Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 238/2012

Fimmtudaginn 22. ágúst 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 20. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. nóvember 2012, þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er hafnað.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 26. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. mars 2013, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þær bárust 18. mars 2013 og voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi dags. 22. mars 2013.

I. Málsatvik

Kærandi er 58 ára. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni og þremur börnum hennar að B-götu nr. 33 í sveitarfélaginu C, sem er húsnæði í eigu sambýliskonu kæranda.

Kærandi er menntaður viðskiptafræðingur en starfar sem skipverji. Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir frádrátt skatta nema 589.010 krónum. Aðrar tekjur eru leigutekjur vegna útleigu tveggja fasteigna, samtals að fjárhæð 305.300 krónur eftir frádrátt skatts. Heildartekjur hans nema 894.310 krónum.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi reki fjárhagserfiðleika sína til umfangsmikilla fjárfestinga og skuldbindinga sem hann stofnaði til þegar hann réðst í fasteignaverkefni í Danmörku ásamt öðrum einstaklingum árin 2005–2006. Verkefnið fólst í byggingu sjö lúxusíbúða og nam heildarlántaka vegna verkefnisins 1,6 milljörðum íslenskra króna. Við kaupin á íbúðunum voru 10% af þeirri fjárhæð greidd til tryggingar og tók kærandi lán hjá Landsbankanum til að standa straum af sínum hluta greiðslunnar. Töf varð á afhendingu íbúðanna sem varð til þess að forsendur fjárfestinganna brustu. Kærandi þurfti meðal annars að greiða umtalsverðar fjárhæðir til byggingarfyrirtækisins, banka og lögfræðinga og varð kostnaður við samninga vegna vanefnda á afhendingu íbúðanna mikill. Kærandi var persónulega ábyrgur fyrir öllu, einnig veðlánum í öllum íbúðunum í Danmörku. Enn fremur má rekja fjárhagserfiðleika kæranda til gengisfellingar íslensku krónunnar og áhrif þess á þau lán kæranda sem voru í erlendri mynt.

Auk fjárfestingaverkefnisins í Danmörku gekkst kærandi í ábyrgð vegna fyrirtækisins X ehf. sem hann var meðeigandi að en fyrirtækið hefur ekki skilað neinum tekjum. Að sögn kæranda hefur samstarf hans við meðeiganda sinn að fyrirtækinu kostað hann á annan tug milljóna þar sem kærandi hefur þurft að greiða fasteignagjöld, reikninga og fleira í tengslum við rekstur þess. Álag vegna dráttarins á afhendingu íbúðanna og það sem því fylgdi, þ.e. fundarhöld og kostnaður, varð enn fremur til þess að haustið 2009 var kærandi orðinn þunglyndur og gat ekki lengur sinnt málum sem skildi. Kærandi fór í læknismeðferð sem bar ágætan árangur og haustið 2010 var hann aftur orðinn vel vinnufær.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema 238.522.343 krónum og falla þær í heild sinni innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, (lge.) nr. 101/2010. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005, 2006 og 2009 í tengslum við fjárfestingar kæranda erlendis.

Skuldir kæranda eru eftirfarandi: Tékkareikningar/yfirdráttarlán hjá Landsbankanum hf., samtals að fjárhæð 12.977.010 krónur. Lán hjá Landsbankanum hf. að fjárhæð 81.018.738 krónur. Lán hjá Landsbankanum hf. að fjárhæð 76.453.482 krónur. Veðkrafa hjá Landsbankanum hf. að fjárhæð 15.905.787 krónur. Þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 21.699.975 krónur. Bílasamningar hjá Íslandsbanka, samtals að fjárhæð 5.997.182 krónur. Veðkröfur hjá Íbúðalánasjóði, samtals að fjárhæð 22.418.731 króna. Aðrar skuldir kæranda nema samtals 2.051.438 krónum.

Kröfuhafi Tegund Ár Staða
Landsbankinn hf. Veðkrafa 2005 15.905.787 kr.
Landsbankinn hf. Lán 2006 81.018.738 kr.
Ergo, fjármögnunarþj. Íslandsbanka Bílasamningur 2007 4.310.389 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2008 14.105.618 kr.
Landsbankinn hf. Lán 2009 76.453.482 kr.
Ergo, fjármögnunarþj. Íslandsbanka Bílasamningur 2010 1.686.793 kr.
Tollstjórinn í Rvk. Þing- og sveitarsjóðsgjöld 21.699.975 kr.
Landsbankinn hf. Tékkareikn./Yfirdráttur 12.977.010 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkröfur 8.313.113 kr.
Aðrir Aðrar skuldir 2.051.438 kr.
Samtals 238.522.343 kr.

Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga þeirra sem kærandi hefur undirgengist nema 11.173.197 krónum. Skuldir þessar eru samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara: Ábyrgð á láni hjá Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka vegnaX ehf. að fjárhæð 3.870.970 krónur. Ábyrgð á láni hjá Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka vegna X ehf. að fjárhæð 4.123.308 krónur. Ábyrgð á láni hjá Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka vegna X ehf. að fjárhæð 2.882.016 krónur. Eins er til staðar ábyrgð á láni hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) að fjárhæð 76.170 krónur. Samkvæmt yfirlit umboðsmanns skuldara eru 10.952.464 krónur í vanskilum vegna þessara ábyrgða­skuldbindinga.

Kröfuhafi Lántaki Ár Fjárhæð
LÍN Z 2005 296.903 kr.
Ergo, fjármögnunarþj. Íslandsbanka X ehf. 2007 3.870.970 kr.
Ergo, fjármögnunarþj. Íslandsbanka X ehf. 2007 4.123.308 kr.
Ergo, fjármögnunarþj. Íslandsbanka X ehf. 2007 2.882.016 kr.
Samtals 11.173.197 kr.

 Tekjur kæranda síðastliðin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur hans að meðaltali 354.452 krónur eftir frádrátt skatts, 35.192 krónur árið 2007, 195.518 krónur árið 2008, 2.713.601 króna árið 2009, 41.023 krónur árið 2010 og 816.893 krónur árið 2011.

Ár kr. Meðaltekjur á mánuði
2011 kr. 816.893
2010 kr. 41.023
2009 kr. 2.713.601
2008 kr. 195.518
2007 kr. 35.192
2006 kr. 354.452

Eignir kæranda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru bankainnstæður að verðmæti 1.834.688 krónur, fasteign að verðmæti 52.700.000 krónur og fasteign að verðmæti 1.710.000 krónur. Einnig bifreið að verðmæti 2.660.607 krónur og vélsleði að verðmæti 2.700.000 krónur.


Tegund

Eignarhlutur
Bankainnistæður 1.834.688 kr.
Fasteign 52.700.000 kr.
Fasteign 1.710.000 kr.
Bifreið 2.660.607 kr.
Vélsleði 2.700.000 kr.

 Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 12. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. nóvember 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til c-, d-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr., með hliðsjón af a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um endurskoðun ákvörðunar umboðsmanns skuldara þar sem rangt sé farið með staðreyndir máls. Í kæru hans kemur fram að sambýliskona kæranda hafi greitt fyrir umdeildan vélsleða í málinu og hann síðan verið seldur aftur. Eins kemur fram í kæru að ranglega sé staðhæft af umboðsmanni skuldara að kærandi hafi verið framkvæmdastjóri X ehf. þegar skuld við Ríkisskattstjóra varð til.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara ítrekar kærandi að það sé rangt að hann hafi verið framkvæmdastjóri X ehf. frá 3. mars 2009. Það rétta sé að hann hætti sem framkvæmdastjóri félagsins þann dag. Kærandi vísar til meðfylgjandi afrits stjórnarfundar X ehf. sem sent var Ríkisskattstjóra þar um.

Vegna staðhæfingar umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi keypt vélsleða eftir að hann sótti um greiðsluaðlögun ítrekar kærandi að sambýliskona hans hafi alfarið greitt fyrir sleðann, þótt hann hafi verið á nafni kæranda og hann síðan hafi haft milligöngu um kaupin með nokkrum greiðslum. Sleðinn hafi verið greiddur að fullu og síðan seldur.

Kærandi vísar í athugasemdir sem hann hafi sent umboðsmanni skuldara vegna málsins 25. október 2012. Þar kemur fram að hann mótmæli því harðlega að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagstöðu hans á þeim tíma sem til fjárfestingarinnar var stofnað og að hann hafi farið óvarlega í þeim fjárfestingum sem hann hafi veðsett fasteign sína fyrir. Kærandi vísar í gögn málsins, meðal annars mat danskrar fasteignasölu á skuldbindingunni, og eins til þeirrar staðreyndar að bæði endurskoðandi kæranda, sem fór yfir arðsemi og áhættu verkefnisins, sem og lögmaður, sem kannaði lögfræðihlið málsins, hafi óskað eftir því að fá að taka þátt í verkefninu, sem þeir hafi síðan gert. Kærandi telur þetta til marks um að allir sem að þessari fjárfestingu hafi komið, hafi þannig verið jafn sannfærðir og kærandi um fjárfestingin væri örugg og áhættulítil. Ráðgjafar kæranda hafi ekki séð fyrir hrunið, ekki frekar en flestir aðrir sem hafi fjallað um fjármál á þeim tíma.

Í sömu athugasemdum kemur fram að kærandi hafi í mars 2009 hætt sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. Á þeim tíma hafi allur virðisaukaskattur sem félagið átti að greiða verið í skilum. Annar einstaklingur hafi síðan tekið við félaginu og borið ábyrgð á rekstri þess frá þeim tíma og allt fram að gjaldþroti félagsins.

Vegna skattaskuldar sinnar að fjárhæð 21.699.975 krónur, vegna frestunar á skattlagningu söluhagnaðar, bendir kærandi á að árið 2009 hann hafi þurft að fjárfesta til að komast hjá þessum skatti. Það hafi verið ástæðan fyrir því að hann hafi losað meðeiganda sinn undan ábyrgðarskuldbindingum X ehf. sumarið 2009. Þar með ætti hann félagið og hefði getað selt sér fasteign félagsins fyrir áramótin 2009–2010. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir.

Í athugasemdunum kæranda kemur enn fremur fram að á meðan hann hafi verið í greiðsluskjóli hafi hann náð að leggja fyrir frá um 500.000 krónum til 3.000.000 króna. Fjárhæðin hafi sveiflast til, allt eftir þörfum á útgjöldum.

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara leggi áherslu á það að finna leiðir til þess að hafna umsóknum í stað þess að fara eftir grundvallaratriði lagasetningarinnar, þ.e. að forða skuldurum frá skuldum sem þeir geti sannanlega ekki greitt og gætu leitt til gjaldþrots viðkomandi. Að mati kæranda vinnur umboðsmaður skuldara því gegn þeim lögum sem sett hafi verið við stofnun embættisins.

Með vísan til þess sem að framan greinir krefst kærandi þess að umboðsmanni skuldara verði gert að snúa við ákvörðun sinni í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður þær sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Umboðsmaður skuldara færir rök fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í c-, d-, f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr., með hliðsjón af a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmanni skuldara þótti liggja fyrir að fjárhagserfiðleika kæranda hafi að mestu leyti mátt rekja til atvinnureksturs og fjárfestinga.

Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Fjárhagserfiðleika kæranda megi að mestu leyti rekja til viðamikilla fjárfestinga í Danmörku sem hafi falist í kaupum á sjö lúxusíbúðum árin 2005 og 2006 fyrir 72.000.000 danskra króna eða u.þ.b. 1,6 milljarða íslenskra króna. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir nánari upplýsingum frá kæranda vegna þessarar fjárfestingar og hvað hafi orðið um eignirnar. Í svari kæranda hafi komið fram að ráðist hafi verið í fjárfestinguna í hagnaðarskyni. Kærandi hafi átt að fá íbúðirnar afhentar 1. október 2007 en mikil töf hafi orðið á því. Það hafi aftur raskað áætlunum kæranda umtalsvert, þar sem fasteignaverð í Kaupmannahöfn hafi hækkað um 35% á biðtímanum og sala nýrra fasteigna í Kaupmannahöfn dregist saman. Í kjölfarið hafi kærandi farið þess á leit að losna undan samningunum sem hafi kostað hann mikla peninga.

Í sama svari kæranda komi einnig fram að hann hafi í félagi við annan mann stofnað fyrirtækiðX ehf. árið 2007. Samstarf þeirra hafi kostað kæranda yfir tug milljóna þar sem ágreiningur hafi komið upp varðandi reksturinn. Haustið 2008 hafi meðeigandi kæranda boðið honum 55% hlut sinn í fyrirtækinu gegn því að kærandi tæki yfir ábyrgðarskuldbindingar fyrirtækisins hjá Ergo og Lýsingu hf. Kærandi hafi ekki fengið þann hlut sem um var samið og sitji því uppi með ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 10.952.464 krónur.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að greiðsluerfiðleika kæranda megi að mestu leyti rekja til þeirra miklu fjárfestinga og skuldbindinga sem hann hafi stofnað til á fyrrgreindum árum í hagnaðar- og atvinnuskyni. Samkvæmt skuldayfirliti nemi núverandi heildarskuldir kæranda 238.522.343 krónum en einungis lítill hluti heildarskulda hans eigi rætur að rekja til lána vegna íbúðar- eða bifreiðakaupa til eigin nota. Stærsti hluti heildarskulda kæranda séu lán í erlendum gjaldmiðlum sem hann hafi tekið hjá Landsbankanum árin 2005, 2006 og 2009 en af gögnum málsins megi ráða að stofnað hafi verið til þessara skuldbindinga í tengslum við umfangsmiklar fjárfestingar hans. Viðskipti af þessum toga geti talist til áhættusamra fjárfestinga en við mat á því sé einkum horft til nokkurra áhættuþátta, svo sem gengissveiflna, verðbólgu, sveiflna á fasteignamarkaði og umfangs viðskiptanna.

Samkvæmt gögnum málsins hafi fastar tekjur kæranda fyrst orðið reglulegar árið 2011, sé litið til áranna 2006–2012. Samkvæmt skattframtali 2007 vegna tekna ársins 2006 hafi eignir kæranda numið samtals 49.749.472 krónum í formi hlutabréfaeignar, innstæðna og verðbréfa, auk fjármagnstekna vegna sölu hlutabréfa að fjárhæð 3.017.351 króna. Einungis sé miðað við nafnverð hlutabréfaeignar í deCODE genetics (34.683 krónur), Sparisjóði Vestfirðinga (152.113 krónur) og Bláa Lóninu hf. (52.762 krónur), þar sem nánari upplýsingar um virði hlutanna liggi ekki fyrir. Það ár hafi eignir kæranda verið metnar á 56.571.185 krónur en persónulegar skuldir hans hafi numið um 16.203.603 krónur. Hrein eign kæranda vegna atvinnurekstrar hafi numið 16.296.884 krónum en tap rekstursins um 1.242.125 krónum.

Þegar fjárfestingar kæranda séu virtar í heild verði ekki framhjá því litið að þær hafi verið afar umfangsmiklar enda hafi þær numið u.þ.b. 1,6 milljörðum íslenskra króna. Umboðsmaður skuldara bendir á að þegar svo há fjárhæð sé fyrir hendi líti embættið svo á að mikil áhætta fylgi fjárfestingu og gildi einu þótt eignir þess sem fjárfesti séu töluverðar í þessu samhengi, sér í lagi ef meirihluti eigna séu verðbréf og/eða hlutabréf. Fjárfestingum í verðbréfum og hlutabréfum fylgi ávallt einhver áhætta og aldrei hægt að segja nákvæmlega fyrir um framtíðarvirði þeirra. Þrátt fyrir að fjárhagur kæranda hafi verið góður á þeim tíma sem til skuldbindinganna hafi verið stofnað þá gefi það ekki tilefni til að ætla að hann hefði getað mætt þeim fjárhagslegu áföllum sem gætu átt sér stað vegna fjárfestingarinnar, sér í lagi ef tekið sé tillit til ótryggs virðis meirihluta eigna kæranda, þ.e. verð- og hlutabréfa. Við mat á áhættuþáttum viðskiptanna sé einnig litið til þess að íbúðirnar hafi ekki verið tilbúnar til afhendingar þegar hann hafi fjárfest í þeim og svo virðist sem kærandi hafi ekki tryggt sér kaupendur að þeim. Að öllu virtu sé litið svo á af hálfu embættisins að með kaupum á íbúðunum í ágóðaskyni hafi falist veruleg áhætta sem kæranda hafi mátt vera ljós.

Umboðsmaður skuldara vísar jafnframt til þess að í frumvarpi til lge. komi fram að ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. taki að hluta til mið af 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gþl.), enda komin nokkur reynsla á beitingu ákvæðisins í dómaframkvæmd. Megi í því samhengi nefna dóm Hæstaréttar frá 31. maí 2010 (í máli nr. 231/2010) þar sem skuldari var talinn hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað og honum því synjað um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í því máli hafi skuldari fjárfest í þremur íbúðum og hafi sú fjárfesting verið talin áhættusöm með hliðsjón af lágum tekjum hans. Tvær íbúðanna hugðist skuldari gera upp og selja. Skuldari hafi meðal annars borið því við að lánastofnun hafi metið áhættuna af þessum fjárfestingum og í framhaldinu tekið ákvörðun um að veita honum lán sökum þess hve auðvelt yrði að selja íbúðirnar. Þá hafi skuldari ekkert aðhafst í fjármálum sínum nema eftir ráðum sérfræðinga en þessar röksemdir hans hafi engu þótt breyta um þá afstöðu dómsins að skuldari hafi tekið of mikla áhættu með þessum fjárfestingum.

Að sama skapi telur umboðsmaður skuldara að hér breyti því engu um að kærandi hafi tekið of mikla áhættu með fjárfestingu sinni, hvorki að hæstaréttarlögmaður og endurskoðandi hafi talið áhættuna í lágmarki, og ákveðið að taka sjálfir þátt í verkefninu með kæranda, né að fasteignasali í Danmörku hafi talið fjárfestinguna góðan kost. Kærandi hljóti sjálfur að bera ábyrgð á fjárhagslegum ákvörðunum sínum, hvað sem áliti og/eða mati annarra líði, sbr. ofangreindan dóm Hæstaréttar.

Í greinargerð sinni í málinu vísar umboðsmaður skuldara jafnframt til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 56/2011 og nr. 26/2011, þar sem vísað var til þess að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar, nýti sér úrræði sem í greiðsluaðlögun felist.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi háttsemi kæranda því verið af þeim toga að ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi girt fyrir að kæranda yrði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. sé lýst þeim aðstæðum þegar skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. sé samhljóða ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, sem nú sé fallið brott. Í dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010, í máli nr. 721/2009, hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til, með þeirri háttsemi sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. tiltaki, geti varðað synjun á heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara bendir á að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi hafði ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotalaga hafi í framkvæmd verið skilið svo „að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“.

Í 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, komi fram að refsing geti meðal annars verið lögð við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum, t.a.m. staðgreiðslu launagreiðanda, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

Í máli kæranda liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félögunum X ehf. og Æ ehf. Kærandi gegni ýmist stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarmanns, stjórnarformanns, meðstjórnarmanns eða/og prókúruhafa í þessum félögum. Skattskuldirnar felist meðal annars í ógreiddum virðisaukaskatti, þing- og sveitarsjóðsgjöldum, staðgreiðslu tryggingagjalds og fésektum ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra. Stöðu sinnar vegna beri kærandi ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1944. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna vanskila á þeim.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá tollstjóra hvíli skuld að fjárhæð 2.448.818 krónur á X ehf. vegna vangoldins virðisaukaskatts, auk fésektar ársreikningaskrár að fjárhæð 250.000 krónur. Á félaginu Æ ehf. hvíli einnig skuld vegna fésekta ársreikningaskrár að fjárhæð 250.000 krónur. Til skuldanna hafi stofnast á árunum 2009–2012 og nemi þær í heild sinni 2.948.818 krónum. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra byggist skuldir X ehf. vegna vangoldins virðisaukaskatts að mestu leyti á áætlun Ríkisskattstjóra.

Vegna athugasemda kæranda um að það sé rangt að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem til skuldanna hafi verið stofnað bendir umboðsmaður á það í greinargerð sinni að samkvæmt opinberri skráningu hafi kærandi verið stjórnarmaður frá árinu 2006 til dagsins í dag og framkvæmdastjóri frá 5. mars 2009. Ekki liggi fyrir hversu lengi hann gegndi því starfi. Kærandi beri því ábyrgð á greiðslu áðurnefndra skatta hvort sem ábyrgðin byggi á stöðu hans sem framkvæmdastjóra eða sem stjórnarmanns í hlutafélaginu. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 59/2011 hafi nefndin talið að þegar svo hátti til, að skuldari hafi ekki staðið skil á tilteknum opinberum gjöldum fyrir hönd einkahlutafélags sem hann sé í fyrirsvari fyrir, komi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. til skoðunar. Með vísan til meðal annars þessa hafi nefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi um ákvæðið að heimildinni megi beita ef um sé að ræða aðila sem mjög hafi farið offari í skuldsetningu, sem og í þeim tilvikum þegar rót skulda sé af þeim toga að samfélagslega óásættanlegt sé að greiðsluaðlögun nái til skuldara. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. sé loks tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Umboðsmaður skuldara bendir á að af gögnum málsins verði ráðið að hluti krafna á hendur kæranda séu þess eðlis að líta verði til sjónarmiða að baki ákvæða f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi skuldi í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar og opinber gjöld séu vangreidd. Kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 21.699.975 krónur. Samkvæmt úrskurði Ríkisskattstjóra 25. október 2011 hafi skattlagningu söluhagnaðar í atvinnurekstri að fjárhæð 54.600.000 krónur verið frestað, sbr. skattframtal 2008. Eftirstöðvar frestaðs söluhagnaðar að fjárhæð 44.600.000 krónur, að viðbættu 10% álagi, 4.460.000 krónur, hafi verið færðar til tekna á skattframtali 2010. Ekki verði talið samrýmast tilgangi laga um greiðsluaðlögun að undir þau falli skattaskuldir vegna fyrirtækjareksturs.

Auk þess sé erfitt að líta framhjá því að fjárfesting fyrir 1,6 milljarða króna geti vart talist hófleg og sé slík fjárfesting ekki þess eðlis að eðlilegt og sanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til hennar, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Jafnframt bendir umboðsmaður skuldara á það að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi gert lánasamning um kaup á Arctic Cat vélsleða 26. mars 2010 að verðmæti 2.700.000 krónur. Sambýliskona hans hafi greitt 1.000.000 krónur kaupverðsins en kærandi hafi sjálfur skuldbundið sig til greiða 1.745.928 krónur. Í ljósi þess að aðrar kröfur hans hafi þá þegar verið komnar í vanskil, þ. á m. yfirdráttarlán á reikningi í Landsbankanum, nú að fjárhæð 4.384.477 krónur, annað lán í Landsbankanum, nú að fjárhæð 15.905.780 krónur, tvö lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, nú að fjárhæð 144.366 krónur og 140.923 krónur og þrjú lán hjá Íbúðalánasjóði, nú að fjárhæð 14.105.618 krónur, 3.949.111 krónur og 4.364.002 krónur, verði að telja það ámælisvert að kærandi hafi stofnað til nýrrar skuldbindingar með kaupum sínum á áðurnefndum vélsleða 26. mars 2010, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., hvernig svo sem greiðsluskilmálum og/eða lánatilhögun sé háttað.

Í greinargerð sinni þykir umboðsmanni skuldara vert að benda á að í greinargerð með kæru segi kærandi að sambýliskona sín hafi greitt fyrir vélsleðann. Í tölvupósti frá kæranda 23. september 2012 kveðst kærandi aftur á móti hafa greitt allar afborganir af sleðanum sjálfur, en sambýliskona hans hafi greitt 1.000.000 króna í útborgun við kaupin.

Umboðsmaður skuldara bendir enn fremur á að í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til lge. komi fram í V. kafla að ekki skuli samþykkja umsókn teljist hún óeðlileg á einhvern hátt. Þar sé rakið að hafna beri umsókn ef skuldari gefi rangar rangar upplýsingar í henni um fjárhagsstöðu sína og ef skuldari sýni lítinn sem engan áhuga á að leysa mál sín eftir bestu getu. Umboðsmaður skuldara telur það vera í samræmi við eðlilega túlkun á tilgangi laganna að ekki skuli veita einstaklingum aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, sé ljóst að þeir sjálfir vinni gegn þeim markmiðum að gera sjálfum sér kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Umboðsmaður skuldara telur að t.a m. sú háttsemi kæranda að festa kaup á vélsleða 26. mars. 2010, eftir að hann hafi verið kominn í greiðsluerfiðleika og vanskil gagnvart öðrum kröfuhöfum, hljóti að vekja upp spurningar um vilja kæranda til að standa við aðrar skuldbindingar sínar. Gildi einu hvort sambýliskona hans hafi greitt útborgun vegna kaupanna, enda hafi kærandi sjálfur borgað afborganir af sleðanum. Ekki verði séð að kaup á vélsleða geti fallið undir nauðsynleg útgjöld sem kæranda hafi verið nauðsynleg.

Í a–d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. séu skyldur skuldara sem séu í greiðsluskjóli raktar. Í a-lið komi fram að skuldara beri að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi launatekjur kæranda samtals numið 13.707.174 krónum eftir frádrátt skatts frá umsóknardegi, 12. janúar 2011. Þá sé ekki tekið tillit til leigutekna sem nemi mánaðarlega 305.300 krónum, þar sem ekki liggi ljóst fyrir hversu lengi kærandi hafi notið þeirra. Að teknu tilliti til þeirra bættust 6.716.600 krónur við fyrrgreinda fjárhæð launatekna kæranda, eða samtals 20.723.774 krónur. Sé miðað við að kærandi standi straum af framfærslu sinni, auk helmings framfærslukostnaðar vegna þriggja barna sambýliskonu sinnar, hefði framfærslu-kostnaður samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara samtals numið 7.148.856 krónum frá janúar 2011 og hefði kærandi samkvæmt því átt að geta lagt fyrir 12.525.964 krónur. Sé ekki tekið tillit til leigutekna hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 6.558.318 krónur á tímabilinu.

Í samskiptum embættisins við kæranda hafi verið óskað eftir því að lagt yrði fram bankayfirlit yfir það sem safnast hefði á meðan greiðsluskjól varði í samræmi við skyldur umsækjanda samkvæmt 12. gr. lge. Því hafi ekki verið sinnt og verði það metið sem svo að með háttsemi sinni hafi kærandi farið í bága við f-lið 2. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. lge. Í greinargerð sinni bendir umboðsmaður skuldara á að samkvæmt bréfi, dags. 25. október 2012, hefði kærandi sagst hafa lagt fyrir á bilinu 500.000 krónur til 3.000.000 króna á tímabili greiðsluskjóls en hafi þó ekki lagt fram gögn því til stuðnings. Kærandi hafi enn fremur látið í ljós óánægju sína með þau framfærsluviðmið sem miðað sé við og talið framfærslu sína nema minnst 350.000 krónum á mánuði, utan „eðlilegra sumar- og vetrarleyfisferða“ samkvæmt tölvupósti 23. september 2012. Embættið telur einsýnt að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og vísar sérstaklega til þess viðhorfs sem kærandi lýsi í samskiptum sínum við embættið, þar sem hann telji eðlilegt að fara bæði í sumar- og vetrarleyfisferðir, auk þess að veita að lágmarki 350.000 krónum í mánaðarlega framfærslu sína, þrátt fyrir að njóta frestunar greiðslna gagnvart kröfuhöfum.

Að öllu ofangreindu virtu þykir umboðsmanni skuldara óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á þann hátt að óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á c-, d-, f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr., með hliðsjón af a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns skuldara virðist byggjast fyrst og fremst á því að kærandi hafi ráðist í afar viðamiklar fjárfestingar með þátttöku sinni í áðurnefndu fasteignaverkefni í Danmörku en tilgangur þess hafi verið að hagnast á sölu sjö lúxusíbúða. Í kaupum á þeim hafi falist veruleg áhætta sem kæranda mátti vera ljós og hafi embættið litið svo á að þessi háttsemi hafi verið af þeim toga að ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. girti fyrir að kæranda yrði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Í ljósi gagna málsins verður að fallast á það með umboðsmanni skuldara að kærandi hafi frá upphafi hætt miklu með því að taka há lán til kaupa á íbúðunum. Hér er um að ræða áhættufjárfestingu þar sem veðjað var á von um hagnað en hættan frá upphafi mikil á því að lánin gætu fallið á kæranda og ljóst að þau voru svo há að eignastaða hans eða greiðslugeta gæti, ef illa færi, aldrei staðið undir þeim.

Heildarlánataka vegna verkefnisins nam u.þ.b. 1,6 milljörðum íslenskra króna. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi tekið lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 44.000.000 króna árið 2006 sem hafi verið eingreiðslulán til fimm ára. Því láni hafi síðar verið breytt í erlenda gjaldmiðla. Lánssamningur sem kærandi hafi gert við Sparisjóðinn í Keflavík árið 2009 um lán í evrum fyrir jafnvirði u.þ.b. 68,5 milljónir íslenskra króna, sem Landsbankinn hafi síðar yfirtekið, hafi verið gerður til að greiða upp eldri skuldir. Miðað við frásögn kæranda sjálfs í greinargerð með umsókn sinni um greiðsluaðlögun þykir ljóst að lántökur þessar megi rekja til fyrrnefnds fasteignaverkefnis.

Af greinargerð kæranda með umsókn um greiðsluaðlögun og öðrum gögnum málsins má ráða að greiðsluerfiðleika kæranda megi að mestu leyti rekja til áhættufjárfestinga en einungis lítill minnihluti heildarskulda kæranda á rætur sínar að rekja til lána vegna fasteignar- eða bifreiðakaupa kæranda til eigin nota. Lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, er ætlað að beita ríkisvaldinu til að knýja kröfuhafa til að lækka skuldir einstaklinga sem stofnast hafa vegna útgjalda þeirra og fjölskyldna þeirra til eigin nota en ekki skulda sem eigi rót sína að rekja til umfangsmikilla viðskipta- og/eða atvinnureksturs, sbr. úrskurði kærunefndarinnar í málum nr. 56/2011 og 26/2011.

Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með eigin atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Með vísan til þess er að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara þegar af þeim ástæðum er greinir í c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum