ekki hafi komið fullt endurgjald fyrir skipið.  

Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd og þá fræðslu sem hann þarf á að halda. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Samkvæmt þessu var það í verkahring kærenda að afla þeirra gagna sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir við vinnslu málsins. Kemur því að mati kærunefndarinnar ekki til þess að umboðsmaður skuldara beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum kærenda sem standast ekki samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og hér skiptir máli. Hlutverk umboðsmanns skuldara að þessu leyti er samkvæmt lge. að leggja mat á viðeigandi gögn sem kærendur hafa lagt fram, eftir atvikum að beiðni umboðsmanns.

Í fyrirliggjandi skattskýrslum kærenda er ekki gerð grein fyrir skuld við son þeirra. Þá hafa kærendur ekki lagt fram upplýsingar um hvenær stofnað var til hinnar meintu skuldar eða gögn er sýna fram á að þau hafi fengið umrædda fjármuni að láni. Kveða þau viðskiptin hafa farið fram með reiðufé. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing hæstaréttarlögmanns er annaðist afsalsgerð vegna sölu fiskiskipsins E til sonar kærenda, F. Yfirlýsing þessi er sú sönnun sem kærendur hafa teflt fram til að sýna fram á skuld þeirra við son sinn. Að því er varðar þetta atriði segir í yfirlýsingunni: „Kaupandi greiddi seljanda ISK 1.500.000, veðskuldabréfið og greiðsla á skuld við F.“

Riftunarreglu 131. gr. gþl. að því er varðar gjafagerninga er beint gegn því að ráðstöfun verðmæta sé að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmar margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi. Einnig er gerð krafa um að skuldari sé gjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun var gerð.

Samkvæmt þessu byggist úrlausn málsins meðal annars á því hvort kærendur hafi með hlutlægum hætti sýnt fram á að margnefnd skuld hafi verið fyrir hendi á þeim tíma er hér skiptir máli. Almennt verður því að telja að til að sýnt sé fram á að til skuldar hafi stofnast með hliðsjón af 131. gr. gþl. verði að liggja fyrir samningur um skuldina, fjárhæð og endurgreiðslu hennar eða gögn sem sýni að tilteknir fjármunir hafi farið frá lánveitanda til lántaka á þeim tímar er stofnað var til skuldar. Í því tilviki þegar peningar eru millifærðir á milli bankareikninga liggja jafnan fyrir millifærslukvittanir en þegar um lán í reiðufé er að ræða er til dæmis hægt að leggja fram kvittun skuldara fyrir móttöku lánsfjárins. Í þessu máli liggur ekkert slíkt fyrir.

Fyrirliggjandi yfirlýsing hæstaréttarlögmanns sýnir fram á að kærandi B afhenti syni sínum skipið án þess að sýnt hafi verið fram á að full greiðsla samkvæmt kaupsamningi kæmi fyrir. Að mati kærunefndarinnar sýnir hún þó ekki fram á að sonur kærenda hafi lánað þeim peninga eða að skuld hafi verið fyrir hendi enda staðfestir lögmaðurinn hvorki að skuldin hafi verið til né hver fjárhæð hennar hafi verið. Með hliðsjón af þessu er það mat kærunefndarinnar að um gjafagerning hafi verið að ræða.

Til að gjöf sé heimil í skilningi 131. gr. gþl. verður skuldari að hafa verið gjaldfær á þeim tíma er gjöf var afhent og það þrátt fyrir afhendinguna. Í tilviki kærenda liggur fyrir að áður en kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar í febrúar 2011 hafði kærandi A fengið staðfestan nauðasamning samkvæmt gþl. Einnig hefur komið fram hjá kærendum að þau hafi keypt fiskiskipið til að reyna að afla sér frekari tekna en það hafi ekki gengið eftir. Skipið hafi því verið leigt út og hafi leigugreiðslur farið til viðhalds á skipinu. Hafi þau því þurft að framfæra sig með lánum. Að mati kærunefndarinnar bera þessi atriði með sér að kærendur hafi ekki verið gjaldfær á þeim tíma er skipinu var afsalað til sonar þeirra.

Kærendur telja umboðsmann skuldara hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að fullyrða að fyrrnefnd yfirlýsing hæstaréttarlögmanns eigi sér enga stoð í gögnum málsins en látið hjá líða að rannsaka málið. Á þetta getur kærunefndin ekki fallist og er vísað til þess sem áður er komið fram um ábyrgð skuldara á gagnaöflun í eigin máli.

Kærendur telja einnig að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kærendum hafi ekki gefist kostur á að andmæla staðhæfingu umboðsmanns um að skuld að fjárhæð 2.000.000 króna hafi ekki verið studd skriflegum gögnum. Í málinu liggur fyrir bréf umboðsmanns skuldara til kærenda 14. júní 2013 þar sem þeim var gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Einnig liggja fyrir tölvupóstsamskipti milli lögmanns kærenda og embættis umboðsmanns skuldara þar sem fram kemur hvaða staðhæfingar kærenda umboðsmaður telur að styðja þurfi gögnum. Að þessu virtu telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi virt andmælaregluna við meðferð málsins.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum