Hoppa yfir valmynd
1. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 33/2010

Miðvikudagurinn 1. desember 2010

A

v/ B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. janúar 2010, kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna dóttur sinnar B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2009, sótti kærandi um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna hreyfihamlaðrar dóttur sinnar. Með bréfi, dags. 5. janúar 2010, synjaði Tryggingastofnun umsókn kæranda. Synjunin var annars vegar byggð á þeirri forsendu að kærandi væri ekki framfærandi sem nyti umönnunargreiðslna í skilningi laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og hins vegar að styrkir til bifreiðakaupa væru ekki greiddir oftar en einu sinni á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

 „Undirrituð sóttu um miðjan nóvember 2009 styrk vegna kaupa á bifreið. Dóttir A, B er hreyfihömluð og bundin hjólastól. A og móðir B fara með sameiginlegt forræði og dvelur hún til jafns hjá þeim báðum. Það er á þeim grundvelli sem við undirrituð sóttum um styrk til bifreiðakaupa, eins og sjá má í meðfylgjandi greinargerð sem fylgdi umsókninni. B er með lögheimili hjá móður sinni, þar sem barni er einungis heimilt að vera með eitt lögheimili, og fær hún því umönnunargreiðslurnar. Það breytir því ekki að B er alltaf bundin í hjólastól, en ekki bara þegar hún dvelur hjá móður sinni, og síðan hún fékk nýjan og stærri stól höfum við átt í vandræðum með að koma honum í bílinn okkar sem er af gerðinni Volkswagen Polo árgerð 2007. Við búum í rúmgóðu og vel skipulögðu einbýlishúsi sem við keyptum með þarfir B í huga en í ljósi þess og aðstæðna í þjóðfélaginu höfum við ekki tök á að fara út í frekari skuldbindingar. Við sjáum okkur því ekki fært að kaupa stærri bíl nema að til komi bifreiðastyrkur, enda myndi bíllinn sem við eigum og keyptum nýjan, duga okkur vel næstu árin ef hjólastóllinn kæmist í hann.

Umsókn okkar um styrk til bifreiðakaupa var synjað og þar sem við teljum aðstæður sérstakar kærum við hér með þá ákvörðun, enda var sérstaklega tekið fram í 4. gr. reglugerðar um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða síðan 2002, að taka skuli tillit til félagslegra aðstæðna umsækjanda, þ.e. heimilis- og fjölskylduaðstæðna við mat á umsóknum. Þrátt fyrir að þetta ákvæði sé fallið úr gildi og núgildandi reglugerð kveði á um að eingöngu framfærandi sem nýtur umönnunargreiðslna geti fengið greiddan bílastyrk óskum við eftir því að ákvörðunin verði endurskoðuð og undantekning gerð. Þó gert sé ráð fyrir að við getum séð fyrir B án þess að fá mánaðarlegar umönnunargreiðslur höfum við ekki tök á að kaupa nýjan bíl án þess að fá aðstoð við það. Þar sem barnið dvelur á daginn til jafns hjá okkur og hjá móður má vera ljóst að við þurfum jafna möguleika á því að geta komið B og þar með hjólastólnum, á milli staða og móðir hennar, jafnvel þó að faðir hennar flokkist ekki sem framfærandi sem nýtur umönnunargreiðslna. Sérstaklega er tekið fram í 4. gr. reglugerðarinnar að þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla þurfi að vera til staðar og er hún það svo sannanlega hvort sem B dvelur hjá móður sinni eða föður.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 19. janúar 2010. Greinargerðin er dags. 16. febrúar 2010. Þar segir m.a.:

 

1. Kæruefnið.

Kærð er synjun á umsókn styrk skv. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

 

2. Málsatvik.

B fékk fyrst úthlutað styrk til kaupa á bifreið í lok árs 2004 skv. 5. gr. þágildandi reglugerðar nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í lok árs 2009 bárust með stuttu millibili umsóknir um styrk skv. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, til bifreiðakaupa, vegna B frá annars vegar móður B, C, þann 28. október 2009 og hins vegar föður B, A, þann 16 nóvember 2009. Þar sem að C er það foreldri sem er framfærandi B er nýtur umönnunargreiðslna með barninu þá var C veittur styrkurinn. Umsókn A var hins vegar synjað.

 

3. Lagtilvísanir.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Nokkuð strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem hljóta styrk skv. 4. gr. reglugerðarinnar sbr. 3. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Í þeim tilvikum er skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og t.d. noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið er að koma til móts við þá sem eru verr settir en þeir sem fá uppbót, skv. 3. gr reglugerðarinnar, og þurfa meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þarf því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist.

Almennt er miðað við að styrkur til kaupa á bifreið skuli veittur hinum hreyfihamlaða sjálfum. Í 4. gr. reglugerðarinnar veitt sérstök undanþága svo að hægt sé að „veita styrk til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þá skal sýna fram á þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla.”

Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinanr kemur svo skýrt fram að einungis megi greiða einn styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings, en sömu reglu er að finna í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

 

4. Samantekt.

Tryggingastofnun telur ljóst að í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2007 sé tekin af allur vafi um að eingöngu sé heimilt að greiða einn styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings, af orðalagi ákvæðisins má ráða að það eigi líka við um styrki sem veittir eru framfærendum barna sem njóta umönnunargreiðslna.

Tryggingastofnun telur einnig ljóst að stofnuninni sé eingöngu heimilt að greiða styrk til þess framfærenda B sem að nýtur umönnunargreiðslna, orðalag 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er mjög skýrt að þessu leyti.

Í almannatryggingalögum er almennt miðað við að styrkir og bætur skuli veittir einstaklingnum sjálfum. Í tilviki barna verður því ekki viðkomið þar sem þau eru hvorki sjálfráða né fjárráð og geta því ekki farið með eigið fé. Löggjafinn hefur því veitt sérstaka heimild til þess að sá framfærandi barnsins sem nýtur einnig umönnunargreiðslna geti sótt um styrk fyrir hönd barnsins. Þessi undanþága hefur hins vegar ekki opnað á nein frekari rétt barnsins til styrkja, sú meginregla, sem fram kemur í 3. mgr. 4. gr., að einungis megi greiða einn styrk á fimm ára fresti vegna hvers einstaklings stendur óbreytt.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur fallist á sams konar niðurstöðu Tryggingastofnunar ríksins í málum sem varða greiðslur svipaðra styrkja og má þar helst nefna styrkja til kaupa á hjálpartækjum. Telja verður að rökstuðningur úrskurðarnefndar í máli 162/2007 eigi einnig við í þessu máli en þar segir m.a.:

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er stjórnvöldum heimilt að takmarka kostnaðarþátttöku við kaup á nauðsynlegum hjálpartækjum samkvæmt lögum um almannatryggingar enda séu reglur þar að lútandi settar með stoð í lögum. ennfremur verða reglurnar að vera á málefnalegum rökum reistar og á jafnræðisgrundvelli. Ákveðnu fé er varið af fjárlögum hverju sinni til að standa undir bótum almannatrygginga. Um takmarkaða upphæð er að tefla og því mikilvægt að tryggt sé að aðeins séu greiddar bætur þegar skilyrði nauðsynjar samkvæmt lögunum eru uppfyllt.

Að mati úrskurðarnefndar búa málefnaleg rök að baki því að takmarka styrki til kaupa á hjálpartækjum við eitt eintak af hverju nauðsynlegu hjálpartæki þó vissulega séu aðstæður oft svo að það myndi auðvelda daglegt líf þeirra sem þurfa á tækjunum að halda að fá úthlutað fleiri sams konar hjálpartækjum.

 

5. Niðurstöður

Eins og áður hefur fram komið veitti Tryggingastofnun C, móður B, styrk til bifreiðakaupa í samræmi við 4. mgr. reglugerðar nr. 170/2009. Stofnunin telur ljóst að henni er ekki heimilt að veita fleiri styrki til bifreiðakaupa vegna B næstu fimm árin.

Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi, dags. 25. maí 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 7. júní 2010 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun ríkisins.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna hreyfihamlaðrar dóttur hans.

Í kæru til úrskurðarnefndar segir að kærandi hafi sótt um styrk á þeim grundvelli að hann og móðir B fari með sameiginlegt forræði og að B dvelji til jafns hjá báðum foreldrum. Kærandi hafði farið fram á að undantekning yrði gerð frá þeirri reglu að aðeins framfærandi sem þiggji umönnunarbætur eigi rétt á styrki til bifreiðakaupa.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að stofnuninni hafi borist tvær umsóknir um styrk til bifreiðakaupa vegna B, annars vegar frá móður og hins vegar frá föður. Móðirin hafi fengið úthlutaðan bifreiðastyrk á þeirri forsendu að hún sé framfærandi sem njóti umönnunargreiðslna með barninu samkvæmt lögum um félagslega þjónustu nr. 99/2007.

Í 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er fjallað um bifreiðakostnað. Í 3. mgr. kemur fram að heimilt sé að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, hefur verið sett um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þar segir í 4. gr. að heimilt sé að veita styrk til framfæranda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Foreldrar B hafa sameiginlegt forræði yfir henni. Móðir hennar hefur verið veittur styrkur til bifreiðakaupa. Faðir hennar óskar einnig eftir styrki til bifreiðakaupa þar sem hann sjái einnig um stúlkuna.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa, sem sett var með stoð í lögum um félagslega þjónustu nr. 99/2007, er skilyrði að styrktarþegi sé framfærandi sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega þjónustu. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ekki framfærandi sem nýtur umönnunargreiðslna í skilningi þeirra laga. Þar af leiðandi uppfyllir hann ekki skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 til þess að eiga rétt á bifreiðastyrki á grundvelli ákvæðisins. Enga undantekningarheimild er að finna frá umræddu skilyrði.

Í rökstuðningi sínum vísar kærandi til brottfallinnar reglugerðar nr. 109/2003 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Sú reglugerð hefur verið felld úr gildi með núgildandi reglugerð nr. 170/2009. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að taka afstöðu til málsins á grundvelli hennar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna dóttur hans B er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum