Hoppa yfir valmynd
16. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 126/2013

Mánudaginn 16. september 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 23. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B héraðsdómslögmanns, sem tilkynnt var með tölvupósti 13. ágúst 2013 þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Þá tilkynnti umsjónarmaður kæranda með ítarlegri hætti um ákvörðun sína með tölvupósti þann 26. ágúst 2013, eftir að kæra lá fyrir.

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 3. maí 2012. Þann 9. maí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum 17. júlí 2012. Sýslumaðurinn á Selfossi lagðist gegn frumvarpinu vegna ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda að fjárhæð 208.882 krónur sem féllu til eftir að kærandi fór í greiðsluskjól. Auk þess kvað hann kæranda skulda þing- og sveitarsjóðsgjöld frá 2012 að fjárhæð 695.620 krónur.

Þann 22. febrúar 2013 sendi umsjónarmaður kæranda upplýsingar í tölvupósti um mótmælin. Umsjónarmaður benti kæranda á að leita samninga við sýslumannsembættið á Selfossi án tafar. Jafnframt upplýsti umsjónarmaður kæranda um að ef samkomulag næðist ekki um vangreidd gjöld þyrfti umsjónarmaður að taka ákvörðun um framhaldið og kanna möguleika á að leita nauðasamninga fyrir hönd kæranda. Farsælast væri að ljúka málinu með samkomulagi þar sem allir aðrir kröfuhafar hefðu samþykkt samninginn en ljóst væri að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á nema samkomulag tækist við alla kröfuhafa.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi eftir samkomulagi við sýslumannsembættið á Selfossi um greiðslu á ógreiddum gjöldum. Embættið hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að kærandi væri án atvinnu, auk þess sem að á kæranda hvíldu umtalsverðar skuldbindingar sem væru ekki innan samnings um greiðsluaðlögun.

Umsjónarmaður óskaði eftir afstöðu embættisins til hugsanlegra nauðasamninga með vísan til 18. gr. lge. Svar sýslumanns hafi verið á þá leið að embættið myndi einnig leggjast gegn nauðasamningum.

Með tölvupósti 28. apríl 2013 hafi umsjónarmaður óskað eftir afstöðu kæranda til nauðasamnings og gefið til þess frest til 10. maí 2013. Jafnframt hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um að sýslumannsembættið á Selfossi myndi leggjast gegn nauðasamningi. Með tölvupósti 4. júní 2013 hafi kærandi svarað tölvupósti umsjónarmanns þannig að hún vildi leita allra leiða til að semja um skuldir sínar áður en hún yrði gerð gjaldþrota.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með tölvupósti 13. ágúst 2013 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi. Umsjónarmaður tilkynnti kæranda aftur um ákvörðun sína með ítarlegri hætti í tölvupósti 26. ágúst 2013.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að reynt hafi verið til þrautar að ná samningi fyrir kæranda. Það hafi ekki tekist vegna mótmæla kröfuhafa sem eigi kröfu er falli utan greiðsluaðlögunar.

Þrátt fyrir að kærandi hafi lýst því yfir á fundi með umsjónarmanni að hún ætlaði ekki að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, hafi hún lýst yfir vilja til þess með tölvupósti eftir að frestur til ákvörðunar var liðinn. Synjun umsjónarmanns byggi þó ekki eingöngu á því að kærandi hafi of seint tekið ákvörðun um að hún óskaði eftir að leita nauðasamnings. Mat umsjónarmanns á því hvort raunhæft sé að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun vegi þungt þegar tekin er ákvörðun um hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á. Einnig skipti miklu hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir kæranda til sín taka, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. lge. Í málinu liggur fyrir skrifleg og afgerandi afstaða kröfuhafa, sem á kröfu utan greiðsluaðlögunar, þess efnis að nauðasamningi á grundvelli 18. gr. verði mótmælt, enda útséð um að kærandi geti ekki orðið við skilmálum um greiðslu kröfunnar. Krafan sem í hlut á er krafa sýslumannsins á Selfossi vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda, en hluti kröfunnar hafi komið til eftir að kærandi var komin í greiðsluskjól. Þá liggi einnig fyrir að þótt nauðasamningur kæmist á myndu áfram hvíla á kæranda kröfur utan greiðsluaðlögunar sem sé fyrirséð að kærandi geti ekki greitt. Samanlagt nemi kröfurnar á þriðju milljón króna, þar á meðal krafa sem sé til komin vegna ógreidds sakarkostnaðar.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi skilji ekki hvers vegna hún fái ekki greiðsluaðlögun en hún geti ekki greitt skuldir sínar. Hún sé öryrki og einstæð móðir sem ekki geti farið út á vinnumarkaðinn vegna slyss sem hún varð fyrir.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns byggir fyrst og fremst á því að skuldir sem falla utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. lge. séu það háar að ekki sé raunhæft að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Skuldbindingar þessar að mati umsjónarmanns séu sakarkostnaður samtals að fjárhæð 1.193.965 krónur og þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 904.502 krónur, samtals 2.098.467 krónur.

Í stafliðum a‒i 1. mgr. 3. gr. lge. eru tilgreindar þær kröfur sem greiðsluaðlögun tekur til. Samkvæmt ákvæðinu fellur sakarkostnaður ekki utan greiðsluaðlögunar eins og fram kemur í ákvörðun umsjónarmanns. Þá falla þing- og sveitarsjóðsgjöld ekki utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. Allar kröfur, þar með talin þing- og sveitarsjóðsgjöld, sem verða til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina, falla utan greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Samkvæmt framangreindu standa 208.882 krónur utan greiðsluaðlögunar en ekki 2.098.467 krónur eins og ákvörðun umsjónarmanns byggir á.

Kærunefndin telur að málsmeðferð umsjónarmanns í málinu samræmist ekki fyrirmælum 1. mgr. 18. gr. lge. Í fyrsta lagi fékk kærandi ekki tækifæri til að endurskoða frumvarp til greiðsluaðlögunar eins og kveðið er á um lagaákvæðinu. Í öðru lagi hefur umsjónarmaður ekki gætt að hinum lögbundna tveggja vikna fresti sem honum var settur til þess að taka ákvörðun í máli kæranda eftir að yfirlýsing kæranda um vilja til að leita nauðasamninga lá fyrir. Í þriðja lagi byggir umsjónarmaður ákvörðun sína einnig á því að yfirlýsing kæranda þess efnis að hún vildi leita nauðasamninga hafi borist of seint og eftir að frestur umsjónarmanns hafði liðið undir lok. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. skal ákvörðun umsjónarmanns um hvort mælt sé með nauðasamningi og eftir atvikum greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna byggja á efnislegu mati á aðstæðum skuldara eins og fram kemur í ákvæðinu. Ekki verður tekin afstaða til þessa hluta ákvörðunar enda þýðingarlaust þar sem fyrir liggur að ákvörðun umsjónarmanns er að öðru leyti haldin þeim ágöllum sem leiða til ógildingar hennar. Samkvæmt þessu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum