Hoppa yfir valmynd
5. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 124/2012

Mánudaginn 5. maí 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júní 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst 31. júlí 2012 með bréfi 27. júlí sama ár. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 3. ágúst 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Þeim var aftur gefinn kostur á að koma að athugasemdum með bréfi kærunefndarinnar 24. október sama ár. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1962 og 1963. Þau búa ásamt syni sínum fæddum 1997 í eigin húsnæði að C götu nr. 21 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar sem leikskólakennari og kærandi B sem málari. Samkvæmt umsókn kærenda eru ráðstöfunartekjur þeirra að meðaltali 590.350 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar og erfiðleika í atvinnurekstri kæranda B. Tekjur í atvinnurekstrinum hafi dregist saman í kringum efnahagshrunið 2008 og erfiðlega hafi gengið að innheimta kröfur. Viðskiptabanki kærenda hafi ekki sýnt kærendum samningsvilja. Hafi þau því talið vonlaust að greiða af skuldbindingum sínum hjá bankanum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 48.436.285 krónur en þar af falla 612.210 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003‒2006.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júní 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Það er mat kærenda að helstu röksemdir fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara séu tvær. Annars vegar að kærendur geti greitt af skuldum sínum samkvæmt mánaðarlegu meðaltali ráðstöfunartekna sem umboðsmaður skuldara tilgreini í ákvörðun sinni. Hins vegar að kærendur hafi ekki svarað bréfi umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 eða veitt andsvör við fyrirhugaðri synjun umboðsmanns skuldara.

Báðar þessar meginforsendur umboðsmanns skuldara telja kærendur rangar. Kærendur hafi sent umboðsmanni skuldara andmælabréf ásamt gögnum 25. maí 2012 þar sem sýnt hafi verið fram á að ályktun umboðsmanns um fulla greiðslugetu sé röng. Virðist umboðsmaður skuldara hafa gert þau mistök að taka heildartekjur kærenda, deila í þær með mánaðarfjölda ársins og finna þannig út meðaltal mánaðarlegra ráðstöfunartekna kærenda.

Kærunni fylgdi bréf til umboðsmanns skuldara dagsett 25. maí 2012. Í bréfinu er mánaðarlegum ráðstöfunartekjum kærenda samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara mótmælt sem röngum. Hið rétta sé að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda séu um 370‒380.000 krónur á mánuði.

Þá hafi kærendur verið í miklum samskiptum við viðskiptabanka sinn Landsbankann eftir að erfiðleikar þeirra hófust, í þeim tilgangi að leita lausna á fjárhagsvandræðum sínum. Kærendur hafi hins vegar engin gögn um þau samskipti enda hafi þau að mestu farið fram í gegnum síma eða á fundum í útibúi bankans í sveitarfélaginu D. Því sé í raun ómögulegt að leggja fram áþreifanleg gögn um þau samskipti og samningsumleitanir.

Reikni kærendur með að þessar útskýringar leiði til breytinga á þeirri ályktun að kærendur hafi getu til að greiða af öllum skuldum sínum en það standist augljóslega ekki.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að sá einstaklingur geti leitað greiðslu-aðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Vísað er til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt lagaákvæðinu skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrir­liggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Þá er því lýst hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. gr. laganna og jafnframt vísað til þess sem fram komi í frumvarpi til laganna í athugasemdum við 2. gr. að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar ef mögulegt er áður en hann sæki um greiðsluaðlögun. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. laganna sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara segir að við mat á umsókn beri að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. beri að synja um heimildina sýni fyrirliggjandi gögn ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að umboðsmaður telji að kærendur hefðu haft greiðslugetu, að minnsta kosti að hluta, frá september 2009. Um hríð fyrir þann tíma hafi kærendur haft lægri tekjur en áður en tekjulækkunin hafi fyrst og fremst stafað af atvinnuleysi og tímabundnum erfiðleikum í atvinnurekstri þeirra. Tímabundið atvinnuleysi og tekjulækkun geti út af fyrir sig ekki leitt til þess að skuldari teljist eiga í fjárhagserfiðleikum um fyrirsjáanlega framtíð. Þá telji umboðsmaður að kærendur þurfi með ítarlegri hætti að gera grein fyrir, og eftir atvikum styðja með gögnum, að þau hefðu leitað annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar greiðslugetu áður en þau hafi sótt um greiðsluaðlögun.

Fyrir liggi að kærendur hafi hætt að greiða af skuldum sínum á fyrri hluta árs 2009. Af gögnum málsins verði ráðið að þá hafi tekjur þeirra verið lægri en þær höfðu áður verið. Kærendur geri við það athugasemd að tekjur þeirra hafi að meðaltali verið 33.403 krónum lægri á mánuði árið 2011 en getið sé í hinni kærðu ákvörðun. Ekki verði séð að þessi munur hefði getað breytt forsendum hinnar kærðu ákvörðunar, enda breyti hann því ekki að kærendur hafi haft greiðslugetu umfram framfærslukostnað á því ári.

Segir umboðsmaður skuldara það vera rétt sem komi fram í bréfi kærenda að umrædd fjárhæð sé heildartekjur kærenda árið 2011 en ekki nettótekjur. Sé fjárhæðin sem kærendur nefni í bréfinu lögð til grundvallar sé ljóst að tekjur kærenda eftir frádrátt skatts á árinu 2011 hafi verið 574.469 krónur að meðaltali á mánuði. Hins vegar verði ekki séð að tekjuupplýsingar annarra ára í ákvörðuninni lýsi öðru en tekjum eftir frádrátt skatts.

Þá segir í greinargerðinni að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara frá júlí 2012 fyrir hjón með eitt barn séu 231.966 krónur á mánuði. Tekjur kærenda hafi verið talsvert umfram framfærsluviðmið og hafi verið það síðan í september 2009, eins og rakið sé í hinni kærðu ákvörðun. Á árinu 2010 hafi tekjur umfram framfærslukostnað numið að minnsta kosti 483.851 krónu og 342.503 krónum á árinu 2011. Eins og rakið sé í hinni kærðu ákvörðun hafi kærendur ekki greitt afborganir af veðlánum sínum hjá Landsbankanum á þessu tímabili en síðustu fullnaðargreiðslur af þeim hafi numið samtals 271.724 krónum í febrúar og mars 2009. Verði þannig ekki annað séð af fyrirliggjandi gögnum en að kærendur hafi haft greiðslugetu til að standa undir umræddum lánum, að minnsta kosti frá september 2009. Ekki verði séð að fram hafi komið upplýsingar eftir töku hinnar kærðu ákvörðunar sem hrófli við þeirri niðurstöðu.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er vikið að því að í bréfi kærenda frá 25. maí 2012 komi fram að kærendur eigi engar innstæður á bankareikningum sem neinu geti skipt. Sé það í samræmi við gögn málsins. Í ljósi þess sé rétt að taka fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri umsækjendum sem njóti frestunar greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna að leggja til hliðar fé umfram það sem nauðsynlegt sé vegna heimilisrekstrar. Eins og fram hafi komið hafi kærendur ekki greitt af veðlánum þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi verið nokkuð umfram framfærsluviðmið á árunum 2010 og 2011. Eftir að þau sóttu um greiðsluaðlögun í júní 2011 hafi þau samkvæmt framangreindum upplýsingum ekki lagt til hliðar fé af tekjum sínum umfram framfærslukostnað. Kæmi málið á ný til afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara yrði því að skoða hvort atvik væru uppi í málinu sem lýst sé í ákvæðum f-liðar 2. mgr. 6. gr. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., sbr. 15. gr. laganna, sem geti leitt til synjunar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar eða eftir atvikum niðurfellingu slíkrar heimildar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í lagaákvæðinu kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir gögnum og upplýsingum frá kærendum sem þeir hefðu ekki veitt. Óskað hefði verið eftir upplýsingum og gögnum er varpað gætu ljósi á samningsumleitanir kærenda við Landsbankann vegna vangreiddra veðkrafna af íbúðarhúsnæði þeirra allt frá árinu 2009 enda hafi greiðslugeta þeirra verið orðin jákvæð í september það ár. Forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé ófær um að standa í skilum með fjárskuld­bindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verði að vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Skuldari verði að sýna fram á vanda sinn með viðhlítandi gögnum. Óskað hafi verið eftir gögnum er varpi frekari sýn á eignastöðu kærenda þar sem ekki hafi verið greitt af veðlánum frá því í apríl 2009 þrátt fyrir að greiðslugeta kærenda hafi verið til staðar síðar það ár.

Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þarf meðal annars að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á því að standa í skilum. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana en við mat á slíku skal meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið ákvæðisins.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins eru skýringar kærenda á því hvers vegna þau hafi ekki greitt af lánum frá árinu 2009 óljósar. Þau hafa ekki sýnt fram á að þau hafi verið í greiðsluerfiðleikum á þeim tíma eða að minnsta kosti verður ekki af gögnum málsins ráðið að greiðsluerfiðleikar þeirra hafi þá eða síðar verið verulegir. Í bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara 25. maí 2012 er vísað til þess að nettómánaðarlaun þeirra á árunum 2007 til 2011 hafi verið 370.000 til 380.000 krónur. Í umsókn kærenda um greiðsluaðlögun frá 30. júní 2011 eru mánaðartekjur þeirra taldar vera samtals 590.350 krónur eftir frádrátt skatts. Í skattframtölum kærenda koma fram launatekjur þeirra. Af þeim verður ráðið að tekjur þeirra hafa verið umfram framfærslu þeirra samkvæmt neysluviðmiðunum umboðsmanns skuldara á árunum 2009 til 2011.

Heildarskuldir kærenda nema samkvæmt gögnum málsins 48.436.285 krónum. Stærstur hluti þeirra er fjórar veðskuldir frá Landsbankanum, samtals að fjárhæð 45.978.239 krónur. Samkvæmt því sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun námu afborganir af þessum kröfum um 271.724 krónum á mánuði miðað við síðustu fullnaðargreiðslur í febrúar og mars 2009 sem kærendur hafa ekki mótmælt.  Samkvæmt gögnum málsins voru meðaltekjur kærenda árið 2009 312.519 krónur á mánuði en árið á undan voru þær 727.479 krónur á mánuði. Strax árið 2010 virðist sem kærendur hafi náð atvinnustarfsemi sinni aftur á strik en þá námu tekjur þeirra 715.817 krónum á mánuði og voru loks 574.469 krónur á mánuði árið 2011.

Í framangreindu bréfi kærenda frá 25. maí 2012 er fjárhagsvændræðum þeirra og ástæðum fyrir þeim ekki frekar lýst en vísað til þess að af rangfærslu umboðsmanns í bréfi hans frá 10. maí s.á. leiði til þess að umboðsmaður gefi sér að kærendur hefðu í reynd fulla getu til að greiða af lánunum, en það geti þau því miður ekki. Þessar skýringar kærenda, svo og sú skýring þeirra að þau hafi hætt að greiða af lánum Landsbankans á árinu 2009 vegna þess að bankinn hafi ekki viljað semja við þau, geta ekki talist varpa nægilega skýru ljósi á ástæður þess að þau létu hjá líða að greiða af lánunum og skýringarnar eru heldur ekki staðfesting á verulegum greiðslu­vanda kærenda á þessum tíma eða síðar. Þær koma því ekki að notum við mat á því hvort kærendur uppfylli skilyrði laganna þess efnis að þau hafi verið í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð eða að þau hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt.

Skilyrði fyrir því að unnt sé að meta umsókn kærenda er að fyrir liggi hver fjárhags­staða þeirra var á þeim tíma er þau sóttu um greiðsluaðlögun svo og hver væntanleg þróun fjárhags þeirra verði á þeim tíma sem greiðsluaðlögun er ætlað að standa. Sýna þarf fram á greiðsluvanda, hverjar ástæður eru fyrir honum, hvort hann er tímabundinn og annað sem skiptir máli við mat á því hvort kærendur uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar svo og hvort þær aðstæður eru fyrir hendi sem komið geta í veg fyrir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði veitt. Gögn þurfa að liggja fyrir sem veita viðhlítandi upplýsingar um það sem skiptir máli en samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar, eins og áður er komið fram. Samkvæmt lögskýringargögnum verður skuldari að sýna fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum og samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. má ekki samþykkja greiðsluaðlögun veiti fyrir­liggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er byggt á því að skuldara beri að taka virkan þátt í og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Sama verður að teljast eiga við um greiðsluerfiðleika, hverjir þeir eru, hvað er til marks um þá, hversu alvarlegir þeir eru og hvort þeir eru skammvinnir eða langvarandi.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 var kærendum boðið að leggja fram gögn er sýndu meðal annars fram á að þeim hefði ekki verið kleift að standa skil á frekari afborgunum af áðurnefndum veðkröfum. Fram kemur í bréfinu að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði laganna til greiðsluaðlögunar beri að horfa til gjaldfærni hans. Árið 2009, þegar fjárhagserfiðleikar hófust, hafi kærendur verið með eitt barn á framfæri. Lágmarksframfærslukostnaður fjölskyldu með eitt barn séu 227.315 krónur samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt umsókn kærenda sé heildarframfærsla kærenda 236.800 krónur eða litlu hærri en umrætt viðmið. Þar sem um væri að ræða fjórar veðkröfur, sem ekki hefði verið staðið skil á síðan í apríl 2009, var óskað eftir gögnum er sýndu fram á samningstilraunir kærenda við Landsbankann og eftir efnum að þau hefðu ekki getað staðið skil á frekari afborgunum af téðum veðkröfum að neinu leyti. Er tekið fram að umboðsmaður skuldara telji gögn málsins sýna fram á greiðslugetu kærenda. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda 25. maí 2012 komu engar frekari skýringar fram á því hvers vegna kærendur sáu sér ekki fært að standa í skilum með skuldbindingar sínar eftir 2009.

Með vísan til alls þessa verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á, eins og hér að framan hefur verið lýst, að kærendur uppfylli skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. laganna. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum