Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 73/2012

Fimmtudaginn 10. apríl 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. mars 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Í kæru kemur fram að frekari rökstuðningur og málsástæður verði sendar kærunefndinni innan fárra daga.

Með bréfi 29. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. júlí 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 24. júlí 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Greinargerð kæranda barst 7. ágúst 2012. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 27. ágúst 2012. Með tölvupósti 29. ágúst 2012 greindi umboðsmaður frá því að hann teldi ekki þörf á viðbótargreinargerð.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1975, hún er einhleyp og býr í 28 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 153B, sveitarfélaginu C, D-landi.

Kærandi er námsmaður í handmennt í D-landi. Hún þiggur mánaðarlega örorkubætur að fjárhæð 146.489 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins og einnig fær hún námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna að fjárhæð 130.731 króna. Samtals hefur hún því til ráðstöfunar 277.220 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til veikinda en hún er 75% öryrki vegna liðagigtar og hefur auk þess barist við geðhvarfasýki í mörg ár. Af þeim ástæðum hafa tekjumöguleikar hennar ekki verið miklir. Kærandi kveður skuldabréfalán sín ekki ný lán heldur hafi verið um að ræða skuldbreytingar á eldri lánum. Skuld vegna yfirdráttar sé af öðrum toga. Í manísku ástandi hafi hún notað greiðslukort sitt ótæpilega. Greiðslukortaskuldinni hafi síðan verið breytt í yfirdrátt sem hún skuldi enn.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 6.141.727 krónur. Skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna að fjárhæð 4.444.683 krónur fellur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Innan samnings falla skuldir að fjárhæð 1.697.044 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. mars 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til 1. mgr. 2. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að fallist verði á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Einnig er þess krafist að kærandi fái greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Kærandi telur að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á misskilningi. Telji umboðsmaður að kærandi hafi 277.220 krónur í tekjur á mánuði. Vissulega hafi kærandi haft þessa fjárhæð til umráða en þetta séu annars vegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og hins vegar námslán. Námslánin séu ekki tekjur þótt þau nýtist til framfærslu. Kærandi sé að ljúka námi og muni hún því ekki fá námslán áfram heldur aðeins greiðslur frá Tryggingastofnun. Á árinu 2011 hafi kærandi fengið greiddar 2.014.452 krónur frá Tryggingastofnun. Að teknu tilliti til skattgreiðslna nemi þessar greiðslur 149.443 krónum á mánuði. Geri kærandi þannig ráð fyrir að hún muni hafa innan við 150.000 krónur til ráðstöfunar í framtíðinni. Sjái kærandi sér ekki fært að standa við skuldir sínar með þær tekjur. Vegna örorku kæranda sé afar ólíklegt að tekjur hennar hækki svo einhverju nemi í náinni framtíð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Er þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja beri um heimild til greiðsluaðlögunar ef þær ástæður sem taldar eru upp í stafliðum ákvæðisins eigi við. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. laganna sé kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að geta leitað greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 2. gr. sé kveðið á um að einstaklingur þurfi að sýna fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé fjárhæð skulda sem falli innan samnings samkvæmt 3. gr. lge. alls 2.118.216 krónur. Um sé að ræða tvö skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð samtals að fjárhæð 1.571.153 krónur, yfirdrátt á tékkareikningi að fjárhæð 419.983 krónur, greiðslukortaskuld að fjárhæð 102.476 krónur og þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 24.604 krónur. Vanskil vegna þessara skulda nemi 362.350 krónum.

Þann 6. febrúar 2012 hafi kæranda verið sent bréf þar sem gerð hafi verið grein fyrir því að hugsanlega uppfyllti hún ekki skilyrði lge. um ógjaldfærni og óskað eftir afstöðu kæranda til þess. Svar hafi borist með tölvupósti 20. febrúar 2012 þar sem nýjar framfærslutölur hafi verið lagðar fram. Að teknu tilliti til þess nemi mánaðarlegur framfærslukostnaður kæranda 181.929 krónum. Mánaðarlega hafi kærandi 277.220 krónur til framfærslu. Greiðslugeta sé því 95.291 króna á mánuði.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé mánaðarleg greiðslubyrði skuldabréfa kæranda alls 42.968 krónur. Mánaðarleg greiðsla vaxta af yfirdrætti sé 4.024 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði af skuldum kæranda sé því 46.992 krónur og því ætti hún að eiga afgang sem næmi 48.299 krónum.

Með hliðsjón af tekjum og framfærslukostnaði kæranda sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að hún uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. um ógjaldfærni. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. laganna beri umboðsmanni skuldara að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að hún uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hennar um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin annaðhvort staðfesti synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda eða felli hana úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á 1. mgr. 2. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Nánar tiltekið er talið að kærandi geti greitt af þeim skuldum sem falla innan greiðsluaðlögunar og því sé hún ekki ógjaldfær í skilningi lge. Í 1. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lögin. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt gögnum sem kærunefndin aflaði undir rekstri málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

  Ár Tegund Upphafleg Greiðslu­byrði Staða Vanskil Trygging
      fjárhæð á mán. 2012 frá  
Landsbankinn 2005 Skuldabréf 1.050.000 18.972 757.045 2011 Ábyrgðarmenn
Landsbankinn 2008 Skuldabréf 980.000 22.033 814.106 2011 Ábyrgðarmenn
Arion banki   Greiðslukort     101.289 2011  
LÍN   Skuldabréf     4.444.683 -  
Tollstjóri 2011 Þing- og sveitarsjgj. 24.266   24.604 2011  
    Alls: 2.054.266 41.005 6.141.727    

Kærandi er eignalaus.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar hafði kærandi neðangreinda fjármuni að meðaltali til ráðstöfunar á mánuði samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Örorkubætur 149.811 164.966 150.559 168.206 166.491 142.539
Námslán         130.731 130.731
Samtals: 149.811 164.966 150.559 168.206 297.222 273.270

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru sem fyrr segir 273.270 krónur. Samkvæmt upplýsingum kæranda sjálfrar er mánaðarlegur framfærslukostnaður hennar að lágmarki 190.000 krónur og verður við það miðað hér. Samkvæmt gögnum sem kærunefndin aflaði er mánaðarleg greiðslubyrði kæranda vegna skuldabréfa 41.005 krónur. Miðað við þá fjármuni sem kærandi hefur til ráðstöfunar, þar með talin námslán, á hún því mánaðarlega afgang sem nemur 42.265 krónum þegar hún hefur framfleytt sér og greitt af fyrrnefndum skuldabréfum. Telur kærunefndin ekki óvarlegt að ætla að sú fjárhæð dugi ríflega til greiðslu skuldarinnar sem eftir stendur.

Kærandi metur það svo að þegar hún ljúki námi muni ráðstöfunarfé hennar minnka sem nemur námslánunum þannig að hún muni hafa innan við 150.000 krónur til ráðstöfunar mánaðarlega í framtíðinni. Vegna örorku kæranda sé afar ólíklegt að tekjur hennar hækki svo einhverju nemi í náinni framtíð. Á þessa röksemd kæranda getur kærunefndin ekki fallist. Við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði 2. gr. lge. getur kærunefndin ekki miðað við aðrar ráðstöfunartekjur en þær sem kærandi hafði við umsókn um greiðsluaðlögun nema kærandi sýni ótvírætt fram á að þær muni breytast í fyrirsjáanlegri framtíð. Að virtum tekjum og væntanlegum afborgunum kæranda af skuldum telur kærunefndin kæranda ekki geta talist hafa verið ógjaldfær í skilningi lge. þegar hin kærða ákvörðun var tekin og hafi hún því ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 1. mgr. 2. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir kæranda gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum