Hoppa yfir valmynd
3. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2012

Mánudaginn 3. mars 2014

 


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 2. apríl 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. maí 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem bárust 15. júní 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1977. Hann á barn með sambýliskonu auk eldra barns sem hann greiðir meðlag með. Hann býr í eigin 226,4 fermetra eigin íbúð að B götu nr. 8 í sveitarfélaginu C. Hann rak áður fyrirtæki í byggingariðnaði en er nú að mestu atvinnulaus utan sjómennsku sem hann stundar af og til.

Nettótekjur kæranda eru að meðaltali áætlaðar 403.989 krónur á mánuði. Bæði er um að ræða launatekjur og atvinnuleysisbætur.

Að mati kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til ábyrgðarskuldbindinga vegna rekstrar tveggja fyrirtækja. Hann hafi verið umsvifamikill í byggingariðnaði og fjárfestingum á árunum fyrir efnahagshrun 2008. Kærandi hafi verið einn eigenda verktakafyrirtækisins X ehf. sem var úrskurðað gjaldþrota 2009. Þegar umsvifin hafi verið hvað mest hafi félagið haft 30 menn í vinnu. Kærandi hafi einnig verið einn eigenda fjárfestingafélagsins Y ehf. en það félag var úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Kærandi kveður rekstur félaganna hafa gengið vel fyrir hrun en hann sé í umtalsverðum persónulegum ábyrgðum fyrir bæði félögin og hafi þessar ábyrgðir fallið á hann. Hann hafi verið án atvinnu um tíma í kjölfar gjaldþrots félaganna en stundi nú sjómennsku þegar færi gefst.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 156.970.953 krónur. Ábyrgðir sem kærandi hafi gengist í nemi 150.308.838 krónum. Allar skuldir kæranda falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 9. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Krafa er gerð um að kærunefndin fallist á greiðsluaðlögun og að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur að greiðsluerfiðleika sína megi eingöngu rekja til hruns á byggingamarkaði en verkefnastaða og rekstur X ehf. hafi verið í ágætu jafnvægi fram að því. Félagið hafi staðið við skuldbindingar sínar og staðið skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Við hrunið hafi verið gengið hratt að eignum félagsins og eftir hafi staðið eignalaust félag með talsverðar skuldir við hið opinbera og aðra aðila.

Kærandi bendir á að synjun umboðsmanns skuldara byggist á matskenndu heimildarákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. Telji kærandi að við ákvarðanatöku beri að hafa stafliði 2. mgr. 6. gr. lge. til hliðsjónar. Synjun umboðsmanns skuldara byggist á því að kæranda hafi sem stjórnarmanni í einkahlutafélagi borið að tryggja skil á vörslusköttum fyrir hönd félagsins. Með því að standa ekki skil á sköttunum hafi hann bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu og skaðabótaskyldu.

Við gjaldþrot félaga kæranda hafi hann að öllu leyti misst forræði yfir félögunum. Mögulegar kröfur vegna vörsluskatta byggi á áætlun. Framtalsskil félaganna hafi ekki verið kláruð þar sem félögin urðu gjaldþrota. Endurskoðandi X ehf. hafi neitað að afhenda bókhald þar sem hann hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína.

Kærandi hafnar því að X ehf. hafi haldið eftir vörslusköttum. Forsvarsmenn félagsins hafi staðið skil á öllum skuldbindingum gagnvart opinberum aðilum. Engum kröfum hafi verið beint að kæranda eða meðeiganda hans, ekki hafi verið höfðað opinbert mál á hendur þeim eða kröfum vegna ógreiddra skatta verið beint að þeim. Slíkum kröfum verði auðsvarað með leiðréttingu kæmi til þess.

Kærandi vekur athygli á 1. mgr. 22. gr. lge. Eftir ákvæðum þeirrar greinar geti umsjónarmaður lagt til hliðar fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunar til að mæta umdeildri kröfu. Til að eiga rétt til fjármunanna verði kröfuhafi að grípa til tiltekinna ráðstafana innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á. Umboðsmanni beri að gæta meðalhófs í ákvörðunum sínum og því sé nærtækara að beita ákvæðum 22. gr. lge. við afgreiðslu greiðsluaðlögunarsamnings en að synja umsókninni á grundvelli kröfu sem efnislegar varnir séu fyrir og ekki hafi verið útkljáð á réttum vettvangi. Kærandi leggur áherslu á að krafan verði ekki efnislega til lykta leidd fyrir umboðsmanni skuldara og því ótækt að embættið taki efnislega afstöðu til réttmætis kröfunnar sem slíkrar og fjárhæðar hennar. Enn fremur bendi kærandi á að krafa þessi standi utan greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Af þeim sökum verði ekki fallist á það sjónarmið að kröfuhafi sem ekki á aðild að greiðsluaðlögunarsamningi geti hindrað að greiðsluaðlögun komist á um aðrar kröfur. Aðrir kröfuhafar gætu eftir sem áður hafnað því að staðfesta greiðsluaðlögunarfrumvarp. Ákvörðun umboðsmanns skuldara standi í vegi fyrir því að kærandi fái tækifæri til að koma fjármálum sínum í viðráðanlegt horf. Að mati kæranda geti engar kröfur opinberra aðila orðið til þess að endurskipulagning á fjármálum kæranda fari í uppnám líkt og umboðsmaður byggi synjun sína á.

Á umboðsmanni hvíli ekki fortakslaus skylda að synja umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli ógreiddra vörsluskatta eða þess að hlutfall slíkra skulda sé of hátt. Telji kærandi að umboðsmanni beri að meta hverja umsókn sjálfstætt með hliðsjón af öllum atvikum.

Kærandi telur að framsetning umboðsmanns skuldara á skuldum og ábyrgðum sé villandi. Heildarskuldir séu taldar 156.970.953 krónur, ábyrgðir 150.308.838 krónur og þar af séu 76.201.292 krónur taldar í vanskilum. Ekki verði ráðið að hve miklu leyti þær skuldir séu taldar til persónulegra skulda kæranda. Gera verði kröfu um nákvæmari og ítarlegri sundurliðun á skuldum kæranda þannig að hann geti hagað kæru sinni með tilhlýðilegum hætti. Án þess geti kærandi hvorki tekið afstöðu til né hnekkt ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Í VI. kafla greinargerðar með lge. sé fjallað um einstaklinga í atvinnurekstri. Sérstaklega sé þar tilgreint að fellt hafi verið niður fyrra skilyrðið um að skuldir sem stöfuðu af atvinnurekstri væru lítið hlutfall heildarskulda. Í greinargerð umboðsmanns skuldara sé vísað til athugasemda í greinargerð að það sé ekki „vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýta sér þetta úrræði“. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum hafi eftirfarandi fylgt til glöggvunar á vilja löggjafans: „Með því að fella brott þá takmörkun sem felst í því að skuldir einstaklings megi ekki nema að litlum hluta rekja til atvinnurekstrar er gengið nokkuð langt til að mæta þeim óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi. Því leggur nefndin áherslu á að fylgst verði náið með þróun þessa úrræðis til að tryggja að löggjöfin þjóni því markmiði að gera einstaklingum en ekki atvinnurekstri kleift að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.“

Með hliðsjón af því að einkahlutafélög kæranda hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta sé vandséð hvernig þjóna eigi hagsmunum atvinnurekstrar sem ekki sé lengur til. Ætlun löggjafans hafi verið að girða fyrir misnotkun atvinnulífsins þar sem einstaklingar og atvinnurekstur séu samtvinnuð. Atvinnurekstur kæranda hafi á hinn bóginn verið í einkahlutafélögum sem hafi takmarkaða ábyrgð að meginreglu. Greiðsluaðlögun myndi einungis gera kæranda kleift að koma jafnvægi á þær fjárskuldbindingar sem eftir standi en ekki þjóna hagsmunum einkahlutafélaga sem tekin hafi verið til skipta. Kærandi telji það ekki á valdi umboðsmanns skuldara að tengja efnisleg réttindi og hagsmuni kæranda af greiðsluaðlögun við mál sem sé ólokið hjá öðrum stjórnvöldum.

Kærandi kveðst eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum. Krefst hann þess að fallist verði á umsókn sína. Hagsmunir kæranda séu verulegir enda hafi hann vilja til frekari þátttöku í atvinnulífinu en við óbreytt ástand telji hann þess ekki kost. Til þess þurfi hann utanaðkomandi aðstoð eins og greiðsluaðlögun.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Segi þar jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi reynt á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurðinum hafi verið til skoðunar hversu há skattskuld kæranda væri og hvort hún teldist verulegur hluti skulda kæranda í skilningi ákvæðisins. Kærandi hafi borið ábyrgð á ógreiddum vörslusköttum einkahlutafélags. Skuld félagsins hafi numið um 25.000.000 króna eða um 44% af heildarskuldum kæranda. Í úrskurðinum hafi kærunefndin vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Með vísan til niðurstöðu dómsins hafi kærunefndin staðfest synjun umboðsmanns skuldara þar sem kærandi hafði bakað sér skuldbindingu sem einhverju nam miðað við fjárhag hans sem varðað gat refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði kærunefndarinnar komi fram að synjun um heimild til greiðsluaðlögunar í slíkum málum sé óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi.

Í máli þessu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir vegna staðgreiðslu launagreiðanda og virðisaukaskatts hvíli á kæranda sem stjórnarformanni X ehf. Skiptum á þrotabúi félagsins hafi lokið í ágúst 2009. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að X ehf. hafi hvorki staðið skil á virðisaukaskatti né staðgreiðslu launagreiðanda vegna ársins 2008. Virðisaukaskattskuld nemi 5.146.010 krónum og skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda nemi 5.116.792 krónum. Samanlagt nemi þessar skuldir 10.262.802 krónum og standi þær utan samnings um greiðsluaðlögun.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er greint frá því að við nánari rannsókn hjá embættinu hafi komið í ljós að samkvæmt yfirliti tollstjóra sé staðgreiðsla X ehf. vegna ársins 2008 í skilum en virðisaukaskattur sé í vanskilum. Nemi fjárhæð virðisaukaskattskuldar 5.116.792 krónum. Krafan sé byggð á álagningu tollstjóra og því óumdeild. Af þessu leiði að heildarfjárhæð þeirra krafna sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé 5.116.792 krónur.

Samkvæmt skattframtölum tekjuáranna 2007 til 2009 hafi meðalnettótekjur kæranda verið 280.271 króna á mánuði. Heildarskuldir hans nemi 156.970.953 krónum. Ábyrgðir sem kærandi hafi gengist í nemi samkvæmt gögnum málsins 150.308.838 krónum en þar af séu 76.201.292 krónur í vanskilum. Helstu eignir kæranda séu fasteignin að B  götu nr. 8 í sveitarfélaginu C. Fasteignamat eignarinnar sé 42.750.000 krónur og sé eignin yfirveðsett. Einnig sé hann skráður eigandi hluta í Y ehf. að fjárhæð 2.500.000 krónur. Hafi það félag verið úrskurðað gjaldþrota og sé skiptum lokið. Því verði að telja hlutina verðlausa. Þá sé kærandi skráður umráðamaður bifreiðar að gerðinni Mercedes Benz árgerð 2005 sem metin sé á 5.000.000 króna. Eftirstöðvar bílasamnings séu 6.475.830 krónur þannig að kærandi eigi ekkert eigið fé í bílnum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé nettóeignastaða kæranda neikvæð og kröfur vegna opinberra gjalda sem hann beri ábyrgð á sem fyrirsvarsmaður X ehf. nemi samtals 5.116.792 krónum. Sé þá einungis miðað við gjaldfallin opinber gjöld sem falli utan samnings um greiðsluaðlögun. Verði að telja fjárhæð skattskuldar allháa samanborið við eignastöðu kæranda á þeim tíma er til skuldbindingarinnar hafi verið stofnað. Þyki þannig ófært að líta þannig á að skattskuldirnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda sem stjórnarmanni í fyrrgreindu einkahlutafélagi til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Einnig bendir umboðsmaður á að í almennum athugasemdum við greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. komi fram að frumvarpinu sé „fyrst og fremst ætlað að að ná til heimilisreksturs einstaklinga [...] Það er þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.“

Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin tekið undir þann skilning umboðsmanns skuldara að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr., sem sé samhljóða ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hafi í framkvæmd verið skilið á þann veg að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar „óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“. Sé það því enn sem áður álit umboðsmanns skuldara að synja beri kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Með hliðsjón af því sem komið hafi fram sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuld svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki af þessum sökum óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að einungis sé farið fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að X ehf. skulduðu staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 5.146.010 krónur og virðisaukaskatt að fjárhæð 5.116.792 krónur. Var þannig byggt á því að skuld félagsins vegna vörsluskatta væri alls 10.262.802 krónur. Í greinargerð umboðsmanns er greint frá því að staðgreiðsla launagreiðanda vegna X ehf. væri í skilum en félagið skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 5.116.792 krónur. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til að breyta ákvörðun sinni vegna þessa. Í því ljósi er úrskurður kærunefndarinnar byggður á þessum breyttu forsendum. 

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er vangoldinn virðisaukaskattur.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi stjórnarformaður og prókúruhafi í félaginu X ehf., en félagið var í eigu kæranda og samstarfsmanns hans. Því hvíldi á kæranda sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri fjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann X ehf.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að virðisaukaskattskuld X ehf. sem byggi á gögnum frá félaginu sjálfu nemi 5.116.792 krónum. Kærandi hafnar því að vörslusköttum hafi verið haldið eftir hjá félaginu og segir forsvarsmenn félagsins hafa staðið skil á öllum skuldbindingum gagnvart opinberum aðilum. Kveður hann að kröfum sem kynni að vera beint að sér vegna þessa sé auðsvarað með leiðréttingu. Við vinnslu málsins fékk kærunefndin þær upplýsingar staðfestar hjá tollstjóra að skuld vegna virðisaukaskatts, nú að fjárhæð 5.116.792 krónur, byggist á gögnum frá félaginu sjálfu. Kærunefndin telur því ekki unnt að fallast á fullyrðingu kæranda um að félagið hafi staðið skil á öllum skuldbindingum sínum gagnvart opinberum aðilum. Samkvæmt því verður að miða við að umboðsmaður skuldara byggi á réttri fjárhæð. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 108.000.000 króna. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 5.116.792 krónum samkvæmt því sem greinir hér að framan. Þetta verður að telja mjög háa fjárhæð. Skuld þessi er sem svarar 3,2% af heildarskuldum kæranda. Skuldin fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessarar skuldar með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Kærandi nefnir í kæru sinni að nærtækara hefði verið, í stað þess að synja umsókn hans um greiðsluaðlögun, að í greiðsluaðlögunarsamningi hefði verið kveðið á um að lagðir væru til hliðar fjármunir samkvæmt 22. gr. lge. til að mæta hinni umdeildu kröfu.

Í 22. gr. lge. fjallað um ákveðið úrræði er varðar greiðslu krafna til kröfuhafa samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun. Í máli þessu er aðeins til umfjöllunar hvort staðfesta beri eða fella úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara þess efnis að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu á tilvik eins og það sem hér um ræðir ekki undir 22. gr. lge.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kæranda að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærunefndin telur því að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum