Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 169/2013

Mánudaginn 24. febrúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 1. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. október 2013 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 18. ágúst 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 11. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. desember 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. janúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1985 og 1981. Saman eiga þau tvö börn, en fyrir á kærandi A son sem dvelst hjá kærendum aðra hverja viku. Kærendur búa í eigin húsnæði að D götu nr. 15 í sveitarfélaginu E. Kærandi A starfar sem verslunarstjóri hjá X. Mánaðarlegar tekjur hans eftir frádrátt skatta eru að meðaltali 412.523 krónur. Kærandi B starfaði áður sem verslunarstjóri. Tekjur hennar nú eftir frádrátt skatts eru 138.034 krónur. Samtals eru ráðstöfunartekjur kærenda 550.557 krónur á mánuði að frádregnum sköttum og byggist á greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 23. september 2013.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 54.938.732 krónur og eru þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun. Kærandi A er í ábyrgðum fyrir fyrirtæki sitt sem nemur 11.319.400 krónum. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga sinna á árunum 2005‒2010.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til reksturs sólbaðsstofu sem þau réðust í árið 2005. Eftir áralanga baráttu við að halda fyrirtækinu gangandi var rekstrinum hætt í febrúar 2010. Auk þess hækkuðu öll persónuleg lán og framfærsla þeirra.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. ágúst 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. F hdl. var skipuð umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum en G lögfræðingur tók við hennar störfum.

Með bréfi umsjónarmanns 11. júní 2013 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklingar nr. 101/2010 (lge). Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafi staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við staðgreiðsluskrá hafi tekjur kærenda verið 13.710.056 krónur að frádreginni staðgreiðslu og lífeyrissjóðsgreiðslum frá því frestun greiðslna hófst. Vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og barnabætur voru á tímabilinu 612.476 krónur. Samkvæmt nýjustu framfærsluviðmiðum hafi framfærsla kærenda á tímabilinu verið að meðaltali 441.219 krónur. Samtals hafi áætluð framfærsla kærenda því verið 11.471.694 krónur í þá 26 mánuði sem til skoðunar hafi verið. Mismunur tekna og gjalda hafi verið 2.850.838 krónur en kærendur hafi einungis lagt fyrir 300.000 krónur.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 13. ágúst 2013 voru kærendur upplýst um afstöðu skipaðs umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 26. ágúst 2013. Þar greindu kærendur frá ýmsum óvæntum útgjöldum sem þau telja að hafi skert greiðslugetu þeirra verulega.

Með bréfi til kærenda 3. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 18. ágúst 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi 17. október 2013 óskuðu kærendur endurupptöku ákvörðunar um niðurfellingu heimildar til greiðsluaðlögunar. Töldu kærendur forsendur ákvörðunar umboðsmanns skuldara rangar þar sem ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til kostnaðar við rekstur tveggja bifreiða. Með bréfi 18. október 2013 hafnaði umboðsmaður skuldara því annars vegar að ákvörðunin hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.), og hins vegar að ákvörðunin hefði verið haldin verulegum ógildingarannmarka, sbr. 25. gr. ssl.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram kærendur hafi áður verið í sjálfstæðum rekstri en rekstrargrundvöllur fyrirtækis þeirra hafi brugðist árið 2007. Þau hafi misst allt sitt í kjölfarið og árið 2008 hafi aðstæður þeirra versnað enn frekar. Telja kærendur að gengið sé harðar fram gegn þeim en öðrum þar sem þau séu berskjaldaðri en aðrir. Þau hafi ekki aðeins misst fyrirtæki sitt heldur líka vinnuna og getu til framfærslu.

Kærandi B hafi verið í námi og starfsendurhæfingu þar sem hún hafi misst starf sitt. Ekki hefði verið mögulegt fyrir hana að þiggja endurhæfinguna ef kærendur hefðu aðeins haft eina bifreið til afnota þar sem þau búi í útjaðri borgarinnar þar sem almenningssamgöngur séu mjög takmarkaðar. Þetta hafi verið með fullri vitund og vilja umsjónarmanns en framfærslukostnaður þeirra í útreikningum umboðsmanns skuldara hafi ekki tekið tillit til þess. Kærendur telja að þeim hafi ekki verið gert ljóst að kostnaður við menntun og starfsendurhæfingu kæranda B myndi ekki verða tekinn til greina sem framfærslukostnaður. Telja kærendur að þar með hafi starfsmenn umboðsmanns skuldara látið hjá líða að sinna leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. ssl.

Kærendur krefjast þess að tekið verði tillit til aukins kostnaðar og að ekki verði litið svo á að námslán greiði kostnað við bifreið, skólagjöld, gleraugu og tölvur ásamt öðrum kostnaði sem til fellur vegna náms. Kærendur telja að samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga eigi kostnaður vegna náms og starfsendurhæfingar kæranda B að teljast hluti framfærslukostnaðar. Að vísu sé gert ráð fyrir því að hluti námslána fari til reksturs bifreiðar en miðað við bifreiðakostnað kærenda færu tveir þriðju hlutar námslánsins í þann kostnað. Að mati kærenda sé það ekki sanngjörn ákvörðun og ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Það hafi verið fyrst 3. október 2013 sem kærendum hafi verið ljóst að leið menntunar og starfendurhæfingar væri þeim ekki til hagsbóta í greiðsluskjóli. Fyrir það sé þeim refsað í framfærsluútreikningum. Hið sama eigi við um kaup á gleraugum og tannlæknaþjónustu. Kærendur telja að þau hafi sýnt fram á einlægan greiðsluvilja í greiðsluskjóli og fara þau fram á að kostnaður vegna skólagjalda, gleraugna og rekstur tveggja bifreiða verði endurskoðaður. Annars sé hvorki verið að gæta meðalhófs- né jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Kærendur telja einnig að mál þeirra hafi ekki verið rannsakað að fullu. Vísa kærendur til dóms Hæstaréttar í máli nr. 489/2013 þar sem farið var fram á ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um lögmæti skuldabréfalána með verðtryggingarákvæði en kærendur skuldi slíkt lán hjá Íbúðalánasjóði. Að mati kærenda sé það eðlilegt að þau njóti vafans þar sem um friðhelgi heimilisins sé að ræða og því mannréttindabrot að vísa þeim úr greiðsluskjóli á meðan ekki sé vitað um lögmæti fyrrnefndra lána. Þau hafi enn ekki fengið uppgjör vegna bifreiðalána vegna tveggja bifreiða sem teknar hafi verið af þeim meðan þau nutu greiðsluskjóls. Þetta hafi gert þeim mjög erfitt fyrir þar sem kostnaður við rekstur eldri bifreiða hafi verið mjög mikill. Telja kærendur að þau hafi verið rænd greiðsluskjólinu og leigufyrirtækin hafi haft af þeim bifreiðarnar með fölsunum og rangindum. Af þeim sökum hafi kærendur þurft að reka tvo ónýta bíla, en hefðu mögulega komist af með einn góðan bíl.

Að mati kærenda hafi það verið mannréttindabrot að veita þeim ekki tækifæri til greiðsluaðlögunar þar sem umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að kanna stöðu lána kærenda á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Umboðsmaður skuldara víki sér undan því að gæta hagsmuna þeirra og veita þeim viðeigandi aðstoð. Kærendur hafi ekki fengið heildarsýn yfir fjármál sín og engra leiða verið leitað til lausna á þeim. Þá telja þau að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi byggst um of á þrasi um nótur og kvittanir og skort hafi heildarsýn á þörfum fjölskyldunnar.

Kærendur telja að nái greiðsluaðlögun ekki fram að ganga hafi umboðsmaður skuldara svikið þau þar sem ekkert af lánum þeirra standist kröfur laga um neytendalán nr. 121/1994. Þá telja kærendur að á skorti að umboðsmaður skuldara hafi rökstutt mat sitt á því að ákvörðun embættisins sé ekki ógildanleg. Vísa kærendur til 20. gr. stjórnsýslulaga sem fjallar um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. þessu til stuðnings. Hér sé um friðhelgi fjölskyldunnar að tefla og því eðlilegt að stjórnvald vinni samkvæmt því annars sé um mannréttindabrot að ræða og starfsmenn umboðsmanns skuldara séu persónulega ábyrgir gagnvart Alþjóðadómstólnum í Haag á grundvelli ákvæða Rómarsamningsins. Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun í málinu án þess að takast á við álitamál er varði ólögmæti krafna. Verið sé að senda þau í þrældóm, flæma þau út af heimili sínu með ólögmætum hætti og valda þeim verulegum andlegum og líkamlegum skaða. Þá telja kærendur að verið sé að neita þeim um grundvallarmannréttindi eins og að fá að ljúka námi og fara í starfsendurhæfingu. Að mati kærenda sé verið að útskúfa þeim úr samfélaginu fyrir það eitt að hafa verið í rekstri fyrirtækis sem fór illa.

Kærendur hafi sýnt einlægan greiðsluvilja en þau hafi ekki haft tækifæri til að leggja til hliðar fjármuni fyrr en á lokamánuðum greiðsluskjóls.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt útreikningum og áætlun embættisins hafi kærendur átt að geta lagt til hliðar 3.083.869 krónur. Kærendur hafi lagt fyrir umsjónarmann kvittanir og skýringar á kostnaði fyrir samtals 681.376 krónum.

Kærendur lögðu fram frekari gögn 26. ágúst 2013. Þetta voru kvittanir vegna lækniskostnaðar, fatnaðar, bílaviðgerða og viðhalds. Meðal gagnanna hafi verið kvittanir vegna lækniskostnaðar, samtals að fjárhæð 20.890 krónur, sem dagsettar voru í ágúst 2013 eða utan þess tímabils sem um ræði. Því hafi ekki verið tekið tillit til þeirra. Kærendur hafi lagt fram kvittanir vegna lækniskostnaðar sem greiddur var á tímabilinu, samtals að fjárhæð 11.910 krónur, auk tannlæknakostnaðar að fjárhæð 30.050 krónur. Samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara sé gert ráð fyrir 102.732 króna kostnaði vegna læknis- og lyfjakostnaði frá janúar til júní 2013. Umræddur kostnaður falli því innan þeirra viðmiða sem áætluð séu.

Kærendur hafi einnig lagt fram kvittanir vegna bifreiðaviðgerða en það sé kostnaður sem gert sé ráð fyrir í framfærsluviðmiðum. Umræddar kvittanir hafi í flestum tilvikum verið gefnar út á nafn móður annars kæranda. Þá hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna kaupa á fatnaði og viðhalds á tölvubúnaði sem einnig sé gert ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Kærendur hafi enn fremur talið að samskiptakostnaður, rafmagn, hita- og fráveitukostnaður væri hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Kærendur hafi ekki fært sérstök rök fyrir þessu né sýnt fram á gögn þess efnis. Því hafi ekki verið tekið tillit til þess kostnaðar.

Sé lagt til grundvallar að kærendur greiði 20.000 krónur í hússjóð, rafmagn og hita, og einnig tekið tillit til þess að kærendur greiði 6.974 krónur fyrir öryggiskerfi, reiknist greiðslugeta þeirra 95.497 krónur mánaðarlega, í stað 106.340 króna. Muni því 314.447 krónum á tímabilinu.

Kærendur hafi einnig haldið fram að frekari kostnaður hafi fallið til vegna reksturs bifreiðar á tímabilinu vegna þess að þau hafi fengið lánaða bifreið, sem þau hafi síðar eignast. Þau kveðast hafa rekið tvær bifreiðar á tímabili. Hafi þau að eigin sögn greitt móður kæranda B 50.000 krónur fyrir lánið á bifreiðinni og keypt hana síðan á 100.000 krónur. Kærendur hafi engin gögn lagt fram þessu til stuðnings og þau hafi ekki verið skráð eigendur umræddrar bifreiðar. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir auknum kostnaði kærenda vegna reksturs annarrar bifreiðar og náms kæranda B, verði talið að útgreidd lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna á tímabilinu, alls 1.722.480 krónur, hafi dugað til að mæta umræddum kostnaði en námslánin hafi ekki verið tekin inn í útreikning á heildartekjum kærenda.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að geta lagt til hliðar 2.769.422 krónur sé miðað við uppfærða greiðsluáætlun 23. september 2013 að frádregnum 681.376 krónum vegna framlagðra reikninga vegna útlagðs kostnaðar sem umsjónarmaður hafi þegar tekið tillit til. Eftir standi 2.088.046 krónur en kærendur hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu.

Þann 27. nóvember 2012 hafi umboðsmaður skuldara sent öllum þeim umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna bréf þar sem gerð hafi verið grein fyrir skyldum þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt úrskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi með umsjónarmanni. Einnig hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. ágúst 2011 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur því átt að vita um skyldur sínar til að halda eftir þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu um hver mánaðamót til að nýta þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld úr gildi með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu þeirra á sama tíma og þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að heimila þeim greiðsluaðlögun lá fyrir. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt tilkynningu umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 11. júní 2013 um mögulega niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda nam sparnaður þeirra 300.000 krónum. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. október 2013 kemur fram að sparnaður þeirra sé enginn. Í kæru kemur fram að kærendur hafi ekki haft tækifæri til að leggja fjármuni til hliðar. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja til hliðar 2.088.046 krónur á því tímabili sem um ræðir samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 18. ágúst 2011.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar fylgdi greiðsluáætlun en þar kemur fram að greiðslugeta kærenda á mánuði hafi verið 324.395 krónur. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara, þar sem lagt er til að heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður, kemur fram að greiðslugeta kærenda sé 109.648 krónur á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kærenda ætti að vera um 95.497 krónur á mánuði.

Á sama tíma og kærendur nutu greiðsluskjóls tók kærandi B námslán að fjárhæð 1.950.480 krónur, þar af voru 1.722.480 krónur lánaðar til framfærslu kæranda á námstíma. Umboðsmaður skuldara reiknaði framfærsluhluta námslánsins ekki til framfærslu kærenda. Samkvæmt 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992 skal námslán standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur. Þrátt fyrir að hér sé um lán að ræða en ekki tekjur eða bætur kæranda verður að fallast á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að lán kæranda sem tekið er á þeim forsendum að standa straum af framfærslu á tímabili greiðsluaðlögunar sé þá ráðstafað til framfærslu. Framfærslulán á því að reiknast til framfærslu í greiðsluáætlun sem eðli málsins samkvæmt hefur þau áhrif að kærendur hafa væntanlega meiri fjármuni til ráðstöfunar í samningsumleitunum við kröfuhafa.

Samkvæmt framangreindum forsendum bar kærendum að leggja til hliðar samtals 3.810.526 krónur á því tímabili sem hér er til umfjöllunar. Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara og kæru að sparnaður kærenda sé enginn. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til viðbótar samgöngukostnaðar kærenda vegna náms kæranda B á tímabilinu sem nam 1.037.034 krónur að sögn kærenda er ljóst að talsvert vantar enn upp á sparnað kærenda.

Með vísan til alls framangreinds fellst kærunefndin á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá er það mat kærunefndar að málið hafi verið nægilega rannsakað af hálfu umboðsmanns skuldara, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 5. gr. lge., enda hafi allar nauðsynlegar upplýsingar um hagi kæranda legið fyrir í gögnum málsins varðandi þá skyldu að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin telur því að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum