Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2012

Fimmtudagurinn 28. nóvember 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. desember 2011 þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 14. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. maí 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 3. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 10. janúar 2011. Kærendur eru gift með tvö börn. Þau fluttu til Íslands frá Danmörku í desember 2006 en fluttu aftur til Danmerkur í júlí 2009 og búa þar enn. Að sögn kærenda búa þau í leiguhúsnæði. Þegar þau voru búsett hér á landi starfaði kærandi A hjá X og stundaði nám. Kærandi B starfaði sem sölumaður.

Útborguð mánaðarleg laun kæranda B eru 18.400 danskar krónur sem svarar 395.323 íslenskum krónum miðað við gengi 1. desember 2011. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda A en fram kemur í umsókn að hún hafi lokið leikskólakennaranámi og sé í atvinnuleit í Danmörku.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar kæranda B, en innflutningsfyrirtæki hans lenti í erfiðleikum í kjölfar hækkunar á gengi erlendra gjaldmiðla. Einnig hafi kærendur keypt íbúð með 100% láni án þess að hafa haft fjárhagslegt bolmagn til þess þar sem þau hafi bæði verið á lágmarkslaunum. Loks segjast kærendur hafa gert ítrekuð mistök í bílaviðskiptum vegna vanþekkingar og vanhæfni þeirra í fjármálum.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 40.467.136 krónur og þar af falla 2.994.983 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skulda var stofnað á árunum 2007 til 2009.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2011 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að umboðsmaður skuldara samþykki beiðni þeirra um greiðsluaðlögun.

Að sögn kærenda hafi þau gengið í gegnum erfiðleika vegna þeirra aðstæðna sem þau hafi staðið frammi fyrir. Kærandi B hafi farið til Danmerkur í atvinnuleit haustið 2008 en kærandi A hafi orðið eftir á Íslandi til að ljúka námi sínu. Þau hafi reynt eins og þau gátu að halda heimili á Íslandi og B hafi ferðast fram og til baka. Þetta hafi ekki gengið upp meðal annars vegna kostnaðar og þeirrar óvissu sem hafi skapast við þessar kringumstæður. Þá hafi þau tekið þá erfiðu ákvörðun að A og börnin flyttu til B í Danmörku þó að það hefði í för með sér erfiðleika fyrir börnin þar sem þau hafi verið rifin úr skóla og misst tengsl við vini og fjölskyldu. Kærendur verði að halda heimili vegna barnanna og þau hafi reynt að koma sér eins vel fyrir og þau geti miðað við aðstæður.

Í kæru greina kærendur frá því að A hafi verið í tímabundnu starfi síðastliðna níu mánuði en starfinu ljúki í næsta mánuði. Hún muni í framhaldinu leita að afleysingarstarfi en það hafi í för með sér að ráðning sé aldrei til lengri tíma en 12 mánaða. Kærandi B hafi eins mánaðar uppsagnarfrest í sínu starfi en uppsagnarfrestur sé svo stuttur að eigin ósk til að hann geti látið af störfum með skömmum fyrirvara ef þess þurfi.

Kærendur greina einnig frá því að þegar þau hafi óskað greiðsluaðlögunar hafi íbúðarlán þeirra verið langt umfram verðmæti íbúðarinnar og því hafi þau ekki séð fram á að geta haldið henni. Með því að þau hafi fengið samþykkta svokallaða 110% leið hafi aðstæður varðandi íbúðina breyst. Þau sjái nú fram á að geta borgað af íbúðinni og hafi því hug á að eiga hana áfram. Þessum upplýsingum hafi þau komið til umboðsmanns skuldara en þær hafi ekki verið lagðar með gögnum málsins frekar en önnur gögn sem þau hafi sent embættinu undanfarna mánuði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sé umboðsmanni skuldara skylt að synja um greiðsluaðlögun ef aðstæður þær sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins eru fyrir hendi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Tekið er fram að víkja megi frá skilyrðinu við tvenns konar aðstæður sem lýst sé annars vegar í a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. og hins vegar í b-lið 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið komi fram að víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili. Samkvæmt b-lið 4. mgr. 2. gr. lge. megi einnig víkja frá skilyrðinu ef greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíli á fasteign hér á landi enda sé eigandi hennar einungis tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt.

Í gögnum málsins komi fram að kærendur hafi flust búferlum til Danmerkur með breytingu á lögheimili 15. október 2008 annars vegar og 1. júlí 2009 hins vegar. Að sögn kærenda hafi þau komið sér fyrir í Danmörku. Kærandi B sé þar í fastri vinnu og kærandinn A sé í atvinnuleit í Danmörku. Þau greini annars vegar frá því að þau stefni að því að selja íbúð sína á Íslandi til að losna við skuldbindingar henni tengdar. Hins vegar hafi þau svarað fyrirspurn frá umboðsmanni um framtíðarhorfur og búsetu á þann veg að þau vilji eiga íbúðina til að nýta þegar þau komi aftur til Íslands sem verði þó ekki í bráð.

Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Samkvæmt því sem fram komi í greinargerð kærenda og greint er frá hér að framan verði að telja að búseta þeirra sé ekki tímabundin vegna atvinnuleitar. Undir rekstri málsins hafi kærendur lagt fram ótímabundinn ráðningarsamning kæranda B og tímabundinn ráðningarsamning kæranda A sem sé útrunninn. Fram komi í kæru að hún hyggist nú leita sér að afleysingarstarfi. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn er sýni fram á að um tímabundna búsetu sé að ræða vegna náms eða veikinda. Þar sem 4. mgr. 2. gr. lge. sé undantekning frá meginreglunni verði að gera þær kröfur til kærenda að þau skýri með fullnægjandi hætti aðstæður tímabundinnar búsetu erlendis og leggi fram viðeigandi gögn því til stuðnings.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat umboðsmanns að kærendur uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur eigi lögheimili og búi og starfi í Danmörku. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda í Danmörku sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til að skýra hugtakið „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Þá telur nefndin ekki fullnægjandi í þessu sambandi að skuldari lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau búa nú í Danmörku og hafa verið með skráð lögheimili þar síðan 15. október 2008 annars vegar og 1. júlí 2009 hins vegar. Kærandi B hefur þar fasta atvinnu og kærandi A hefur unnið afleysingastörf og hefur hug á gera það áfram. Ekki er unnt að skilja málatilbúnað kærenda á annan hátt en að þau telji atvinnumöguleika sína betri í Danmörku en á Íslandi. Einnig hafa kærendur lýst því hve erfitt það hafi verið fyrir fjölskylduna, ekki síst börn þeirra, að flytjast búferlum á milli landa og verður af gögnum málsins ráðið að þau hyggi ekki á slíka flutninga í bráð. Að lokum verður að líta til þess að kærendur hafa ekki stutt staðhæfingu sína um tímabundna búsetu neinum gögnum.

Með hliðsjón af atvikum málsins og eins og lögum er háttað er niðurstaða kærunefndarinnar sú að ekki verði hjá því komist að staðfesta ákvörðun umboðsmanns um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum