Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 84/2013

Fimmtudaginn 3. apríl 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. júní 2013 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi 8. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 9. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. febrúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 24. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi er fæddur 1980 og er menntaður húsasmiður. Hann var búsettur ásamt fjölskyldu sinni í eigin húsnæði að B götu nr. 35 í sveitarfélaginu C. Kærandi var atvinnulaus um tíma en er nú starfandi í Kanada.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2008 þegar fyrirtæki föður hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Hann hafi unnið hjá fyrirtækinu og orðið atvinnulaus í kjölfar gjaldþrotsins. Kærandi tók á sig verulegar ábyrgðarskuldbindingar vegna fyrirtækis föður hans, sem eru meðal annars áhvílandi á fasteign kæranda. Við gjaldþrotið varð faðir kæranda atvinnulaus og gat því ekki staðið í skilum með lán sem eru áhvílandi á fasteign kæranda. Kærandi á tvær íbúðir að B götu nr. 35 í sveitarfélaginu C þar sem stórfjölskyldan býr saman og stendur sameiginlega að rekstri heimilisins.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 58.384.931 króna og eru þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru samtals 50.400.394 krónur.

Þann 6. maí 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Með bréfi umsjónarmanns 3. ágúst 2012 til umboðsmanns skuldara var lagt til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um búsetu.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi telur að niðurfelling á heimild hans til greiðsluaðlögunar eigi ekki rétt á sér meðan ekki sé vitað hvort úrræði ríkisstjórnar komi að gagni fyrir hann. Einnig telur kærandi að sá umsjónarmaður sem skipaður var í máli hans hafi ekki haft hagsmuni hans að leiðarljósi. Telur kærandi að vegna mistaka umsjónarmanns eigi hann rétt á því að vera í greiðsluaðlögun þar til skuldamál heimilanna skýrist.

Kærandi kveðst hafa fengið vinnu í Kanada eftir að hafa verið atvinnulaus á Íslandi í eitt ár. Hann sé þar með örugga atvinnu og bíði þess að húsnæðismál hans á Íslandi leysist.

Sú fullyrðing umboðsmanns skuldara að embættið hafi ekki haft vitneskju um að hann væri í sambúð sé röng. Í frumvarpi umsjónarmanns til greiðsluaðlögunar komi fram að kærandi sé í sambúð. Þetta sé eftiráskýring sem ekki standist skoðun og beri vott um óvönduð vinnubrögð.

Í greinargerð kæranda 24. mars 2014 kemur meðal annars fram að ástæður þess að kærandi starfi erlendis og búi ekki í fasteign sinni séu þær að hann hafi verið atvinnulaus á Íslandi í eitt ár. Sambýliskona hans hafi búið í fasteigninni af og til í eitt og hálft til tvö ár. Kærandi treysti sér ekki til að koma til Íslands meðan gjaldþrot vofi yfir honum og engin lausn sé framundan í húsnæðismálum hans.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að umsjónarmaður hafi tilkynnt embættinu að kærandi væri búsettur í Kanada og hefði verið það að minnsta kosti frá því í október 2010. Hann væri þó með skráð lögheimili á Íslandi samkvæmt þjóðskrá. Kærandi hafi ekki borið því við að búsetu hans væri markaður ákveðinn tími eða gert með öðrum hætti líklegt að búseta hans væri tímabundin í skilningi lge. Að mati umsjónarmanns hafi kærandi því ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um búsetu. Auk þess hafi umsjónarmaður talið að kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt
a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Lagði umsjónarmaður til við embættið að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. 4. mgr. 2. gr. sömu laga.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2012 hafi embættið óskað eftir skýringum kæranda áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Skýringar kæranda bárust 17. september 2012 en þar kom fram að hann væri búsettur á Íslandi, þar væri lögheimili hans en að hann væri tímabundið starfandi í Kanada til þess að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Kærandi vilji ljúka greiðsluaðlögunarumleitunum og að þeim loknum ætli hann að fá fasta atvinnu á Íslandi þó tækifæri í hans starfsgrein séu ekki mörg. Kærandi kvað umsjónarmann aldrei hafa farið fram á gögn vegna tímabundinnar búsetu hans erlendis. Umsjónarmanni hafi átt að vera ljóst að búseta hans erlendis væri tímabundin þar til húsnæðismál hans skýrðust og örugg vinna fengist á Íslandi. Kærasta hans væri í vinnu á Íslandi og hafi hún að mestu verið á Íslandi ásamt dóttur kæranda. Kærandi hafi því ætlaði að koma til Íslands í október 2012 til að kanna stöðu sína varðandi heimili sitt og vinnu.

Í kjölfar andmæla kæranda og í ljósi þess hversu langt var liðið frá því andmæli hans bárust umboðsmanni skuldara, þótti embættinu ástæða til að kanna hvort kærandi væri enn búsettur erlendis. Að sögn umboðsmanns kæranda var kærandi enn í Kanada og ekki væri fyrirsjáanlegt að hann kæmi til Íslands vegna óvissu um atvinnu kæranda og húsnæði á Íslandi.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Í 4. mgr. 2. gr. lge. komi fram að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir á Íslandi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur á Íslandi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.

Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 úrskurðað um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“

Samkvæmt skattframtölum áranna 2011 til 2013 hafi kærandi verið búsettur í Kanada frá 2010 til 2012. Þá komi fram á skattframtali 2013 að kærandi sé við vinnu í Kanada og bíði þess að húsnæðismál hans komist á hreint á Íslandi. Umboðsmaður kæranda á Íslandi hafi tjáð starfsmanni umboðsmanns skuldara í símtali 4. júní 2013 að kærandi væri enn búsettur í Kanada og ekki væri fyrirséð hvenær þeirri búsetu lyki.

Kærandi hafi haldið því fram að búseta hans í Kanada væri tímabundin. Hann hafi hins vegar hvorki sýnt fram á það með gögnum að búsetu hans þar hafi í upphafi verið markaður ákveðinn tími né bendi önnur atriði til þess að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Kærandi hafi einungis í andmælum sínum gefið til kynna að hann ætli sér að flytja til Íslands þegar atvinnu- og húsnæðismál hans skýrist. Verði því ekki jafnað til staðfestingar á því að búseta hans í Kanada sé tímabundin. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að dvöl kæranda sé markaður ákveðinn tími eða geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsettur erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hans sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því heimild sem kærandi hafði fengið til greiðsluaðlögunar felld niður.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd viðhlítandi gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði. Samkvæmt því telur nefndin ekki nægilegt í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hann flytji til aftur til Íslands þegar hann fái þar atvinnu eða þegar húsnæðismál hans séu komin í viðunandi horf.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hann hefur verið búsettur í Kanada frá árinu 2010 og er það enn. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á að víkja skuli frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna búsetu hans erlendis.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum