Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 84/2012

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. apríl 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 18. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. apríl 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. maí 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 4. júní 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Kærandi er einstæð og býr ásamt þremur börnum sínum í leiguhúsnæði í Helsingborg í Svíþjóð. Kærandi er hársnyrtir að mennt. Ráðstöfunartekjur hennar eru 116.187 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2007 þegar hún missti vinnu sína á Íslandi. Hún hafi í kjölfarið flutt til Svíþjóðar þar sem hún hafi fengið vinnu tímabundið. Að sögn kæranda stefnir hún að því að flytja til Íslands þegar sonur hennar hefur klárað grunnskóla í Svíþjóð.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 6.605.751 króna og þar af falla 4.441.472 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru tilkomnar vegna námslána. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2000.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. apríl 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað með vísan til þess að hún uppfyllti ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði tekin upp að nýju. Synjun umboðsmanns byggist á því að búsetu kæranda hafi í upphafi ekki verið áætlaður ákveðinn tími en frá upphafi hafi búseta hennar erlendis átt að vera tímabundin. Í kjölfar atvinnumissis á árinu 2007 hafi hún tekið þá ákvörðun að flytja til Svíþjóðar þar sem henni hafi boðist vinna í sínu fagi. Það starf hafi ekki verið framtíðarstarf. Aldrei hafi staðið til að flytja alfarið búferlum til Svíþjóðar enda sé fjölskylda kæranda öll búsett á Íslandi. Þá sé barnsfaðir hennar búsettur á Íslandi og aldrei hafi annað staðið til en að flytja aftur til Íslands þegar betur horfði með atvinnu í hennar fagi. Ekki hafi þó orðið að heimkomu, meðal annars vegna efnahagshrunsins en við það þrengdust enn atvinnumöguleikar kæranda á Íslandi.

Kærandi tekur fram að húsaleigusamningar leigufélaga í Svíþjóð séu langoftast ótímabundnir en séu með uppsagnarákvæði. Uppsagnarfrestur kæranda sé þrír mánuðir. Telur kærandi að ekki geti skipt máli varðandi mat á því hvort hún sé búsett erlendis hvort leigusamningur hennar sé tímabundinn eða ótímabundinn. Við upphaf leigutíma hafi kærandi greint leigusala frá því að hún vænti þess að leigja húsnæðið í tvö til þrjú ár. Þetta hafi hins vegar ekki komið fram í leigusamningi.

Kærandi sé einstæð móðir með þrjú börn og sjái hún ekki fram á að geta stundað vinnu til að framfleyta sér og börnum sínum án stuðnings fjölskyldu sinnar sem sé öll búsett á Íslandi. Óeðlilegt sé að gera greinarmun á fólki sem fari til útlanda til náms og þeirra sem þangað fari í atvinnuleit þegar metið er hvort menn eigi kost á greiðsluaðlögun. Allur gangur sé á því hvort fólk sem fari utan til náms, snúi aftur heim á námi loknu eða ekki. Þannig sé í raun ekki unnt að fullyrða að búsetu þeirra sem fari erlendis til náms sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Umboðsmaður skuldara hafi gefið kæranda kost á að leggja fram gögn því til stuðnings að búseta hennar hafi í upphafi verið hugsuð tímabundin. Engin slík gögn séu til og því ekki verið hægt að leggja þau fram.

Kærandi tekur fram að hún geti ekki greitt skuldir sínar. Greiðsluaðlögun myndi gera henni fært að koma aftur til Íslands eins og ávallt hafi staðið til og byggja upp líf sitt og barna sinna.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi orðið atvinnulaus á Íslandi í apríl árið 2007 og hafi í kjölfarið flutt til Svíþjóðar. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi breytt lögheimili sínu 9. september 2007. Kærandi hafi frá 1. desember 2007 búið í húsnæði á grundvelli ótímabundins húsaleigusamnings en bendi á að hún hyggist flytja aftur til Íslands fljótlega þar sem sonur hennar sé að klára grunnskóla í Svíþjóð.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“

Við mat á því hvort um tímabundna búsetu erlendis sé að ræða beri sérstaklega að líta til þess að 4. mgr. 2. gr. lge. sé undantekningarákvæði sem skýra beri þröngt. Í því tilliti verði ekki komist hjá því að líta til þess að kærandi hafi verið búsett í Svíþjóð í fimm ár samfleytt og sé með ótímabundinn húsaleigusamning. Þrátt fyrir að kærandi hyggist flytja aftur til Íslands fljótlega hafi engin gögn verið lögð fram sem sýni fram á eða geri líklegt að búseta hennar hafi í upphafi verið markaður ákveðinn tími. Óskað hafi verið eftir gögnum frá kæranda sem sýndu fram á að búseta hennar erlendis væri tímabundin en þeirri beiðni hafi verið svarað þannig að kærandi hygðist ekki leggja fram frekari gögn.

Að framangreindu virtu og úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 sé ekki hjá því komist að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hennar sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda í Svíþjóð sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Þá telur nefndin ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hún hyggist flytja aftur til Íslands þegar sonur hennar hefur lokið grunnskóla í Svíþjóð.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún býr nú í Svíþjóð og hefur verið með skráð lögheimili þar síðan 9. september 2007. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á að búseta hennar sé tímabundin í skilningi laganna.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum