Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 10/2008

Fimmtudaginn 10. apríl 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Þann 9. janúar 2008 barst úrskurðarnefnd almannatrygginga kæra B, löggilts endurskoðanda, dags. 15. október 2007, f.h. A, vegna endurreiknings Tryggingastofnunar ríkisins á lífeyrisgreiðslum 2006 og uppgjörs bótagreiðslna.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. október 2007, var kæranda gerð grein fyrir endurreikningi og uppgjöri bótagreiðslna vegna ársins 2006. Kom fram í bréfinu að niðurstaða endurreikningsins væri að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2006 sem næmu kr. 60.705 að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Endurreikningnum var andmælt af hálfu kæranda. Andmæli kæranda voru yfirfarin af hálfu Tryggingastofnunar og var það niðurstaða samráðsnefndar stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna að ekki væru uppfyllt skilyrði fyrir niðurfellingu endurkröfu hinna ofgreiddu bóta.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„Samkvæmt framtali fyrir árið 2006 námu tekjur umbjóðanda míns frá Tryggingastofnun 1.455 þús. Að auki námu vaxtatekjur samtals 616 þús. (þ.a. staðgreiðsla 62 þús.) þannig að þær voru nokkru hærri en samkvæmt tekjuáætlun sem nam 152 þús. kr. Stafi ofangreindur mismunur í tekjutryggingarauka af þessum tekjum þarf að líta á fleiri þætti en aðeins vaxtatekjurnar.

Á framtalinu kemur fram að bankainnstæður, sem gefa þessar 616 þús. kr. í vaxtatekjur, voru alls 5,3 millj. kr. í árslok 2006. Hins vegar verður til þess að horfa að ófullnægjandi er að miða ráðstöfunartekjur umbjóðanda míns við þessar tekjur ásamt greiðslum frá Tryggingastofnun. Það stafar af því að umbjóðandi minn skuldar í árslok 2006 um 6,1 millj. kr. vegna íbúðar sinnar og árleg greiðslubyrði af þeirri skuld er um tæplega 500 þús. á ári (um 328 þús. í vaxtagjöld og 135 þús. í afborgun vegna ársins 2006). Nær lagi er að horfa til eftirfarandi yfirlits um ráðstöfunartekjur:

Tekjur frá Tryggingastofnun                                                                1455 þús.

Staðgreiðsla þar af                                                                            - 186 þús.

Til ráðstöfunar án vaxtatekna og lánagreiðslna                                     1269 þús.

Vaxtatekjur, nettó af staðgreiðslu                                                        554 þús.

Árleg greiðslubyrði af lánum                                                                -463 þús.

Til frjálsrar ráðstöfunar á ári =                                                            1360 þús.

Af þessu er ljóst, að umbjóðandi minn hefur um 113 þús. á mánuði til framfærslu og verður að láta það duga. Sýnist því ekki efni til þess að ætlast til að umbjóðandi minn endurgreiði áðurnefndar 60 þús. kr. sem endurreikningur leiddi til. Við þann útreikning er horft framhjá greiðslubyrði af skuldum við Íbúðalánasjóð og væntir umbjóðandi minn þess að litið verði til þess með velvilja; að öðrum kosti er útreikningurinn gallaður ef honum er ætlað að meta hæfi til framfærslu þegar svo stendur á að ekki sé um aðrar tekjur að ræða. Það er von mín, að þessar upplýsingar megi duga til þess að mál umbjóðanda míns verði tekið til endurskoðunar og hún leiði til þess að fallið verði frá kröfu um að endurgreiddar verði 60 þús. kr. samkvæmt tilkynningu Tryggingastofnunar.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 10. janúar 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerð, dags. 12. febrúar 2008, hefur borist úrskurðarnefndinni. Þar segir m.a.:

„Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafði farið fram kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2006 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Í tekjuáætlun 2006 voru fjármagnstekjur kæranda áætlaðar samtals 156.084 kr. Við bótauppgjör ársins 2006 kom hins vegar í ljós að fjármagnstekjur kæranda námu samtals 615.931 kr. Ofgreiðslur til kæranda námu því 60.705 kr., eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar þann 8. október 2007.

Í 55. gr. atl. kemur fram skýr skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú skylda er ítrekuð í 10. gr. reglugerðar nr. 939/2003. Í 12. gr. reglugerðarinnar kemur fram þröng heimild til þess að veita bótaþega undanþágu frá endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Er í þeirri grein krafist þess að um sérstakar aðstæður sé að ræða og skal einkum horft til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega.

Kærandi andmælti endurkröfu Tryggingastofnunar og krafðist niðurfellingar. Andmæli kæranda voru lögð fyrir samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna í samræmi við áðurnefnda 12. gr. reglugerðarinnar. Eftir ítarlega yfirferð yfir gögn málsins taldi nefndin að skilyrði til niðurfellingar væru ekki uppfyllt, eins og sjá má í svari Tryggingastofnunar, dags. 21. janúar 2008.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. febrúar 2008 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótum greiddum kæranda á árinu 2006 og uppgjör þeirra.

Í kæru segir að líta þurfi til fleiri þátta en vaxtatekna kæranda. Nær lagi sé að horfa til yfirlits um ráðstöfunartekjur hennar. Af því sé ljóst að kærandi hafi um 113.000 kr. á mánuði til framfærslu og verði að láta það duga. Sýnist því ekki vera efni til að ætlast til þess að kærandi endurgreiði þær 60.000 kr. sem endurreikningur Tryggingastofnunar leiddi til.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri hafi verið sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda á árinu 2006 hafi reynst hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun hennar vegna ársins 2006. Í tekjuáætlun 2006 hafi fjármagnstekjur kæranda verið áætlaðar kr. 156.084. Við bótauppgjör hafi hins vegar komið í ljós að fjármagnstekjur kæranda námu samtals kr. 615.931. Ofgreiðslur til kæranda hafi því numið kr. 60.705. Þá segir í greinargerðinni að andmæli kæranda við endurkröfu Tryggingastofnunar og krafa um niðurfellingu hafi verið lögð fyrir samráðsnefnd stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna. Eftir ítarlega yfirferð yfir gögn málsins hafi samráðsnefndin talið að skilyrði niðurfellingar væru ekki uppfyllt.

Kæranda voru á árinu 2006 greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi ellilífeyris, tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar, auk orlofs- og desemberuppbóta. Fóru greiðslur þessar fram á grundvelli þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum. Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sbr. lög nr. 74/2002, segir að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Sams konar ákvæði er nú í 7. mgr. 16. gr. endurútgefinna almannatryggingalaga nr. 100/2007. Við endurreikning á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar til kæranda árið 2006 er byggt á þeim reiknireglum sem í gildi voru árið 2006 og því þykir rétt í úrskurði þessum að vísa til ákvæða almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á lífeyrisgreiðslum stofnunarinnar til kæranda árið 2006 bar með sér að kæranda hefði verið ofgreiddur tekjutryggingarauki að fjárhæð kr. 90.660. Auk þess sem orlofs- og desemberuppbætur hefðu verið ofgreiddar að fjárhæð kr. 3.778.

Í 17. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um tekjutryggingarauka. Þar segir í 9. mgr. að hafi einhleypingur eingöngu tekjur frá lífeyristryggingum skuli hann til viðbótar við heimilisuppbót eiga rétt á fullum tekjutryggingarauka. Hafi lífeyrisþegi aðrar tekjur skerði þær tekjutryggingaraukann um 45%.

Í 2. mgr. 10. gr. laganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning og er vísað til ákvæða laga um tekjuskatt í því sambandi. Þar segir þó jafnframt að fjármagnstekjur skuli metnar að 50 hundraðshlutum við ákvörðun tekjugrundvallar við útreikning á tekjutryggingarauka.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega, og eftir atvikum maka, skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur viðkomandi, og eftir atvikum maka hans, hjá skattyfirvöldum o.fl., svo fremi að samþykki þeirra, liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.

Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Þar segir enn fremur, eins og að framan greinir, að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.

Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna tekjuársins 2006 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti kæranda árið 2006 hjá Tryggingastofnun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir endurreikning lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2006 var munur á þeirri tekjuáætlun sem lögð var til grundvallar við samtímaútreikninga á greiðslu bóta til hennar á árinu 2006 og þeim tekjum sem taldar voru fram á skattframtali hennar 2007 vegna tekjuársins 2006. Varðaði sá munur framtaldar fjármagnstekjur kæranda, sem reyndust vera kr. 459.847 hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun hennar.

Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar, byggðum á framtöldum tekjum kæranda árið 2006, var það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð kr. 94.438 árið 2006 og að teknu tilliti til áður afdreginnar staðgreiðslu skyldi innheimtar hjá henni ofgreiddar bætur að fjárhæð kr. 60.705.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við niðurstöðu hans.

Eins og að framan greinir er í 50. gr. almannatryggingalaga kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar. Í 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Í kæru er farið fram á að fallið verði frá kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta og til þess vísað að kærandi verði að láta sér duga um 113.000 kr. á mánuði til framfærslu. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar ríkisins um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna hefur hafnað beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslunnar á þeim forsendum að skilyrði niðurfellingar séu ekki uppfyllt þar sem um lága fjárhæð sé að ræða.

Ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 er undanþáguákvæði og skal sem slíkt skýrt þröngt samkvæmt almennum lögskýringareglum, auk þess sem samkvæmt ákvæðinu sjálfu á heimild þess til að falla frá endurkröfu við þegar alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Eins og að framan greinir voru fjármagnstekjur kæranda á árinu 2006 vanáætlaðar í tekjuáætlun hennar um kr. 459.847. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að kæranda hafi ekki mátt vera ljóst að fjármagnstekjur hennar yrðu umtalsvert hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun hennar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga getur því, þegar af þeirri ástæðu, ekki fallist á að skilyrði séu fyrir hendi til að falla frá endurkröfu Tryggingastofnunar á hendur kæranda að fullu eða að hluta samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003.

Vegna rökstuðnings í kæru telur úrskurðarnefnd almannatrygginga rétt að vekja athygli kæranda á að Tryggingastofnun er ávallt heimilt að semja við bótaþega um tilhögun endurgreiðslu, þar á meðal dreifingu greiðslna, sbr. 6. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 939/2003, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 917/2006. Enn fremur að í 5. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar segir að sýni bótaþegi Tryggingastofnun fram á að innheimta ofgreiðslna verði til þess að hann hafi heildartekjur sem nemi lægri fjárhæð en félagsmálaráðuneytið telji vera lágmarks framfærsluþörf, sem í desember 2007 nam kr. 99.319, skuli Tryggingastofnun að ósk bótaþega, lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bótaþegans nemi þeirri fjárhæð.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja A, um kr. 60.705 vegna ofgreiðslu bóta árið 2006.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum