Hoppa yfir valmynd
5. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 107/2012

Fimmtudaginn 5. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 13. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. júní 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 6. nóvember 2012. Voru þær senda umboðsmanni skuldara með bréfi 8. nóvember 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1980. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni og dóttur þeirra í 130 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu C

Kærandi er leigubílstjóri og miðað við uppgefnar tekjur ársins 2011 nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans 96.000 krónum. Ekki hafa fengist upplýsingar frá kæranda um tekjur hans á árinu 2012.

Kærandi telur hækkanir á lánum helstu ástæðu fjárhagserfiðleika sinna. Kærandi keypti nokkrar fasteignir, meðal annars fyrir hálfbróður sinn og föður og tók til þess lán. Einnig tók hann bílalán. Árið 2006 hófust erfiðleikar kæranda með að standa í skilum en það ár hafði hann litlar tekjur. Var það meðal annars vegna viðgerða og viðhalds á leigubíl kæranda. Hálfbróðir kæranda hafi átt að greiða af lánum vegna fasteignar sem kærandi keypti fyrir hann en það hafi hann ekki gert. Kærandi kveðst hafa reynt að semja við lánardrottna og skuldbreyta lánum en það hafi ekki dugað til.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 12.456.172 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2006 og 2007.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 9.971.116 krónur. Þær eru allar frá árinu 2006.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. maí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ósáttur við synjun umboðsmanns skuldara. Hann telur sig ekki hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og hann hafi verið fullfær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Hann spyr af hverju fjármálafyrirtæki hafi veitt honum lán ef hann hafi ekki getað staðið undir þeim. Þótt tekjur hans hafi ekki verið háar hafi hann samt fengið 90% húsnæðislán hjá banka og til grundvallar lántökunni hafi verið greiðslumat.

Kærandi telur það sýna að eignastaða hans hafi verið góð að hann var tekinn gildur sem ábyrgðarmaður.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi stofnað til eftirtalinna ábyrgðarskuldbindinga árið 2006:

Dags. Höfuðstóll kr.
21.6.2006 2.300.000
20.10.2006 3.930.129
7.11.2006 900.000
22.11.2006 1.000.000
Alls kr. 8.130.129

Að auki hafi kærandi stofnað til skulda vegna fasteignakaupa árin þar á undan og einnig hafi hann tekið lán vegna bifreiðakaupa 14. febrúar 2006 en lánið hafi verið að fjárhæð 2.045.934 krónur. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2006 hafi eignir, skuldir og tekjur kæranda verið þessar í krónum:

  2006
Meðaltekjur á mán. (nettó) 80.165
Eignir 47.880.880
Skuldir 55.676.956
Nettóeignastaða -7.796.076

Þegar metnar séu þær fjárhagslegu skuldbindingar sem kærandi hafi gengist undir á árinu 2006, bæði lántökur hans og sjálfskuldarábyrgðir, verði ekki hjá því komist að líta til þess að tekjur hans hafi verið mjög lágar það ár. Samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hafi mánaðarlegur framfærslukostnaður einstaklings verið 42.300 krónur. Af launum kæranda hafi þá staðið eftir 37.865 krónur en þá hafi hann átt eftir að greiða kostnað vegna húsnæðis, reksturs bifreiðar, trygginga, áskriftargjalda, hússjóðs, rafmagns og hita. Ekki verði séð hvernig kærandi hafi getað staðið skil á skuldbindingum sínum af því sem hann hafi haft aflögu. Engu að síður hafi hann gengist í fyrrnefndar ábyrgðarskuldbindingar.

Umboðsmaður skuldara telji að með því að takast á hendur greindar ábyrgðarskuldbindingar á tímabilinu 21. júní til 22. nóvember 2006 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Eignastaða kæranda hafi verið neikvæð um 7.796.076 krónur í lok árs 2006. Í lok árs 2005 hafi eignastaða hans á hinn bóginn verið jákvæð um 8.604.896 krónur. Þrátt fyrir það verði að líta til þess að uppgefnar tekjur kæranda til skatts hafi verið afar lágar bæði 2005 og 2006. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 var talið að umsækjandi hefði ekki haft fjárhagslegt svigrúm til að mæta áföllum vegna áhættunnar af ábyrgðarskuldbindingum. Með tilliti til þeirra fjárhagsaðstæðna kæranda sem gerð hefur verið grein fyrir álítur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi ekki haft hið fjárhagslega svigrúm sem fjallað hafi verið um í nefndum úrskurði kærunefndarinnar.

Umboðsmaður skuldara líti einnig svo á, með vísan til umfjöllunar um lágar tekjur kæranda, að með því að kaupa bifreið með láni í febrúar 2006 hafi hann stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Af gögnum málsins og öðru sem fram hafi komið verði að telja að helstu ástæður fjárhagserfiðleika kæranda megi rekja til fasteignakaupa hans, bifreiðakaupa og ábyrgðarskuldbindinga. Þyki ljóst að tekjur kæranda hafi ekki verið nægilega háar undanfarin ár til þess að raunhæft gæti talist að hann stæði skil á þessum skuldbindingum auk framfærslukostnaðar.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að ef þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Um þátt ábyrgðarskuldbindinga í því mati sem fram fari um hvort óhæfilegt þyki að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar megi vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011: „Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar verður vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta til eða í heild, þó ekki verði gengið svo langt að gera kröfu um að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann ábyrgist efndir á. Verður því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.“ Í niðurstöðu sinni hafi kærunefndin meðal annars lagt áherslu á það annars vegar hvort ábyrgðarmaður hafi átt raunhæfa möguleika á að greiða af skuldbindingunum ef á reyndi og hins vegar á að fjárhagsstaða aðalskuldara, þ.e. þeirra aðila sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, hafi verið þannig að ábyrgðarmanni hafi mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru til þess að á ábyrgðirnar myndi reyna.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma er umsækjendur um greiðsluaðlögun stofni til skuldbindinga og ef ljóst þyki að þeir hafi ekki getað staðið við þær þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Með hliðsjón af þessu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattskýrslum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kæranda var eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 198.362 80.165 76.715 102.551 101.853 103.127
Eignir alls 60.144.200 47.984.913 66.025.171 27.757.089 879.757 897.350
· Fasteignir 56.532.000 40.444.000 61.414.000 26.296.000    
· Ökutæki 3.612.200 7.436.880 4.443.192 1.366.593 869.933 833.739
· Hrein eign skv. efnahagsreikn.     77.759      
· Bankainnstæður o.fl.   104.033 90.220 94.496 9.824 63.611
Skuldir 51.539.304 55.676.956 70.227.951 49.248.329 21.880.161 10.764.921
Nettóeignastaða 8.604.896 -7.692.043 -4.202.780 -21.491.240 -21.000.404 -9.867.571

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Lífeyrissjóður stm. ríkisins 2006 Veðskuldabréf 2.600.000 4.346.593 2008
Lýsing 2006 Bílalán 2.045.934 138.112 2007
Landsbankinn 2007 Skuldabréf 2.950.000 5.856.951 2008
Söfnunarsjóður lífeyrisrétt. 2007-2009 Iðgjöld 360.000 1.100.958 2007
Tollstjóri 2007-2011 Opinber gjöld 62.836 107.375 2007
Ýmsir 2006-2009 Reikningar 482.979 910.760 2006
    Alls 8.501.749 12.460.749  

Til viðbótar ofangreindum skuldum gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgðir á árinu 2006 sem hér segir:

Dags. Höfuðstóll kr.
21.6.2006 2.300.000
20.10.2006 3.930.129
7.11.2006 900.000
22.11.2006 1.000.000
Alls kr. 8.130.129

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2006 tókst kærandi á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð ríflega 4.600.000 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði þessara skulda var samkvæmt gögnum málsins um 78.000 krónur. Komu þær skuldbindingar til viðbótar við þáverandi skuldir kæranda að fjárhæð rúmar 51.500.000 krónur. Á þessu sama ári voru ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali 80.165 krónur á mánuði. Má af þessu ráða að kærandi var greinilega ófær um að standa við þessar skuldbindingar þegar hann stofnaði til þeirra. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með því að stofna til framangreindra skulda á árinu 2006 varð eignastaða kæranda neikvæð um 7.692.043 krónur. Þrátt fyrir það stofnaði hann til ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð 8.130.129 krónur á því ári. Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi hefði ekki getað staðið við þessar ábyrgðarskuldbindingar hefði á þær reynt.

Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgðir langt umfram það sem eignastaða hans og greiðslugeta leyfði en í tilviki kæranda námu ábyrgðarskuldbindingar 44,4% af heildarskuldum á þeim tíma sem ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin. Telur kærunefndin því að með því að takast á hendur greindar sjálfskuldarábyrgðir hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Að því er varðar ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað, hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að kærandi hafi tekið lán á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og einnig tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum