Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2011

Miðvikudaginn 28. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. janúar 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um áframhaldandi greiðslu umönnunarbóta til hennar vegna umönnunar móður hennar.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 6. desember 2010, sótti kærandi um áframhaldandi greiðslur umönnunarbóta vegna umönnunar móður hennar en var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. desember 2010, þar sem skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga kemur eftirfarandi meðal annars fram:

 „Þann 17. apríl 2009 sótt ég upphaflega um greiðslu umönnunarbóta vegna móður minnar og var umsóknin samþykkt þann 4. maí sama ár. Endurnýjaðar umsóknir mínar voru samþykktar 25. nóvember 2009 og 1. júlí 2010. Með bréfi Tryggingastofnunar frá 14. desember s.l. var endurnýjaðri umsókn minni hafnað með svohljóðandi rökstuðningi:

Skilyrði greiðslna er að sýnt sé fram á að umsækjandi hafi minnkað starfshlutfall sitt vegna umönnunar lífeyrisþega. Þar sem þú ert ekki á vinnumarkaði og nýtur greiðslna úr lífeyrissjóði er ekki heimilt að greiða umönnunarbætur.

Synjunin virðist byggð á því að ekki hafi verið sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda en það er skilyrði greiðslu skv. 2. gr. reglna nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur. Eins og fram kemur í gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir Tryggingastofnun þá hætti ég vinnu árið 2009 til að geta annast aldraða móður mína. Greiðsla umönnunarbóta gerði mér þetta kleift. Tekjutap mitt liggur því fyrir og hefur verið lagt til grundvallar við fyrri ákvarðanir Tryggingastofnunar um umönnunargreiðslur til mín, þ.e. í maí 2009, nóvember 2009 og júlí 2010. Mánaðarlaun mín þegar ég lét af störfum sem verkefnastjóri í 45% vinnu í júní 2009 voru X.

Ekki verður séð hvaða breyttu forsendur frá fyrri ákvörðunum leiði nú til annarrar afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn minni um umönnunarbætur, hvort sem lýtur að högum mínum eða lagalegum forsendum. Þá bera hvorki lög nr. 99/2007 né reglugerð nr. 407/2002 með sér að staða mín sem lífeyrisþega skipti máli við ákvörðun um greiðslu umönnunarbóta.

Í áðurnefndri 2. gr. reglugerðar nr. 407/2002, sem sett er með heimild í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir, að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur ef um er að ræða sameiginlegt lögheimili og sýnt hafi verið fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Gögn þau sem ég legg fram sýna að skilyrðum þessum er fullnægt.

Að lokum vil ég leyfa mér að benda á að auk tekjutaps hefur þessi tilhögun haft í för með sér að eftirlaunahlutfall mitt hefur orðið mun minna en það hefði getað orðið ef ég hefði haldið áfram vinnu minni við Z, t.d. til 67 ára aldurs og hefur þannig einnig áhrif á framtíðartekjur mínar.“

 

Úrskurðarnefnd óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dagsettu 10. febrúar 2011. Greinargerð, dags. 14. mars 2011, barst frá stofnuninni, þar segir:

 „Kærð er synjun Tryggingastofnunar um áframhaldandi greiðslu umönnunarbóta til kæranda vegna umönnunar móður hennar B.

Í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, er til staðar heimild til greiðslu maka- og umönnunarbóta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.  Þar kemur fram að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.  Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur.  Þá kemur þar fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett reglur nr. 407/2002 um framkvæmd 5. gr. laga um félagslega aðstoð.  Í 1. gr. reglnanna er kveðið á um það, líkt og í lagaákvæðinu, að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.

Þá kemur fram í 2. gr. reglnanna að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr., ef sýnt er fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda.  Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um að leggja þurfi fram staðfestingu á tekjuleysi eða tekjutapi umsækjandans.

Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun barst umsókn kæranda þann 6. desember 2010 um framlengingu á umönnunarbótum.  Meðfylgjandi umsókn voru launaseðlar síðustu þriggja mánaða fyrir umsókn ásamt staðfestu afriti af síðasta skattframtali.  Samkvæmt þessum gögnum naut umsækjandi greiðslna úr lífeyrissjóði og því var honum synjað um áframhaldandi greiðslu umönnunarbóta með bréfi dags. 14. desember 2010.

Í kæru kemur fram að umönnunarbætur til kæranda hafi upphaflega verið samþykktar með bréfi dags. 4. maí 2009 og endurnýjaðar umsóknir hafi verið samþykktar 25. nóvember 2009 og 1. júlí 2010.  Ekki verði séð hvaða breyttu forsendur frá fyrri ákvörðunum leiði nú til annarrar afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn um umönnunarbætur, hvort sem lýtur að högum kæranda eða lagalegum forsendum.

Þar sem 5. gr. laga um félagslega aðstoð er heimildarákvæði hefur Tryggingastofnun sett sér ákveðnar viðmiðanir í vinnureglur við ákvörðun um greiðslu maka- og umönnunarbóta.  Samkvæmt þeim er maka- og umönnunarbótum fyrst og fremst ætlað að bæta tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls umönnunaraðila þegar lífeyrisþegi þarf umönnun við athafnir daglegs lífs.  Það að hætta að vinna og fara á eftirlaun til að annast lífeyrisþega getur ekki talist uppfylla skilyrði um tekjutap eða tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls.  Því hefur verið sett sú vinnuregla að synja beri um greiðslu umönnunarbóta ef umsækjandi er hættur á vinnumarkaði og nýtur greiðslna úr lífeyrissjóði.

Þar sem innsend gögn frá kæranda sýndu fram á að hann væri að þiggja greiðslur úr lífeyrissjóði synjaði Tryggingastofnun kæranda um áframhaldandi greiðslu umönnunarbóta með bréfi dags. 14. desember 2010.  Tryggingastofnun telur að þau skilyrði, sem sett eru samkvæmt þeim ákvæðum laga, reglna og vinnureglna sem gilda um þennan bótaflokk, séu ekki uppfyllt í máli þessu og því sé ekki heimilt að verða við kröfu kæranda um áframhaldandi greiðslu umönnunarbóta vegna umönnunar móður hennar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 26. mars 2011. Þær voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 11. apríl 2011. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 20. apríl 2011. Var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. maí 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um áframhaldandi umönnunarbætur vegna móður hennar.

Í kæru greindi kærandi frá því að synjun Tryggingastofnunar á endurnýjaðri umsókn um umönnunarbætur hafi virst byggð á því að ekki hafi verið sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda. Kærandi hafi hætt vinnu árið 2009 til að geta annast aldraða móður sína og greiðsla umönnunarbóta hafi gert henni það kleift. Tekjutap kæranda liggi því fyrir og hafi verið lagt til grundvallar við fyrri ákvarðanir Tryggingastofnunar. Ekki verði séð hvaða breyttu forsendur frá fyrri ákvörðunum leiði til annarrar afgreiðslu, hvorki lög nr. 99/2007 né reglugerð nr. 407/2002 beri með sér að staða kæranda sem lífeyrisþega skipti máli við ákvörðun um greiðslu umönnunarbóta.

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að samkvæmt viðmiðunum í vinnureglum sem Tryggingastofnun hafi sett sér sé maka- og umönnunarbótum fyrst og fremst ætlað að bæta tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls umönnunaraðila þegar lífeyrisþegi þurfi umönnun við athafnir daglegs lífs. Það að hætta að vinna og fara á eftirlaun til að annast lífeyrisþega geti ekki talist uppfylla skilyrði um tekjutap eða tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls. Því hafi verið sett sú vinnuregla að synja beri um greiðslu umönnunarbóta ef umsækjandi sé hættur á vinnumarkaði og njóti greiðslna úr lífeyrissjóði.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi að greiða maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Jafnframt er heimilt ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Reglur nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur hafa verið settar með stoð í framangreindu ákvæði.

Í 2. gr. reglnanna kemur fram að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr. reglnanna, ef um sé að ræða sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annast um hann. Jafnframt skuli sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar umönnunarbætur frá 1. júní 2009 til 1. janúar 2011. Með umsókn, dags. 6. desember 2010, endurnýjaði kærandi umsókn um greiðslu umönnunarbóta með móður sinni. Með bréfi, dags. 14. desember 2010, synjaði Tryggingastofnun ríkisins kæranda um frekari umönnunarbætur með móður hennar á þeim forsendum að skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt. Fram kom að það sé skilyrði greiðslna að umsækjandi hafi minnkað starfshlutfall sitt en ekki væri heimilt að greiða umönnunarbætur þar sem kærandi væri ekki á vinnumarkaði og nyti greiðslna úr lífeyrissjóði.

Kærandi var á vinnumarkaði en ákvað að láta af störfum í júní 2009 til að sinna móður sinni. Hún fékk greiddar umönnunarbætur frá 1. júní 2009 en var synjað um frekari greiðslur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 14. desember 2010 þar sem skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt.

Ekki verður séð að aðstæður kæranda hafi breyst frá því að hún fékk umönnunarbætur í júní 2009 þar til henni var synjað um þær í desember 2010. Tryggingastofnun ríkisins hefur upplýst að stofnunin hafi sett sér ákveðnar viðmiðanir í vinnureglum á þann veg að synja beri um greiðslu umönnunarbóta ef umsækjandi sé hættur á vinnumarkaði og njóti greiðslna úr lífeyrissjóði. Engar sambærilegar breytingar hafa hins vegar verið gerðar á lögum nr. 99/2007 eða reglum nr. 407/2002, sem hafa áhrif á stöðu kæranda. Þegar litið er til þess að aðstæður kæranda hafa ekki breyst á umræddu tímabili eða frá því að upphaflega ákvörðunin var tekin í maí 2009, né heldur hafa ákvæði laga og reglna um umönnunarbætur breyst, verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi.

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er hafnað og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu umönnunarbóta með móður kæranda. Tryggingastofnun ríkisins ber að greiða kæranda umönnunarbætur frá 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um framlengingu á greiðslu umönnunarbóta vegna móður hennar, er felld úr gildi. Greiða ber kæranda umönnunarbætur frá 1. janúar 2011. Málinu er heimvísað til ákvörðunar á tímalengd greiðslna umönnunarbóta.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum