Hoppa yfir valmynd
29. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 86/2011

Miðvikudaginn 29. júní 2011

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, sem móttekin var af úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 25. febrúar 2011, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um barnalífeyri frá 1. febrúar 2011.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi dags. 9. febrúar 2011 var kæranda synjað um barnalífeyri á þeirri forsendu að hún hafði náð 20 ára aldri.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „Vegna synjunnar á menntalífeyri. Mamma greindist með ristilkrabbamein í xxx 2009. Veikindi hennar voru mjög alvarleg og þurfti hún að gangast undir erfiða aðgerð í xxx 2009 og hún er ekki búin að ná sér. Ég þurfti þegar hún byrjaði í fyrstu meðferðinni að hætta í helgarvinnunni til að geta aðstoðað á heimilinu. Ég er í fullu námi ásamt því að spila fótbolta. Enn þann dag í dag þarf mamma mikla hjálp með allt, þrif, keyra sig í búðir til lækna og aðstoð við umönnun á sjálfri sér. Hún er með stoma sem hefur ekki verið að ganga vel. Ég óska eftir að fá menntunarlífeyri út þessa önn meðan ég klára stúdentspróf. Ég byrjað ekki að fá hann fyrr en í okt 2009, löngu eftir að ég varð 18.

Rökstuðningur fyrir kæru:

Get ekki unnið með skóla vegna þess hve mikla hjálp mamma þarf á heimilinu. Ásamt því að hjálpa henni með stomað og allt sem við kemur veikindum hennar. Byrjaði ekki að fá greitt fyrr en löngu eftir að ég varð 18. Mamma er búin að vera mikið veik og pabbi getur ekki barist einn með henni, því hef ég stólað á þennan lífeyri meðan ég er í B og getað lagt mitt af mörkum hér heima.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 28. febrúar 2011. Greinargerð dags. 28. mars 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir:

 „Kærð er synjun Tryggingastofnunar um greiðslu barnalífeyris vegna náms til kæranda.

Málavextir eru þeir að kærandi skilaði inn skólavottorði þann 14. janúar 2011 og óskaði eftir áframhaldandi greiðslu barnalífeyris vegna náms. Með bréfi dags. 9. febrúar 2011 synjaði Tryggingastofnun kæranda um áframhaldandi greiðslu barnalífeyris vegna náms þar sem kærandi væri orðin 20 ára. Greiðslur stöðvuðust til kæranda þann 1. febrúar 2011.

Samkvæmt 3. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Tryggingastofnun metur sönnun um skólavist og starfsþjálfun.

Þar sem skýrt er kveðið á um í ofangreindu ákvæði að barnalífeyri vegna náms skuli greiða ungmennum á aldrinum 18-20 ára hefur Tryggingastofnun ekki heimild til að halda áfram greiðslum til kæranda eftir að 20 ára aldri er náð. Kærandi varð 20 ára þann X 2011 og því var einungis heimilt að greiða kæranda barnalífeyri til 1. febrúar 2011.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 11. apríl 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingstofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris eftir að hún náði 20 ára aldri.

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að hún gæti ekki unnið meðfram námi þar sem móðir hennar þurfi mikla hjálp á heimilinu vegna sinna veikinda. Hún hafi ekki byrjað að fá greiddan menntunarlífeyri fyrr en löngu eftir að hún hafi náð 18 ára aldri. Hún hafi stólað á þennan lífeyri á meðan hún sé í B og geti lagt sitt af mörkum á heimilinu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að kærandi hafi skilað inn skólavottorði þann 14. janúar 2011 og óskað eftir áframhaldandi greiðslum á barnalífeyri vegna náms. Stofnunin hafi synjað þeirri beiðni kæranda þar sem hún væri orðin 20 ára.

Í 3. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er fjallað um barnalífeyri þar sem segir:

 „Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Tilvitnað lagaákvæði kveður skýrt á um aldursmörk þeirra sem rétt eiga til barnalífeyris. Samkvæmt ákvæðinu eiga ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára rétt til barnalífeyris að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeir sem náð hafa 20 ára aldri eiga ekki rétt til barnalífeyris samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins.

Síðasta greiðsla barnalífeyris til kæranda vegna menntunar var 1. janúar 2011. Kæranda var síðan synjað um áframhaldandi greiðslur í febrúar 2011 þar sem hún hafði á þeim tíma náð 20 ára aldri. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi fædd þann X og náði þar af leiðandi 20 ára aldri þann X síðastliðinn. Af þeim sökum féll réttur hennar til barnalífeyris niður frá þeim tíma.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um áframhaldandi barnalífeyri vegna menntunar staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um barnalífeyri vegna menntunar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum