Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2012

Þriðjudaginn 7. janúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra Aog B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. maí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 29 og 32 ára og búa ásamt fjögurra ára barni sínu í 95 fermetra leiguíbúð að C götu nr. 5 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 2008 og starfar nú í 80% starfshlutfalli hjá X en kærandi B starfar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Y ehf. við hugbúnaðargerð. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda eru 515.656 krónur á mánuði að meðaltali.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til íbúðarkaupa, lágra tekna og þeirra aðstæðna er sköpuðust á fjármálamarkaði í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Kærandi B hafi reynt fyrir sér við fasteignasölu árið 2006 en sú starfsemi hafi ekki gengið vel. Á árinu 2007 hafi kærendur keypt íbúð og látið íbúð sem þau áttu fyrir ganga upp í kaupverðið. Þau hafi misst íbúðina á nauðungarsölu en leigja íbúðina nú af uppboðskaupanda.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 23.968.893 krónur og falla þar af 4.835.591 króna utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga er 11.439.397 krónur samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 7. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærandi B hafi ætlað að draga umsókn sína til baka þannig að aðeins væri látið reyna á beiðni um greiðsluaðlögun fyrir kæranda A.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram um 2. mgr. 6. gr. að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta til við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, enda sé nokkur reynsla komin á framkvæmd og dómvenju við beitingu ákvæðisins. Enn fremur sé það tekið fram að ástæður þær sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið sé samhljóða 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem nú er fallið brott. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi reynt á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í málinu hafi verið deilt um hversu há skattskuld kæranda væri og hvort hún teldist verulegur hluti skulda hans í skilningi ákvæðisins. Kærandi hafi borið ábyrgð á ógreiddum virðisaukaskatti og staðgreiðslu einkahlutafélags þar sem hann hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarformanns og prókúruhafa samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Skuld félagsins hafi numið um 25.000.000 króna eða um 44% af heildarskuldum kæranda. Í úrskurði sínum hafi kærunefndin vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 en þar hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar nefnt ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 Af niðurstöðunni megi ráða að skuldbinding sem stofnað hefur verið til með þeirri háttsemi sem tilgreind er í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. geti varðað synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé umrædd skuldbinding tiltölulega há með tilliti til fjárhæðar og hlutfalls af heildarskuldbindingum skuldara samanborið við eignastöðu hans bæði á þeim tíma sem ákvörðun er tekin og á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar er stofnað. Í umræddu máli hafi heildarfjárhæð skuldar vegna háttsemi er varðaði refsingu numið alls 1.780.437 krónum sem hafi út af fyrir sig þótt allhá fjárhæð, en hún nam 8,3% af heildarskuldum viðkomandi skuldara. Hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að umsókn um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hafi verið synjað. Með vísan til dómsins hafi kærunefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem kærandinn hafði bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag kæranda sem varðað gæti refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 segi meðal annars að afhendi skattskyldur maður eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða honum hafi borið að innheimta skuli hann greiða fésekt. Samkvæmt því sé brot fullframið um leið og lögmæltur skilafresturinn sé liðinn án þess að sá aðili sem ábyrgð beri á skilunum skili virðisaukaskatti til innheimtumanns.

Heildarskuldir kærenda nemi 23.968.893 krónum. Í málinu liggi fyrir að kærandi B skuldi 1.647.261 krónu vegna vangoldins virðisaukaskatts áranna 2008 til 2010. Samsvari það 6,9% af heildarskuldum kærenda. Að auki skuldi félagið Z ehf., sem sé í eigu kærandans B, virðisaukaskatt að fjárhæð 615.848 krónur. Kröfur þessar séu byggðar á álagningu frá tollstjóra og séu því óumdeildar. Þá skuldi félagið einnig staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 617.514 krónur, staðgreiðslu tryggingagjalds að fjárhæð 204.052 krónur og launatengd gjöld í lífeyrissjóð að fjárhæð 659.138 krónur. Heildarskuldbinding kærenda, að meðtöldum vanskilum félags kæranda B, nemi því 25.460.307 krónum. Heildarfjárhæð vangoldins virðisaukaskatts nemi 2.263.109 krónum eða 8,9% af heildarskuldum kærenda.

Til viðbótar nemi vangreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld kæranda B 2.178.350 krónum. Þar sem kærendur hafi verið samsköttuð árið 2008 beri þau sameiginlega ábyrgð á greiðslum sem rekja megi til þess árs.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé nettóeignastaða kærenda neikvæð um 22.617.336 krónur. Kærendur leigi íbúð af Íbúðalánasjóði, en sjóðurinn hafi keypt íbúðina á nauðungarsölu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið sé ljóst að fjárhagsstaða kærenda sé mjög erfið og kröfur vegna vangoldins virðisaukaskatts og annarra opinberra gjalda nemi alls 17.846.312 krónum eða um 24,55% af heildarskuldbindingum kærenda. Hjá því verði ekki litið að hin ógreiddu opinberu gjöld kæranda B eigi að renna í opinbera sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu og samtryggingar. Sú staðreynd, ásamt því að kærandi B hafi bakað sér skuldbindingu með háttsemi er varði refsingu með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti, auk þess að bera ábyrgð á vangoldnum opinberum gjöldum vegna stöðu sinnar í félaginu Z ehf., leiði til þess að umboðsmaður skuldara telji óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Af athugasemdum í kæru megi ráða að það hafi verið ætlun kærenda að breyta umsókn sinni um greiðsluaðlögun þannig að kærandi A yrði ein umsækjandi. Af skattframtali vegna tekjuársins 2007 og skuldayfirliti, sem lágu til grundvallar ákvörðun umboðsmanns skuldara, þyki mega ráða að kærendur hafi skuldsett sig talsvert umfram það sem greiðslugeta þeirra og fjárhagsstaða að öðru leyti leyfði á því ári í tengslum við fasteignakaup og kaup á þremur ökutækjum, en eitt ökutæki hafi þau átt fyrir. Beinar skuldir kærenda í lok árs 2007 hafi numið tæpum 33.500.000 krónum en eignir hafi á sama tíma numið tæpum 27.000.000 króna. Skuldir þeirra hafi aukist um rúmlega 15.000.000 króna á árinu 2007. Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda hafi verið 278.507 krónur á þessum tíma. Þegar tekið hafi verið tillit til framfærslukostnaðar hafi greiðslugeta kærenda verið 98.507 krónur.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja manni um heimild til greiðsluaðlögunar ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið sömu greinar sé heimilt að synja manni um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Telja verði, samkvæmt því sem rakið hafi verið, að tekjur kærenda á árinu 2007 hafi verið lágar og þau hafi með naumindum verið fær um að standa skil á húsnæðisláni sem þau hafi tekið á árinu. Ekki verði séð hvernig kærendur hafi auk þess ætlað sér að standa skil á afborgunum af fjórum bílasamningum og öðrum skuldum, auk ábyrgðarskuldbindinga ef á þær reyndi. Því sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi með skuldasöfnun sinni á árinu 2007 stofnað til skulda á tíma sem þau hafi greinilega verið ófær um að standa við þær og tekið þannig verulega fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma. Engu breyti þó að fjárhagsstaða kæranda A sé virt sjálfstætt enda hafi greiðslugeta hennar verið neikvæð um 43.003 krónur á árinu 2007 og hún þannig ófær um að greiða af skuldum. Þrátt fyrir það hafi hún verið greiðandi tveggja bílasamninga og skuldabréfs sem stofnað hafi verið til 2007.

Í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar, sem engar líkur séu á að þeir geti staðið undir miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Þannig verði ekki séð að niðurstaða málsins hefði verið á annan veg þótt umsókn kæranda A hefði verið metin sjálfstætt.

Af ofangreindum ástæðum þyki óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er einstaklingum í óvígðri sambúð heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem sambýlisfólk og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Því verður leyst úr máli þeirra í samræmi við sameiginlega umsókn þeirra. Mál kæranda A kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda B nema hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur en það hefur hún ekki gert.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á d- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Samkvæmt yfirliti frá tollstjóra hvílir virðisaukaskattskuld að fjárhæð 1.647.261 króna á kæranda B. Varða slík vanskil refsingu samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Stærstur hluti skuldarinnar stafar frá árinu 2009 og nemur hún 6,8% af heildarskuldum kærenda. Að mati kærunefndarinnar er nefnd skattskuld út af fyrir sig allhá.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi B skráður framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins Z ehf. Því hvíldi á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Fyrir liggur að félagið skuldar vörsluskatta. Nánar tiltekið er um að ræða vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda. Samtals nema þessar skuldir 1.287.362 krónum eða 5,3% af heildarskuldum kærenda ef ekki er tekið tillit til ábyrgðarskuldbindinga.

Heildarfjárhæð þeirrar vörsluskattskuldar sem kærandi B er ábyrgur fyrir nemur samkvæmt framansögðu 2.934.623 krónum eða 12,2% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Kærendur hafa ekki mótmælt þessum vörsluskattskuldum.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 22.000.000 króna. Skuldir sem annar kæranda skuldar eða ber ábyrgð á vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls 2.934.623 krónum sem telja verður allháa fjárhæð. Skuldir þessar eru 12,2% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandinn B hefur þar með bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir kærenda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag þeirra að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að rétt hafi verið af hálfu umboðsmanns skuldara að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum