Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2011

 Mánudaginn 19. ágúst 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 18. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. desember 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi, dags. 3. janúar 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 27. janúar 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 2. febrúar 2012, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum 15. febrúar 2012. Voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 2. mars 2012.

 I. Málsatvik

Kærendur eru í sambúð og búa ásamt þremur börnum sínum í leiguíbúð í Noregi.B er menntaður pípulagningarmaður. Meðalráðstöfunartekjur hans eru í dag 460.000 krónur. A er leikskólakennari að mennt. Meðalráðstöfunartekjur hennar eru 380.400 krónur. Að auki fá kærendur barnabætur að fjárhæð 58.200 krónur á mánuði og húsaleigutekjur á Íslandi að fjárhæð 120.000 krónur á mánuði.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2000 þegar B slasaðist á fæti í frítíma sínum þannig að hann gat ekki unnið eins og hann hafði gert áður. Tekjur minnkuðu í kjölfarið og erfiðara var að standa skil á greiðslum. Þau hafi þá brugðið á það ráð að taka og sameina lán en þegar bankahrunið varð 2008 hafi allar skuldir hækkað og þau lent í vanskilum með lán og aðrar skuldir. B fékk vinnu í Noregi og hefur búið þar og starfað síðan 2009. A flutti til Noregs í júlí 2010. Var hún atvinnulaus fyrst um sinn, en fékk vinnu sem leikskólakennari í mars 2011.

Heildarskuldir kærenda eru 36.629.361 króna samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Þar af eru 330.915 krónur sem falla utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.).

Þann 1. desember 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. desember 2011, á grundvelli þess að þau uppfylltu ekki skilyrði greiðsluaðlögunar skv. 4. mgr. 2. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Að sögn kærenda var ástæða þess að kærendur tóku þá ákvörðun að flytja út sú að B fékk vinnu í Noregi í mars 2009. Vinna fyrir iðnaðarmann eins og B hafi dregist svo mikið saman á Íslandi að ekki hafi verið um annað velja en að fara út. Öll fjölskyldan flutti síðan út í júlí 2010. Kærendur sáu fyrir sér að með þessu móti gætu þau haldið áfram að greiða inn á skuldir sínar á Íslandi. A hafi ekki fengið vinnu fyrr en í mars 2011 og var þá sú ákvörðun tekin að sækja um greiðsluaðlögun.

Staðan á málum kærenda sé í dag sú að þau hafa farið í gegnum 110% aðlögun íbúðalána hjá Íslandsbanka og eins var bíll A seldur með yfirtöku á áhvílandi láni. Kærendur telja sig samt ekki hafa greiðslugetu til þess að standa undir mánaðarlegum afborgunum af eftirstandandi skuldum sínum. Þau séu með góðar tekjur í Noregi en af þeim tekjum greiði þau húsaleigu í Noregi, rekstur á bíl og fimm manna fjölskyldu.

Í athugasemdum sínum við greinargerð umboðsmanns skuldara taka kærendur fram að A sé búin að sækja um nám í N og tekur það nám tvö ár með vinnu og fer hún í hlutastarf meðan á námi stendur. Stefnir hún jafnframt að því að taka M sem tekur tvö ár í viðbót. Samtals séu þetta fjögur ár og hafa kærendur markað sér þennan tímaramma með búsetu sinni í Noregi, þ.e. fram til vors 2016. B stefnir einnig að því að ljúka sveinsbréfi í pípulögn vorið 2013. Jafnframt sé elsti sonur þeirra í námi í pípulögn og á samningi hjá norsku fyrirtæki. Áætlað er að hann ljúki námi í desember 2014.

Kærendur telja það hafa verið mikilvægt að sækja vinnu í Noregi til að byrja með til þess að komast inn í málið og fyrir A að kynna sér leikskólastarfið í Noregi áður en haldið væri í frekara nám.

Kærendur líta ekki á flutninga sína til Noregs sem framtíðarflutninga. Þau hafi séð þetta sem leið til þess að reyna að standa við þær skuldbindingar sem þau höfðu tekið sér á hendur á Íslandi. Í greinargerð sinni með umsókn um greiðsluaðlögun til umboðsmanns hafi þeim yfirsést að setja búsetu sinni erlendis einhver tímamörk, þau hafi ekki vitað að þess þyrfti.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga til að leita greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður vísar einnig til 4. mgr. 2. gr. lge. þar sem kveðið er á um að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Vísar umboðsmaður til fyrirliggjandi gagna þar sem komi fram að kærendur hafi flust búferlum til Noregs með lögheimilisbreytingu þann 24. júní 2009 annars vegar og þann 15. júlí 2010 hins vegar, samkvæmt skráningu í þjóðskrá. Í greinargerð kærenda hafi komið fram að þau séu bæði komin með vinnu í Noregi og börnum þeirra líði þar vel. Þau eigi því von á að búa þar áfram í einhver ár en viti ekki hversu mörg þau verði. Sama afstaða kærenda hafi komið fram í viðbótargreinargerð með umsókn frá 1. desember 2011. Báðir kærendur hafi fengið áframhaldandi ráðningarsamninga og húsaleigusamningur þeirra gildi til 30. júní 2013. Þau hafi einnig leigt út fasteign sína hér á landi og sé sá leigusamningur ótímabundinn frá 13. júní 2010.

Vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 24. nóvember 2011 í máli nr. 14/2011 þar sem reyndi á hvort undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við um búsetu kæranda erlendis. Í niðurstöðu nefndarinnar kom meðal annars fram að „með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“

Að mati umboðsmanns hafi kærendur ekki lagt fram gögn til frekari stuðnings því að búseta þeirra í Noregi sé tímabundin. Ákvæði 4. mgr. 2. gr. lge. um tímabundna búsetu feli í sér undantekningu frá meginreglu laganna um lögheimili og búsetu á Íslandi. Af þeim sökum beri kærendum að skýra með fullnægjandi hætti að um tímabundna búsetu sé að ræða og leggja fram viðeigandi gögn því til stuðnings. Það hafi ekki verið gert af hálfu kærenda.

Umboðsmaður telur að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins uppfylli kærendur ekki skilyrði þess að leita greiðsluaðlögunar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., og því fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði er heimilt að víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda í Noregi sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. laganna eigi við. Með tímabundinni búsetu er átt við að sýnt sé fram á eða gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur tímabundið verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður jafnframt að styðja slíka staðhæfingu gögnum og er ekki fullnægjandi í því sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau eru nú búsett í Noregi og hefur B verið með skráð lögheimili þar frá 24. júní 2009 annars vegar og A frá 15. júlí 2010 hins vegar. Kærendur eru bæði í vinnu og huga jafnframt á nám í Noregi. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur ekki sýnt fram á að búseta þeirra sé tímabundin í skilningi laganna.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um greiðsluaðlögun er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum