Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2012

Mánudaginn 24. febrúar 2014


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Í kæru kemur fram að frekari rökstuðningur og málsástæður verði sendar kærunefndinni innan fárra daga en það gekk ekki eftir.

Með bréfi 11. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. júlí 2012. Var greinargerðin send kæranda með bréfi 24. júlí 2012 og honum boðið að koma að athugasemdum.

Greinargerð kæranda barst 7. ágúst 2012. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 27. ágúst 2012. Með tölvupósti 29. ágúst 2012 greindi umboðsmaður frá því að hann teldi ekki þörf á viðbótargreinargerð.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 30 ára, einhleypur og býr einn í eigin íbúð að B götu nr. 8, sveitarfélaginu C. Íbúðin er í þríbýli og er 81,6 fermetrar að stærð. Kærandi er ekki á vinnumarkaði en áður starfaði hann við smíðar. Hann kveðst hafa skerta starfsgetu vegna afleiðinga slysa.

Í maí 2011 fékk kærandi eingreiðslu frá Vátryggingafélagi Íslands að fjárhæð 1.419.002 krónur eftir frádrátt skatts. Í lok júlí 2011 fékk kærandi greiddar 618.027 krónur vegna vaxtabóta, sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu og ofgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur ekki fengið aðrar greiðslur eða laun frá þeim tíma.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2008. Hann hafi ætlað að ljúka námi í húsasmíði og starfa við þá iðn en allar forsendur hafi brostið þegar mikill samdráttur varð í greininni það ár. Einnig hafi hann lent í tveimur slysum; því fyrra 2005 og hinu síðara 2010, en vegna þeirra sé starfsgeta hans skert. Hann geri þó ráð fyrir að geta farið aftur út á vinnumarkaðinn.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 44.005.597 krónur. Þar af falla 43.915.709 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2008 vegna bifreiðar- og húsnæðiskaupa.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Þá krefst hann þess að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Kærandi kveðst hafa haft uppgefnar launatekjur frá félaginu X ehf. en hann hafi ekki vitað hvort félagið hafi staðið réttilega að uppgjöri til skattyfirvalda.

Að mati kæranda byggi ákvörðun umboðsmanns skuldara fyrst og fremst á huglægri afstöðu umboðsmanns til þess hvað sé að fara offari í skuldsetningu. Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi verið sett til að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð. Telji kærandi sig eiga við verulega greiðsluerfiðleika að etja.

Líta verði til þeirra ástæðna sem liggi að baki skuldsetningu kæranda. Hann hafi einungis verið að koma sér upp þaki yfir höfuðið og bifreið til að koma sér á milli staða. Hann hafi gert ráð fyrir því að tekjur hans, sem séu venjulegar tekjur, myndu nægja honum til að greiða af íbúð og bifreið. Kærandi sé ekki sérfræðingur í fjármálum og hafi einfaldlega staðið í þeirri trú að hann gæti framfleytt sér og tryggt sér húsnæði með eðlilegri vinnu.

Rétt sé að hafa í huga að aðstæður fólks breytist. Þær ráðstafanir sem venjulegt fólk geri byggist á að það muni hafa eðlilegar tekjur í framtíðinni. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir öðru.

Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga felist að þegar stjórnvald taki matskennda ákvörðun sé í fyrsta lagi gerð krafa um að efni ákvörðunar sé til þess fallið að ná því markmiði sem stefnt sé að en í þessu tilviki sé markmiðið að laga greiðslubyrði kæranda að greiðslugetu hans. Í öðru lagi skuli velja vægasta úrræðið sem völ sé á og í þriðja lagi sé gerð krafa um hóf í beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu verði.

Vandséð sé hvernig embætti umboðsmanns skuldara teljist hafa gætt hófs við beitingu lge. í máli þessu enda byggi ákvörðunin algerlega á huglægu mati sem fram fari nokkrum árum eftir á og í ljósi nýrra upplýsinga um stöðu málsins. Kærandi hefði eflaust ekki tekið sömu ákvarðanir hefði hann vitað það sem nú liggi fyrir í málinu. Hann hafi þó ekki vitað betur en aðrir í hvað stefndi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Kæranda hafi verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar 13. febrúar 2012. Kæruheimild sé í 4. mgr. 7. gr. lge. þar sem fram komi að synjun umboðsmanns sé hægt að kæra innan tveggja vikna frá því að skuldara barst ákvörðun umboðsmanns. Hinn 27. febrúar 2012 hafi umboðsmaður kæranda lagt fram kæru hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Enginn rökstuðningur sé í kærunni en þar komi fram að rökstuðningur og málsástæður verði sendar nefndinni innan nokkurra daga. Fjórum og hálfum mánuði síðar hafi hvorki borist rökstuðningur né frekari gögn frá umboðsmanni kæranda.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 6/2011 telji nefndin að rúmir fjórir mánuðir sem skuldara hafi verið veittir til að leggja fram viðbótargögn hjá umboðsmanni skuldara vegna umsóknar um greiðsluaðlögun hafi verið nægur tími. Staðfesti kærunefndin því synjun umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Í því ljósi verði að telja að umboðsmanni kæranda hafi verið gefinn meira en nægur tími til að leggja fram greinargerð og gögn vegna kæru skjólstæðings hans. Hafi umboðsmaður skuldara tekið ákvörðun um að ekki væri rétt að bíða lengur með greinargerð til kærunefndar vegna málsins.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Í febrúar 2008 hafi kærandi keypt íbúð að B götu nr. 8 í sveitarfélaginu C. Kaupverðið hafi verið 20.300.000 krónur og hafi kærandi tekið veðlán hjá Íbúðalánasjóði og Byr samtals að fjárhæð 18.270.000 krónur til að fjármagna kaupin. Áætluð mánaðarleg afborgun þessara lána hafi verið 88.000 krónur. Í september 2008 hafi kærandi svo yfirtekið kaupleigusamning vegna bifreiðarinnar Y hjá Íslandsbanka fjármögnun. Fjárhæð samningsins hafi verið 6.685.278 krónur við yfirtökuna. Áætluð mánaðarleg afborgun af samningnum hafi verið um 80.000 krónur. Í október 2008 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 1.020.000 krónur hjá Landsbankanum og í desember 2008 hafi hann tekið lán að fjárhæð 2.647.356 krónur hjá Byr. Að sögn kæranda hafi síðastnefndu lánin verið skuldbreyting á eldri lánum sem hann hafi tekið vegna tekjuleysis. Áætluð mánaðarleg afborgun þessara lána eftir skuldbreytingu hafi verið 48.000 krónur. Samanlagðar afborganir þeirra lána sem kærandi hafi tekið á árinu 2008 hafi samkvæmt þessu verið 216.000 krónur.

Samkvæmt skattframtölum hafi kærandi verið tekjulaus árin fyrir 2008. Í greinargerð kæranda komi fram að hann hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga bílslyss og verið á framfæri foreldra sinna. Á árinu 2007 hafi kærandi fengið skattfrjálsar bætur frá Tryggingamiðstöðinni, eingreiðslu að fjárhæð 6.901.757 krónur. Miðað við lántökur kæranda vegna íbúðarkaupanna á árinu 2008 megi ætla að hann hafi lagt 2.030.000 krónur af eigin fé í íbúðina. Ef horft sé til ofangreindra skuldbreytinga sé líklegt að hann hafi þá þegar verið búinn að ráðstafa tryggingabótunum frá 2007. Verði því ekki séð að kærandi hafi haft möguleika til að standa við neinar af þeim skuldbindingum sem hann hafi stofnað til á árinu 2008 enda hafi hann hvorki verið launþegi né bótaþegi á þeim tíma. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2008 hafi kærandi ekki átt bankainnstæður í lok árs 2008. Samkvæmt framansögðu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi greinilega verið ófær um að standa við þær fjárskuldbindingar sínar á þeim tíma er til þeirra var stofnað.

Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Tekjur og vátryggingabætur kæranda hafa verið þessar samkvæmt skattframtölum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Tekjur kr. 0 0 0 624.000 0 1.456.285 0
Vátrygginga-bætur kr. 0 0 6.901.757 0 0 0 1.419.002

Kærandi hafi stofnað til umtalsverðra skulda á árinu 2008. Samkvæmt greiðslumati Íbúðalánasjóðs vegna kaupa kæranda á fyrrnefndri íbúð hafi kærandi sagt að hann hefði 291.697 krónur í mánaðartekjur og eigi 4.160.000 krónur í eigin fé. Eins og að ofan greini hafi kærandi verið tekjulaus á þessum tíma og árin á undan samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Umboðsmaður skuldara hafi beðið kæranda um skýringar á því hvernig hann hygðist standa við skuldir sínar og hafi umboðsmaður kæranda gefið þá skýringu að kærandi sæi fyrir sér með því að starfa við húsasmíðar. Fjárhagslegar ákvarðanir kæranda hafi byggst á því að hann yrði launamaður en það hafi ekki gengið eftir.

Telja verði að kærandi hafi tekið umtalsverða áhættu með því að stofna til skulda vegna húsnæðis- og bílakaupa á árinu 2008. Geta kæranda til að standa undir skuldunum hafi samkvæmt framansögðu byggst á væntanlegum tekjum af væntanlegri vinnu sem telja verði ámælisvert og áhættusamt. Þá sé það mat umboðsmanns skuldara að sú bifreið er kærandi hafi keypti á árinu 2008 og fjármagnað með yfirtöku á kaupleigusamningi að fjárhæð 6.685.278 krónur geti vart talist hófleg með tilliti til fjárhags kæranda.

Af framangreindum ástæðum þyki óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Umboðsmaður skuldara byggir synjun á heimild til greiðsluaðlögunar á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattskýrslum voru tekjur, eignir og skuldir kæranda á árunum 2005 til 2010 sem hér segir:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Tekjur/bætur alls 6.667 37.500 6.901.757 650.000 0 1.925.000
Meðal ráðst.tekjur á mánuði. 556 3.125 575.146 54.167 0 174.359
Eignir alls: 100.000 95.000 4.344.900 25.037.333 23.868.125 21.677.649
· B gata nr. 8       18.350.000 17.850.000 16.250.000
· Bifreið Z 50.000 45.000        
· Bifhjól U 50.000 50.000        
· Bifreið V     3.300.000      
· Bifreið Þ     1.044.900      
· Bifreið Y       6.685.278 6.016.750 5.415.075
· Bankainnstæður 0 0 0 2.055 1.375 12.574
Skuldir kr. 0 0 4.296.520 27.125.641 38.447.056 41.792.209
Nettóeignastaða kr. 100.000 95.000 48.380 -2.088.308 -14.578.931 -20.114.560

Allar fjárhæðir eru í ISK.

Af þessu verður ráðið að frá árinu 2007 jukust skuldir kæranda jafnt og þétt. Eignir hans jukust einnig en þrátt fyrir það var eignastaða hans neikvæð í sívaxandi mæli frá 2008. Á árunum 2005 til 2007 var eiginfjárstaða kæranda 100.000 krónur eða minna. Kærandi hafði ekki launatekjur frá 2005 til 2009 ef undan er skilið árið 2008. Kærandi var nánast tekjulaus árin 2005, 2006 og 2009 en fékk rúmlega 6.900.000 króna bótagreiðslu á árinu 2007.

Skuldasöfnun kæranda hófst á árinu 2007 er hann keypti tvær bifreiðar með bílalánum. Gögn málsins benda til þess að hann hafi ekkert eigið fé lagt í bifreiðarnar þrátt fyrir að hafa fengið tryggingabætur að fjárhæð rúmar 6.900.000 króna á því ári. Bótafjárhæðin var ekki tiltekin meðal eigna kæranda og kærandi fékk engar fjármagnstekjur vegna þessara fjármuna á árinu 2007. Í byrjun árs 2008 keypti kærandi íbúð fyrir 20.300.000 krónur og tók veðlán að fjárhæð 18.270.000 krónur. Á sama ári keypti hann Chevrolet Suburban bifreið með því að yfirtaka erlent bílalán að fjárhæð 6.685.278 krónur. Í lok ársins var eigið fé kæranda neikvætt um tæpar 2.100.000 krónur og mánaðarlegar meðaltekjur hans voru 54.167 krónur.

Hér má sjá yfirlit yfir lántökur og aðrar skuldir sem kærandi stofnaði til á tímabilinu 2006 til 2011:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil Trygging nú
      fjárhæð kr. kr. frá  
SP-fjármögnun 2006 Bílasamningur 1.396.370 153.680 5.8.2009 Engin
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 14.000.000 21.947.497 1.5.2009 B gata nr. 8
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 2.210.000 3.581.041 1.7.2009 B gata nr. 8
Landsbankinn 2008 Skuldabréf 1.020.000 1.471.448

Íslandsbanki 2008 Bílasamningur 6.685.278 9.261.061 2.10.2009 Y
Byr 2008 Veðskuldabréf 2.060.000 2.994.245 1.2.2010 B gata nr. 8
Byr 2008 Skuldabréf 2.647.356 2.851.780 1.4.2011 Sjálfskáb.
Byr 2009 Yfirdráttur   985.970
Sjálfskáb.
Tollstjóri 2009 Dómsektir 90.042 90.042
Engin
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 11.932 12.221
Engin
Aðrir
Lausaskuldir   656.612
Engin
    Alls kr. 30.120.978 44.005.597    

Á árinu 2008 stofnaði kærandi til skulda að fjárhæð ríflega 28.000.000 króna á sama tíma og mánaðarlegar meðaltekjur hans voru 54.167 krónur. Gögn málsins benda til þess að kærandi hafi greitt 2.030.000 krónur með eigin fé þegar hann keypti íbúðina við B-gata nr. 8 en engar vísbendingar eru um að hann hafi átt meira eigið fé á þeim tíma. Samkvæmt því stofnaði kærandi til mjög mikilla skulda með þeim afleiðingum að eigið fé hans varð neikvætt á sama tíma og hann hafði óverulegar tekjur. Hafði hann því hvorki tekjur til að standa undir greiðslubyrði þeirra lána sem hann tók né eignir til að selja á móti afborgunum lánanna. Að mati kærunefndarinnar var kærandi augljóslega ófær um að standa við þær fjárhagsskuldbindingar sem hann tókst á hendur á árinu 2008.

Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hefur niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Framganga kæranda verður að teljast verulega ámælisverð þegar litið er til þess sem rakið er hér að framan. Einnig er það mat kærunefndarinnar að með því að takast á hendur framangreindar skuldbindingar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Er þar í fyrsta lagi byggt á því að kærandi slasaðist að eigin sögn í bílslysi árið 2005, var óvinnufær af þeim sökum árin 2005 til 2007 og þar af leiðandi tekjulaus. Engu að síður keypti hann íbúð sem var fjármögnuð með 90% lánum í byrjun árs 2008 eða á þeim tíma er hann var að fara út á vinnumarkaðinn á ný eftir veikindi, að því er virðist í trausti þess að hann gæti greitt af lánum sínum með væntanlegum launum. Í öðru lagi tókst kærandi á hendur nefndar skuldir án þess að eiga eignir til að selja ef ráðstöfunartekjur dygðu ekki fyrir afborgunum lánanna.

Með skuldasöfnun sinni telur kærunefndin því að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem fjallað er um í b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hann gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum