Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 66/2012

Mánudaginn 28. apríl 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 12. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 21. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. maí 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 8. júní 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1954. Hann er bandarískur ríkisborgari, fráskilinn og býr einn í eigin parhúsi að B götu nr. 19 í sveitarfélaginu C. Um er að ræða 240 fermetra hús ásamt 35 fermetra bílskúr.

Kærandi starfar hjá X og eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans 438.181 króna.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2007 þegar hann keypti fasteign að B götu nr. 19. Áður átti hann fasteign að D götu nr. 17C í sveitarfélaginu E en þá eign seldi hann fyrir 35.800.000 krónur. Parhúsið keypti hann fyrir 71.000.000 króna. Kærandi bjó áður í Bandaríkjunum en flutti til Íslands á árinu 2006. Í Bandaríkjunum bjó hann með eiginkonu sinni, bandarískum ríkisborgara, og syni hennar, en þau komu til Íslands árið 2007. Eiginkonan hafði fengið starf hér á landi sem var bundið því skilyrði að hún fengi atvinnuleyfi en það gekk ekki eftir þar sem kærandi var bandarískur ríkisborgari. Brugðust þá forsendur því að við kaupin á húsinu hafi verið gert ráð fyrir að þau hefðu bæði tekjur. Fór svo að konan flutti aftur til Bandaríkjanna á árinu 2009. Kærandi fékk lækkun á fasteignaveðlánum samkvæmt hinni svokölluðu 110% leið og hefur síðan reynt að selja fasteignina en án árangurs. Hefur hann greitt rekstrarkostnað af eigninni en ekki af áhvílandi lánum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 77.584.205 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til skuldanna var stofnað á árunum 2006 og 2007.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umboðsmanni skuldara verði gert að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa tekið tillit til aðstæðna hans í ákvörðun sinni. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans hafi hækkað úr 261.000 krónum í 438.000 krónur. Hann sé í góðu framtíðarstarfi.

Kærandi líti svo á að hann hafi ekki tekið óþarfaáhættu árið 2007 við kaupin á húsi sínu við B götu. Aðstæður hans hafi verið þannig að hann hafi talið mögulegt að greiða af þeim lánum sem hann hafi tekið.

Verðmæti fasteignar kæranda sé 59.700.000 krónur samkvæmt framlögðu verðmati og fasteignamatið sé 45.400.000 krónur. Kærandi telji sig geta haldið fasteigninni fái hann greiðsluaðlögun en þannig geti hann endursamið um afborganir þeirra lána sem hvíli á eigninni. Telji kærandi sig í hópi þeirra skuldara sem geti náð tökum á fjármálum sínum með greiðsluaðlögun og góðu samstarfi við lánardrottna.

Kærandi geri athugasemd við að í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé það talið skipta máli að fyrrverandi eiginkona hans hafi ekki haft dvalarleyfi hér á landi. Rétt sé að geta þess að henni hafi verið boðið gott starf hjá X en atburðirnir í október 2008 hafi orðið til þess að ekkert varð af því. Kærandi álíti mikilvægt að það komi fram að á grundvelli hjúskapar þeirra hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að hún fengi hér dvalarleyfi. Aðeins hafi átt eftir að sækja formlega um leyfið en ekki hafi til þess komið þar sem hún hafi flutt aftur til Bandaríkjanna.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Einnig líti umboðsmaður skuldara til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli ákvæðinu verði að líta til samspils tekna kæranda og skuldasöfnunar á því tímabili sem stofnað sé til skulda. Gögn málsins beri með sér að kærandi hafi keypt núverandi húsnæði árið 2007. Til að fjármagna kaupin hafi farið fram veðflutningur á lánssamningi frá 2006 upphaflega að fjárhæð 29.250.000 krónur sem hvílt hafi á fyrri eign kæranda sem hann hafi keypt 2006. Einnig hafi kærandi gert nýjan gengistryggðan lánssamning upphaflega að fjárhæð 35.000.000 króna.

Samkvæmt skattframtölum hafi mánaðarlegar ráðstöfunartekjur, eignir og skuldir kæranda verið þessar árin 2007 og 2008 í krónum:

  2007 2008
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur 261.366 302.251
Eignir alls 56.346.483 58.297.352
Skuldir 97.103.827 120.856.666
Samanlagðar vaxtagreiðslur á mánuði 250.041 407.610

Sé því ljóst að eignastaða kæranda hafi verið neikvæð á árunum 2007 og 2008.

Hjá kæranda komi fram að hann hafi stofnað til skulda með það í huga að sambýliskona hans og sonur hennar hafi verið væntanleg til Íslands. Hafi verið gert ráð fyrir að hún myndi fljótlega fá starf þannig að þau myndu bæði standa undir afborgunum lána. Af þessu sé ljóst að frá því að kærandi hafi keypt núverandi fasteign hafi hann ekki haft greiðslugetu til að standa undir vaxtagreiðslum af þeim lánum sem hann hafi talið fram á skattframtölum, hvað þá afborgunum. Sé þetta miðað við ráðstöfunartekjur hans, uppgefinn framfærslukostnað og rekstrarkostnað heimilis. Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að ekki hafi verið gert greiðslumat á kæranda vegna fasteignakaupanna. Þrátt fyrir það hefði kæranda átt að vera ljóst að um áhættusöm viðskipti hafi verið að ræða, sé tekið mið af þáverandi tekjum hans.

Gögn málsins beri með sér að kærandi hafi stofnað til núverandi skulda áður en sambýliskona hans hafi komið hingað til lands og áður en hún hafi verið komin í starf. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi gert ráð fyrir tekjum hennar við að standa í skilum með nefndar skuldir. Síðar hafi komið í ljós að hún hafi ekki haft tilskilin leyfi til að starfa hér á landi. Það verði að teljast áhætta að gera ráð fyrir tekjum sem ekki séu fyrir hendi þegar stofnað sé til skulda á þann hátt sem hér um ræði.

Þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu kæranda á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað sé ljóst að hann hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann hafi greinilega verið ófær um að standa við þær. Einnig verði að telja að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans þegar hann hafi stofnað til skuldanna.

Með hliðsjón af framangreindu og að teknu tilliti til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að umboðsmanni skuldara verði gert að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kæru­nefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin annaðhvort staðfesti synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda eða felli hana úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins tókst kærandi á hendur neðangreindar skuldir:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Greiðslu- Vanskil Trygging
      fjárhæð byrði á mán.* frá  
Landsbankinn 2006 Veðskuldabréf 29.250.000 212.539 2011 B gata nr. 19
Landsbankinn 2007 Erl. veðskuldabréf 35.000.000 142.899 2011 B gata nr. 19
Vodafone 2010 Reikningar 2.974 2.974 2010  
    Alls kr.: 64.252.974 358.412    

*Á fyrsta 6 mánaða gjalddaga miðað við tvo gjalddaga á ári.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru tekjur kæranda, eignir og skuldir í krónum þessar samkvæmt gögnum málsins:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 275.925 261.366 302.251 283.641 310.412
Eignir alls: 37.482.293 73.666.719 58.297.352 54.487.941 47.808.539
· B gata nr. 19   71.000.000 53.690.000 51.900.000 45.550.000
· D gata nr. 17C 32.800.000        
· Y 455 2.951.648 2.656.483 2.390.834 2.151.750 1.936.575
· Z A92     1.580.344    
· Bankainnstæður o.fl. 1.730.645 10.236 636.174 436.191 321.964
Skuldir 37.627.016 97.103.827 120.856.666 124.706.262 127.134.814
Nettóeignastaða -144.723 -23.437.108 -62.559.314 -70.218.321 -79.326.275

Á þeim tíma sem hér skiptir máli voru skuldir kæranda annars vegar tvö fasteignalán og hins vegar önnur lán. Bæði fasteignalánin voru með gjalddaga á sex mánaða fresti, þ.e. tvo gjalddaga á ári. Hér að neðan má sjá samanburð á nettómeðaltekjum kæranda og greiðslubyrði lána hans á fyrsta gjalddaganum þar sem sex mánuðir líða á milli gjalddaga:

Ár Greiðslubyrði á mánuði Nettómeðal-tekjur á mánuði Greiðslubyrði sem hlutfall meðaltekna
2006 212.539 275.925 77%
2007 355.438 261.366 136%

Þegar kærandi tók fyrra fasteignalán sitt árið 2006 nam greiðslubyrðin í upphafi 77% af ráðstöfunartekjum hans. Þegar hann hafði tekið bæði lánin árið 2007 hækkaði greiðslubyrðin í 136% af ráðstöfunartekjum.

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þeirra ákvæða.

Í málinu nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur Íslands kvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu skuldarans var háttað þegar stofnað var til skuldbindinga og taldi ljóst að hann hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhags­skuldbindinganna var stofnað. Í málinu var heimild til greiðsluaðlögunar hafnað.

Umboðsmaður skuldara telur að frá því að kærandi hafi keypt núverandi fasteign hafi hann ekki haft greiðslugetu til að standa undir vaxtagreiðslum af þeim lánum sem hann hafi talið fram á skattframtölum, hvað þá afborgunum. Sé þetta miðað við ráðstöfunartekjur hans, uppgefinn framfærslukostnað og rekstrarkostnað heimilis. Kærandi hefur á hinn bóginn greint frá því að fyrrum eiginkonu hans hafi verið boðin góð staða hjá X en atburðir í október 2008 hafi komið í veg fyrir að staðan hafi verið til reiðu er til átti að taka.

Ráða má af gögnum málsins að kærandi hafi selt íbúð sína að D götu fyrir 35.800.000 krónur á árinu 2007. Á eigninni hvíldu tæpar 30.000.000 króna en auk þess skuldaði kærandi um 8.000.000 króna. Á þessum tíma voru eignir hans og skuldir álíka miklar, meðalráðstöfunartekjur hans námu 261.366 krónum á mánuði og greiðslubyrði fasteignaláns var 212.539 krónur eða 77% af ráðstöfunartekjum. Þegar tekið er tillit til heildarskuldastöðu kæranda telur kærunefndin að ráðstöfunartekjur kæranda á þessum tíma hafi ekki nægt til greiðslu bæði afborgana af lánum og framfærslukostnaðar. Engu að síður réðst kærandi í kaup á einbýlishúsi fyrir 71.000.000 króna. Námu lán vegna kaupanna alls rúmum 65.000.000 króna en aðrar skuldir kæranda voru ríflega 31.000.000 króna. Heildarskuldir kæranda á þessum tíma voru því um 97.000.000 króna. Eftir kaupin nam greiðslubyrði fasteignalána kæranda 355.438 krónum eða 136% af ráðstöfunartekjum kæranda. Til viðbótar þurfti kærandi að greiða af öðrum lánum.

Kærandi hefur greint frá því að til hafi staðið að eiginkona hans myndi greiða af fasteignalánum með honum. Af gögnum málsins verður ekki séð að hún hafi verið meðskuldari hans á nefndum lánum. En jafnvel þó gert sé ráð fyrir að eiginkona kæranda hefði tekið þátt í greiðslu fasteignalánanna liggur fyrir að kærandi þurfti að auki að standa skil á öðrum lánum sem námu um 31.000.000 króna og greiða framfærslukostnað.

Með hliðsjón af gögnum málsins og öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi tókst á hendur á árunum 2006 og 2007 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi út af fyrir sig verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhags­skuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum