Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 241 Slysabætur

Grein

Þriðjudaginn 30. október 2007

 

 241/2007

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 7. september 2007 kærir B, hdl. f.h. A, synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um slysabætur.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að þann 27. júlí 2007 móttók Tryggingastofnun ríkisins tilkynningu dags. 25. júlí 2007 um slys er kærandi varð fyrir 4. ágúst 2006.  Í nákvæmri lýsingu á tildrögum og orsök slyssins og hvernig það tengist vinnu segir í tilkynningunni:

 

,,A var að störfum sem dyravörður.  Maður var með læti inn á staðnum og vildi m.a. ekki koma niður af borði.  Þegar A fór að ræða við hann sló maðurinn hann í andlitið með bjórglasi, algjörlega af tilefnis- og fyrirvaralausu svo A hlaut skurð í andliti og missti framtennur.”

 

Tryggingastofnun synjaði umsókn um bætur með bréfi dags. 1. ágúst 2007.  Með bréfi til Tryggingastofnunar dags. 16. ágúst 2007 var óskað eftir endurupptöku málsins.  Beiðni um endurupptöku var hafnað með bréfi dags. 29. ágúst 2007.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 ,,Rökstuðningurinn er tíundaður í smáatriðum í bréfi undirritaðs frá 16. ágúst 2007 þar sem farið var á leit við stofnunina að hún myndi lagfæra niðurstöðu sína sem byggðist, að mati undirritaðs, á rangtúlkun ákvæða þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Að öðru leiti en því sem þar kemur fram vill undirritaður koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í frumskýrslu lögreglu (fskj. 4) kemur fram að C rekstraraðili D hringdi og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna dyravarðar sem hefði verið sleginn í andlitið. Í vitnaskýrslu kæranda (fskj. 5) segist kærandi hafa verið að störfum sem dyravörður þegar hann var sleginn, enda var hann að hafa afskipti af drukknum manni sem hagaði sér dólgslega. Í vitnaskýrslu af starfsmanni (fskj. 7) kemur fram að hann hafi verið að störfum ásamt A á barnum. A og starfsmaðurinn hafi farið saman að biðja árásarmann að fara niður af borðinu þegar slysið bar að höndum. Í vitnaskýrslu af plötusnúði á barnum (fskj. 8) kemur fram að hún hafi kallað eftir aðstoð A, sem var að störfum sem dyravörður, vegna árásarmanns, en hann var þá orðinn drukkinn og með vandræði.

Þrátt fyrir að eigandi staðarins hafi tilkynnt árás á dyravörð, starfsmaður og plötusnúður hafi beðið A um aðstoð vegna þess að hann var dyravörður, þá hefur Tryggingastofnun hafnað bótaskyldu. Telja verður að A hafi slasast þegar hann var að störfum sem dyravörður. A fékk laun fyrir starfið og uppfyllir því skilyrði laga um almannatryggingar fyrir því að fá tjón sitt bætt samkvæmt lögunum.

Undirritaður telur, með vísan til fordæmis úrskurðarnefndar, að bótaskylda sé fyrir hendi. Þó svo að rekstraraðili D hafi ekki hirt um að skila opinberum gjöldum af launum A fyrir það ekki A bótaskyldu, þvert á móti. Hvergi í lögum um almannatryggingar eru skilyrði bótaskyldu að opinber gjöld hafi verið greidd af launum. Það er veiga mikið sönnunaratriði en í þessu tilviki er komin fram mörg sönnunargögn um að A hafi verið að störfum þó svo að ekki hafi verið greidd opinber gjöld af launum hans.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 12. september 2007 eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 21. september 2007.  Þar segir m.a.:

 Um slysatryggingar almannatrygginga er fjallað í IV. kafla laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þeir sem slysatryggðir eru skv. almannatrygginga­lögum eru taldir upp í 29. gr. laganna. Þar á meðal eru launþegar sem starfa hér á landi.

Í slysatilkynningu og öðrum gögnum kemur fram að A hafi starfað sem dyravörður hjá D. Aðdragandi slyssins var sá að hann reyndi að fá viðskiptavin barsins til þess að fara niður af borði með þeim afleiðingum að hann var sleginn í andlitið með bjórglasi svo skurður kom á vör og tennur brotnuðu.

Skilyrði bóta úr slysatryggingum almannatrygginga er að viðkomandi hafi fengið greidd laun fyrir það starf sem unnið var er slysið átti sér stað sbr. skilgreining á hugtakinu launþegi í 29. gr. laganna.

Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra fékk A engin laun greidd frá D árið 2006. Auk þess sem slysið er ekki tilkynnt til Tryggingastofnunar rikisins af atvinnurekanda með undirritun hans á tilkynninguna.

Sá sem óskar bóta skv. almannatryggingalögum þarf eðli máls samkvæmt að sýna fram á að atvik hans eigi undir ákvæði laganna.

Til fjölmargra ára hefur Tryggingastofnun stuðst við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra til staðfestingar á launþegasambandi eða til staðfestingar á eigin rekstri atvinnurekanda. A hefur samkvæmt skattskrám ekki fengið laun greidd, né heldur hefur hann á annan hátt sýnt fram á launþegasamband sitt við fyrrgreint fyrirtæki.

Nákvæm skilgreining er ekki í almannatryggingalögunum á því hver teljist launþegi. Ályktanir hafa verið dregnar af ýmsum lagaákvæðum og stuðst er við almenna málvenju og lögskýringar. Í 3. mgr. 29. gr. atl. nr. 100/2007 kemur fram að launþegi teljist hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi. A hefur ekki sýnt fram á að hann hafi fengið greidd laun fyrir vinnu sína í þágu D. Telst hann þar af leiðandi ekki launþegi sem tryggður er skv. 29. gr., en ólaunuð vinna telst ekki falla undir vinnuslysatryggingu almannatrygginga.

Þess skal auk þess getið að slysatryggingar almannatrygginga eru fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem greitt er af öllum launþegum og sérstökum iðgjöldum sbr. 36. gr. almannatryggingalaga.

Með vísan til framangreinds var ekki talið að ofangreint tilvik félli undir ákvæði vinnuslysatryggingar skv. almannatryggingalögum.

Málið var því ekki skoðað frekar efnislega þar sem ekki var að sjá að um bótaskylt vinnuslys samkvæmt almannatryggingalögum væri að ræða.”

           

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 28. september 2007 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um slysabætur.  Samkvæmt slysatilkynningu starfaði kærandi sem dyravörður hjá D.  Aðdragandi slyssins var að þegar kærandi reyndi að fá gest á barnum til að fara niður af borði sló gesturinn hann í andlitið með bjórglasi svo skurður kom á vör og tennur brotnuðu.

 

Í rökstuðningi kæranda segir að það liggi fyrir staðfest í málsgögnum að hann hafi verið að störfum sem dyravörður þegar hann varð fyrir árás.  Hann hafi fengið laun fyrir starfið og uppfylli því skilyrði almannatrygginga fyrir bætur.  Þó svo að rekstraraðili staðarins hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum af launum breyti það ekki réttarstöðu kæranda til slysabóta samkvæmt almannatryggingalögum.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi fengið laun fyrir vinnu sína á D.  Hann teljist því ekki tryggður samkvæmt 29. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

 

Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur og er árásin óumdeild.  Ágreiningurinn varðar hinsvegar rétt kæranda til slysabóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.

 

Ákvæði um slysatryggingar eru í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.  Í 29. gr. segir hverjir eru slysatryggðir samkvæmt kaflanum.  Samkvæmt greininni eru m.a. launþegar tryggðir við vinnu sína.  Þá segir í 2. mgr. 29. gr. að launþegi teljist hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi.

 

Samkvæmt upplýsingum úr skattskrá var kærandi hvorki með laun sem launþegi né reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri og greiddi því ekki tryggingagjald þegar slysið varð.  Tryggingagjald er ekki iðgjald fyrir slysatryggingar skv. almannatryggingalögum.  Hvergi í almannatryggingalögum er ákvæði sem segir að skil á opinberum gjöldum sé eitt af skilyrðum þess að vera slysatryggður skv. III. kafla laganna.

 

Engin gögn liggja fyrir í málinu um að kærandi hafi fengið greidd laun vegna starfa sem dyravörður þegar árásin átti sér stað, hvorki vinnusamningur né yfirlýsing launagreiðanda.  Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að laun hafi verið talin fram og af þeim greidd opinber gjöld svo sem staðgreiðsla.  Lögmaður kæranda bendir réttilega á að nákvæm skilgreining sé ekki í lögum á því hverjir séu launþegar í skilningi laganna.  Í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 100/2007 segi þó að launþegi sé hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi.

 

Meta verður heildstætt öll málsatvik í hverju tilviki fyrir sig og taka afstöðu til þess hvort að um launþega sé að ræða í skilningi laganna. Eðli málsins samkvæmt hvílir það á kæranda að leggja fram gögn um vinnuréttarsamband sitt og atvinnurekandans.  Sönnunarfærslan er ekki lögbundin að þessu leyti en gögn eins og vinnusamningur, launaseðlar og yfirlýsing frá launagreiðanda er staðfestir vinnuréttarsamband myndi skipta miklu við úrlausn málsins.  Ennfremur gögn frá skattyfirvöldum sem staðfesta skattskil.  Ekkert að þessum gögnum liggur fyrir og er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi verið launþegi í skilningi almannatryggingalaga þegar hann varð fyrir umræddri árás.  Synjun Tryggingastofnunar á bótaskyldu er staðfest.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á bótaskyldu vegna líkamstjóns er A varð fyrir  4. ágúst 2006 er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum