Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2011

Föstudaginn 19. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. janúar 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga bótaútreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna ársins 2009.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning og uppgjör bótagreiðslna vegna ársins 2009 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi dags. 28. október 2010 fór Tryggingastofnun ríkisins fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Kærandi mótmælti niðurstöðu endurreikningsins við Tryggingastofnun og með bréfi dags. 6. desember 2010 svaraði stofnunin þeim andmælum kæranda.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 „Fjármagnstekjur mínar 2009 voru samkvæmt framtali kr. X allt árið, Tryggingastofnun deilir þeim jafnt niður á árið og fær út kr. X fyrir þessa 3 mánuði. Kæri þessa málsmeðferð Tryggingastofnunar með eftirfarandi rökstuðningi.

Tel að við ákvörðun bóta skulu tekið tillit til fjármagnstekna sömu mánuði og bætur eru greiddar þ.e. okt. – des. 09. og þá með sama hætti og tekið er tillit til launatekna við ákvörðun bóta.

Ég hef lagt fram gögn ( yfirlit bankareikn. og exelskjal ) til Tryggingastofnunar sem sýna að fjármagnstekjur mínar okt. – des. 2009 voru kr. X, en stofnunin hefur ekki tekið þetta sjónamið til greina og legg ég því fram þessa kæru.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 8. febrúar 2011. Greinargerð dags. 21. febrúar 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 Kæruefni

Þær tekjutengdu bætur sem kærandi naut árið 2009 voru endurreiknaðar af Tryggingastofnun á árinu 2010 eins og lög gera ráð fyrir.  Þá lágu fyrir endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda árið 2009.  Við endurreikninginn voru heildar-fjármagnstekjur hans árið 2009 látnar hafa áhrif í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem hann naut bóta það ár.  Kærandi vill hins vegar að einungis verði tekið tillit til þeirra fjármagnstekna sem hann í raun aflaði eftir að bótagreiðslur hófust.

Laga- og reglugerðargreinar sem málið snerta

Samkvæmt 5. mgr. 16.gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skal til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skal bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.

Í 7.mgr. 16.gr. segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þeirri sömu lagagrein.

Í 7.gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta o.fl. er að finna nánari reglur um þennan endurreikning. Þar er meðal annars fjallað um hvernig haga ber endurreikningi bóta við breyttar aðstæður innan bótagreiðsluárs.  Í 1. mgr. þessarar 7.gr. er fjallað sérstaklega um endurreikning bóta til þeirra sem fengið hafa greiðslur hluta úr bótagreiðsluári.  Þar segir:

a)                 Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða        tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.

b)                 Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta var fyrir hendi í.

Málavextir

Ágreiningurinn snýst um bætur ársins 2009.  Kærandi náði 67 ára aldri í september 2009 og öðlaðist þá rétt til ellilífeyris og tengdra bóta.  Hann sótti um þessar bætur sem eru tekjutengdar og fékk þær greiddar fyrir tímabilið október til desember 2009, þ.e. síðasta fjórðung þess árs. Var upphæð þeirra miðuð við tekjuáætlun hans fyrir síðasta ársfjórðung ársins 2009.  Við tekjuáætlunina voru áætlaðar launatekjur hans og greiðslur til hans úr lífeyrissjóðum tímabilið október til desember 2009.  Hvað áætlaðar fjármagnstekjur hans varðar var hins vegar miðað við fjórðung af áætluðum heildarfjármagnstekjum hans árið 2009.

Við endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum sem kærandi fékk greiddar árið 2009 kom í ljós að bæturnar höfðu verið ofgreiddar.  Skýringin var fyrst og fremst fólgin í því að fjármagnstekjur kæranda reyndust hærri en áætlað var.  Launatekjur og lífeyrissjóðstekjur reyndust hins vegar vera réttar.

Varðandi launatekjur og lífeyrissjóðstekjur var eingöngu litið til rauntekna hans tímabilið október til desember 2009 við endurreikning bótanna.   Varðandi fjármagnstekjurnar var hins vegar litið til heildarfjármagnstekna hans og eiginkonu hans allt árið 2009.  Var síðan helmingur fjármagnsteknanna færður yfir á hann skv. a-lið 2. mgr. 16.gr. almannatryggingalaga og síðan var fjórðungur þess helmings færður yfir á hann sem fjármagnstekjur hans síðasta ársfjórðung ársins 2009, þ.e. það tímabil sem hann naut bótanna.  Á móti naut kærandi frítekjumarks af fjármagnstekjum sínum eins og lög gera ráð fyrir.

Ágreiningur kæranda og Tryggingastofnunar

Kærandi er sáttur við að við útreikning á tekjutengdum bótum hans tímabilið október til desember 2009 sé tekið mið af þeim launatekjum og lífeyrissjóðstekjum sem hann sannanlega naut þetta þriggja mánaða tímabil.  Hann er hins vegar ósáttur við útreikning Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum hans, en þar lítur Tryggingastofnun ekki sérstaklega til þeirra fjármagnstekna sem hann raunverulega naut umrætt tímabil heldur telur honum til tekna fjórðung af heildarfjármagnstekjum hans árið 2009 .  Kærandinn vill sem sagt að Tryggingastofnun meðhöndli fjármagnstekjur hans árið 2009 á sama hátt og aðrar tekjur hans.

Rök Tryggingastofnunar

Í 7.gr. reglugerðar nr. 598/2009 er fjallað um  endurreikning bóta við breyttar aðstæður innan bótagreiðsluárs.  Eins og fram hefur komið gerir 1. mgr. 7.gr. reglugerðarinnar mun á staðgreiðsluskyldum tekjum annars vegar og þeim tekjum sem ekki er reiknuð af staðgreiðsla skatta hins vegar.  Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í þegar um staðgreiðsluskyldar tekjur er að ræða.  Aðrar tekjur hafa áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða þar sem bótaréttur var fyrir hendi.

Samkvæmt 2.gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu skatta tekur staðgreiðsla opinberra gjalda bæði til launatekna og lífeyrissjóðstekna.  Hún tekur hins vegar ekki til fjármagnstekna.

Við endurreikning bóta kæranda sem fram fór árið 2010 og gerður var vegna tekna ársins 2009 fór Tryggingastofnun eftir þessum reglum sem henni eru settar af félags- og tryggingamálaráðuneyti, nú velferðarráðuneyti.   Við endurreikninginn var því litið til þeirra launatekna og lífeyrisgreiðslna sem kæranda naut tímabilið október til desember 2009, enda um staðgreiðsluskyldar tekjur að ræða.  Varðandi fjármagnstekjur var litið til heildarfjármagnstekna kæranda árið 2009 (þ.e. helmings af sameiginlegum fjármagnstekjum hans og eiginkonu hans) og kæranda reiknaður fjórðungur af þeim tekjum tímabilið október til desember 2009, enda er það tímabil fjórðungur af árinu 2009.  Var þannig uppfyllt reglan um að reikna fjármagnstekjur kæranda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem kærandi naut bótaréttar á árinu 2009.

 

Niðurstaða Tryggingastofnunar

Það er því niðurstaða Tryggingastofnunar að sá munur sem gerður var á launatekjum og lífeyrissjóðstekjum kæranda annars vegar og fjármagnstekjum hans hins vegar við endurreikning þeirra bóta sem hann naut árið 2009 hafi verið í fullu samræmi við gildandi reglugerð um þetta efni.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 22. febrúar 2011 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar bótaútreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna til kæranda á árinu 2009.

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að fjármagnstekjur hans hafi verið X kr. allt árið. Kærandi er ósáttur við að Tryggingastofnun hafi deilt þeirri fjárhæð jafnt á alla mánuði ársins. Þá vísaði kærandi til gagna málsins sem sýna fram á að fjármagnstekjur hans fyrir tímabilið október til desember hafi verið X kr.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi öðlast rétt til ellilífeyris í september 2009 sem hann hafi fengið greiddan frá október þess árs. Upphæð þeirra árið 2009 hafi verið miðuð við tekjuáætlun hans fyrir síðasta ársfjórðung ársins 2009. Hvað áætlaðar fjármagnstekjur hafi varðað hafi hins vegar verið miðað við fjórðung af áætluðum heildarfjármagnstekjum árið 2009. Tryggingastofnun vísaði til 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 þar sem gerður er greinarmunur á staðgreiðsluskyldum tekjum og þeim tekjum sem ekki sé reiknuð af staðgreiðsla skatta. Eingöngu beri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í þegar um staðgreiðsluskyldar tekjur sé að ræða. Aðrar tekjur hafi áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi.

Kærandi öðlaðist rétt til ellilífeyris í september 2009 og fékk hann greiðslur frá október 2009. Ágreiningur málsins lýtur að meðför fjármagnstekna við bótaútreikning ársins 2009. Tryggingastofnun ríkisins leit til heildarfjármagnstekna kæranda og eiginkonu hans heilt yfir árið 2009. Helmingur heildarfjármagnsteknanna var reiknaður kæranda til tekna samtals X kr. og deildi stofnunin þeirri fjárhæð á alla mánuði ársins. Þar sem kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá október 2009 höfðu fjármagnstekjur mánuðina október til desember 2009 áhrif við bótaútreikning sem gerðu samtals X kr. 

Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir svo í niðurlagi ákvæðisins:

 „Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 52. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.“

Tryggingastofnun ríkisins framkvæmdi bótaútreikning kæranda fyrir árið 2009 út frá tekjum kæranda frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist nema fjármagnstekjunum var deilt jafnt á alla mánuði ársins og reiknuðust síðan þrír mánuðir til tekna sem gerðu samtals X kr.

Fjármagnstekjurnar voru reiknaðar kæranda til tekna óháð því á hvaða tíma þeirra var aflað. Kærandi hefur lagt fram gögn í málinu sem sýna fram á að fjármagnstekjur hans fyrir tímabilið október til desember 2009 hafi raunverulega verið X kr. Til stuðnings bótaútreikningnum vísar Tryggingastofnun ríkisins til 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, þar sem segir svo:

 „Við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári gildir eftirfarandi:

a)      Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.

b)      Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta var fyrir hendi í.“

Við bótaútreikninginn árið 2009 var þannig gerður greinarmunur á því hvort um væri að ræða staðgreiðsluskyldar tekjur eða ekki. Í áður tilvitnaðri 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar eiga sérstakar reglur við um bótaútreikning þegar bótaréttur stofnast þar sem boðað er að bótaútreikningur skuli taka mið af tekjum umsækjenda eftir að bótaréttur stofnast. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort tekjur séu staðgreiðsluskyldar eða ekki samkvæmt lagaákvæðinu. Ákvæðið verður að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga ekki takmarkað með reglugerðarákvæði enda stríðir það gegn almennum lögskýringarsjónarmiðum að reglugerðarákvæði takmarki það lagaákvæði sem það sækir stoð sína í.

Með hliðsjón af framlögðum gögnum og almennum lögskýringarsjónarmiðum er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri að framkvæma bótaútreikning fyrir árið 2009 samkvæmt orðalagi 4. málsl. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og einungis taka mið af þeim fjármagnstekjum sem kærandi raunverulega hafði eftir að bótaréttur hans stofnaðist árið 2009.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum A, fyrir árið 2009 er hrundið. Málinu er heimvísað til endurútreiknings bótagreiðslnanna.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum