Hoppa yfir valmynd
12. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2012

Fimmtudaginn 12. desember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 17. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2012 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 24. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. mars 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 28. nóvember 2012 bárust viðbótargögn frá kæranda sem voru send umboðsmanni skuldara með bréfi sama dag.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 61 árs. Hann er einhleypur og býr í eigin húsnæði að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C. Fimmtán ára sonur kæranda dvelur hjá honum aðra hverja viku.

Kærandi er öryrki og fær lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Áður var kærandi með eigin atvinnurekstur í byggingariðnaði. Greiðslur til kæranda nema að meðaltali 238.386 krónum á mánuði. Að meðtöldum vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu nema tekjur til framfærslu 283.551 krónu á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er tekið fram að ekki sé hægt að gera ráð fyrir sömu greiðslum vegna vaxtabóta á næsta ári þar sem þá verði einungis greiddar vaxtabætur af greiddum vaxtagjöldum.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til afleiðinga efnahagshrunsins 2008. Kærandi var með atvinnurekstur en rekstrargrundvöllur hans brast við hrunið. Ábyrgðir vegna rekstrar féllu í kjölfarið á hann. Kærandi missti þar með vinnuna, en fékk síðar pláss á sjó. Eftir tvo mánuði í starfi á sjó varð hann óvinnufær eftir að hafa fengið hjartaáfall. Af heilsufarsástæðum sér kærandi ekki fram á að geta aukið tekjur sínar frekar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema 28.203.287 krónum og þar af falla 30.000 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Helstu skuldir eru veðkröfur sem til var stofnað við kaup á núverandi húsnæði árið 2004. Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga þeirra sem kærandi hefur undirgengist nemur 7.651.778 krónum.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 13. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru bendir kærandi á að málið varði hann sjálfan og fyrirtækinX ehf. og Y ehf. sem kærandi var í ábyrgð fyrir. Öll opinber gjöld sem hvíli á kæranda og fyrirtækjunum séu ekki rauntölur heldur áætlun. Kærandi segir að það muni verða leiðrétt með skattskýrslum.

Kærandi fer fram á að málið verði endurskoðað af þessari ástæðu.

Þann 28. nóvember bárust viðbótargögn frá kæranda en þar er um að ræða yfirlit frá ríkisskattstjóra 27. nóvember 2012.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. hennar kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður þær sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Umboðsmaður skuldara færir rök fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í d- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. sé lýst þeim aðstæðum þegar skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í máli kæranda liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félagi þar sem kærandi gegndi stöðu framkvæmdastjóra og prókúruhafa. Þá sé ljóst að hluti skattskuldanna felist í ógreiddum virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna vanskila á umræddum sköttum.

Af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að X ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 1.884.905 krónur og staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 7.001.816 krónur. Samanlagðar nemi þessar skuldir 8.886.721 krónu. Skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda sé frá tímabilinu 2008–2010 og sé hún byggð á áætlun. Virðisaukaskattur frá árinu 2007, 1.065.465 krónur, sé byggður á álagningu en sá hluti skuldarinnar sem stafi frá árinu 2009 sé byggður á áætlun, alls 505.797 krónur.

Af skuldayfirliti kæranda verði ráðið að fjárhagur hans sé takmarkaður vegna umtalsverðra skuldbindinga. Heildarskuldir hans nemi 28.203.287 krónum en að auki hvíli á honum ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 27.379.928 krónur. Eignir kæranda séu fasteignin B gata nr. 1 en verðmæti hennar sé 17.050.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Kærandi hafi fengið samþykkta 110% leiðréttingu veðlána og því ljóst að eignin sé fullveðsett. Eignastaða kæranda sé því neikvæð.

Að mati umboðsmanns skuldara verði ekki komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á kæranda sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa í nefndu einkahlutafélagi til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir virðisaukaskattskuldanna verulega háar auk þess sem ljóst sé að eignastaða kæranda sé mjög neikvæð og fjárhagur hans erfiður. Þyki þannig ófært að líta svo á að skuldbindingarnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að X ehf. skuldi þing- og sveitarsjóðsgjöld vegna áranna 2009 og 2010, samtals 15.040.897 krónur, bifreiðagjald að fjárhæð 103.278 krónur og gjald vegna óskoðaðra ökutækja að fjárhæð 15.000 krónur. Einnig skuldi Y ehf., en kærandi hafi verið prókúruhafi í því félagi, bifreiðagjöld að fjárhæð 24.092 krónur. Samanlagðar nemi skuldir þessar 15.183.267 krónum. Bæði félög hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta. Kröfur þessar séu opinber gjöld sem ætlað sé að standa undir samneyslu og því verði talið ámælisvert að standa ekki í skilum með svo háar fjárhæðir.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra nemi heildarskuldir X ehf. og Y ehf. vegna vangoldinna skatta og opinberra gjalda 24.285.819 krónum. Jafnframt hafi kærandi ábyrgst tvö lán í Arion banka hf. sem rekja megi til rekstrar. Fjárhæðir ábyrgða nemi því alls 27.379.928 krónum. Fjárhæð ábyrgða vegna rekstrar sé nánast jafnhá öllum persónulegum skuldum kæranda, en fjárhæð þeirra nemi 28.203.287 krónum samkvæmt skuldayfirliti. Skuldir vegna rekstrar nemi þannig 49% af heildarskuldum kæranda.

Það sé mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sé skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Jafnframt sé fjárhæð ógreiddra opinberra gjalda vegna félaga sem kærandi var í forsvari fyrir metin óhófleg. Því sé óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 er tekin afstaða til fullyrðinga sem koma fram í kæru kæranda. Í kærunni sé greint frá því að verið sé að vinna í því að láta endurskoða álagningu opinberra gjalda á félögin. Þá segi einnig að öll opinber gjöld sem hvíli á kæranda og fyrirtækinu séu ekki rauntölur heldur áætlun. Í framhaldi af þessu bendir umboðsmaður skuldara á að hin kærða ákvörðun hafi byggst á því að félög, sem kærandi var í forsvari fyrir, hafi skuldað verulegar fjárhæðir vegna vangoldinna opinberra gjalda. Í ákvörðuninni sé tekið fram hvaða hlutar skuldanna séu tilkomnir vegna áætlunar, miðað við gögn frá Tollstjóra. Sú fjárhæð sem ekki sé byggð á áætlun verði að teljast umtalsverð þótt hún sé minnihluti heildarskuldar félagins vegna opinberra gjalda. Nánar tiltekið sé þetta skuld X ehf. vegna vangoldins virðisaukaskatts frá 2007 að fjárhæð 1.065.465 krónur. Á þessu hafi verið byggt í ákvörðuninni enda hafi upplýsingar í gögnum frá Tollstjóra ekki bent til annars en að um álagningu samkvæmt framtölum frá félaginu sjálfu væri að ræða. Ekki hafi þótt ástæða til að ætla að upplýsingarnar sem þar komu fram væru umdeildar enda um að ræða upplýsingar frá opinberri stofnun sem að jafnaði megi gera ráð fyrir að séu réttar. Því hafi verið byggt á þeim án þess að óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum varðandi þessi atriði frá kæranda þar sem umboðsmaður skuldara hafi talið að þær gætu í engu breytt niðurstöðu málsins.

Í hinni kærðu ákvörðun sé greint frá því hvernig ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið beitt í framkvæmd. Áréttar umboðsmaður skuldara að þegar svo hátti til að kærandi sé fyrirsvarsmaður félags, sem ekki hafi staðið skil á vörslusköttum, sé litið svo á að hann hafi bakað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðar refsingu. Sú háttsemi að fyrirsvarsmaður standi ekki skil á vörslusköttum, þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti á réttum tíma, varði refsingu, sbr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Dæmi úr réttarframkvæmd þessara ákvæða í refsimáli megi til dæmis sjá í dómi Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í máli nr. 71/2010. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 31. ágúst 2011 í máli nr. 10/2010 hafi nefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun umsóknar um greiðsluaðlögun vegna sambærilegra atvika og séu uppi í þessu máli.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 13/2011 bendi nefndin á að kröfur af þessu tagi séu þess eðlis að líta verði til þeirra sjónarmiða sem búi að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. að um sé að ræða opinber gjöld eða greiðslur í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar. Þau félög sem kærandi hafi verið í forsvari fyrir hafi skuldað verulegar fjárhæðir vegna vangoldinna opinberra gjalda eða skatta, eða samtals 24.285.819 krónur. Þau sjónarmið sem kærunefndin hafi reifað varðandi g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í umræddum úrskurði mæli gegn því að ákvörðun umboðsmanns skuldara í þessu máli verði felld úr gildi.

Umboðsmaður skuldara bendir á að ekki virðist hafa verið lögð fram gögn fyrir nefndina sem styðji það að umræddar skuldir vegna opinberra gjalda muni lækka, þrátt fyrir að í kæru segi að verið sé að leitast eftir því að fá þær lækkaðar. Ekki verði séð að umboðsmanni skuldara beri að óska eftir frekari gögnum hjá kæranda eða hjá ríkisskattstjóra vegna þessarar athugasemdar í kæru, enda sé málið nú á borði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Umboðsmaður skuldara taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu eftir að hafa fengið send viðbótargögn sem kærandi sendi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála 28. nóvember 2012.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á d- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í g-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðslu­aðlögunar nái til þeirra.

Óumdeilt er að kærandi var framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins X ehf. á þeim tíma er hér skiptir máli. Einnig var kærandi prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins Y ehf. á því tímabili er máli skiptir. Á honum hvíldi því sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, þ.e. að sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að félög, sem kærandi var í forsvari fyrir, hafi skuldað verulegar fjárhæðir vegna vangoldinna opinberra gjalda. Kærandi hafi því bakað sér skuldbindingu, sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Jafnframt var fjárhæð ógreiddra opinberra gjalda vegna félaga sem kærandi var í forsvari fyrir metin óhófleg. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til eru vangoldnir vörsluskattar. Nánar tiltekið sé um að ræða virðisaukaskatt að fjárhæð 1.884.905 krónur og vanskil á staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 7.001.816 krónur. Samtals nemi þessar skuldir 8.886.721 krónu.

Í kæru kemur fram að opinber gjöld sem hvíla á kæranda og fyrirtækjum hans séu ekki rauntölur heldur áætlanir sem verði leiðréttar með skattskýrslum. Undir rekstri málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram yfirlit frá Tollstjóranum í Reykjavík sem sýna fram á að á X ehf. er ekki í vanskilum með opinber gjöld og Y ehf. skuldar 27.424 krónur. Yfirlitin eru dagsett 27. nóvember 2013.

Samkvæmt upplýsingum sem kærunefndin aflaði frá tollstjóraembættinu voru skuldir X ehf. og Y ehf. afskrifaðar úr greiðslukerfi embættisins vegna gjaldþrots félaganna. Þá hafi embættinu ekki borist tilkynningar frá Ríkisskattstjóra um leiðréttar áætlanir á skattskilum umræddra félaga.

Í ljósi þess að kærandi heldur því fram að skattaskuldir umræddra félaga hafi verið leiðréttar óskaði nefndin þess að kærandi legði fram gögn þessu til stuðnings. Kærandi varð ekki við þeirri beiðni. Úrskurður kærunefndarinnar verður ekki byggður á öðru en fyrirliggjandi gögnum. 

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins var eigna- og skuldastaða kæranda eftirfarandi árin 2007–2010:

  2007 2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur á mán. kr. 503.671 390.367 235.173 262.218
Skuldir alls kr. 16.898.562 19.545.946 23.953.088 26.949.962
Inneignir kr. 2.018 3.624 215.944 78.468
Hlutabréf o.fl. kr. 250.000 500.000 500.000 500.000
Ökutæki kr. 729.696 656.726 840.780 756.702
Fasteign kr. 20.420.000 20.420.000 18.800.000 17.050.000
Eignir alls kr. 21.401.714 21.580.350 20.356.724 18.385.170
Nettóeignastaða kr. 4.503.152 2.034.404 -3.596.364 -8.564.792

Samkvæmt framangreindu var skuldastaða kæranda neikvæð frá árinu 2009. Kærandi bar ábyrgð á því að félög, sem hann var í fyrirsvari fyrir, stæðu skil á tilgreindum sköttum að viðlagðri sekt eða fangelsisrefsingu. Þar er um að ræða vörsluskatta að fjárhæð 8.886.721 króna. Fjárhæð þessi nemur 31,5% af heildarskuldum kæranda utan ábyrgðarskuldbindinga. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem kærandi stofnaði til sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu það verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum