Hoppa yfir valmynd
17. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 159/2012

Mánudaginn 17. mars 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 25. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. júlí 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 13. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. september 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 5. september 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust kærunefndinni 8. nóvember 2012.  

 

I. Málsatvik

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 9. nóvember 2011. Kærendur eru bæði fædd 1981. Þau eru í skráðri sambúð og búa ásamt tveimur börnum sínum í Noregi. Kærandi A er lyfjafræðingur og starfar hjá U AS. Kærandi B er menntaður byggingartæknifræðingur og starfar nú hjá X Kærandi B var atvinnulaus þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu.

Að sögn kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til kaupa á fyrirtækinu V ehf. árið 2008 og ágreinings við seljendur fyrirtækisins. Þá rekja kærendur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 29.608.994 krónur og þar af falla 16.726.150 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Utan samnings falla skuldir vegna námslána, alls 12.882.844 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2008 til 2009. Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru samtals 6.165.751 króna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. júlí 2012 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að búseta kærenda í Noregi ráðist af því hvenær þau geti flutt aftur Íslands en það verði þegar skuldir þeirra hafi verið gerðar upp. Auðveldara sé fyrir þau að komast af á launum kæranda A í Noregi heldur en á bótum kæranda B og þeim launum sem kærandi A hafi fengið á Íslandi. Kærandi B hafi nú fengið starf og hagur þeirra sé því að vænkast. Kærandi A hafi haft tímabundið starf á Íslandi en enginn ráðningarsamningur hafi verið gerður við hana. Þess vegna hafi kærendur ekki talið sig fjárhagslega örugg á vinnumarkaðnum á Íslandi miðað við atvinnumöguleika þeirra í Noregi.

Kærendur vilji helst búa á Íslandi enda sé öll fjölskylda þeirra og vinir þar. Flutningur til Noregs hafi verið leið þeirra til að vinna úr þeirri stöðu sem uppi hafi verið og finnist þeim sárt að vera refsað fyrir þá viðleitni. Búsetan í Noregi hafi alltaf átt að vera eins stutt og kostur væri. Nái þau að borga niður skuldir sínar á einu til tveimur árum ætli þau að flytja aftur til Íslands að þeim tíma liðnum reynslunni ríkari og sjái þá fram á bjarta framtíð hér.

Kærendur taka fram að flutning þeirra hafi borið að með skömmum fyrirvara og þau hafi ekki vitað að þessi ákvörðun gæti haft svo mikil áhrif á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Kærendur eigi vini í Noregi sem hafi fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun þrátt fyrir búsetu þar. Greiðsluaðlögun í Noregi taki allt að fimm ár og finnst kærendum það slæm tilhugsun að geta ekki flutt til Íslands fyrr en að þeim tíma liðnum. Alls geti þetta tekið sex til sjö ár en kærendur ætli ekki að dvelja svo lengi í Noregi.

Kærendur bjóðast til að sýna tímabundinn leigusamning og ráðningarsamning en þau sjái ekki tilganginn með því þar sem nægt framboð af leiguhúsnæði og atvinnu sé í Noregi. Kærendur taka fram að þau séu ósátt við að fá ekki aðstoð á Íslandi. Þau séu heiðarlegt og vel menntað fólk sem vilji vinna sig út skuldavandanum en þau þurfi hjálp til þess.

Í greinargerð kærenda kemur meðal annars fram að í Noregi sjái þau í fyrsta sinn fram á að geta greitt skuldir sínar til að geta lifað eðlilegu lífi án fjárhagsörðugleika. Þau séu tilbúin til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þau lofi að koma aftur til Íslands um leið og þau hafi greitt niður skuldir sínar.

Kærendur taka fram að kærandi A hafi ekki haft atvinnuöryggi á Íslandi. Hún hafi verið í afleysingarstarfi og án ráðningarsamnings. Kærandi B hafi nú fengið vinnu í Noregi.

Kærendur taka fram varðandi það sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns um að þau hafi komið sér fyrir í Noregi ásamt börnum sínum, að eðlilega taki þau börnin með sér þrátt fyrir að um tímabundna búsetu sé að ræða.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé það skilyrði sett fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast til á Íslandi við lánardrottna sem eigi heimili á Íslandi.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur flutt til Noregs, kærandi A í nóvember og B í desember 2011, vegna atvinnuleysis kæranda B. Kærandi B hafi verið atvinnulaus en kærandi A hafi fengið starf áður en þau fluttu til Noregs. Hún hafi áður starfað hjá Actavis hf. á Íslandi. Í svari kærenda vegna fyrirspurnar umboðsmanns skuldara um búsetu þeirra hafi komið fram að ráðningarsamningur kæranda A væri ótímabundinn og að húsaleigusamningur kærenda væri einnig ótímabundinn.

Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 úrskurðað um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi A ráðið sig til vinnu ótímabundið en kærandi B hafi verið atvinnulaus. Búsetu kærenda í Noregi hafi ekki verið markaður ákveðinn tími í upphafi en það leiði af eðli tímabundinnar ráðstöfunar að henni ljúki á ákveðnu tímamarki. Kærandi A hafi tekist á hendur ótímabundið starf og kærandi B sé ekki í verri stöðu en hann hafi verið í á Íslandi þar sem hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum í Noregi. Þrátt fyrir að tekjur kæranda A séu nú hærri en áður sé kærandi B tekjulaus. Einnig sé ljóst að kærandi A hafi verið með atvinnu á Íslandi og geti því ekki talist hafa flutt erlendis „vegna tímabundinna starfa“. Kærendur vísi til þess að þau hyggist snúa aftur til Íslands en viti ekki hvenær. Erfitt sé að henda reiður á hvenær í framtíðinni þetta verði. Kærendur hafi lagt fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 9. nóvember 2011 og flutt til Noregs u.þ.b. mánuði síðar. 

Við ákvarðanatöku umboðsmanns skuldara hafi einnig verið litið til þess að kærendur hafi nýtt sér sérfræðiþjónustu með því að leita aðstoðar lögmanns. Verði því að leggja þá skyldu á lögmenn að þeir nýti þá sérfræðiþekkingu sem þeir búi yfir umbjóðendum sínum til hagsbóta. Hefði lögmanninum verið í lófa lagið að upplýsa kærendur um skilyrði lge. um búsetu og ráðleggja kærendum um afleiðingar búferlaflutninga til Noregs.

Samkvæmt því sem fram hafi komið, sem og að kærendur hafi nú komið sér fyrir í Noregi ásamt börnum sínum, verði að telja að ekki sé um tímabundna búsetu sé að ræða í skilningi lge.

Umboðsmaður skuldara telur einsýnt að kærendur uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. og sé því skylt að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsenda hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur séu búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærendur lýsi því yfir að þau hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði. Samkvæmt því telur nefndin ekki nægilegt í þessu sambandi að kærendur lýsi því yfir að þau hyggist flytja aftur til Íslands þegar þau hafi greitt upp skuldir sínar.

Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau eru bæði búsett í Noregi samkvæmt skráningu í þjóðskrá. Kærandi A hefur verið með skráð lögheimili í Noregi frá 3. janúar 2012 og kærandi B frá 8. desember 2011. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur ekki sýnt fram á að víkja skuli frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna búsetu þeirra erlendis.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum