Hoppa yfir valmynd
3. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2015

Miðvikudaginn 3. júní 2015

56/2015

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Ludvig Guðmundsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. febrúar 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hans um endurhæfingarlífeyri.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Með umsókn, dags.  15. janúar 2015, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Með umsókninni fylgdi læknisvottorð og endurhæfingaráætlun. Umsókninni var synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. febrúar 2015. Í bréfinu segir að synjunin byggi á þeirri forsendu að endurhæfingaráætlun hafi ekki verið nægilega ítarleg í ljósi heilsufarsvanda kæranda. Einnig hafi þótt óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað enda hafi virk endurhæfing ekki virst vera í gangi þar sem tekið væri á heilsufarsvanda heldur einungis gagnaöflun í formi sérhæfðs mats.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

„Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun í janúar s.l.. Umsókn, læknisvottorð og endurhæfingaráætlun var send í kjölfarið.

Kærandi sótti annars vegar um endurhæfingarlífeyri allt frá 1. desember 2013 til dagsins í dag og hins vegar um örorkulífeyri frá 1. desember 2013 til 6. júlí 2014 og endurhæfingarlífeyri frá þeim degi.

Var umsókn rökstudd með þeim hætti að kærandi leitaði til læknis í nóvember árið 2013 og óskaði eftir endurhæfingu vegna endurtekinna og langvarandi veikinda. Læknirinn, sem var heimilislæknir, treysti sér ekki til að útbúa slíka umsókn heldur taldi vissara að geðlæknir gerði slíkt. Var kæranda því vísað til geðdeildar B í framhaldinu. Við tók bið eftir þjónustu þar og fór kærandi í viðtalstíma í maí árið 2014. Því var svo framhaldið í maí með ítarlegri viðtölum við sálfræðing, félagsráðgjafa og geðlækni. Niðurstaða þeirrar skoðunar var send yrði umsókn um endurhæfingu til Virk og var það gert þann 6. júlí 2014.

Löng bið var eftir þjónustu hjá X og komst kærandi ekki í þjónustu þar fyrr en í byrjun desember 2014. Í framhaldi var ákveðið af sérfræðingateymi Virk, að framkvæmt yrði svonefnt „sérhæft mat“, sem síðan yrði unnið eftir í endurhæfingu. Sérhæfða matið er annars vegar framkvæmt af endurhæfingarlækni á C og hins vegar af sálfræðingi hjá geðdeild B. Allt þetta lá fyrir þegar umsókn um endurhæfingarlífeyrir var send Tryggingastofnun og kemur þetta allt fram í endurhæfingaráætlun og læknisvottorði.

Þann 17.02.2015 var umsókn um endurhæfingarlífeyri synjað á þeim forsendum að „fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun er ekki nógu ítarleg í ljósi heilsufarsvanda umsækjanda og óljóst hvernig endurhæfing komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað enda virðist virk endurhæfing þar sem tekið er á heilsufarsvanda ekki vera í gangi eins og er heldur einungis gagnaöflun í formi sérhæfðs mats.“

Þá er synjunin rökstudd með vísan til 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

Málsástæður:

Kærandi bendir á að skv. tilvitnaðri grein er annars vegar skilyrði að viðkomandi gangist undir greiningu og hins vegar meðferð.

2. ml. 1. mgr. 7. gr. 99/2007

Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar.

Tryggingastofnun heldur því ranglega fram að virk endurhæfing, líkt og hún nefnir „meðferð“ skv. lagagreininni sé ófrávíkjanleg krafa. Augljóslega er sérhæft mat, sem er undanfari meðferðar „greining“ samkvæmt lagagreininni og fullnægjir umsókn kæranda því öllum formskilyrðum sem lög gera til veitingar endurhæfingalífeyris.

Þröng íþyngjandi lögskýring líkt og Tryggingastofnun beitir er augljóslega kolröng og á sér þess fyrir utan enga stoð í lagagreininni og verður því aldrei forsenda synjunar líkt og gert var í máli kæranda.

Þá bendir kærandi á að Tryggingastofnun svaraði í engu varaumsókn um örorkubætur frá 1. nóvember 2013 til 6. júlí 2014. Kærandi bendir á að það hlýtur að skoðast sem brot á úrskurðarskyldu.“

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Greinargerð, dags. 23. febrúar 2015, barst frá stofnuninni þar sem segir:

1. Kæruefni

Kærð er synjun endurhæfingarlífeyris.

2. Málavextir

Með úrskurði dags. 17.02.2015 var kæranda synjað um endurhæfingarlífeyri. 

3. Lög og reglur

Um endurhæfingarlífeyri er fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Lagagreinin hljóðar svo:

Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.  Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.  Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.

4. Gögn málsins

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 17.02.2015  lágu fyrir eftirfarandi gögn:

Umsókn um endurhæfingarlífeyri dags. 15.01.2015, vottorð vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri dags. 26.01.2015 og endurhæfingaráætlun dags. 07.01.2015.

Endurhæfingaráætlun gilti fyrir tímabilið frá 12.12.2014 til 31.05.2015. Í áætlun kom fram að endurhæfing ætti að felast í sérhæfðu mati hjá Virk, reglulegri líkamsþjálfun á eigin vegum, ,,hitta námsráðgjafa við D til að starfa 1-2 lotum á vorönn 2015“  ásamt vikulegum viðtölum við ráðgjafa Virk.

5. Mat v. endurhæfingarlífeyris

Mat á endurhæfingu fór fram þann 17.02.2015. Umsókn um endurhæfingarlífeyri var tekin fyrir á fundi endurhæfingarhóps Tryggingastofnunar.  Við skoðun máls þóttu ekki rök fyrir að meta endurhæfingartímabil. Fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun taldist ekki nógu ítarleg í ljósi heilsufarsvanda umsækjanda og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað enda virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda ekki vera í gangi heldur einungis gagnaöflun í formi sérhæfðs mats. Umsækjandi uppfyllti því ekki skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Umsókn var því synjað.

Í kæru óskar kærandi eftir því ,,að ákvörðun verði breytt á þann veg að umsókn verði samþykkt. Til vara er þess krafist að kærð ákvörðun verði felld úr gildi.“ Kærandi bendir á 7. gr. laga nr. 99/2007 og segir að þar standi að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris sé að viðkomandi gangist undir greiningu og meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar og að hann falli undir þessa skilgreiningu.

Ofangreind tilvitnun kæranda í 7. gr. laga nr. 99/2007 er í 7. greinina eins og hún var áður en henni var breytt með lögum nr. 120/2009.  Samkvæmt núgildandi 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.  Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi, né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í endurhæfingaráætlun frá X, dags. 07.01.2015 kemur fram að kærandi fari í sérhæft mat og markmið með því sé að meta raunhæfi starfsendurhæfingar út frá geðrænni líðan, langvinnum vanda og núverandi vanvirkni. Sérhæft mat felur í sér gagnaöflun og matsviðtöl sem getur ekki talist vera skipulögð starfsendurhæfing. Í áætlun segir að í sérhæfða matinu eigi að athuga hvort almenn endurhæfing eigi jafnvel frekar við á undan starfsendurhæfingu. Í ljósi þessa var litið svo á að ekki væri búið að ákveða hjá Virk hvort kærandi taki þátt í starfsendurhæfingu og ennfremur var ekki ljóst á þessum tímapunkti hvaða endurhæfingu kæranda var ætlað að sinna ef starfsendurhæfing væri álitin raunhæf. Samkvæmt fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun verður því ráðið að skipulögð endurhæfing hafi ekki verið hafin, á því tímabili sem sótt var um, þar sem Virk átti eftir að meta raunhæfni starfsendurhæfingar.

Í endurhæfingaráætlun var þess einnig getið að kæranda væri ætlað að sinna líkamsþjálfun á eigin vegum, dagleg hreyfing/gönguferðir þar til niðurstöður úr sérhæfðu mati lægju fyrir. Litið er svo á að hreyfing á eigin vegum án utanumhaldi fagaðila falli ekki undir skipulega starfsendurhæfingu. Ennfremur geta viðtöl á borð við viðtöl við námsráðgjafa og ráðgjafa X aldrei talist eiginleg endurhæfing heldur einungis stuðningur við endurhæfingu. Þá þótti óljóst hvort kærandi væri í raun að hefja nám á vorrönn 2015 þar sem kærandi átti m.a. eftir að ræða það við námsráðgjafa.

Í ljósi þess að endurhæfing taldist vart vera hafin var ennfremur óljóst hvernig ætlunin væri að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað á þessum tímapunkti. Taka ber fram að óvinnufærni ein og sér veittir ekki rétt til endurhæfingarlífeyris heldur þarf umsækjandi að taka þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu á grundvelli endurhæfingaráætlunar.

Við synjun á endurhæfingarlífeyri þann 17.02.2015 er þess einnig getið að endurhæfingaráætlun teldist ekki vera nægilega ítarleg í ljósi heilsufarsvanda kæranda þar sem ekki væri verið að taka á þeim heilsufarsvanda sem getið var í læknisvottorði, dags. 26.01.2015, þ.e.a.s. þunglyndi og félagsfælni.

Í umsókn um endurhæfingarlífeyri dags. 15.01.2015 óskar kærandi eftir afturvirkum greiðslum endurhæfingarlífeyris, frá og með janúar 2014. Kærandi nefnir ennfremur í kæru að hann hafi farið í viðtalstíma á B í maí 2014 og í framhaldinu í ítarleg viðtöl við sálfræðing, félagsráðgjafa og geðlækni. Í læknisvottorði dags. 26.01.2015 kemur fram að kærandi hafi mætt í ofangreint viðtal hjá geðlækni í maí 2014 og í júlí 2014 hafi verið lagt upp með meðferðarplan og sótt um hjá Virk. Hins vegar liggur engin endurhæfingaráætlun fyrir frá þessum tíma og óljóst í hverju endurhæfing fólst og því uppfyllir kærandi ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð á umræddu tímabili. Í læknisvottorði kemur einnig fram að kærandi hafi verið útskrifaður frá þjónustu geðdeildar þar sem hann hafði neitað að mæta til læknis til frekari meðferðar. Í kæru kemur fram að kærandi hafi svo hafið þjónustu hjá X í byrjun desember 2014.

Kærandi bendir á í kæru að Tryggingastofnun hafi ekki svarað ,,varaumsókn“ um örorkulífeyri sem getið var í athugasemdum í umsókn um endurhæfingarlífeyri dags. 15.01.2015. Það skal tekið fram að kærandi skilaði einungis inn umsókn um endurhæfingarlífeyri, þar sem þessi athugasemd kom fram, en ekki umsókn um örorkulífeyri, sem er sérstakt umsóknareyðublað, eins og nauðsynlegt er ef óskað er eftir slíkum greiðslum.

Eins og áður segir var við mat á endurhæfingu þann 17.02.2015 ákveðið að synja um endurhæfingartímabil þar sem litið var svo á að skipulögð endurhæfingarúræði væru ekki í gangi á því tímabili sem endurhæfingaráætlun kvað á um sem taka áttu á heilsubresti kæranda og því uppfyllti kærandi ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Óljóst er hvaða endurhæfingu kærandi var í áður en kærandi hóf þjónustu hjá Virk enda liggur engin endurhæfingaráætlun fyrir varðandi það tímabil.  Benda má á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 320/2014 þar sem synjun Tryggingastofnunar á greiðslu endurhæfingarlífeyris var staðfest í svipuðu máli.

6. Niðurstaða

Tryggingastofnun telur ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsenda endurhæfingaráætlun, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.  Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. mars 2015, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi leitað til læknis í nóvember 2013 og óskað eftir endurhæfingu. Sá læknir hafi talið betra að geðlæknir myndi útbúa umsókn um endurhæfingarlífeyri. Kærandi hafi fengið viðtalstíma hjá geðlækni í maí 2014 og í framhaldinu farið í ítarlegri viðtöl hjá sálfræðingi, félagsráðgjafa og geðlækni. Þá hafi umsókn verið send til Virk 6. júlí 2014 en löng bið hafi verið eftir þjónustu og kærandi ekki komist að fyrr en í desember 2014. Sérfræðingateymi X hafi ákveðið að framkvæmt yrði sérhæft mat sem yrði unnið eftir í endurhæfingunni. Kærandi telur að Tryggingastofnun haldi því ranglega fram að virk endurhæfing sé ófrávíkjanleg krafa. Augljóslega sé sérhæft mat, sem sé undanfari meðferðar „greining“ skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og fullnægi umsókn kæranda því öllum formskilyrðum laga. Að lokum telur kærandi lögskýringu Tryggingastofnunar þrönga, íþyngjandi og ranga og einnig að hún eigi sér ekki stoð í lagagreininni og geti því ekki orðið forsenda synjunar eins og í máli þessu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að sérhæft mat feli í sér gagnaöflun og matsviðtöl sem geti ekki talist vera skipulögð starfsendurhæfing. Í áætlun segi að í sérhæfða matinu eigi að athuga hvort almenn endurhæfing eigi jafnvel frekar við á undan starfsendurhæfingu. Í ljósi þessa hafi verið litið svo á að ekki væri búið að ákveða hjá X hvort kærandi tæki þátt í starfsendurhæfingu og ennfremur hafi ekki verið ljóst á þessum tímapunkti hvaða endurhæfingu kæranda hafi verið ætlað að sinna væri starfsendurhæfing álitin raunhæf. Af fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun verði því ekki ráðið að skipulögð endurhæfing hafi verið hafin á því tímabili sem sótt hafi verið um greiðslur vegna þar sem X hafi átt eftir að meta raunhæfi starfsendurhæfingar. Þá segir að hreyfing á eigin vegum án utanumhalds fagaðila falli ekki undir skipulega starfsendurhæfingu. Viðtöl við námsráðgjafa og ráðgjafa Virk geti ekki talist eiginleg endurhæfing heldur aðeins stuðningur við endurhæfingu. Einnig hafi þótt óljóst hvort kærandi hafi í raun verið að hefja nám á vorönn 2015 þar sem hann hafi meðal annars átt eftir að ræða það við námsráðgjafa. Þar að auki telur stofnunin að ekki hafi þótt ljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að taka á heilsufarsvanda kæranda sem væri þunglyndi og félagsfælni. Þá hafi ekki þótt tilefni til að meta afturvirkar örorkubætur þar sem virk endurhæfing hafi ekki verið í gangi.

Eins og að framan greinir grundvallast synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri á því að endurhæfingaráætlun hafi ekki verið nægilega ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda. Þá hafi þótt óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað og ekki hafi virst sem virk endurhæfing væri hafin heldur aðeins gagnaöflun vegna sérhæfðs mats. Ágreiningur í máli þessu snýst því um hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, um að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila, sé uppfyllt í tilviki kæranda.

Við hina kærðu ákvörðun lágu fyrir auk umsóknar kæranda vottorð E læknis, dags. 26. janúar 2015, og endurhæfingaráætlun X starfsendurhæfingarsjóðs, dags. 12. desember 2014.

Í læknisvottorði koma fram upplýsingar um að kærandi glími við ýmis andleg veikindi, þ. á m. þunglyndi, kvíða og félagsfælni. Þá segir að kæranda hafi ítrekað verið boðnir tímar hjá geðlæknum síðastliðið ár og hafin sé meðferð með þunglyndislyfjum en kærandi hafi mætt illa og erfitt hafi reynst að fylgja eftir meðferð þar sem hann mæti illa. Þá hafi kærandi afþakkað meðferð á geðdeild fyrir síðastliðin áramót og engin virk meðferð sé í gangi vegna þunglyndis og kvíða. Þá er vísað til endurhæfingaráætlunar Virk um tillögu að meðferð, kærandi sé á biðlista hjá C og áætluð tímalengd meðferðar séu sex mánuðir.

Í endurhæfingaráætlun segir að áætlun sé dagsett 12. desember 2014 og áætlun ljúki 31. maí 2015. Fram koma upplýsingar um að í byrjun endurhæfingar verði um að ræða vikuleg viðtöl hjá ráðgjafa X og sótt verði um endurhæfingarlífeyri út maí 2015 þar sem kærandi vilji komast aftur í hlutanám. Einnig var kæranda ráðlögð dagleg hreyfing og gönguferðir til að byrja með. Þá var kæranda ráðlagt að auka hreyfingu og komast í reglulega líkamsþjálfun á eigin vegum í framhaldinu eða þar til niðurstöður úr sérhæfðu mati liggi fyrir.  

Réttur til endurhæfingarlífeyris tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri endurhæfingu með starfshæfni að markmiði, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þá eru greiðslur inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar, sbr. 2. málsl. sömu greinar. Samkvæmt framangreindri áætlun var fyrirhugað að kærandi myndi mæta í vikuleg viðtöl hjá ráðgjafa X í byrjun endurhæfingar og stunda hlutanám. Þá var ráðlögð hreyfing á eigin vegum. Engar nánari upplýsingar liggja fyrir um fyrirhugað nám kæranda. Þá verður ekki ráðið að utanumhald hafi átt að vera um ráðlagða hreyfingu kæranda. Áætlunin er því að mati úrskurðarnefndar hvorki nægilega skýr né markviss til þess að grundvalla bótaréttindi skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar að auki verður ekki horft framhjá því við úrlausn málsins að í vottorði læknis, dags. 26. janúar 2015, segir að kærandi sé ekki í virkri meðferð.

Þá fer kærandi fram á að viðurkennt verði að hann eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris frá 1. desember 2013. Engin endurhæfingaráætlun liggur fyrir vegna tímabilsins frá 1. desember 2013 til desember 2014. Þar sem endurhæfingaráætlun er eitt af skilyrðum endurhæfingarlífeyris, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, kemur því ekki til álita að samþykkja endurhæfingarlífeyri fyrir umrætt tímabil.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Í kæru gerir kærandi athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi ekki afgreitt umsókn hans um örorkulífeyri. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stofnunin leiðbeiningarskyldu þar sem kveðið er á um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í athugasemdum umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 15. janúar 2015, segir að hann sæki til vara um örorkubætur frá 1. janúar 2014 til 6. júlí 2014. Samkvæmt gögnum málsins var þeirri beiðni kæranda ekki svarað af hálfu Tryggingastofnun ríkisins. Úrskurðarnefnd telur tilefni til að gera athugasemdir við það í máli þessu og heimvísar þessum hluta málsins aftur til stofnunarinnar þar sem tekin verði afstaða til umsóknar kæranda um örorkulífeyri.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um endurhæfingarlífeyri er staðfest. Umsókn kæranda um örorkulífeyri er heimvísað til frekari meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum