Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2012

Þriðjudaginn 7. janúar 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 8. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. apríl 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 12. apríl 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 25. apríl 2012.

Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 30. apríl 2012. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 15. maí 2012. Var hún send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og þeim boðið að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 6. júní 2012.

Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. júní 2012 og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Önnur greinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 25. júní 2012.

Önnur greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 19. júlí 2012 og þeim boðið að koma að athugasemdum við hana. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 45 og 46 ára, gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í 98 fermetra eigin íbúð að C götu nr. 12 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar sem leikskólaliði og eru útborgaðar mánaðarlegar tekjur hennar 189.349 krónur. Kærandi B er menntaður vélstjóri og rekur einkahlutafélagið V. Mánaðarlegar tekjur hans eftir frádrátt skatta eru 248.722 krónur. Samtals eru því mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda 438.071 króna.

Að mati kærenda má að miklu leyti rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 1999 þegar kærandi B hafi þurft að hverfa frá vinnu sökum veikinda. Í kjölfarið hafi þau neyðst til að selja fasteign sína og leigt sér íbúðarhúsnæði. Árið 2005 höfðu tekjur þeirra aukist og hafi þau þá ákveðið að kaupa fasteign og talið það hagstætt miðað við húsaleigu. Við hrun bankanna árið 2008 hafi greiðsluerfiðleikar þeirra hafist á ný þegar greiðslubyrði fasteignalána og annarra skulda þeirra hafi hækkað mikið. Kærandi B hafi verið einn eigenda tveggja félaga í jarðvinnuverktöku; X ehf. og Y ehf. Bæði félögin séu nú gjaldþrota. Þá hafi kærandi B slasast alvarlega í febrúar 2009 og verið frá vinnu í um sex mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 50.146.717 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2000 og 2005 vegna fasteignakaupa. Þá hafa kærendur einnig gengist undir ábyrgðarskuldbindingar, bæði vegna lána til einkahlutafélaga og einstaklinga og nema þær alls 26.252.785 krónum.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 20. desember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefndin ógildi ákvörðun umboðsmanns skuldara og geri embættinu að taka umsókn þeirra til efnislegrar meðferðar.

Það er mat kærenda að ákvörðun umboðsmanns skuldara virðist tekin á grundvelli einhvers konar ályktunar um refsiverða háttsemi. Engin rannsókn hafi farið fram á meintri refsiverðri háttsemi og þaðan af síður saksókn eða dómur. Verði að telja ámælisvert að umboðsmaður taki sér svo víðtækt vald að fullyrða að um refsiverða háttsemi sé að ræða. Þessu til stuðnings vísi kærendur til 70. gr. stjórnarskrárinnar og telji það grundvallarmannréttindi að dómstólar ákvarði um refsiverða háttsemi.

Einnig telji kærendur að umboðsmaður hafi túlkað lge. með frjálslegum hætti með því að hafna umsókn um greiðsluaðlögun vegna þess að eitthvað geti varðað refsingu. Auk þess hafi umboðsmaður ruglað saman málefnum kærenda þannig að engin tilraun virðist gerð til að aðgreina réttindi þeirra og skyldur.

Kærendur bendi á að þær kröfur sem séu þess valdandi að umboðsmaður hafi hafnað beiðni þeirra um greiðsluaðlögun, beinist ekki að kærendum sjálfum heldur að einkahlutafélögum. Til að ábyrgð stjórnarmanna verði virk þurfi fyrst að taka félögin til rannsóknar. Gefi sú rannsókn tilefni til ákæru eða stjórnsýsluálags sem félögin gætu ekki staðið undir gæti ábyrgð stjórnarmanna orðið virk. Kærendur gætu þó hugsanlega verið refsiábyrgir og dæmdir til greiðslu sekta skili félagið ekki afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti ef sannað verði að um refsiverða háttsemi kærenda hafi verið að ræða. Það verði þó ekki útkljáð nema í opinberu máli. Yrðu þau fundin sek séu ákvæði í lögum sem heimili að þau verði dæmd til greiðslu sektar sem geti numið frá tvöfaldri til tífaldri vangreiddri fjárhæð. Þótt kærendur verði dæmd til sektar eigi þau ýmsa möguleika til að komast hjá því að greiða sektina, svo sem að sitja hana af sér í fangelsi eða að óska eftir samfélagsþjónustu, sem alltaf sé veitt sýni hinn dæmdi fram á eignaleysi.

Kærandi A hafi enga beina aðkomu haft að málefnum þeirra félaga þar sem hún hafi verið stjórnarmaður. Engir reglulegir stjórnarfundir hafi verið haldnir í þessum félögum og hafi hún ekki haft möguleika til að uppfylla lögbundnar eftirlitsskyldur sínar.

Kærendur telji að krafa geti stofnast á hlutafélag vegna vangreiðslu vörsluskatta án þess að um refsiverða háttsemi sé að ræða. Nefni þau í því sambandi þau tilvik þegar hlutafélag verði gjaldþrota áður en slík krafa sé gjaldfallin en þegar svo hátti til verði stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri ekki ábyrgir fyrir greiðslu ógjaldfallinnar kröfu. Þetta gæti hafa átt við um X ehf. og Y ehf. og fullyrði kærendur að umboðsmaður skuldara hafi ekki gengið úr skugga um þetta áður en ákvörðun hafi verið tekin. Það sé því alls ekki hægt að gera ráð fyrir að krafa á þriðja aðila þýði að fjárhagsleg framtíð kærenda sé óljós eða fyrir hendi sé grundvöllur fyrir því að álykta að slíkt geti komið í veg fyrir að þau njóti lögbundinna réttinda sinna. Engan veginn sé hægt að fullyrða um sekt kærenda eingöngu á grundvelli tilurðar kröfunnar.

Að mati kærenda sé málatilbúnaður umboðsmanns þannig að þau þurfi að sýna fram á sakleysi sitt til að njóta sömu réttinda og aðrir umsækjendur um greiðsluaðlögun. Slíkt sé bæði andstætt grundvallarreglum réttarfars og gróft mannréttindabrot.

Enn fremur sé því mótmælt að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi fordæmisgildi í málinu. Sé það í fyrsta lagi vegna þess að nefnt mál fjalli ekki um kröfur á hendur þriðja aðila og í öðru lagi vegna þess að í málinu sé ekki tekist á um grundvallarmannréttindi kærenda. Nær væri að fjalla um þann fjölda dómsmála þar sem ákærðir einstaklingar hafi ekki notið þeirra réttinda sakborninga sem mælt sé fyrir um í 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglum laga um meðferð opinberra mála.

Loks leggi kærendur áherslu á að það sé ekki hlutverk umboðsmanns skuldara að dæma umsækjendur um greiðsluaðlögun eða lýsa þá seka um glæpi. Að byggja stjórnvaldsákvörðun á slíkum ályktunum sé gróft brot á stjórnarskrárbundnum réttindum þeirra. Kærendur skuli því teljast saklaus af fullyrðingum umboðsmanns um refsiverða háttsemi. Embætti umboðsmanns beri að meta allan vafa kærendum í hag og gera þannig ráð fyrir að málefni umræddra félaga muni ekki hafa áhrif á fjárhagsstöðu þeirra í náinni framtíð. Ákvörðun umboðsmanns sé verulega íþyngjandi fyrir kærendur þar sem gera megi ráð fyrir að þau missi heimili sitt vegna hennar. Verði því að krefjast þess að slík ákvörðun sé í einu og öllu unnin eftir fyrirmælum stjórnsýslulaga um vandaða málsmeðferð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Af lögskýringargögnum verði ráðið að skýra beri ákvæðið með þeim hætti að skattskuldir sem varði refsingu girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar að skilyrðum uppfylltum. Í athugasemdum með frumvarpi er fylgdi lge. segi: „Í 2. mgr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt væri að veita hana.“ Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á slíku. Að hluta til sé þar miðað við þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 enda komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu þeirra. Til dæmis hafi Hæstiréttur skýrt 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991 í dómi í máli nr. 721/2009. Hafi rétturinn komist að því að skuldari sem skapað hafði sér skuldbindingu sem hafi numið um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Er d-liður 2. mgr. 6. gr. samhljóða því ákvæði. Þess beri að gæta að skuldbindingin sem vísað hafi verið til hafi verið vegna vörsluskatta.

Einnig sé þess að geta að í nefndaráliti um frumvarp til laga nr. 24/2009 sé að finna eftirfarandi ummæli um skýringu samhljóða ákvæðis: „Nefndin ræddi einnig d-lið 1. mgr. frumvarpsins [63. gr. d] en þar er tekið fram að auk þeirra ástæðna sem skv. 1. mgr. 38. gr. laganna skulu leiða til þess að héraðsdómari synji um heimild til að leita nauðasamnings geti hann hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef ákveðin tilgreind skilyrði (ástæður) eru fyrir hendi, t.d. að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Hér er m.a. átt við það þegar vörslusköttum hefur ekki verið skilað og var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að ekki sé rétt að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar við þessar aðstæður.“

Af gögnum málsins verði ráðið að töluverðar skattskuldir hvíli á einkahlutafélaginu Z þar sem kærendur gegni bæði stöðu stjórnarmanna auk þess sem kærandi B sé framkvæmdastjóri félagsins. Þessar skuldir séu ógreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 2.421.516 krónur, þar sem 1.599.357 krónur séu byggðar á álagningu samkvæmt gögnum frá félaginu sjálfu en 822.159 krónur séu byggðar á áætlun ríkisskattstjóra. Önnur ógreidd opinber gjöld Z ehf. eru að fjárhæð 482.642 krónur. Samanlagðar skuldir félagsins vegna vangoldinna opinberra gjalda nemi því 2.904.158 krónum. Beri kærendur stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gætu kærendur þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá hafi kærendur bæði verið stofnendur félagsins X ehf. sem úrskurðað hafi verið gjaldþrota í mars 2010. Kærandi B hafi einnig verið stofnandi félagsins Y ehf. en það félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota í mars 2011. Kærendur hafi bæði verið stjórnarmenn og prókúruhafar í X ehf. en enginn framkvæmdastjóri hafi verið skráður í því félagi. Því beri þau bæði sem stjórnarmenn og prókúruhafar ábyrgð á vangreiddum vörslusköttum þess félags. Einnig hafi kærandi B verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í Y ehf. Hann beri sem slíkur ábyrgð á vangreiddum vörslusköttum þess félags. Samkvæmt yfirlitum frá tollstjóra, sem borist hafi embættinu 27. júlí 2011, hafi verulegar skuldir vegna vangoldinna vörsluskatta hvílt á þrotabúum félaganna. Á þrotabúi X ehf. hafi þannig hvílt vörsluskattskuld að höfuðstólsfjárhæð 4.901.769 krónur en á þrotabúi Y ehf. hafi hvílt vörsluskattskuld að höfuðstólsfjárhæð 7.103.028 krónur. Samtals nemi þessar skuldir 12.004.797 krónum.

Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar lagaskyldu sem hvílt hafi á kærendum sem stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra nefndra félaga til að skila virðisaukaskattskýrslum, skilagreinum, standa skil á vörslusköttum sem innheimtir hafi verið í starfsemi félaganna og þeim þungu sektum sem þau gætu átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði að kærendur hafi með þessu bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra með háttsemi sem varði refsingu. Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Á kærendum hvíli ábyrgðarskuldbindingar vegna Y ehf. og X ehf. samtals að fjárhæð 25.322.000 krónur. Eignir kærenda séu fasteign að C götu nr. 12 í sveitarfélaginu D að verðmæti 18.450.000 krónur samkvæmt fasteignamati, bifreiðin E að verðmæti 2.835.000 krónur samkvæmt skattframtali kærenda vegna 2010 auk ferðavagnsins F að verðmæti 712.719 krónur samkvæmt sama skattframtali. Telja verði eignir kærenda óverulegar með tilliti til skulda.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þann skilning umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi, sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélags, hafi ekki staðið skil á vörslusköttum en talið hafi verið að skuldir þessar væru umtalsverðar meðal annars með hliðsjón af fjárhag kæranda. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið skilið svo að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, en síðastgreinda ákvæðið, sem nú sé fallið niður, sé samhljóða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í tilviki kærenda þyki vanskil vörsluskatta mikil og við þeim liggi þungar sektir. Með hliðsjón af öllu framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því óhæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr.

Þá þyki umboðsmanni rétt að árétta ákvæði f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Enn fremur þyki ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Umboðsmaður vísi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar þegar ráðist sé í samningaumleitanir um greiðsluaðlögun. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök sé fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti þá forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.

Loks sé tekið fram að þegar hjón eða sambýlisfólk ákveði að sækja um greiðsluaðlögun í sameiningu verði að líta sameiginlega á fjárhag þeirra þegar metið sé hvort þau uppfylli skilyrði til greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 25/2011.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Að mati kærenda virðist ákvörðun umboðsmanns skuldara tekin á grundvelli ályktunar um refsiverða háttsemi. Hvorki hafi farið fram rannsókn né saksókn og þá hafi dómur ekki fallið í málinu. Telja kærendur ámælisvert að umboðsmaður fullyrði að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða. Þessu til stuðnings vísi kærendur til 70. gr. stjórnarskrárinnar og telji það grundvallarmannréttindi að dómstólar ákvarði um refsiverða háttsemi.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá voru kærendur tveir af þremur stofnendum X ehf. Einnig voru þau bæði stjórnarmenn og prókúruhafar félagsins, en enginn framkvæmdastjóri var skráður í félaginu. Þá var kærandi B annar stofnenda, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins Y ehf. Því hvíldi á kærendum sú skylda fyrirsvarsmanna félags, sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Kærunefndin telur að kærendur hafi ótvírætt farið með stjórn félaganna í samræmi við það sem að framan greinir.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæðinu getur varðað við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur líkt og kærendur virðast gera ráð fyrir. Eiga ofangreind ákvæði því við um kærendur sem fyrirsvarsmenn viðkomandi félaga. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur ekki mótmælt vörsluskattskuldum félaganna og hafa heldur ekki haldið því fram að þær séu rangar eða byggðar á röngum forsendum. Verður kærunefndin þar af leiðandi að ganga út frá því að kærendur telji að um réttar kröfur og réttar fjárhæðir sé að ræða.

Kærandi A kveður sig enga beina aðkomu hafa haft að málefnum X ehf. Engir reglulegir stjórnarfundir hafi verið haldnir í félaginu og hafi hún ekki haft möguleika til að uppfylla lögbundnar eftirlitsskyldur sínar. Í dómum Hæstaréttar Íslands að því er varðar ábyrgð vegna vanskila á vörslusköttum félaga hefur jafnan verið litið til þeirra hlutlægu skyldna sem að lögum hvíla á framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum einkahlutafélags og varða fjármuni félags. Hafa þessir aðilar því hlotið dóma vegna vanskila vörsluskatta, sjá til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 379/2013. Telur kærunefndin því að fullyrðing kæranda A um að hún hafi verið óvirkur stjórnarmaður breyti ekki forsendum málsins að því er varðar vanskil X ehf. á vörslusköttum.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hafa kærendur bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í þessu sambandi skal einnig nefnt að samkvæmt gögnum málsins stafa elstu vanskil beggja félaganna á vörslusköttum frá árinu 2009. X ehf. var úrskurðað gjaldþrota 30. mars 2010 og Y ehf. var úrskurðað gjaldþrota 30. mars 2011. Því getur sú staða ekki verið uppi að umræddir vörsluskattar séu ógjaldfallnir eins og kærendur telja mögulegt.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki svigrúm til annars en að meta hvort vörsluskattskuldin nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 28.000.000 króna. Skuldir sem báðir kærendur eru ábyrg fyrir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 4.901.769 krónum. Skuldir sem kærandi B er ábyrgur fyrir vegna vangreiddra vörsluskatta Y ehf. nema alls 7.103.028 krónum. Alls eru þetta 12.004.797 krónur sem telja verður afar háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 23,9% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærendur hafa stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Kærunefndin telur að ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að þetta mat fari fram í samræmi við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærendur hafa haldið því fram að þó þau verði dæmd til greiðslu sektar eigi þau ýmsa möguleika til að komast hjá greiðslu sektarinnar, svo sem að sitja hana af sér í fangelsi eða óska eftir samfélagsþjónustu. Af þessu tilefni telur nefndin rétt að taka fram að hún leggur ekki mat á mögulega sekt eða refsingu kærenda, þ.e. hvort kærendum verði gerð stjórnvaldssekt eða hvort þau verði dæmd til greiðslu sektarinnar og þá með hvaða hætti dómur verður. Hlutverk nefndarinnar er einungis að meta hvort kærendur hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag þeirra með háttsemi er varði refsingu eða skaðabótaskyldu eins og segir í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge að litið skuli til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita greiðsluaðlögun. Hvernig hugsanlegum refsingum verður háttað hefur ekki áhrif á mat kærunefndarinnar í þessu tilliti.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem kærendur hafa stofnað til og falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag þeirra að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum