Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 75/2012

Fimmtudaginn 3. apríl 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. mars 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 16. apríl 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. maí 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Greinargerð kæranda barst 7. júní 2012. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 14. júní 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 2. júlí 2012. Var hún send kæranda til kynningar með bréfi 20. júlí 2012 og henni boðið að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1963. Hún er í sambúð og býr ásamt sambýlismanni og tveimur börnum þeirra í eigin húsnæði að B götu nr. 11 í sveitarfélaginu C. Húsnæðið er 128,7 fermetra einbýlishús með 76,5 fermetra bílskúr.

Kærandi starfar við tryggingasölu hjá X. Hún sinnir starfinu að hluta til sem launþegi og að hluta til sem verktaki. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar sem launþegi eru 160.616 krónur. Miðað við framtaldar tekjur á skattframtali 2011 eru verktakagreiðslur kæranda 120.365 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts. Samkvæmt því nema ráðstöfunartekjur kæranda því 280.981 krónu á mánuði. Í umsókn kæranda kemur fram að hún og sambýlismaður hennar hafi algerlega aðskilinn fjárhag.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til tekjulækkunar vegna samdráttar í starfi hennar og færri tækifæra til tekjuöflunar. Kærandi og sambýlismaður hennar hafi keypt húsnæði sitt 1997 en á þeim tíma hafi þau bæði haft góð laun og átt auðvelt með að standa við skuldbindingar sínar. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi tryggingasala minnkað mjög og þar af leiðandi tekjur heimilisins. Í framhaldinu hafi lausaskuldir hlaðist upp. Kærandi og sambýlismaður hennar hafi greitt af húsnæði sínu eins lengi og þau hafi getað en þegar afborganir lána hafi verið orðnar nærri 400.000 krónur á mánuði hafi þau gefist upp.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 5.880.452 krónur en þar af falla 4.577.916 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Á fasteign kæranda og sambýlismanns hennar hvíla skuldir sambýlismannsins að fjárhæð 39.205.052 krónur en kærandi á 63,33% eignarinnar og sambýlismaðurinn 36,67%.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 1. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. mars 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að þess sé krafist að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi mótmælir því sjónarmiði umboðsmanns skuldara að hún hafi ekki sýnt fram á að vera ófær um að geta staðið skil á skuldbindingum sínum en umboðsmaður komist að þessari niðurstöðu með því að leggja fram meingallaðan útreikning á greiðslugetu kæranda. Í þeim útreikningi sé ekki gert ráð fyrir að kærandi þurfi að greiða húsnæðiskostnað.

Kærandi telji sæta furðu að umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir að kærandi beri engan annan kostnað af húsnæði en fasteignagjöld af eignarhluta sínum. Þannig geri umboðsmaður ráð fyrir að kærandi búi í húsnæðinu án endurgjalds. Þetta sé gert jafnvel þótt kærandi hafi skýrt aðstæður sínar munnlega fyrir starfsmönnum embættisins. Ljóst sé af lestri gagna málsins að fasteign kæranda og sambýlismanns hennar sé yfirveðsett og sé þar af leiðandi ekki mögulegt að selja eignir til að mæta skuldum. Greiðslubyrði lána sem á eigninni hvíli sé um 370.000 krónur á mánuði og hljóti að teljast eðlilegt að kæranda sé ætlaður hluti þeirrar greiðslubyrði sem greiðsla fyrir afnot af eigninni jafnvel þótt sambýlismaður kæranda sé lántakinn. Eigi hann nú í viðræðum við veðhafa um endurreikning lána sem að hluta hafi verið erlend. Vonast sé til að greiðslubyrðin lækki í um 240.000 krónur á mánuði og verði að áætla að sá hluti sem kærandi greiði af því verði því að minnsta kosti 120.000 krónur á mánuði, ef ekki meira þar sem hún eigi ⅔ hluta eignarinnar. Séu þessar augljósu forsendur lagðar til grundvallar útreikningi á greiðslugetu kæranda sé ljóst að hún muni uppfylla skilyrði lge. um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Eins og fram hafi komið í samtölum kæranda við starfsmenn umboðsmanns skuldara sé augljóst að kærandi þurfi að standa skil á hluta þeirra lána sem hvíli á fasteign hennar og sambýlismanns hennar. Þegar eignin hafi verið keypt hafi verið ákveðið að sambýlismaður kæranda myndi taka lán til að fjármagna kaupin að hluta. Hafi hvort þeirra átt sinn hluta eignarinnar, kærandi ⅔ en sambýlismaðurinn ⅓. Það sé því ekki alls kostar rétt að fjármál þeirra séu fullkomlega aðskilin. Samningsskuldbindingar kæranda séu þó ótengdar sambýlismanninum.

Kærandi telur niðurstöðu útreikninga umboðsmanns skuldara ranga. Blandað sé saman annars vegar eignastöðu kæranda og sambýlismanns hennar og hins vegar rekstrarkostnaði heimilisins. Sé rökstuðningur sá að í greinargerð kæranda komi fram að fjárhagur hennar og sambýlismanns hennar sé aðskilinn. Þessar fullyrðingar séu notaðar til að setja fram ranga og villandi útreikninga sem virðist þjóna þeim eina tilgangi að hafna umsókn kæranda. Til að mynda virðist ekki gert ráð fyrir að kærandi þurfi húsnæði en skylda embættisins hafi verið að benda kæranda á að gera ráð fyrir því í umsókn sinni enda um stærsta útgjaldalið kæranda að ræða. Bendi kærandi til leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.

Kærandi bendi á að embætti umboðsmanns skuldara hafi grundvallað ákvörðun sína á gömlum gögnum og úreltum neysluviðmiðum. Verði það að teljast ámælisvert í því ljósi að um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Umboðsmaður skuldara skipti framfærslukostnaði til helminga á milli kæranda og sambýlismanns hennar að undanskildum kostnaði við húsnæði, en umboðsmaður virðist ekki gera ráð fyrir að húsnæðiskostnaður skiptist á sama hátt.

Samkvæmt útreikningi kæranda, að langmestu byggðum á núgildandi neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara, sé gert ráð fyrir að kærandi standi undir kostnaði við rekstur heimilis að jöfnu með sambýlismanni sínum. Niðurstaðan miðað við áætlaðan húsnæðiskostnað sé að greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 87.763 krónur á mánuði.

Í greinargerð umboðsmanns hafi verið fullyrt að kærandi nyti sérfræðiaðstoðar umboðsmanns síns. Því sé mótmælt þar sem umboðsmaðurinn sé hvorki löglærður né hafi aðrar prófgráður sem máli skipti og verði hann því ekki talinn sérfræðingur. Þótt svo væri myndi það ekki leysa embættið undan lögbundinni skyldu sinni.

Telji kærandi það yfir vafa hafið að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja beri um heimild til greiðsluaðlögunar ef þær aðstæður eigi við sem taldar eru upp í stafliðum ákvæðisins. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. laganna sé kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að leita greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 2. gr. sé kveðið á um að einstaklingur þurfi að sýna fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar til að hann geti leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 2. gr. segi að einstaklingur teljist ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru samningsskuldir kæranda alls 4.577.916 krónur. Kærandi eigi 63,33% núverandi íbúðarhúsnæðis á móti sambýlismanni sínum. Hann sé einn greiðandi þeirra lána sem hvíli á eigninni.

Í greiðsluáætlun vegna greiðsluaðlögunar sé framfærslukostnaði samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði skipt jafnt á milli kæranda og sambýlismanns hennar. Miðað við þann kostnað og áætlaðar mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda ætti greiðslugeta hennar að vera 130.402 krónur á mánuði.

Með hliðsjón af tekjum, framfærslukostnaði og skuldum kæranda beri umboðsmanni skuldara að synja beiðni kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar og með vísan til 1. mgr. 2. gr. lge. þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar.

Kærandi hafi upplýst umboðsmann um það 5. mars 2012 að kærandi og sambýlismaður hennar ættu í viðræðum við Íslandsbanka um að þeim veðskuldum sem hvíldu á fasteign þeirra yrði breytt þannig að kærandi yrði skuldari lánanna. Að mati umboðsmanns myndi slíkur samningur fela í sér auknar skuldbindingar fyrir kæranda sem myndi þannig bera fulla ábyrgð á greiðslu skuldanna í stað þess að ábyrgð hennar takmarkist við lánsveð í eignarhluta hennar. Ekki verði séð að kærandi hafi aðra hagsmuni af slíkri ráðstöfun en að geta uppfyllt skilyrði greiðsluaðlögunar en ráðstafanir sem gerðar séu í þeim tilgangi geti leitt til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé sambýlisfólki heimilt að sækja um greiðsluaðlögun í sameiningu. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til lge. komi fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Telja verði að við þær aðstæður sem fyrir hendi séu í máli þessu, þ.e. þegar sambýlisfólk á fasteign saman og skuldir séu tryggðar með veði í eignarhlutum beggja, sé eðlilegt að það leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu. Við meðferð málsins hafi kæranda verið leiðbeint um þetta atriði en hún hafi þó ákveðið að sækja ein um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar hafi þannig orðið að leggja sjálfstætt mat á fjárhag hennar. Í málinu liggi fyrir að greiðslugeta kæranda sé 130.402 krónur að teknu tilliti til framfærslukostnaðar. Skuldir nemi 5.880.452 krónum. Þyki þannig nokkur vafi leika á því hvort kærandi sé í verulegum greiðsluerfiðleikum í skilningi 1. mgr. 2. gr. lge. en þar sé að finna það skilyrði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar að skuldari sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Með bréfi 7. febrúar 2012 hafi kæranda verið kynntar fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag hennar og efni a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Einnig hafi henni verið veitt tækifæri til andmæla og að sýna fram á að hún uppfyllti skilyrði lge. um að leita greiðsluaðlögunar. Svar kæranda hafi borist umboðsmanni 5. mars 2012. Hafi það verið mat umboðsmanns að með nýjum upplýsingum hafi kærandi ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar og hafi henni því verið synjað með vísan til a-liðar 6. gr. lge. Umboðsmaður árétti að kærandi hafi fengið rúman frest til andmæla en einnig hafi hún notið utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar við vinnslu málsins.

Varðandi mál kæranda verði að hafa í huga tilgang og framkvæmd greiðsluaðlögunarsamnings. Telja verði útilokað að kæranda verði við greiðsluaðlögunarumleitanir heimilað að taka yfir skuldbindingar sem hingað til hafi ekki verið á hennar nafni. Um þetta megi vísa til 1. mgr. 3. gr. lge. þar sem segi að greiðsluaðlögun taki til krafna á hendur skuldara. Því sé ekki hægt að telja kröfur þar sem sambýlismaður kæranda sé skuldari, til krafna á hendur kæranda jafnvel þótt kærandi hafi veðsett fasteign sína til tryggingar kröfunum.

Sé litið á fjárhag kæranda verði að telja að henni sé kleift að standa undir þeim skuldbindingum sem á henni hvíla ásamt eðlilegu framlagi vegna húsnæðiskostnaðar. Þegar hjón eða sambýlisfólk sæki saman um greiðsluaðlögun sé almennt tekið tillit til sameiginlegra heildarskulda og -tekna við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Sé þá fært að stefna að heildrænni endurskipulagningu á fjárhag þess að því gefnu að skilyrði til greiðsluaðlögunar séu uppfyllt. Við meðferð málsins hafi athygli kæranda verið beint að þessu atriði og þar með verði að telja að leiðbeiningarskyldu umboðsmanns hafi verið sinnt að þessu leyti.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Nánar tiltekið er talið að kærandi geti greitt af þeim skuldum sínum sem falla innan greiðsluaðlögunar og því sé hún ekki ógjaldfær í skilningi lge. Í 1. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lögin. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda, sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge., eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Tollstjóri 2009 Staðgreiðsla tryggingagjalds 424.116 528.471 2009
Tollstjóri 2009 Þing- og sveitarsjóðsgjald 2.016.344 2.402.602 2009
Arion banki 2011 Greiðslukort
606.412 2011
Arion banki   Yfirdráttur
1.040.431  
    Alls: 2.440.460 4.577.916  

Utan samnings falla vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld vegna áranna 2008 til 2010 alls að fjárhæð 1.302.526 krónur. Fyrir liggur að eina eign kæranda er 63,33% hlutur í fasteigninni B gata nr. 11 í sveitarfélaginu C, en kærandi á eignina á móti sambýlismanni sínum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíla á eigninni rétt rúmar 45.000.000 króna en ekki liggur fyrir hvert er verðmæti eignarinnar. Þannig liggja ekki fyrir upplýsingar um raunverulega eignastöðu kæranda.

Í málinu deila aðilar um hvort kærandi teljist ógjaldfær í skilningi lge. Til að unnt sé að meta það verður að liggja fyrir hver er framfærslukostnaður kæranda en um það eru aðilar heldur ekki sammála. Í töflunni má sjá mat hvors aðila um sig á framfærslukostnaði kæranda í krónum:

Útgjaldaliður Framfærslukostnaður Framfærslukostnaður
  að mati umboðsmanns að mati kæranda
  skuldara  
Matur og hreinlætisvörur 55.634 58.176
Föt/skór 9.236 8.793
Læknisþjónusta 8.796 8.244
Tómstundir 4.398 18.713
Samskipti 4.000 9.549
Samgöngur 21.350 29.352
Rafmagn og hiti 6.000 10.000
Áskriftargjöld 2.000 2.000
Fasteignagjöld 11.500 11.500
Tryggingar 6.000 6.000
Skóli 13.000 13.000
Útvarpsgjald 2.867 1.434
Gjald í Frkvsj. aldraðra 1.400 700
Annað 4.398 6.286
Húsnæðiskostnaður 0 185.000
Samtals 150.579 368.744



Ráðstöfunartekjur 280.981 280.981
Greiðslugeta 130.402 -87.763

Samkvæmt yfirlitinu telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi greiðslugetu sem nemi 130.402 krónum á mánuði. Kærandi sjálf telur greiðslugetu sína neikvæða um 87.763 krónur. Mismunurinn liggur að miklu leyti í mati aðila á húsnæðiskostnaði kæranda. Umboðsmaður skuldara telur fasteignagjöld, rafmagn, hita og tryggingar til húsnæðiskostnaðar kæranda. Kærandi sjálf reiknar mánaðarlegan húsnæðiskostnað sinn þannig að til viðbótar þeim liðum sem umboðsmaður tilgreinir, er mánaðarlegri greiðslubyrði þeirra lána sem tryggð eru með veði í fasteign kæranda og sambýlismanns hennar skipt til helminga á milli þeirra. Í kæru kemur fram að augljóst sé að kærandi þurfi að standa skil á hluta þeirra lána sem hvíli á fasteign hennar og sambýlismanns hennar. Áður er komið fram að kærandi er ekki greiðandi þessara lána. Í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun kemur fram að kærandi og sambýlismaður hennar hafi „alltaf haft alfarið aðskilinn fjárhag“.

Kærunefndin getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að henni beri skylda til að greiða af lánum sambýlismanns síns og að sú skylda baki henni húsnæðiskostnað. Það er grundvallarsjónarmið í kröfurétti að kröfuhafi á ekki rétt á greiðslu frá öðrum en skuldara kröfunnar. Þannig geta kröfuhafar sambýlismannsins ekki krafið hana um greiðslu eins og hún væri skuldari lánanna þó þeir geti gengið að þeim tryggingum sem hún hefur sett til tryggingar kröfunni við greiðslufall. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn er sýna fram á að hún hafi greitt af nefndum lánum. Að þessu virtu verður að líta þannig á að afborganir af umræddum lánum geti ekki talist til fjárskuldbindinga kæranda sem henni beri að standa í skilum með þegar metið er hvort hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. þess efnis að hún hafi sýnt fram á að hún sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 7. febrúar 2012 gerði embættið grein fyrir a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. lge., og sjónarmiðum sínum varðandi framfærslukostnað og greiðslugetu kæranda. Var kæranda sérstaklega gefið tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum og leiðréttingum á framfæri og leiðbeint um að staða málsins væri sú að leitt gæti til synjunar á umsókn kæranda. Kærandi sinnti ekki bréfinu.

Með hliðsjón af framanrituðu telur kærunefndin engin rök til þess að helmingur af afborgunum lána sambýlismannsins teljist kostnaður kæranda við húsnæði. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi því ekki sýnt fram á að hún sé ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar svo sem áskilið er í 1. mgr. 2. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verða að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að kærandi teljist gjaldfær og fullnægi því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge., til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt því telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.


Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir           

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum