Hoppa yfir valmynd
3. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 207/2015

Fimmtudaginn 3. desember 2015

207/2015

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Þuríður Árnadóttir lögfræðingur og Ludvig Guðmundsson læknir.

Með kæru, dags. 13. júlí 2015, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 4. maí 2015 um synjun slysabóta.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi varð fyrir slysi við vinnu sína á bráðamóttöku Landspítala þann X. Tilkynnt var um slysið þann 16. mars 2015 og var slysinu lýst svo í tilkynningunni:

„Varð fyrir áverka þegar hún var að flytja sjúkling í CT Fossvogi ásamt hjúkrunarfræðingi, var að snúa honum og flytja á milli fyrir myndatöku, fékk hnykk við það og áverka á hægri handlegg og háls.“

Í málinu liggur fyrir áverkavottorð C, dags. X. Í vottorðinu eru tildrögum slyssins lýst svo:

„Var að lyfta og aðstoða við flutning á sjúkling. Hlýtur við það hnykk á hægri handlegg og háls.“

Með bréfi, dags. 4. maí 2015, synjuðu Sjúkratryggingar Íslands bótaskyldu í málinu á þeirri forsendu að slysið væri ekki að rekja til skyndilegs utanaðkomandi atburðar eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarás heldur til líkamlegra eiginleika og félli atvikið því ekki undir slysatryggingu almannatryggingalaga.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a. svo:

2. Kröfugerð:

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands dags. 4. maí 2015 verði hnekkt og henni ákvarðaður bótaréttur úr slysatryggingu almannatrygginga í samræmi við lög nr. 100/2007 um almannatryggingar vegna slyss við vinnu þann 31. desember 2014.

3. Upplýsingar um kæruefni:

Kærandi er starfsmaður á bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Á bráðadeild er þeim sinnt sem eru slasaðir og veikir og þar fer fram móttaka, greining, meðferð og útskrift á slösuðum og veikum sjúklingum. Þann X var kærandi við hefðbundin störf á dagvakt. Sinnti hún sjúklingi sem lent hafði í slysi. Þar sem um bráðatilfelli var að ræða þurfti að hafa hraðar hendur við umönnum hins slasaða. Lá hinn slasaði á bretti í rúmi. Kærandi og hjúkrunarfræðingur þurftu að flytja hinn slasaða í myndatöku í svokölluðu tölvusneiðmyndatæki (CT). Þess ber að geta að þyngd hins slasaða og brettisins sem hann lá á var í kringum 100 kg. Ekki var notast við lyftara heldur aðeins handafl starfsmannanna tveggja enda um bráðatilfelli að ræða. Er þær sneru honum og voru að koma honum fyrir í tækinu fékk kærandi hnykk á hægri handlegg og háls. Kærandi hefur þjáðst af miklum verkjum í handlegg, hálsi og öxl allt frá slysinu. Í kjölfar slyssins leitaði kærandi til heimilislæknis síns. Hefur hún haft skerta vinnufærni í kjölfar slyssins.

4. Rökstuðningur fyrir kæru:

Samkvæmt bréfi Sjúkratrygginga Íslands dags. 4. maí 2015 var greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga hafnað með þeim rökum að ekki verði séð að slysið megi rekja til skyndilegs utanaðkomandi atburðar eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarrás. Við þessa túlkun getur kærandi ekki sætt sig.

Í málinu er óumdeilt að kærandi var við vinnu þann X við þær aðstæður sem að framan er lýst með þeim afleiðingum að hún fékk verki í handlegg og háls. Ástæðuna fyrir verkjunum má augljóslega rekja til þeirra erfiðu vinnuaðstæðna sem kærandi bjó við er hún þurfti í flýti að flytja slasaðan einstakling í tölvusneiðmyndtæki sem varð þess valdandi að kærandi hlaut áverka á handlegg og háls.

Af úrskurðum Úrskurðarnefndar almannatrygginga má ráða að nefndin hefur hnigið í þá átt að auka réttarvernd þeirra sem verða fyrir líkamstjóni við að lyfta þungri byrði. Meginreglan er að ekki er um slys að ræða ef áverki verður án þess að frávik verði frá venjulegri framkvæmd vinnunnar. Þó er undantekning ef líkamstjón verður vegna ytra álags eða áreynslu sem er umfram það sem venjulegt er við framkvæmd starfans. Vísast hér til úrskurða í málum nr. 116a/1998, 193/2003 og 261/2010. Ljóst er að slys kæranda fullnægir þannig skilyrðum 27. gr. laga um almannatryggingar. Bent er á að slakað hefur verið á sönnunarbyrðinni um orsakasamband vegna meiðsla ef starf felur í sér vinnu með þunga hluti enda eykur slík vinna líkur á meiðslum. Sé um að ræða vinnu við óvenjulegar og erfiðar aðstæður hefur nefndin tekið tillit til þess og litið svo á að um vinnuslys sé að ræða.

Þá er einnig ljóst að taka verður tillit til félagslegs eðlis slysatryggingaákvæðis almannatryggingalaga þegar metið er hvort um skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur slysi sé að ræða. Þannig ber að túlka ákvæði 27. gr. laganna rúmt í ljósi þessa. Hefur nefndin staðfest þetta sjónarmið í úrskurðum sínum, t.d. í málum nr. 116a/1998, nr. 47/2006, nr. 354/2006 og nr. 22/2013. Samkvæmt úrskurðum nefndarinnar skal meta aðstæður hverju sinni þegar atburður á sér stað. Einnig skal bent á að það gæti haft hættulega þróun í för með sér ef bótaskylda er ekki viðurkennd þar sem starfsmenn gætu farið að einblína um of á hugsanlega afleiðingar þess að bregðast við þegar aðstoðar er þörf á vinnustað.

Í lögum um almannatryggingar er ekki að finna skýringu á því hvað átt er við með skyndilegum utankomandi atburði. Við mat á því hefur m.a. verið horft til norrænnar réttarframkvæmdar á sviði almannatrygginga þar sem reynt hefur á hvort um slys sé að ræða ef líkamstjón verður þó ekki sé um að ræða skyndilegan utanaðkomandi atburð í þrengri merkingu þess orðs, t.d. þegar tjón verður við að lyfta byrðum. Af norrænni réttarframkvæmd má ráða að tekið sé nokkurt tillit til þess ef starf hefur almennt í sér fólgna hættu á því líkamstjóni sem starfsmaður verður fyrir. Þegar kærandi varð fyrir líkamstjóni var hún sannanlega að störfum við erfiðar aðstæður eins og áður er lýst sem fólu í sér aukna hættu á tjóni af því tagi er hún varð fyrir. Þegar þannig háttar hefur verið litið svo á að afar líklegt sé að tjónið eigi rót að rekja til utanaðkomandi atvika í skilningi laganna.

Sérstaklega er bent á eftirfarandi úrskurði Úrskurðarnefndarinnar í þessu sambandi:

 

  • Í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 116a/1998 frá 11. apríl 2001 var talið að um vinnuslys hefði verið að ræða er starfsmaður lyfti þungum sjúklingi með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn fékk sting frá baki niður í fót með tilheyrandi verkjum. Vísaði nefndin til þess megintilgangs almannatryggingalaga að tryggja starfsmenn fyrir tjóni sem þeir verða fyrir við vinnu sína. Sérstaklega skal bent á að starfsmaðurinn fékk verk í bakið án þess að sjúklingurinn hefði gert nokkuð er orsakaði slink á bakið. Vísaði nefndin til þess að eðli máls samkvæmt væri hætta á meiðslum við þann starfa að lyfta þungum sjúklingi upp úr hjólastól. Lítið þyrfti til þess að meiðsl hljótist við þær aðstæður. Þegar þannig háttar taldi nefndin að auka þyrfti réttarvernd starfsmanna og túlka slysahugtakið rýmra en ella til að tilgangi löggjafans um tryggingarvernd væri náð. Taldi nefndin því um skyndilegan óvæntan atburð að ræða sem olli líkamlegu tjóni.

  • Í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 190/2003 frá 8. október 2003 rifnaði liðþófi er starfsmaður vann við að lyfta þungu verkfæri. Í niðurstöðu nefndarinnar var höfð hliðsjón af danskri réttarframkvæmd og tekið fram að slakað væri á sönnunarbyrði fyrir orsakasambandi þegar vinna felur í sér óvanalegar vinnustellingar sem samfara vinnu með þunga hluti eykur hættu á áverkum. Mat nefndin það svo að í þessu tilfelli hefði verið um að ræða erfiðar vinnuaðstæður og óvenjulega vinnustellingu og því væri meiri líkur á áverka en að öllu jöfnu. Var bótaskylda því viðurkennd.

  • Í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 338/2005 frá 19. desember 2005 tognaði kærandi á öxl er hann beitti líkamlegu afli við vinnu sína er hann var að lyfta þungum sjúklingi úr rúmi. Vísaði nefndin til þess að vinna við umönnun lamaðs fólks feli í sér aukna hættu á að eitthvað bregði útaf fyrirsjáanlegu vinnuferli, þar sem um lifandi og þungan líkama sé að ræða. Var því talið að um bótaskylt atvik hafi verið að ræða.

  • Í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 261/2010 frá 9. mars 2011 varð starfsmaður á leikskóla fyrir meiðslum á hálsi. Slysið varð með þeim hætti að móðir eins leikskólabarnsins hafði dottið á leikskólalóðinni og þurfti aðstoð við að rísa á fætur þar sem hún þjáðist af M.S. sjúkdómi. Við þetta kom slinkur á háls starfsmannsins sem olli áverkum á hálsi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að slysið væri bótaskylt.

  • Í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 22/2013 frá 3. apríl 2013 varð starfsmaður við aðhlynningu fyrir áverkum er hann aðstoðaði vistmann upp sem dottið hafði í gólfið. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að það grundvallarskilyrði 27. gr. almannatryggingalaga sé uppfyllt að tjónsatburður hafi átt sér stað við vinnu, að orsakasamband sé á milli framkvæmdar starfans og tjónsins og að tjón kæranda sé sennileg afleiðing þess að aðstoða vistmann sem hafði dottið. Með tilliti til forsögu lagaákvæðisins taldi nefndin að megintilgangur lagasetningarinnar hafi verið að tryggja starfsmenn fyrir tjóni sem þeir verða fyrir við vinnu sína og að í almannatryggingalöggöf hafi í sér fólgin sérstakan félagslegan tilgang sem mæli gegn þröngri túlkun á slysahugtakinu. Jafnframt segir að sú athöfn að lyfta einstaklingi upp af gólfi feli í sér aukna áhættu á að eitthvað bregði út af fyrirsjáanlegu vinnuferli þar sem um lifandi og þungan líkama sé að ræða. Þegar þannig háttar til telur nefndin að auka þurfi réttarvernd starfsmanna og túlka slysahugtakið rýmra en ella til að tilgangi löggjafans um tryggingarvernd sé náð. Var bótaskylda því viðurkennd.

     Einnig vísast hér til tveggja Hæstaréttardóma:

    Annars vegar dóms Hæstaréttar frá 28. október 2010 í máli nr. 289/2010 en þar voru málsatvik þau að sjómaður sofnaði á leið til hafnar og vaknaði við það að bátur hans skall á fjörugrjóti. Hlaut sjómaðurinn áverka á hálsi, baki og úlnlið við þetta sem leiddi til óvinnufærni hans um nokkurt skeið. Bæði Sjúkratryggingar Íslands og Úrskurðarnefnd almannatrygginga höfnuðu því að um slys í skilningi 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga hefði verið að ræða. Þar sem sjómaðurinn sætti sig ekki við þá niðurstöðu fór hann með málið fyrir dóm. Hæstiréttur félst á að um slys hefði verið að ræða í skilningi ákvæðisins og vísaði því til stuðnings til lögskýringagagna með ákvæðinu þar sem er að finna skilgreiningu á hugtakinu slys en hún er sú sama og í vátryggingarétti. Félst Hæstiréttur því á að líkamstjón sjómannsins hefði hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 1. mgr. 27. gr. laganna. Taldi dómurinn því ákvörðun Sjúkratryggingar Íslands og úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga hefði ekki byggt á réttri skýringu á ákvæðinu.

    Hins vegar vísast til dóms frá 19. janúar 2012 í máli nr. 426/2011 en þar hafði þungur hlutur fallið á starfsmann. Kom annar starfsmaður honum til aðstoðar og lyfti hlutnum ofan af honum. Hvorki tryggingarfélag vinnuveitanda hans né Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum taldi að slysið væri að rekja til skyndilegs utanaðkomandi atburðar og var því bótaskyldu hafnað. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að slysið væri bótaskylt þar sem gera mætti ráð fyrir því að starfsmenn kæmu samstarfsmönnum sínum sem yrðu fyrir slysum til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að viðkomandi steðjaði. Sama sjónarmið hlýtur að eiga við um það þegar starfsmenn koma einstaklingum sem þeir annast við vinnu sína til aðstoðar. 

Þegar litið er til eðlis starfs kæranda og þess að ekkert hefur komið fram um aðra orsök meiðslanna en þá að hún var að vinna með þunga byrði við sérstakar og erfiðar aðstæður sem gátu falið í sér hættu á líkamlegum áverka verður að telja að viðurkenna beri bótaskyldu skv. lögum um almannatryggingar vegna slyssins. Af öllu framangreindu virtu verður því að telja að slys það er kærandi varð fyrir við vinnu sína þann X sé bótaskylt skv. lögum um almannatryggingar.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði með bréfi, dags. 20. júlí 2015, eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands. Í greinargerðinni, dags. 5. ágúst 2015, segir m.a. svo:

„Þann 16.03.2015 barst Sjúkratryggingum Íslands (hér eftir SÍ) tilkynning um vinnuslys sem kærandi varð fyrir þann X. Með ákvörðun SÍ, dags. 04.05.2015, var  bótaskyldu hafnað á þeim grundvelli að skilyrði 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar (hér eftir almannatryggingalaga) væru ekki uppfyllt. Synjun á bótaskyldu er nú kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Gildissvið

Um slysatryggingar almannatrygginga er fjallað í IV. kafla almannatryggingalaga. Samkvæmt 27. gr. almannatryggingalaga eru launþegar slysatryggðir við vinnu.  Í 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga er hugtakið slys skilgreint á þann hátt að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Til þess að atburður teljist skyndilegur og utanaðkomandi í skilningi ákvæðisins verður að hafa komið upp frávik frá eðlilegri atburðarrás, þar sem eitthvað hefur gerst og haft áhrif á hinn slasaða utanfrá. Þar af leiðandi falla ekki öll slys sem verða við vinnu undir slysatryggingu almannatrygginga heldur eingöngu þau sem falla undir ofangreinda skilgreiningu laganna. Sá sem óskar bóta þarf eðli málsins samkvæmt að sýna fram á að atvik eigi undir skilgreininguna

Ákvörðun SÍ

Í hinni kærðu ákvörðun var bótaskyldu hafnað þar sem skilyrði 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga voru ekki uppfyllt. Var það álit SÍ að ekki hafi verið um að ræða skyndilegan utanaðkomandi atburð í skilningi 27. gr. laganna þar sem samkvæmt gögnum málsins átti atvikið sér stað er kærandi var að lyfta sjúklingi án þess að utanaðkomandi aðstæður hefðu haft þar áhrif. Í tilkynningu kæranda til SÍ var að finna lýsingu hennar á tildrögum og orsök slyssins. Þar sagði: „Varð fyrir áverka þegar hún var að flytja sjúkling í CT Fossvogi ásamt hjúkrunarfræðingi, var að snúa honum og flytja á milli fyrir myndatöku, fékk hnykk við það og áverka á hægri handlegg og háls.“. Í áverkavottorði, dags. X, sagði: „Var að lyfta og aðstoða við flutning á sjúkling. Hlýtur við það hnykk á hægri handlegg og háls.“

Með bréfi SÍ, dags. 23.03.2015, var kæranda send beiðni um nánari upplýsingar um tildrög og orsök slyssins. Óskað var eftir eftirfarandi upplýsingum:

„Vinsamlega tilgreindu nákvæmlega hvernig staðið var að því að lyfta/færa umræddan sjúkling, hversu þungur hann var (u.þ.b.), hvað þú telur að hafi valdið því að þú varðst fyrir skaðanum og hvort aðstæður voru að einhverju leyti óvenjulegar er atvikið átti sér stað.“

Í bréfi kæranda, dags. 20.4.2015, kom eftirfarandi fram.:

 „... Sjúklingur var í rúmi og á bretti. Var að snúa honum til að komast í CT (tölvusneiðmyndatæki), var ég að halda við brettið og hjálpa til við að lyfta því inn. Þyngd hans var um 100 kg. Ég fann marr, rafmagn um líkama og dofa í höndum í smá tíma. Niður í handlegg og háls, byrjaði að finna hræðilegan verk. ... “

Að mati SÍ var í málinu ekki sýnt fram á slys í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga þar sem ekki var um skyndilegan utanaðkomandi atburð að ræða, í skilningi ákvæðisins, og ekkert í gögnum málsins benti til þess að frávik hefði orðið á eðlilegri atburðarrás eða að um hafi verið að ræða óvenjulegar vinnuaðstæður og/eða vinnustellingar. Slysatburð væri því að rekja til líkamlegra eiginlega, án þess að utanaðkomandi aðstæður hefðu þar áhrif.

Þar sem ekki var sýnt fram á slys í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga var ekki heimilt að verða við umsókn kæranda um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga. Var málið því ekki skoðað frekar efnislega.

Athugasemdir við kæru

Í málinu er ágreiningur um hvernig túlka eigi ákvæði 2. ml. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Ákvæðinu var bætt við almannatryggingarlögin með lögum nr. 74/2002. Af úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga eftir gildisstöku laga nr. 74/2002 má ráða að til þess að atburður teljist skyndilegur og utanaðkomandi í skilningi 27. gr. laganna verði almennt að koma upp frávik frá eðlilegri atburðarrás þar sem eitthvað gerist og hefur áhrif á einstakling utanfrá. Þá má atburður ekki verða rakinn til líkamlegra eiginlega, svo sem líkamsástands eða sjúkdóms.

Þrátt fyrir að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi ákveðið að auka réttarvernd ákveðinna stétta, þ. á m. heilbrigðisstarfsmanna, og túlkað slysahugtakið rýmra í þeim tilvikum er þar með ekki sagt vikið sé frá skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laganna við úrlausn þeirra mála. Ef svo væri raunin myndu öll atvik heilbrigðisstarfsmanna falla undir slysahugtakið en ekki verður talið að það hafi verið ætlun nefndarinnar þegar tekin var ákvörðun um að rýmka slysahugtak almannatrygginga. Af úrskurðum nefndarinnar má ráða að ef ekki er um að ræða utanaðkomandi aðstæður sem valda slysi þá verði atvik aðeins fellt undir 27. gr. ef sýnt er fram á að slysið verði rakið til óvenjulegra/erfiðra vinnuaðstæðna eða til þess að hinn slasaði hafi þurft að beita óvenjulegum vinnustellingum þegar slysið varð. Í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 22/2013 frá 03.04.2013 kom fram að um hafi verið að ræða óvenjulegar vinnuaðstæður þar sem sjúklingur lá á gólfi eftir að hafa dottið. Nefndin tók fram að vinnuaðstæður hafi verið frábrugðnar venjulegum vinnuaðstæðum þar sem sjúklingur hafi verið skorðuð milli göngugrindar, veggja og eldhúsinnréttingar og með annan fótinn inn í skáp. Aðstæður hafi verið erfiðar þar sem eldhúsið var þröngt og hinn slasaði þurfti að teygja sig yfir göngugrind sjúklings til að geta lyft henni af gólfinu. Þar af leiðandi hafi vinnustellingar verið óvenjulegar. Er því ljóst að nefndin féll ekki frá skilyrðum slysahugtaksins við úrlausn málsins þar sem tekið var tillit til þess að um hafi verið að ræða erfiðar vinnuaðstæður og óvenjulegar vinnustellingar, án þess að utanaðkomandi aðstæður hefðu haft þar áhrif. Í því felst hin rúma túlkun nefndarinnar. Í máli kæranda var ekki um að ræða óvenjulegar/erfiðar vinnuaðstæður eða óvenjulegar vinnustellingar þar sem kærandi, ásamt samstarfsmanni, var að lyfta þungum sjúklingi af rúmi. Þar af leiðandi er það mat SÍ að atvikið falli utan 27. gr. laganna.

Í kæru er að finna nýja lýsingu á tildrögum og orsök slyssins en þar segir að um bráðatilfelli hafi verið að ræða og að kærandi hafi því  þurft að hafa hraðar hendur. Þessi atvikalýsing hefur ekki verið staðfest af atvinnurekanda og er þessu hvergi lýst í þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu.  SÍ benda á að ný atvikalýsing kemur fyrst fram eftir að bótaskyldu hefur verið hafnað í málinu en kærandi hafði tækifæri til að upplýsa SÍ um þetta atriði áður en ákvörðun var tekin þar sem eftir að tilkynning barst sendu SÍ kæranda bréf og óskuðu eftir nánari lýsingu á tildrögum og orsök slyssins, þ. á m. hvort aðstæður hafi verið að einhverju leyti óvenjulegar er atvikið átti sér stað. Eins og áður segir þá var þessa lýsingu ekki að finna í svari kæranda til SÍ, dags. 20.04.2015. Ef ný atvikalýsing verður lögð til grundvallar í málinu er það álit SÍ að slysahugtak 1. mgr. 27. gr. laganna sé ekki uppfyllt þar sem ekki hafi verið um að ræða óvenjulegar/erfiðar aðstæður, t.d. þröngt rými, og/eða óvenjulegar vinnustellingar. Það að kærandi hafi þurft að hafa hraðar hendur leiðir ekki eitt og sér til þess að atvik falli undir 27. gr. laganna heldur þarf það að hafa valdið því að kærandi hafi þurft að beita sér með ólíkum hætti eða að aðstæður hafi verið óvenjulegar/erfiðar vegna þess. Ljóst er að svo var ekki í máli kæranda þar sem sjúklingur lá á rúmi og tveir starfsmenn sáu um að lyfta sjúklingnum. 

Að öllu virtu ber að staðfesta þá afstöðu SÍ sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og staðfesta hina kærðu ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku.“

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 6. ágúst 2015, og henni gefinn kostur á að koma að frekari gögnum eða athugasemdum. Lögmaður kæranda sendi úrskurðarnefnd svofelldar athugasemdir með bréfi, dags. 7. september 2015:

„Í ljósi athugasemda í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands dags. 5. ágúst s.l. um nýja atvikalýsingu í kæru vill kærandi benda á að það að um bráðatilfelli hafi verið að ræða er slysið varð á ekki að hafa úrslitaáhrif. Vísar kærandi til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 116a/1998, 338/2005 og 22/2013 en þar var talið að um bótaskyld slys væri að ræða í skilningi almannatryggingalaga þrátt fyrir að ekki hefði verið um svokölluð bráðatilfelli að ræða. Að öðru leiti vísast til umfjöllunar um úrskurðina í kæru dags. 13. júlí 2015.“

Athugasemdir lögmanns kæranda voru sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 7. september 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi þann X orðið fyrir slysi sem teljist bótaskylt samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga er greint frá því að kærandi sé starfsmaður á bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss og hafi verið við hefðbundin störf á dagvakt þann X. Hún hafi sinnt sjúklingi sem hafi lent í slysi og þar sem um bráðatilfelli hafi verið að ræða hafi þurft að hafa hraðar hendur við umönnun hins slasaða. Kærandi og hjúkrunarfræðingur hafi þurft að flytja hinn slasaða í myndatöku í tölvusneiðmyndatæki en hann hafi legið á bretti í rúmi og hafi þyngd hins slasaða og brettisins verið í kringum 100 kg. Þegar þær hafi snúið kæranda og verið að koma honum fyrir í tækinu hafi kærandi fengið hnykk á hægri handlegg og háls og hafi hún þjáðst af miklum verkjum í handlegg, hálsi og öxl allt frá slysinu og hafi skerta vinnufærni. Vísað er til úrskurða úrskurðarnefndar almannatrygginga og tveggja Hæstaréttardóma til stuðnings því að um skyndilegan utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða í tilviki kæranda. Þá segir að þegar litið sé til eðlis starfs kæranda og þess að ekkert hafi komið fram um aðra orsök meiðslanna en þá að hún hafi verið að vinna með þunga byrði við sérstakar og erfiðar aðstæður sem hafi getað falið í sér hættu á líkamlegum áverka verði að telja að slysið sé bótaskylt samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í málinu hafi ekki verið sýnt fram á slys í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga þar sem ekki hafi verið um skyndilegan utanaðkomandi atburð að ræða og ekkert í gögnum málsins hafi bent til þess að frávik hefði orðið á eðlilegri atburðarás eða að um hafi verið að ræða óvenjulegar vinnuaðstæður og/eða vinnustellingar. Slysatburð væri því að rekja til líkamlegra eiginleika án þess að utanaðkomandi aðstæður hefðu þar áhrif. Þá segir að þrátt fyrir að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi ákveðið að auka réttarvernd ákveðinna stétta, þ.á m. heilbrigðisstarfsmanna og túlkað slysahugtakið rýmra í þeim tilvikum sé þar með ekki vikið frá skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laganna við úrlausn þeirra mála. Af úrskurðum nefndarinnar megi ráða að ef ekki sé um að ræða utanaðkomandi aðstæður sem valdi slysi þá verði atvik aðeins fellt undir 27. gr. ef sýnt sé fram á að slysið verði rakið til óvenjulegra/erfiðra vinnuaðstæðna eða til þess að hinn slasaði hafi þurft að beita óvenjulegum vinnustellingum þegar slysið hafi orðið. Í máli kæranda hafi hvorki verið um að ræða óvenjulegar/erfiðar vinnuaðstæður né óvenjulegar vinnustellingar þar sem kærandi ásamt samstarfsmanni hafi verið að lyfta þungum sjúklingi af rúmi.

Í 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 segir svo:

,,Slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr.  Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.”

Með lögum nr. 74/2002 var gerð breyting á þágildandi almannatryggingalögum nr. 117/1993. Var 22. gr. breytt þannig að upp í lögin var tekin sú skilgreining að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð.

Fyrir lagabreytinguna hafði umboðsmaður Alþingis gefið álit í máli nr. 2516/1998, dags. 31. ágúst 2000, þar sem slysahugtakið var skilgreint með rýmri hætti en áður hafði tíðkast af hálfu stjórnvalda. Í kjölfar álits umboðsmanns fylgdu nokkrir úrskurðir úrskurðarnefndar almannatrygginga sem einnig byggðust á víðari skilningi m.a. með vísan til þess að slysahugtakið var ekki skilgreint í lagaákvæðinu sjálfu. Með gildistöku laga nr. 74/2002 var skilyrði um skyndilegan utanaðkomandi atburð tekið beint upp í lagaákvæðinu og verður þar af leiðandi að gæta að því sérstaklega hvort það sé uppfyllt.

Hvorki í lögunum sjálfum né í athugasemdum með tilvitnuðu frumvarpi til breytinga á lögunum er skilgreint hvað átt sé við með því að atburður sé „utanaðkomandi“ og „skyndilegur“. Í athugasemdum með 9. gr. frumvarpsins er sérstaklega vísað til skilgreiningar á slysahugtakinu í vátryggingarétti og dönskum rétti og verður réttarframkvæmd á þessum sviðum því höfð til hliðsjónar við úrlausn þessa máls. Við mat á bótaskyldu hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar danska réttarframkvæmd.

Að mati nefndarinnar verða atvik að vera rakin til þess að eitthvað óvænt hafi átt sér stað og að óhapp verði ekki rakið til undirliggjandi sjúkdóms eða meinsemda hjá þeim sem fyrir óhappi verður. Tryggingaverndin nær því ekki til allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geta átt sér stað við vinnu heldur einungis ef um slys er að ræða. Við úrlausn máls þessa ber því að líta til þess hvort utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tengslum við hinn tryggða. Eitthvað verður að hafa gerst sem veldur tjóni á líkama hans og áhorfandi getur áttað sig á að hafi gerst. Verði ekki frávik frá þeirri atburðarás sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða í skilningi almannatryggingalaga. Til að atvik teljist bótaskylt slys verður eitthvað skyndilegt utanaðkomandi að hafa gerst.

Í tilkynningu um slys til Sjúkratrygginga Íslands lýsir kærandi atvikum þannig að hún hafi orðið fyrir áverka þegar hún hafi verið að flytja sjúkling í sneiðmyndatæki ásamt hjúkrunarfræðingi. Hún hafi verið að snúa honum og flytja á milli fyrir myndatöku en fengið við það hnykk og áverka á hægri handlegg og háls. Sú lýsing er í samræmi við nánari lýsingu kæranda á slysinu en þar kemur einnig fram að þyngd sjúklings hafi verið um 100 kg. Í kæru til úrskurðarnefndar er auk þess tekið fram að um bráðatilvik hafi verið að ræða og því hafi þurft að hafa hraðar hendur við umönnun hins slasaða. Í atvikalýsingu í kæru felst að mati úrskurðarnefndarinnar nánari lýsing á aðstæðum sem samræmist lýsingu á tildrögum slyssins í öðrum gögnum málsins og verður því ekki talið að um breytta atvikalýsingu sé að ræða.

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er það grundvallarskilyrði 27. gr. almannatryggingalaga uppfyllt, að tjónsatburðurinn hafi átt sér stað við vinnu kæranda og að orsakasamband á milli framkvæmdar starfans og tjónsins sé fyrir hendi og tjón kæranda sé sennileg afleiðing þess að lyfta þungum sjúklingi og flytja í tölvusneiðmyndatæki. Ágreiningur um bótaskyldu lýtur því fyrst og fremst að því hvernig hugtakið slys er túlkað. Með tilliti til forsögu lagaákvæðisins telur úrskurðarnefndin að megintilgangur lagasetningarinnar sé að tryggja starfsmenn fyrir tjóni sem þeir verða fyrir við vinnu sína. Nefndin lítur til þess að almannatryggingalöggjöfin hefur í sér fólginn sérstakan félagslegan tilgang sem mælir gegn þröngri túlkun á slysahugtakinu.

Ekki verður af gögnum málsins ráðið annað en að kærandi hafi staðið eðlilega að framkvæmd starfans þegar slysið átti sér stað. Ekkert óeðlilegt átti sér stað sem skýrir orsök slyssins. Starf kæranda við umönnun sjúklinga felur hins vegar í sér ákveðna hættu og ytra álag. Eðli málsins samkvæmt felur sú athöfn að lyfta þungum einstaklingi úr rúmi og flytja í flýti í tölvusneiðmyndatæki í sér aukna áhættu á að eitthvað bregði út af fyrirsjáanlegu vinnuferli þar sem um lifandi og þungan líkama er að ræða. Þegar þannig háttar telur nefndin að auka þurfi réttarvernd starfsmanna og túlka slysahugtakið rýmra en ella til að tilgangi löggjafans um tryggingavernd sé náð. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að tjón kæranda verði rakið til undirliggjandi sjúkdóms eða meinsemda hjá henni sjálfri. Að mati nefndarinnar verður því að líta svo á að skyndilegur óvæntur atburður hafi valdið líkamlegu tjóni sem ekki sé með vissu hægt að rekja til undanfarandi sjúkdóms. Það er mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að atvikið eins og því er lýst í gögnum máls uppfylli framangreinda skilgreiningu á slysi, þ.e. að um skyndilegan utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða þegar kærandi fékk hnykk á hægri handlegg og háls við það að lyfta þungum sjúklingi í flýti úr rúmi og færa í tölvusneiðmyndatæki.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að viðurkenna beri bótaskyldu vegna slyss kæranda þann X. Málinu er vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Viðurkennd er bótaskylda Sjúkratrygginga Íslands vegna slyss sem A, varð fyrir þann X. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum