Hoppa yfir valmynd
23. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2011

Mánudaginn 23. september 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 29. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 16. ágúst 2011, sem tilkynnt var með bréfi 17. ágúst sama ár, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 2. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. september sama ár. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. september s.á. og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 20. október s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi býr að B götu nr. 8 í sveitarfélaginu C ásamt sambýliskonu sinni og þremur börnum. Fasteignin er í eigu sambýliskonu kæranda. Kærandi vann sem bílasali til ársloka 2008 en frá þeim tíma hefur hann fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun. Heildartekjur hans að frádregnum sköttum og gjöldum eru 175.353 krónur á mánuði.

Kærandi lýsir því að fjárhagserfiðleika hans megi rekja til ársins 2008 en fram að þeim tíma hafi gengið vel hjá honum. Hann hafi starfað sem bílasölumaður og hafi sala á bílum gengið vel. Árið 2007 hafi hann stofnað fyrirtækið X ehf. sem hafi sérhæft sig í að flytja inn glæsibifreiðar. Í byrjun hafi gengið vel en við lok árs 2008 hafi orðið algjört hrun í sölu bifreiða og hafi X ehf. orðið gjaldþrota í kjölfarið. Skuldir félagsins hafi fallið á kæranda. Byggingaverkefni sem kærandi hafi tekið þátt í hafi heldur ekki gengið sem skyldi. Verktakinn hafi orðið gjaldþrota áður en hann hafi náð að ljúka við bygginguna sem leitt hafi til þess að kærandi hafi setið uppi með óklárað og yfirveðsett húsnæði.

Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara 169.135.719 krónur. Þar af falla 168.464.468 krónur innan samnings samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

Þann 19. júlí 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi 17. ágúst 2011.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hnekkt og að honum verði heimilað að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa.

Kærandi mótmælir því að framsal hans til maka á þeim helmingi íbúðarhúsnæðis, sem hann hafi átt, hafi verið gjafagerningur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gþl). Kærandi vísar til þess að á þeim tíma er eignarhluturinn var framseldur til maka hafi húsnæðið verið yfirveðsett. Verðmæti hafi þar með ekki verið færð til með ráðstöfuninni. Ástæðan fyrir framsalinu hafi verið sú að kærandi og maki hans hefðu ráðgert að slíta samvistum á þeim tíma þar sem gríðarlegir erfiðleikar hafi verið í einkalífi þeirra, meðal annars vegna atvinnu- og peningaleysis.

Kærandi heldur því fram að viðkomandi eign hafi verið veðsett fyrir um 200% af verðmæti hennar þegar framsalið átti sér stað. Á eigninni hafi hvílt erlent lán sem staðið hafi í rúmum 50.000.000 króna. Auk þess hafi á seinni veðréttum hvílt skuldir að fjárhæð rúmlega 40.000.000 króna. Af þessu hljóti að leiða að ekki hafi getað verið um gjafagerning að ræða.

Kærandi telur að á umboðsmanni skuldara hvíli skylda til þess að skoða gögn málsins og rannsaka það í samræmi við gildandi stjórnsýslureglur. Ákvörðun umboðsmanns þurfi síðan að vera í samræmi við aðrar ákvarðanir þannig að jafnræðis sé gætt. Kærandi fer fram á að tilvitnuð ákvæði laga nr. 101/2010 verði túlkuð á sama veg og í öðrum ákvörðunum umboðsmanns.

Kærandi telur að ákvörðun umboðsmanns standist ekki skoðun og beri að hnekkja henni þar sem hún sé byggð á röngum forsendum hvað varði túlkun á 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Auk þess gæti misskilnings í umfjöllun umboðsmanns þegar minnst sé á frestdag, en engin frestdagur sé kominn á bú kæranda þar sem enn hafi ekki verið beðið um gjaldþrotaskipti á því.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 16. ágúst 2011 verði staðfest.

Umboðsmaður vísar til þess að kærandi hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun í október 2010. Beiðninni hafi verið synjað með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt hafi verið með bréfi 17. ágúst 2011 með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður telur að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. lagagreinarinnar komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar, sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. 

Umboðsmaður vísar til þess að kærandi og maki hans hafi keypt fasteignina að B götu nr. 8 um mitt ár 2004 og hafi eignarhluti hvors þeirra þá verið jafn. Afsal hafi síðan verið gefið út 8. desember 2008 fyrir eignarhluta kæranda en með því hafi maki kæranda orðið 100% eigandi að eigninni. Afsalinu hafi verið þinglýst 6. febrúar 2009. Samkvæmt skattframtali hafi engar greiðslur komið fyrir eignarhlut kæranda og hafi hann staðfest það í tölvupósti 18. júlí 2011. Eðli málsins samkvæmt verði að telja þessa ráðstöfun þeirra vera gjafagerning. Jafnvel þótt huglæg afstaða kæranda og maka hans hafi verið sú að slíta samvistum þegar kærandi framkvæmdi tilgreinda ráðstöfun teljist hún riftanleg samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 131. gr. gþl.

Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. megi krefjast riftunar á gjöfum til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag. Með „nákomnum“ í skilningi laganna sé meðal annars átt við hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð. Frestdagur í máli kæranda hafi verið 27. október 2010 þegar umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara, sbr. 1. mgr. 2. gr. gþl. Þar sem afsal hafi verið gefið út fyrir eigninni að Staðarseli 8 þann 9. desember 2008 teljist ráðstöfunin hafa verið gerð tæplega 23 mánuðum fyrir frestdag. Þessi ráðstöfun kæranda hefði verið riftanleg við gjaldþrotaskipti en ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja skuldara um heimild til að leita greiðslu­aðlögunar í slíkum tilvikum.  

Umboðsmaður skuldara telur að líta verði heildstætt á fjárhag kæranda þegar ráðstöfunin á eignarhluta hans fór fram. Skuldastaða hans hafi þá verið slæm og verði að telja að hann hafi á ámælisverðan hátt ráðstafað eign sem hefði komið til skipta við gjaldþrotaskipti. Óhæfilegt sé því að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar að teknu sérstöku tilliti til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara, þess efnis að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er byggð á því að óhæfilegt sé að veita hana með tilliti til þess að kærandi hefði ráðstafað 50% eignarhluta sínum í fasteigninni B götu nr. 8 til sambýliskonu sinnar 9. desember 2008. Sú ráðstöfun hefði verið riftanleg samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Umboðsmaður tók í hinni kærðu ákvörðun sérstakt tillit til þessa við mat á því hvort óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar og vísaði í því sambandi til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt lagaákvæðinu er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Í greinargerð kæranda með umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar lýsir hann því að hann hafi lent í miklum fjárhagserfiðleikum árið 2008 þegar allar dyr á fjármögnunar­fyrirtækjum lokuðust við hrunið en hann hafi brunnið inni með nokkra bíla sem hann hefði ekki náð að selja. Fram að þeim tíma hafi honum og sambýliskonu hans alltaf tekist að greiða af lánum en kaupin á húsinu að B götu nr. 8 í september 2003 hafi þau fjármagnað með erlendum lánum. Fljótlega eftir að erfiðleikarnir hófust hafi komið í ljós að þau gátu ekki staðið undir öllum þeim skuldbindingum sem á þeim hvíldu. Á sama tíma, eða 9. desember 2008, gaf kærandi út afsal fyrir sínum hluta fasteignarinnar til sambýliskonu sinnar án þess að endurgjald kæmi fyrir. Afsalinu var bersýnilega ætlað að færa eignarrétt frá kæranda til sambýliskonu með gjafagerningi. Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 131. gr. gþl. má krefjast riftunar á gjafagerningi til nákominni hafi gjöfin verið afhent sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær þrátt fyrir afhendinguna.

Telja verður að umboðsmaður skuldara hafi réttilega metið að þessi ráðstöfun á eignarhluta kæranda hefði verið riftanleg við gjaldþrotaskipti samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. Í þessu samhengi verður að líta svo á að frestdagur í skilningi lagaákvæðisins hafi verið þegar umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var móttekin 27. ágúst 2010, enda er ekki gert ráð fyrir því í lögum að annar dagur verði notaður til viðmiðunar við túlkun á lagaákvæðinu og e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Fyrir liggur að kærandi gaf út afsal fyrir eignarhlut sínum til sambýliskonu sinnar án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir. Ráðstöfunin hefði þar með verið riftanleg við gjaldþrotaskipti sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 131. gr. gþl.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að telja að heimilt hafi verið að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ber með vísan til þess að staðfesta hina kærðu ákvörðun.   

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum