Hoppa yfir valmynd
5. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2011

Fimmtudaginn 5. september 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 24. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. ágúst 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. september 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 28. september 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kærendum 20. október 2011. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi þann 3. nóvember 2011.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og eiga tvö börn. Þau búa ásamt syni sínum í húsnæði sínu að C götu nr. 6b í sveitarfélaginu D. A er í 50% vinnu á leikskóla og eru tekjur hennar 109.764 krónur á mánuði. B er pípulagningameistari að mennt en er sem stendur atvinnulaus og fær atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 185.650 krónur á mánuði. Kærendur fá einnig vaxtabætur að fjárhæð 33.333 krónur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 15.178 krónur. Heildartekjur kærenda eru því 343.925 krónur á mánuði.

Að sögn kærenda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika þeirra til versnandi stöðu fyrirtækis þeirra X ehf., en fyrirtækið varð fyrir miklu tapi í kjölfar gjaldþrots eins stærsta viðskiptavinar síns á árunum 2002–2003. Þegar viðskiptavinur þessi hætti rekstri urðu kærendur fyrir talsverðu tapi og útistandandi kröfur féllu á rekstur þeirra. Sömdu kærendur við Búnaðarbankann og Byr frekar en að lýsa sig gjaldþrota. Fyrirtækið sjálft var tekið til gjaldþrotaskipta 2009. Á árunum 2005–2008 fóru kærendur í framkvæmdir á fasteign sinni en þau innréttuðu litla íbúð í kjallara hússins auk þess sem þau stækkuðu íbúð sína í þeim tilgangi að leyfa syni sínum að leigja í kjallaranum.

Heildarskuldir kærenda eru 80.005.741 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara.

Kröfuhafi Tegund Ár Staða nú
Gildi lífeyrissjóður Veðkrafa 1999 5.383.348 kr.
Arion banki hf. Veðkrafa 2003 3.203.066 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2005 38.346.325 kr.
Frjálsi fjárfestingar-bankinn hf. Veðkrafa 2006 9.636.519 kr.
Byr Yfirdráttarskuldir 14.427.884 kr.
Byr Aðrar skuldir 2.889.762 kr.
Aðrir Aðrar skuldir 6.118.837 kr.
Samtals: 80.005.741 kr.

Samkvæmt gögnum málsins hvíla á kærendum neðangreindar ábyrgðarskuldbindingar sem eru að mestu tilkomnar vegna fyrirtækjareksturs kærenda:

Kröfuhafi Lántaki Ár Höfuðstóll Staða 2011
Landsbankinn X ehf. 2008 25.000.000 kr. 5.198.050 kr.
Landsbankinn X ehf. 2008 13.600.000 kr. 19.987.949 kr.
Landsbankinn X ehf. 2008 15.000.000 kr. 23.183.752 kr.
Avant E 2007 2.389.637 kr. 1.955.629 kr.
Landsbankinn F 2007 3.000.000 kr. 4.953.356 kr.
Landsbankinn G 2007 1.550.000 kr. 2.474.628 kr.
Landsbankinn F 2008 980.000 kr. 1.294.929 kr.
Aðrir   5.872.495 kr.
Samtals: 64.920.788 kr.

Samkvæmt upplýsingum sem koma fram á skattframtölum kærenda árin 2007–2010 voru mánaðarlegar nettótekjur kærenda, fyrir tekjuárin 2006-2009, eftirfarandi:

Ár Meðaltekjur á mánuði
2009 302.337 kr.
2008 320.974 kr.
2007 297.475 kr.
2006 273.285 kr.

Eignir kærenda árin 2006-2009 voru eftirfarandi:

Árslok Samtals eignir
2009 32.852.700 kr.
2008 35.563.000 kr.
2007 39.936.200 kr.
2006 36.563.000 kr.

Skuldir kærenda árin 2006-2009 voru eftirfarandi:

Árslok Samtals skuldir
2009 79.572.911 kr.
2008 53.974.404 kr.
2007 47.413.259 kr.
2006 40.730.436 kr.

Þann 2. ágúst 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. ágúst 2011, einkum með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara um að samþykkja ekki umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærendur telja að ýmsar fullyrðingar umboðsmanns skuldara séu ekki réttar. Kærendur hafi hvorki tekið lán til íbúðarkaupa í mars 2005 né árið 2006. Þau hafi þó keypt notaðan bíl árið 2006. Benda kærendur á að eldri veðkröfur sem hvíli á þeim séu annars vegar vegna kaupa á eign þeirra að C götu nr. 6b og hins vegar vegna þeirra erfiðleika sem þau lentu í með fyrirtæki sitt X ehf., en fyrirtækið hafi orðið fyrir miklu tapi í kjölfar gjaldþrots eins stærsta viðskiptavinar síns á árunum 2002–2003.

Í febrúar 2008 hafi X ehf. gert kauptilboð í H götu nr. 5 sem var hugsað sem atvinnuhúsnæði. Til að fjármagna þessi kaup hafi félagið fengið loforð um fyrirgreiðslu frá Landsbankanum upp á 25.000.000 króna sem gefið var út í formi yfirdráttarábyrgðar. Að sögn kærenda hafi yfirdráttarábyrgðin síðan átt að detta út þegar kaupin færu í gegn og lán frá Landsbankanum að koma í staðinn. Yfirdráttarábyrgðin hafi sem sagt einungis verið til bráðabirgða. Lánin hafi síðan komið seinna árið 2008, þ.e. eitt lán upp á 15.000.000 króna í apríl og annað lán upp á 13.600.000 krónur í júlí. Fyrirtækið X ehf. hafi síðan verið tekið til gjaldþrotaskipta 2009.

Kærendur telja að ábyrgðin eigi að vera á fyrirtækinu en ekki kærendum persónulega. Þessi 25.000.000 króna yfirdráttarábyrgð sem hvíli á kæranda B hafi því átt að detta út þegar fyrirtækið fékk lánin.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 11. ágúst 2011, með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt skuli við matið taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandinn B árið 2008 tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 53.600.000 krónur, þó svo allt það fjármagn hafi ekki verið nýtt. Þessar ábyrgðarskuldbindingar hafi verið vegna reksturs fyrirtækis kærenda.

Þá vísar umboðsmaður skuldara til þess að árið 2005 hafi kærendur tekið lán til íbúðarkaupa að fjárhæð 23.000.000 króna og árið 2008 hafi afborganir af því láni verið a.m.k. 175.283 krónur á mánuði. Miðar umboðsmaður við gengisvísitölu ársins 2008 og gerir ráð fyrir því að lágmarksframfærsla kærenda miðað við fyrirliggjandi gögn hafi verið á bilinu 195.000–209.000 krónur á mánuði, á þeim tíma sem kærandi B gekkst í ábyrgð fyrir fyrrgreindum ábyrgðarskuldbindingum. Samanlögð greiðslubyrði tilgreinds íbúðaláns og lágmarksframfærslukostnaður á mánuði hafi því verið a.m.k. um 370.283 krónur. Mánaðarlegar tekjur kærenda hafi verið 320.974 krónur að meðaltali árið 2008.

Á sama tíma hafi kærendur greitt afborganir af fimm öðrum lánum, sem samtals voru upprunalega að fjárhæð u.þ.b. 19.000.000 króna. Á kærendum hafi jafnframt hvílt talsverðir yfirdrættir sem hafi meðal annars verið hækkaðir árið 2008. Auk þess hafi eignastaða kærenda ekki verið sterk árið 2008 samkvæmt skattframtali tekjuársins 2008. Fyrirtæki þeirra hafi einnig verið rekið með tapi.

Umboðsmaður skuldara telur ljóst vera af þessu að kærendur hafi stofnað til umtalsverðra ábyrgðarskuldbindinga í febrúar, apríl og júlí árið 2008. Hafi þessar ábyrgðarskuldbindingar hvorki verið í samræmi við greiðslugetu né eignastöðu kærenda á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Telur umboðsmaður því að kærendur hafi bæði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið ákvæðisins er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Kærunefndin telur að meta verði fjárhagslegar skuldbindingar kærenda í heild með hliðsjón af eignum og tekjum á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað. Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingu þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Skuldbindingar þær sem kærendur ábyrgðust vegna fyrirtækis þeirra árið 2008 eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærendur hafi átt raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi og hins vegar verður að líta til þess að við mat á áhættu hvað þetta varðar að fjárhagsstaða aðalskuldara, þ.e. fyrirtækis kærenda sem gengist var í ábyrgð fyrir, var með þeim hætti að kærendum mátti vera ljóst að nokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna. Þannig má ráða af ársreikningum fyrirtækisins fyrir árin 2005‒2007 að eigið fé félagsins var neikvætt og það verið rekið með tapi árin 2005 og 2006 en með lítilsháttar hagnaði árið 2007. 

Hér verður enn fremur að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kærenda er vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991,  sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Með hliðsjón af framangreindu verður ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum