Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2012

Mánudaginn 20. janúar 2014


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 10. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. desember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 20. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 15. mars 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 25 ára og hefur samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá lögheimili að B.

Kærandi þiggur greiðslur frá Einingu-Iðju sjúkrasjóði og Sjúkratryggingum Íslands. Útborguð fjárhæð er 97.535 krónur á mánuði. Einnig hefur kærandi húsaleigutekjur af fasteign sinni að C götu, en þær nema 125.610 krónum á mánuði að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Kærandi hefur enn fremur fengið greiddar vaxtabætur að meðaltali 33.333 krónur á mánuði auk 13.184 króna í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Á árinu 2007 keypti kærandi íbúð fyrir 26.400.000 krónur. Hún tók lán alls að fjárhæð 24.860.000 krónur til kaupanna og lán að fjárhæð 2.000.000 króna að eigin sögn til framkvæmda á íbúðinni. Alls námu lántökur kæranda því 26.860.000 krónum. Í lok ársins 2007 varð kærandi fyrir launalækkun þegar hún hætti störfum á dvalarheimili fyrir aldraða af persónulegum ástæðum. Frá þeim tíma hefur kærandi glímt við atvinnuleysi og veikindi. Af þeim sökum hafa vanskil hlaðist upp þar sem kærandi hefur ekki getað staðið skil á afborgunum lána.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 42.750.776 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga stofnaði kærandi við íbúðarkaupin árið 2007.

Samkvæmt gögnum málsins eru ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 7.760.641 króna orðnar virkar á hendur kæranda. Umboðsmaður skuldara gerir fyrirvara við þá fjárhæð þar sem embættið metur ábyrgðarskuldbindingu að fjárhæð 3.357.554 krónur ógilda.

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali, eignir og skuldir hafa samkvæmt gögnum málsins verið eftirfarandi:

  2006 2007 2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur kr. 152.359 160.537 86.787 76.519 147.282
Skuldir alls kr. 0 27.993.338 20.960.368 31.481.288 34.235.384
Inneignir o.fl. kr. 0 5.290 37.553 15.875 50.022
Ökutæki kr. 0 290.000 261.000 234.900 0
Fasteignir kr. 0 28.395.000 28.395.000 25.050.000 20.850.000
Eignir alls kr. 0 28.690.290 28.693.553 25.300.775 20.900.022
Nettóeignastaða kr. 0 696.952 7.733.185 -6.180.513 -13.335.362

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 3. september 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. desember 2011 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi. Kærandi rökstyður kröfu sína ekki.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við matið skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. Einnig skuli umboðsmaður kanna hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Af skattframtali vegna tekjuársins 2007 verði ráðið að í mars það ár hafi kærandi fest kaup á íbúð að C götu nr. 1‒5 í sveitarfélaginu D. Kaupverð hafi verið 26.400.000 krónur. Kaupin og framkvæmdir á íbúðinni hafi kærandi fjármagnað með lánum en 2.500.000 krónur kveðst kærandi hafa fjármagnað með sparifé sínu.

Lántökur kæranda voru þessar:

Dags. Lánveitandi Fjárhæð Greiðslubyrði Uppsöfnuð
lántöku   láns kr. láns* kr. greiðslubyrði kr.
29.3.2007 ÞG-Verk ehf. 4.140.000 35.000 35.000
4.4.2007 Íbúðalánasjóður 17.000.000 80.380 115.380
13.4.2007 SPRON 3.720.000 21.000 136.380
13.12.2007 SPRON 2.000.000 73.000 209.380
  Lán samtals 26.860.000    

*Miðað er við mánaðarlega greiðslubyrði og er hún varlega áætluð.

Samanlögð greiðslubyrði lána sem kærandi tók strax við kaupin hafi þannig numið 136.380 krónum á mánuði. Þegar greiðslubyrði síðasta lánsins, sem tekið var vegna framkvæmda á íbúðinni, hafi bæst við hafi mánaðarleg greiðslubyrði verið orðin 209.380 krónur. Hafi kæranda reynst ófært að halda lánunum í skilum og hafi svo farið að nauðungarsölu var krafist á íbúðinni. Framhaldssala skyldi fara fram 7. september 2010 en uppboðsbeiðnir hafi verið afturkallaðar fyrir tilstilli umboðsmanns skuldara.

Nú nemi eftirstöðvar ofangreindra lána 41.939.892 krónum en verðmæti eignarinnar sé 20.850.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Að auki hvíli talsverðar lögveðskröfur á eigninni.

Í lok ársins 2007 hafi kærandi einnig átt bifreiðina E en verðmæti hennar hafi verið 290.000 krónur samkvæmt skattframtali.

Á árinu 2007 hafi launagreiðendur kæranda verið X, Y ehf. og Z  ehf. Af greinargerð kæranda verði ráðið að helsta starf hennar á því ári hafi falist í umönnun aldraðra. Því starfi hafi hún sagt upp í lok árs 2007 af persónulegum ástæðum og hafi síðan reynst erfitt að verða sér úti um fast starf.

Mánaðarlegar launatekjur kæranda hafi að meðaltali verið þessar:

Ár Tekjur kr.
2007 154.165
2008 94.154
2009 20.579

Í tölvupósti sem starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi sent kæranda 20. september 2011 hafi verið óskað eftir skýringum kæranda á því hvernig hún hafi getað haldið fasteignalánum í skilum fram í september 2009. Í svari sínu greini kærandi frá því að hún hafi leigt föður sínum hluta íbúðar sinnar vegna atvinnurekstrar hans. Þrátt fyrir þetta séu fjármagnstekjur kæranda samkvæmt skattframtölum einungis vaxtatekjur á árunum 2007 og 2008. Þær nemi 1.628 krónum á árinu 2007 og 1.774 krónum á árinu 2008. Samkvæmt skattframtali hafi kærandi engar fjármagnstekjur haft á árinu 2009.

Ljóst þyki að tekjur kæranda á árinu 2007 hafi verið lágar og fremur ótryggar. Sé tekið mið af tekjum kæranda verði ekki séð að hún hafi haft greiðslugetu til að standa skil á skuldbindingum sínum vegna íbúðarkaupanna auk þess að standa undir framfærslukostnaði. Neysluviðmið hafi verið 44.500 krónur á mánuði miðað við einstakling og kostnaður við rekstur bifreiðar hafi verið 30.000 krónur á mánuði. Samtals hafi því framfærslukostnaður kæranda numið 74.500 krónum á mánuði. Telja verði að fjárhagserfiðleikar kæranda séu að mestu leyti vegna skuldbindinga sem hún hafi tekist á hendur á þeim tíma er hún var ófær um að standa skil á þeim. Þannig þyki kærandi hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til skuldbindinga hafi verið stofnað.

Það sé því mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda greiðsluaðlögun með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara var kæranda synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Eins og rakið hefur verið stofnaði kærandi að langmestu leyti til skulda sinna vegna íbúðarkaupa á árinu 2007 en kaupverð íbúðarinnar samkvæmt skattskýrslu kæranda var 26.400.000 króna. Um var að ræða fjögur lán samtals að fjárhæð 26.860.000 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra lána sem kærandi tók við kaupin í apríl 2007 mun hafa verið um 136.000 krónur. Þegar við bættist lán sem kærandi tók í desember 2007, að eigin sögn vegna framkvæmda við íbúðina, var greiðslubyrði lána kæranda orðin um 209.000 krónur á mánuði.

Samkvæmt skattskýrslum kæranda voru ráðstöfunartekjur hennar rúmlega 160.000 krónur að meðaltali á mánuði á árinu 2007. Samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna var framfærslukostnaður hennar 74.500 krónur á mánuði. Greiðslugeta hennar var því 85.500 krónur á mánuði. Við íbúðarkaupin tókst hún engu að síður á hendur skuldbindingar sem útheimtu um 136.000 króna greiðslu á mánuði. Greiðslubyrði umfram mánaðarlegar ráðstöfunartekjur var því 50.500 krónur. Í desember 2007 tók kærandi enn nýtt lán sem varð þess valdandi að greiðslubyrði hennar jókst í um 209.000 krónur á mánuði. Greiðslubyrði umfram mánaðarlegar ráðstöfunartekjur varð því 123.500 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu liggur fyrir að kærandi stofnaði til skulda á þeim tíma sem hún var greinilega ófær um að standa við þær.

Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Sé miðað við skattframtöl kæranda liggur fyrir að hún var bæði eigna- og skuldlaus áður en hún réðst í nefnd íbúðarkaup og samkvæmt því keypti hún íbúðina að öllu leyti með lánsfé. Laun hennar voru á þeim tíma mjög lág. Að mati kærunefndarinnar verður að telja slíka framgöngu í fjármálum afar áhættusama, sérstaklega þegar ekki eru til staðar eignir til að mæta greiðslu skulda ef aðstæður breytast. Telur kærunefndin því að kærandi hafi tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að rétt hafi verið af hálfu umboðsmanns skuldara að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum