Hoppa yfir valmynd
5. mars 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

11070080

Þann 5 . mars 2012 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


Úrskurður:

Með stjórnsýslukæru Solveigar K. Jónsdóttir, eigenda Melaleitis í Hvalfjarðarsveit, dags. 12. júlí 2011, og stjórnsýslukæru Hvalfjarðarsveitar, dags. 13. júlí 2011, til ráðuneytisins var kærð útgáfa Heilbrigðisnefndar Vesturlands á starfsleyfi til Stjörnugríss hf., dags. 29. júní 2011, til að starfrækja svínabú samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998.


I. Málavextir.

Þann 29. júní 2011 gaf Heilbrigðisnefnd Vesturlands út starfsleyfi til handa svínabúi Stjörnugríss hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit til að starfrækja þauleldi á fráfærugrísum, allt að 8.000 stæðum. Gildistími starfsleyfisins er til 29. júní 2013.

Í tilefni af framangreindum stjórnsýslukærum var af hálfu ráðuneytisins aflað umsagna frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands, Umhverfisstofnun og Stjörnugrís hf. með bréfum dags. 19. júlí 2011. Bárust ráðuneytinu umsagnir með bréfum dags. 26. ágúst sl. frá Stjörnugrís hf., 27. september frá Umhverfisstofnun og 29. ágúst frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands. Kærendum voru sendar umræddar umsagnir til athugasemda með bréfum dags. 18. október sl. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá kærendum með bréfum dags. 31. október sl. Þá barst ráðuneytinu einnig bréf frá Hvalfjarðarsveit, dags. 31. október sl., vegna málsins. Með bréfi ráðuneytisins dags. 5. janúar sl. var óskað eftir viðbótarupplýsingum frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands í tilefni af umsögn Umhverfisstofnunar. Barst ráðuneytinu í kjölfarið bréf frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands þann 16. janúar sl.

Í kærum Solveigar K. Jónsdóttur og Hvalfjarðarsveitar er þess krafist að hinu kærða starfsleyfi verði breytt í samræmi við nánar tilgreindar kröfur kærenda.

Í athugasemdum Stjörnugríss hf. við framlagðar kærur segir að starfsleyfishafi geri í máli þessu kröfur um að skilyrði í ákvæði 2.13 í starfsleyfi og takmörkun á undanþáguheimild hvað varðar dreifingartímabil á svínamykju í ákvæði 2.9 verði úrskurðuð ógild. Þrátt fyrir þessa kröfugerð starfsleyfishafa kemur fram að ekki sé um að ræða kæru á útgáfu starfsleyfisins. Í ljósi þessa er það mat ráðuneytisins að Stjörnugrís hf. geti ekki gert sjálfstæðar kröfur sem kærandi í máli þessu þar sem ekki hefur komið fram kæra af hálfu Stjörnugríss hf. til ráðuneytisins.


II. Kæruaðild og kröfur til skýrleika kæru.

1. Kæruaðild.

Í athugasemdum Stjörnugríss hf. við fyrirliggjandi kærur segir að almennt sé viðurkennt í stjórnsýslurétti að aðilar máls geti þeir einir verið sem hafi verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun. Geti Hvalfjörður ekki notið aðildar í máli þessu þrátt fyrir að starfsemi Stjörnugríss hf. sé staðsett í umdæmi Hvalfjarðarsveitar þar sem ekki verði séð hvaða verulegu og einstöku hagsmunir það séu sem sveitarfélagið hafi í málinu. Beri því að vísa kæru sveitarfélagsins frá. Jafnframt sé ljóst að eigendur Melaleitis í Hvalfjarðarsveit hafi ekki verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta af þeirri stjórnvaldsákvörðun sem hafi falist í útgáfu starfsleyfis til Stjörnugríss hf. Hafi eigendur Melaleitis ekki heimilisfesti á jörðinni, heldur á Stór-Reykjavíkursvæðinu og erlendis, fjarri starfsemi svínabúsins. Geti þeir því ekki reist aðild sína á reglum grenndarréttar. Breyti það engu í því sambandi að umræddir eigendur hafi notið réttar samkvæmt lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 til að gera athugasemdir við drög að hinu kærða starfsleyfi, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Beri því einnig að vísa kæru eigenda Melaleitis frá.

Í bréfi Hvalfjarðarsveitar til ráðuneytisins segir að Hvalfjarðarsveit eigi sannarlega verulegra hagsmuna að gæta í málinu þar sem sveitarfélagið hafi nýlega verið dæmt bótaskylt vegna deiliskipulags sem hafi verið grundvöllur þess að Stjörnugrís hf. gæti byggt svínabú að Melum. Byggist dómurinn að miklu leyti á því að lyktarónæði sé á nágrannajörð frá starfseminni á Melum. Hægt sé að bregðast við þessu ónæði með hertum starfsleyfisskilyrðum og því hafi sveitarfélagið augljóslega mikla hagsmuni af því að fjallað sé um starfsleyfisskilyrðin hjá æðra stjórnvaldi.

Kæruheimild vegna hins kærða starfsleyfis er að finna í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar er hins vegar ekki að finna sérstakar reglur um kæruaðild í slíkum málum og gilda því almennar reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Í lögunum er ekki tekin frekari afstaða til þess hverjir geti talist til aðila kærumáls. Við matið ber að líta til þess hvort viðkomandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls og þarf að meta í heild sinni hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn málsins. Í því sambandi þarf einnig að horfa til tilgangsins með kæruheimildinni og efnis viðkomandi stjórnvaldsákvörðunar. Þá ber að hafa í huga að kæruheimild til æðra stjórnvalds er liður í réttaröryggi innan stjórnsýslunnar þar sem markmiðið er að unnt sé að fá ákvörðun stjórnvalds endurskoðaða innan stjórnsýslunnar áður en leitað er annað, þ.á.m. til dómstóla.

Um þá starfsemi sem hér ræðir um gilda ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Ráðuneytið telur ljóst að sú heimild sem aðilum er fengin í 32. gr. laganna til að kæra útgefin starfsleyfi sé mikilvægur liður í því að ná þessu markmiði laganna og veiti leyfisveitendum jafnframt mikilvægt aðhald við útgáfu leyfa vegna starfsemi sem getur haft í för með sér mengun.

Annar kærandi í máli þessu, Solveig K. Jónsdóttir, er einn af landeigendum Melaleitis í Melasveit í Borgarfirði, en Melaleiti og jörðin Melar liggja saman. Í máli Solveigar og systra hennar gegn Hvalfjarðarsveit, sbr. dómur Héraðsdóms Vesturlands 24. júní 2011 í máli nr. E-124/2011, kemur fram að foreldrar þeirra hafi á árinu 2000 ráðstafað jörðinni Melaleiti sem fyrirframgreiddum arfi til systranna og hafi þær upp frá því átt jörðina jöfnum hlutum. Í dóminum var talið að lyktarmengun frá svínabúinu gagnvart Melaleiti væri veruleg og mun meiri en almennt mætti gera ráð fyrir til sveita þar sem stundaður væri landbúnaður. Féllst dómurinn á að deiliskipulag fyrir Mela vegna svínabús Stjörnugríss hf. hafi rýrt verðmæti Melaleitis og að tjónið væri talin sennileg afleiðing af gildistöku skipulagsins. Var Hvalfjarðarsveit því dæmd til greiðslu skaðabóta.

Ráðuneytið telur að við mat á því hvort Solveig K. Jónsdóttir eigi kæruaðild í máli þessu verði fyrst og fremst að líta til þess að jörðin Melaleiti, sem kærandi á í sameign með systrum sínum, liggur að þeirri jörð þar sem umrædd starfsemi er staðsett. Telja verður að lyktarmengun frá umræddu svínabúi eins og um er fjallað í áðurgreindum dómi héraðsdóms Vesturlands geti haft neikvæð áhrif á kæranda við dvöl hennar á Melaleiti. Er það því mat ráðuneytisins að kærandi eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í máli þessu og í því sambandi ráði ekki úrslitum hversu oft hún dvelji á jörðinni eða hversu lengi hverju sinni, en eins og fram kemur í áðurgreindum héraðsdómi þá er um að ræða æskuheimili hennar og systra hennar þó svo að hún eigi ekki lögheimili þar nú. Þegar litið er til þessa, markmiðsákvæðis 1. gr. laga nr. 7/1998 og áðurnefndra sjónarmiða um réttaröryggi er það því mat ráðuneytisins að Solveig K. Jónsdóttir eigi kæruaðild í máli þessu.

Mál þetta varðar starfsleyfisskylda starfsemi í sveitarfélagi Hvalfjarðarsveitar. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga eru það sveitarfélögin sem fara með skipulagsvald í þeirra umdæmum og er það því á þeirra forræði að ákveða landnýtingu á einstökum svæðum. Ráðuneytið telur ljóst að það varði sveitarfélögin miklu hvaða starfsemi fer fram í þeirra umdæmi, m.a. í ljósi þess margbreytilega hlutverks sem þau gegna gagnvart íbúum sveitarfélagsins. Hefur sveitarfélagið þá sérstaka hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi sem þar er stunduð leiði ekki til óþarfa mengunar eða óheilnæms umhverfis. Þá hefur komið fram í máli þessu að Hvalfjarðarsveit var með nýlegum dómi héraðsdóms dæmt til greiðslu skaðabóta vegna deiliskipulags þess sem gert var fyrir jörðina Mela. Í ljósi alls þessa er það mat ráðuneytisins að Hvalfjarðarsveit eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls þessa og njóti því kæruaðildar í málinu.

Með vísan til framangreinds hafnar ráðuneytið þeirri kröfu starfsleyfishafa að vísa frá fyrirliggjandi kærum á grundvelli skorts á kæruaðild.


2. Skýrleiki kæru.

Í athugasemdum Stjörnugríss hf., sem barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti á útgáfu umrædds starfsleyfis, er því mótmælt að kæra Hvalfjarðarsveitar sé tæk til efnislegrar meðferðar. Segir að í kærunni megi aðeins greina að sveitarfélagið hafi gert að sinni umsögn umhverfis- og náttúruverndarnefndar, sem virðist hafa verið ætluð heilbrigðisnefndinni þegar umsókn um starfsleyfi hafi verið þar til meðferðar. Í kjölfar umsagnarinnar hafi heilbrigðisnefndin gert nokkrar breytingar á auglýstum starfsleyfisdrögum og hafi í öllum veigamiklum atriðum verið fallist á athugasemdirnar í umsögninni. Því sé óljóst hverjar kröfur kæranda séu og hvaða rök hann færi fram til stuðnings kröfum sínum. Sé það mat Stjörnugríss hf. að ráðuneytinu hafi borið að afla frekari skýringa Hvalfjarðarsveitar á kæru þeirra til að heilbrigðisnefndin og Stjörnugrís gætu á upplýstan hátt tekið afstöðu til kærunnar. Beri ráðuneytinu því að afla frekari skýringa hjá kæranda ellegar vísa kærunni frá.

Í skýringarriti Páls Hreinssonar við stjórnsýslulögin segir á bls. 252 að varðandi efni kæru sé almennt gengið út frá því að nægilegt sé að aðili tjái æðra stjórnvaldi að hann sé óánægður með ákvörðunina. Á grundvelli leiðbeiningarskyldunnar og rannsóknarreglunnar í 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga beri æðra stjórnvaldi síðan að leiðbeina aðila og ganga úr skugga um að hann óski eftir að kæra ákvörðunina. Sé svo, sé rétt að æðra stjórnvald inni aðila eftir því hvaða ákvörðun sé um að ræða, kröfur hans og rök, svo og um aðrar upplýsingar og gögn er málið varði.

Í framlagðri kæru Hvalfjarðarsveitar segir: „Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að kæra ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands vegna útgáfu starfsleyfis fyrir Stjörnugrís hf. að Melum dags. 29. júní 2011, sbr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til fullnaðarúrskurðar umhverfisráðherra.“ Segir í kærunni að sveitarstjórn hafi samþykkt að gera umsögn umhverfis- og náttúruverndarnefndar vegna umsóknar Stjörnugríss hf. um umrætt starfsleyfi að umsögn Hvalfjarðarsveitar um starfsleyfið, en í umsögninni hafi ekki verið mælt með samþykki starfsleyfis fyrr en athugasemdir umsagnarinnar hafi verið teknar til greina í fylgiskjali I með starfsleyfinu. Í kærunni segir þá: „Það er ósk sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að tekið sé fullt tillit til athugasemda sveitarfélagsins.“

Ráðuneytið bendir á að starfsleyfishafi hefur ekki haldið því fram í athugasemdum sínum að þær kröfur sem fram koma í framangreindri umsögn umhverfis- og náttúruverndarnefndar um drög að hinu kærða starfsleyfi Stjörnugríss hf., dags. 7. apríl 2011, séu ekki skýrt settar fram, enda er það mat ráðuneytisins að þær athugasemdir séu nægjanlega skýrar til umfjöllunar í máli þessu. Athugasemdir nefndarinnar voru hins vegar lagðar fram þegar umrædd umsókn starfsleyfishafa var til meðferðar hjá Heilbrigðisnefnd Vesturlands og má því gera ráð fyrir að tekið hafi verið tillit til einhverra af þeim athugasemdum í útgefnu starfsleyfi. Ráðuneytið getur hins vegar ekki fallist á að sú staðreynd leiði til óskýrleika í kæru Hvalfjarðarsveitar. Þá kemur skýrt fram í kæru Hvalfjarðarsveitar að um er að ræða kæru á framangreindu starfsleyfi Stjörnugríss hf.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat ráðuneytisins að framlögð kæra Hvalfjarðarsveitar sé tæk til efnislegrar meðferðar og er því kröfu starfsleyfishafa um frávísun kærunnar af þeim sökum hafnað.


III. Málsástæður kærenda og umsagnir um kærur.

1. Ákvæði 2.13 í starfsleyfi um niðurfellingu svínamykju.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttur er gerð athugasemd við að frestur til að hefja niðurfellingu svínamykju í svörð sé 1. maí 2013, sbr. ákvæði 2.13 í hinu kærða starfsleyfi. Telur kærandi að ekki sé um að ræða flókna aðgerð sem krafist geti langs frests þar sem tæknin sé vel þekkt og margreynd. Kærandi telur nægjanlegt að veita frest til 1. apríl 2012.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar er gerð sú krafa að niðurfellingarbúnaður sé notaður til dreifingar á mykju, enda falli hann undir ákvæði um bestu fáanlegu tækni (BAT).

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands er vísað til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Búnaður til niðurfellingar mykju sé dýr og því sé sanngjarnt að veita frest til 1. maí 2013. Sama sé að segja um nýja hauggeymslu sem hafi verið byggð 2010, en frestur til að ljúka byggingu hennar sé til 1. maí 2013. Um sé að ræða nýtt skilyrði í ákvæði 2.13 í starfsleyfinu sem ekki hafi áður verið sett eftir þeirra bestu vitund og því sé eðlilegt að veittur sé frestur til að uppfylla það.

Umhverfisstofnun bendir á að ætíð sé matskennt hversu langa fresti beri að veita til að taka upp nýja tækni í starfsleyfisskyldri starfsemi. Samkvæmt þeim BAT viðmiðunum sem Umhverfisstofnun telji rétt að miða við, þ.e. Reference Document on Best Available Techniques for Intensive Rearing of Poultry and pigs, IPPC, 2003, hafi ekki verið tekin endanleg afstaða til þess hver sé besta fáanlega tækni í mykjudreifingu. Í umræddum BAT viðmiðunarreglum sé hins vegar tekið fram að hefðbundin mykjudreifing geti ekki talist uppfylla BAT viðmið. Krafa í starfsleyfi um niðurfellingu mykju í svörð sé eðlileg og ekki sé óeðlilegt að veita ákveðinn frest til að verða við kröfunni. Lengd fresta af þessu tagi verði að meta með tilliti til aðstæðna á hverjum stað og tíma. Hafi Umhverfisstofnun ekki forsendur til að segja til um hvort lengd viðkomandi frests sé úr hófi, enda yrði slíkt mat m.a. að ráðast af því með hvaða hætti mykjudreifing fari fram í dag.

Starfsleyfishafi telur að skilyrði um að fella svínamykju í svörðinn eigi sér ekki lagastoð og að reglugerðarheimild ráðherra í 5. gr. laga nr. 7/1998 feli í sér brot á 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem um sé að ræða of víðtækt valdaframsal til ráðherra. Þá hafi umrætt starfsleyfisskilyrði ekki verið í fyrra starfsleyfi svínabúsins að Melum. Fari breytingin í bága við jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarsins, enda hafi engar forsendur breyst sem gefi tilefni til svo viðurhlutamikilla skilyrða. Hafi önnur svínabú Stjörnugríss hf. ekki þurft að sæta sömu skilyrðum, sbr. starfsleyfi fyrir svínabú að Hýrumel. Þá hafi engin rannsókn farið fram af hálfu heilbrigðiseftirlitsins á því hvort líklegt væri að það gæfi góða raun að fella svínamykju ofan í svörðinn. Telur starfsleyfishafi engar líkur vera á því að framkvæmd skilyrðisins hafi nokkur áhrif á meinta mengun frá svínabúinu. Við skoðun og prófun á tækninni hafi komið í ljós að ekki sé um verulega lyktunarminnkun að ræða, enda sé búnaðurinn ekki hannaður með það að markmiði að draga úr lykt heldur til að nýta betur köfnunarefni í seyrunni, þ.e. nýta húsdýraáburðinn betur í ræktun. Þá liggi fyrir að framkvæmdirnar séu fjárfrekar og kostnaður áætlaður um 20-40 milljónir kr. Til að ráðast í slíkan kostnað þurfi að liggja fyrir að aðgerðirnar muni skila tilætluðum árangri og að ekki séu aðrar leiðir færar. Svo sé hins vegar ekki í þessu tilviki. Vísar starfsleyfishafi til úrskurðar ráðherra í máli UMH00030105, dags. 26. september 2000, þar sem ekki hafi verið talið gefa góða raun að fella svínamykju í svörðinn og ekki hafi því verið ástæða til að mæla fyrir um að slík skylda yrði lögð á viðkomandi svínabú. Bendir starfsleyfishafi á að hægt sé að dreifa mykju með hefðbundnum hætti og plægja mykju niður eða tæta á eftir. Dreifingartímabil að Melum hafi þá verið skert verulega þannig að aðeins sé um stutt afmarkað dreifingartímabil að ræða. Mikla fjármuni hafi verið lagt í búnað til dreifingar á mykju sem muni ekki nýtast verði starfsleyfishafa gert að fella seyru í svörðinn. Þá standi til að vinna metangas úr seyrunni að Melum sem muni leiða til lyktarlausrar dreifingar á seyru. Bent er á að eitt af markmiðum reglugerðar nr. 785/1999 sé að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum og beri heilbrigðisnefndum að sjá til þess að komið sé á samþættum mengunarvörnum. Staðan sé hins vegar sú að ósamræmi sé milli skilyrða í starfsleyfum svínabúa.


2. Ákvæði 2.7 í starfsleyfi um safnþrær fyrir svínamykju.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttur er gerð athugasemd við ákvæði 2.7 í hinu kærða starfsleyfi um safnþrær fyrir svínamykju. Segir að ákvæðið sé óbreytt frá fyrra starfsleyfi, en undanþágur á dreifingu á mykju virðist oftast hafa verið veittar sökum þess að núverandi hauggeymslur hafi yfirfyllst. Þá dragi það úr hættu vegna salmonellasýkinga að hægt sé að geyma seyru í minnst 6 mánuði eftir reglunni „allt inn - allt úr„ áður en henni sé dreift. Til að draga hvort tveggja úr undanþáguveitingum og sýkingarhættu þurfi hauggeymslur að vera að lágmarki tvær og geti samanlagt rúmað 12 mánaða framleiðslu búsins af seyru. Slíkt sé ekki viðurhlutamikil fjárfesting og nýtist búinu til lengri tíma.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar er gerð sú krafa að safnþrær fyrir mykju séu lokaðar og rúmi a.m.k. 8 mánaða birgðir.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands segir að kæra Solveigar K. Jónsdóttur sé bundin ákveðnum greinum hins kærða starfsleyfis, þ.e. ákvæðum 2.1, 2.2, 2.7, 2.9 og 2.13. Nefndin kveðst líta svo á að lyktarmengun frá umræddu svínabúi sé ekki það mikil að gera þurfi ráðstafanir umfram þær sem komi fram í starfsleyfi. Ekkert sé t.d. geymt utan sjálfs búsins sem geti valdið lyktarmengun og séu allar dyr lokaðar. Hins vegar hafi verið gefinn frestur til 1. maí 2013 til að yfirbyggja annan af tveimur mykjugeymum.

Hvað varðar ákvæði 2.7 í hinu kærða starfsleyfi kveðst Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafa stuðst við 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um að hauggeymslur skuli rúma 6 mánaða mykju sem og ákvæði starfsreglna um góða búskaparhætti frá 2002. Í starfsreglunum segi að hauggeymslur skuli rúma mestu hugsanlegu birgðir búfjáráburðar á árinu. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun sé verið að endurskoða starfsreglur um góða búskaparhætti hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Segir nefndin að hauggeymslur að Melum séu tvær. Önnur sé frá 1999 og taki rúmlega 600 m³ og hin sem sé byggð 2010 taki yfir 900 m³. Sú síðarnefnda sé þó ekki enn yfirbyggð.

Umhverfisstofnun segir ákvæði 2.7 í starfsleyfi vera í samræmi við 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 þar sem kveðið sé á um að hauggeymslur skuli geta geymt a.m.k. 6 mánaða uppsöfnun. Tengist þessi krafa ákvæði í 7. gr. sömu reglugerðar þar sem segi að dreifing mykju skuli að jafnaði fara fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember. Í umræddu starfsleyfi sé sá tími þrengdur miðað við almennar reglur, en lengsti samfelldi tími sem bannað sé að dreifa mykju lengist ekki, heldur sé mykjudreifing samkvæmt starfsleyfi einnig bönnuð á miðju sumri. Því megi segja að þessi þrenging í starfsleyfinu kalli ekki sérstaklega á auknar kröfur um rými í hauggeymslu. Umhverfisstofnun bendir þó á að veðurfarslegar aðstæður á hverjum stað geti orðið til þess að eðlilegt sé að auka kröfur um geymslugetu, þ.e. ef frost sé jafnan lengi í jörð fram eftir vori, eða að það frystir sérstaklega snemma að hausti.

Starfsleyfishafi telur með vísan til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að engin efni standi til þess að breyta ákvæði 2.7 í starfsleyfinu. Það sé í samræmi við fyrra starfsleyfi og hafi önnur svínabú einnig sætt samskonar skilyrðum. Segir hann að safnþrær sem séu nú til staðar hafi ekki valdið kærendum ama og fráleitt sé að farið sé að gera frekari kröfur í starfsleyfi.


3. Ákvæði 2.1 og 2.2 í starfsleyfi, önnur hugsanleg umhverfisáhrif og besta fáanleg tækni.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttir er gerð athugasemd við að í ákvæði 2.2 í hinu kærða starfsleyfi sé ekki gert ráð fyrir að beitt sé bestu fáanlegu tækni til þess að draga úr lyktarmengun frá þauleldishúsum umrædds svínabús. Þá sé ekki tilgreint eða skýrt í ákvæði 2.1 í starfsleyfi hvaða hugsanlegu umhverfisáhrifa ákvæðið taki til, annarra en nýtingar orku og myndunar úrgangs. Ekki sé tekið á lyktarmengun sem berist frá þauleldishúsunum allan ársins hring og valdi nágrönnum óþægindum og verðrýrnun eigna.

Hvalfjarðarsveit telur að bestu fáanlegu tækni skuli skilgreina í umræddu starfsleyfi og miða þar við „Reference Document on Best Available Techniques for Intensive Rearing of Poultry and Pigs, july 2003“. Þar sem við eigi skuli einnig taka mið af „Starfsreglum um góða búskaparhætti“ sem Umhverfisstofnun gefi út. Telur kærandi að verði breytingar á bestu fáanlegu tækni skuli þær taka gildi og innleiddar skv. ákvæðum 1.1. í starfsleyfi. Hvalfjarðarsveit telur einnig að hreinsun á útblæstri eigi að vera einn af þáttum starfsleyfisins sökum kvartana vegna stöðugrar lyktar. Þá séu fordæmi fyrir því í starfsleyfisskilyrðum að sett séu viðmið um styrk lyktar miðað við samþykktar aðferðir starfsleyfisgjafa.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands segir að vegna kæru á liði 2.1 og 2.2 í starfsleyfi skuli tekið fram að kvartanir vegna lyktarmengunar frá umræddu búi hafi verið bundnar við lyktarmengun vegna dreifingar á mykju.

Umhverfisstofnun segir að ekki verði annað séð en að ákvæði 2.2 í starfsleyfi, þar sem gerð sé krafa um að fara að viðmiðum um BAT, eigi við alla rekstrarþætti, þ.m.t. til að eiga við lyktarmengun. Séu BAT viðmið um dreifingu mykju m.a. skilgreind með það í huga að bregðast við lyktarmengun. Telur stofnunin einnig að ákvæði 2.1 í starfsleyfinu taki skv. orðalagi til allra umhverfisáhrifa, þ.m.t. til lyktarmengunar. Telur stofnunin að í því sambandi hafi ekki þýðingu þótt tveir þættir séu sérstaklega teknir fyrir í ákvæðinu. Væri hins vegar vilji til að vísa sérstaklega til lyktarmengunar í starfsleyfinu hefði mátt vísa til 9. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði þar sem segi að forráðamenn fyrirtækja og stofnana skuli sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.

Umhverfisstofnun bendir einnig á að í c-lið ákvæðis 1.1 í starfsleyfi sé tekið fram að endurskoða skuli starfsleyfið verði breytingar á bestu fáanlegu tækni. Þá sé í ákvæði 2.2 skýrt tekið fram að miða beri við BAT viðmið í rekstrinum. Telur stofnunin ekki ástæðu til að skilgreina BAT frekar í texta starfsleyfisins. Bendir hún þó á að æskilegt geti verið að tilgreina með einhverjum hætti í starfsleyfi við hvaða BAT texta sé miðað.

Starfsleyfishafi telur ljóst af starfsleyfi að honum beri að beita bestu fáanlegu tækni til að draga úr hvers konar mengun. Þá sé besta fáanlega tækni skýrt skilgreind í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Starfsleyfishafi telur ákvæði 2.2 í starfsleyfi einnig fyllilega skýrt og verði að lesa það með hliðsjón af reglugerð nr. 785/1999 og lögum nr. 7/1998.


4. Uppsetning starfsleyfis og gildistími.

Hvalfjarðarsveit gerir athugasemd við að einstök ákvæði hins kærða starfsleyfis skuli vera í fylgiskjali með starfsleyfinu og telur eðlilegra að í stað fylgiskjals beri skjalið heitið „Starfsleyfisskilyrði fyrir Svínabú Stjörnugríss hf. að Melum, Hvalfjarðarsveit“. Vísar kærandi í því sambandi til starfsleyfisskilyrða fyrir svínabúið Brautarholti ehf. Þá telur kærandi gildistíma starfsleyfisins of langan og að um sé að ræða mikla breytingu frá fyrra starfsleyfi. Þegar horft sé til þess að áætluð endurskoðun á „Reference Document on Best Available Techniques for Intensive Rearing of Poultry and Pigs, july 2003“ sé á árinu 2012 sé ástæða til að stytta gildistíma starfsleyfisins.

Umhverfisstofnun telur uppsetningu starfsleyfisins engin áhrif hafa á gildi þess. Í megintexta þess sé skilmerkilega tekið fram að fara beri að öllum skilyrðum fylgiskjalsins. Þá telur Umhverfisstofnun gildistíma starfsleyfisins vera í samræmi við almennt verklag stofnunarinnar við veitingu starfsleyfa. Í einstökum tilfellum geti verið ástæða til að víkja frá gildistímanum en það sé háð mati leyfisveitanda. Eðli BAT viðmiða sé að þegar þau breytist þá beri starfsleyfishafa að gera breytingar til samræmis við það sé vísað til BAT í starfsleyfi. Í ákvæði 2.2 í starfsleyfinu sé vísað til BAT og því taki stofnunin ekki undir að fyrirhuguð endurskoðun BAT viðmiðana kalli á styttri gildistíma starfsleyfis. Í þessu samhengi megi einnig benda á c-lið í gr. 1.1 í stafsleyfinu þar sem tilgreint sé að endurskoða skuli starfsleyfið séu gerðar nýjar kröfur eða breyting verði gerð á bestu fáanlegu tækni. Mikilvægt sé þá að hafa í huga að þrátt fyrir að fyrirhuguð sé endurskoðun á BAT viðmiðum þá sé ekki ljóst hvort hún muni leiða til verulegra breytinga.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands segir að nefndin geti ekki fundið rök fyrir kæru Hvalfjarðarsveitar þar sem nefndin telji sig hafa komið í öllum aðalatriðum til móts við athugasemdir Hvalfjarðarsveitar við útgefið starfsleyfi.


5. Ákvæði 1.3 í starfsleyfi, fjöldi svína og ársframleiðsla.

Hvalfjarðarsveit telur að tryggja verði með skýrum hætti að ekki séu fleiri en 8.000 grísir samtímis í svínahúsum og að eðlilegt sé að miða við að heildarársframleiðsla fari ekki yfir 24.000 grísi. Einnig er gerð athugasemd við að ekki sé tekið á því hversu margar gyltur séu leyfðar á búinu.

Umhverfisstofnun bendir á að í gr. 1.3. í starfsleyfi sé tekið fram að í svínahúsum skuli ekki hýstir fleiri en 8.000 grísir samtímis. Gerir stofnunin þó athugasemd við framsetningu ákvæðisins og telur eðlilegra að í starfsleyfi sé tilgreint hversu margar stíur sé heimilt að reka, þ.e. stíur sem rúmi 8.000 grísi. Stofnunin bendir á að skv. reglugerð nr. 785/1999 sé gerður greinarmunur á alisvínum annars vegar og gyltum hins vegar. Í ljósi þess að ekki sé nefnt í starfsleyfi hversu margar gyltur sé heimilt að hafa á búinu verði að ætla að ekki sé meiningin að hafa þar neinar gyltur, enda heimili starfsleyfið það ekki eins og það sé sett fram.

Í athugasemdum Heilbrigðisnefndar Vesturlands vegna umsagnar Umhverfisstofnunar kemur fram að með hinu kærða starfsleyfi sé ekki veitt leyfi fyrir gyltum og segir að ekki sé vitað til þess að gyltur hafi verið hafðar í húsum að Melum.


6. Ákvæði 1.4 í starfsleyfi um kröfur ef starfsemi hættir.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að bæta þurfi í starfsleyfi ákvæðum ef umrædd starfsemi leggist niður. Taka þurfi á því hvernig ganga skuli frá rekstrarúrgangi, spilliefnum, dýrum og mannvirkjum.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að í gr. 1.4 í starfsleyfi virðist hafa verið tekið tillit til framangreindrar athugasemdar.


7. Ákvæði 2.9 í starfsleyfi um takmarkanir á dreifingu svínamykju.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar er lögð áhersla á að öll svínamykja sem verði til við starfsemina skuli nýtt sem áburður og að heimilt verði að dreifa svínamykju á eignar- og leigulönd rekstaraðila. Ef dreifa eigi svínamykju á önnur eignarlönd en tilheyri rekstraraðila skuli vera fyrir hendi skriflegur samningur þess efnis, m.a. um áætlað magn mykju, stærð lands og dreifingartíma. Þá skuli liggja fyrir skrifleg staðfesting móttöku til dreifingar. Ástæða sé til að ákvæði starfsleyfisins gildi jafnt um dreifingu á önnur eignarlönd og skuli það tekið fram í samningi. Vegna förgunar á svínamykju sem menguð sé af salmonellu skuli fylgt leiðbeiningum Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 2002 og leiðbeiningum Matvælastofnunar um meðhöndlun húsdýraáburðar sem sé mengaður af salmonellu. Skuli dreifingartími mykju vera frá 15. mars til 15. júní og frá 31. ágúst til 1. nóvember. Ekki skuli veita undanþágu frá þessum dreifingartíma og skuli hann gilda jafnt um búið sjálft og þá sem sæki þangað mykju til dreifingar á sín heimalönd.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttur segir að ekki sé tekið fram með skýrum hætti í ákvæði 2.9 í starfsleyfi að ákvæðið nái til allrar mykju frá viðkomandi búi og því sé mögulegt fyrir leyfishafa að afhenda þriðja aðila svínamykju til dreifingar með takmarkalausum hætti. Hafi einn viðtakenda svínamykju frá búinu upplýst um að hann hafi tekið við um 1000 tonnum af svínamykju á ári að jafnaði síðustu árin. Vísar kærandi í þessu sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar laga um hollustuhætti og mengunarvarnir í máli nr. 10/2008. Krefst kærandi þess að starfsleyfishafa verði óheimilt að afhenda svínamykju til dreifingar nema tryggt sé að viðtakendur lúti sömu skilyrðum og starfsleyfishafi. Að öðrum kosti þjóni starfsleyfið ekki því markmiði að vernda nágranna og umhverfi búsins.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands telur nefndina ekki hafa heimildir til að setja takmarkanir á það hvar búfjáráburður sé nýttur svo framarlega sem hann uppfylli ákvæði vegna sjúkdómahættu. Kveðst nefndin þá vilja taka fram að ákvæði vegna sérstakra tímatakmarkana á mykjudreifingu sem settar hafi verið í upphaflegt starfsleyfi frá 1999 fyrir umrætt svínabú hafi verið gert í samráði við rekstraraðila. Hafi tímamörk dreifingar verið þrengd verulega frá ákvæðum 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999.

Umhverfisstofnun segir að í hinu kærða starfsleyfi sé þrengt að heimildum starfsleyfishafa til að dreifa mykju miðað við almennt ákvæði í reglugerð. Ganga verði út frá því að það sé gert til að vernda hagsmuni nábúa starfseminnar. Kveðst stofnunin taka undir með kæranda að því leyti að ef öðrum aðilum en starfsleyfishafa sé heimilt að dreifa mykju frá búinu í nágrenni við það án þess að vera undir sömu reglur settir og leyfishafinn hvað varði tímabil dreifingar þá virðist einsýnt að ákvæði 2.9 í starfsleyfinu nái ekki tilgangi sínum. Telur stofnunin að réttast sé að leitast við að tryggja að dreifing á mykju frá búinu í námunda við það sé háð sömu reglum óháð því hvaða aðili framkvæmi hana. Er það mat stofnunarinnar að unnt sé að skilgreina kröfur í starfsleyfi sem varði ráðstöfun mykju og tímabil og staðsetningu dreifingar, þannig að komið sé til móts við sjónarmið kæranda.

Umhverfisstofnun bendir á að í ákvæði 2.6 í starfsleyfi komi fram að alla svínamykju frá búinu skuli nýta sem áburð og sé því ekki ástæða til að tilgreina sérstaklega að losun í sjó sé bönnuð. Umhverfisstofnun telur þá óraunhæft að ætla að aldrei geti komið upp aðstæður sem réttlæti veitingu undanþágu.

Starfsleyfishafi telur það ekki eiga sér stoð í lögum eða reglugerð að í starfsleyfi hans sé kveðið á um að honum sé óheimilt að afhenda svínamykju til dreifingar nema hann tryggi áður að viðtakendur hennar fari að sömu skilyrðum og í starfsleyfi. Telur hann þá að takmörkunin á undanþáguheimild hvað varðar dreifingu svínamykju sé ólögmæt, en skv. henni sé aðeins unnt að veita undanþágu með þeim skilyrðum að hún gildi aðeins til dreifingar á mykju á virkum dögum. Hafi sú takmörkun ekki stoð í lögum eða reglugerð og hafi ekki verið í fyrra starfsleyfi, auk þess sem önnur svínabú hafi ekki þurft að sæta sömu takmörkunum. Fari takmörkunin því í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Telur starfsleyfishafi að rannsókn hafi aldrei farið fram af hálfu stjórnvalda á því hvert markmið takmörkunarinnar væri og hvort slíku markmiði yrði náð með henni. Sé öll takmörkun á dreifingu mykju viðurhlutamikið inngrip í atvinnu starfsleyfishafa. Sé umrædd takmörkun úr hófi og takmarki rekstur starfsleyfishafa umfram keppinauta hans.


8. Þrif á húsum og bundið slitlag.

Hvalfjarðarsveit telur í kæru sinni að tryggja þurfi þrif á húsum með skýrum hætti í starfsleyfinu. Þá skuli bundið slitlag vera við dyr þar sem afhending dýra fari fram og eins á öllum aksturs- og vinnusvæðum við húsinu.

Umhverfisstofnun kveðst ekki telja sérstaka ástæðu til að slíkt ákvæði sem kærandi nefnir sé sett í leyfið umfram það sem fram komi í gr. 2.1 í starfsleyfinu, þar sem gerð sé m.a. krafa um snyrtileika og að mannvirkjum sé vel við haldið. Hvað varðar kröfu um lagningu bundins slitlags telur stofnunin að í ákvæði 2.14 í starfsleyfi sé tekið tillit til þessa að hluta. Telur stofnunin þetta atriði ekki heyra undir mengunarvarnir og kveðst því ekki taka frekari afstöðu til þess.


9. Tilkynning mengunaróhappa og sýkinga og aðgengi að grænu bókhaldi.

Hvalfjarðarsveit leggur á það áherslu að öll mengunaróhöpp og sýkingar séu tilkynntar á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar og að grænt bókhald rekstraraðila sé gert almenningi aðgengilegt.

Umhverfisstofnun bendir á 8. gr. reglugerðar nr. 851/2002 um grænt bókhald þar sem fram komi að ef veruleg frávik hafi orðið í rekstri viðkomandi bókhaldsaðila sem varði umhverfismál hans, svo sem aukin framleiðsla, breyting á samsetningu framleiðslu, bilun í tæknibúnaði, mengunaróhapp, vélarbilun, svo og ef breytt hafi verið um tæknibúnað, skuli gera grein fyrir því í bókhaldinu. Skv. reglugerðinni beri Umhverfisstofnun að birta grænt bókhald innan þriggja vikna eftir að heilbrigðisnefnd hafi lokið könnun á hvort það uppfylli kröfur reglugerðarinnar, þ.e.a.s. ef nefndin er útgefandi starfsleyfis, eins og sé í þessu tilfelli. Umhverfisstofnun bendir einnig á 10. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál, nr. 23/2006, og segir að það sé háð mati viðkomandi stjórnvalds hvaða upplýsingum það hafi frumkvæði að því að miðla. Umhverfisstofnun hafi ákveðið að birta eftirlitsskýrslur og eftirfylgni þeirra á heimasíðu sinni og þurfi heilbrigðisnefndir að meta fyrir sitt leyti hvaða upplýsingum þau hafi frumkvæði að því að miðla. Bendir stofnunin á að ávallt sé hægt að óska eftir aðgangi að gögnum úr eftirliti eða gögnum um óhöpp og sýkingar sem upp kunni að koma.


V. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.


1. Ákvæði 2.13 í starfsleyfi um niðurfellingu svínamykju.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttur er gerð sú krafa að frestur til að hefja niðurfellingu svínamykju í svörð verði 1. apríl 2012 í stað 1. maí 2013. Hvalfjarðarsveit gerir þá kröfu að niðurfellingarbúnaður til dreifingar á mykju sé notaður í starfsemi starfsleyfishafa.

Starfsleyfishafi telur það skilyrði starfsleyfisins að fella svínamykju í svörðinn vera án lagastoðar og að það brjóti í bága við ýmis ákvæði stjórnsýsluréttar, m.a. jafnræði. Segir hann reglugerðarheimild ráðherra í 5. gr. laga nr. 7/1998 fela í sér of víðtækt framsal á valdi til ráðherra og brot á stjórnarskránni.Telur hann þá litlar líkur vera á því að sú aðferð að fella svínamykju í svörðinn gefi góða raun við að draga úr lyktarmengun. Vísar hann einnig til þess að nýr búnaður hafi í för með sér mikinn kostnað.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands vísar til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og þess að búnaður til niðurfellingar mykju sé dýr.

Í 1. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998 segir: „Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits setur ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um: 1. starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, þar á meðal ákvæði um staðsetningu, viðmiðunarmörk, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar; krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því.“

„Besta fáanlega tækni“ er skilgreind í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem „framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.“


Í reglugerð nr. 785/1999 segir um almenn skilyrði starfsleyfis í 2. mgr. 12. gr. að í starfsleyfum skuli vera ákvæði sem tryggja að atvinnureksturinn sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint. Í 13. gr. reglugerðarinnar er fjallað um bestu fáanlegu tækni, gæðamarkmið og viðbótarráðstafanir og segir í 1. mgr. að í starfsleyfum skuli gera kröfu um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því og IV. viðauka. Í IV. viðauka eru taldir upp þeir þættir sem taka ber tillit til, almennt eða í sérstökum tilvikum, þegar tekin er ákvörðun um fullkomnustu tækni sem völ er á samkvæmt skilgreiningu í 2. mgr. 3. gr., með hliðsjón af líklegum kostnaði og ávinningi af tiltekinni ráðstöfun og meginreglunum um forvarnir og varnir. Sem dæmi um þætti sem þar eru tilgreindir eru tæknilegar framfarir og breytingar á vísindalegri þekkingu og skilningi, sbr. 5. tölul. viðaukans, eðli, áhrif og magn viðkomandi losunar, sbr. 6. tölul., og nauðsynlegur tími til að innleiða fullkomnustu tækni sem völ er á, sbr. 8. tölul.

Í ákvæði 2.13 í hinu kærða starfsleyfi segir:  „Stefnt skal að því að fella svínamykju ofan í svörðinn þar sem hægt er. Forðast skal úðamyndun við áburðardreifingu. Niðurfelling áburðar skal hefjast eigi síðar en 1. maí 2013.“


Ráðuneytið telur staðhæfingu starfsleyfishafa um að reglugerðarheimild ráðherra í 5. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 1. tölul., skorti lagastoð vera órökstudda. Ljóst er m.a. að í umræddu ákvæði kemur skýrt fram sú krafa að í reglugerð skuli krafist bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum sem slíkt hefur verið skilgreint. Það skilyrði á sér því skýra lagastoð.

Ráðuneytið tekur undir það með starfsleyfishafa að mikilvægt sé að gæta jafnræðis í ákvörðunum stjórnvalds. Hins vegar hefur komið fram í umsögn Umhverfisstofnunar og Heilbrigðisnefndar Vesturlands að krafan um að fella svínamykju í svörðinn feli í sér notkun á nýrri tækni. Ráðuneytið bendir á í þessu sambandi að ekki sé óeðlilegt að kröfur í starfsleyfum breytist í ljósi fenginnar reynslu og tækniþróunar, enda er einn af þeim þáttum, sem taka ber tillit til við ákvörðun um fullkomnustu tækni, tæknilegar framfarar og breytingar á vísindalegri þekkingu og skilningi, sbr. IV. viðauka við reglugerð nr. 785/1999. Komið hefur fram í umsögn Umhverfisstofnun að í BAT viðmiðum teljist hefðbundin mykjudreifing ekki uppfylla BAT viðmið. Ráðneytið telur ekki vera til staðar forsendur til að hnekkja því mati Umhverfisstofnunar, sem fer með eftirlit með framkvæmd laga nr. 7/1998, að ekki sé óeðlilegt að gera þá kröfu að svínamykja sé felld ofan í svörðinn. Eins og áður segir er hins vegar um að ræða nýja kröfu í starfsleyfinu og nýja og að mati heilbrigðisnefndar kostnaðarmikla tækni. Tekur ráðuneytið því undir það mat Heilbrigðisnefndar Vesturlands og Umhverfisstofnunar að rétt sé að veita starfsleyfishafa frest til að uppfylla umrædda kröfu, m.a. með vísan til IV. viðauka við reglugerð nr. 785/1999, þar sem segir að hafa eigi til hliðsjónar líklegan kostnað og ávinning af tiltekinni ráðstöfun. Einnig kemur fram í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar varðandi skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni að taka skuli mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Ráðuneytið fellst einnig á með leyfisveitanda að sá frestur sem tilgreindur er í starfsleyfi, þ.e. til 1. maí 2013, sé ekki fram úr hófi og vísar í því sambandi til þess að skv. 8. tölul. IV. viðauka umræddrar reglugerðar ber að taka tillit til nauðsynlegs tíma til að innleiða fullkomnustu tækni sem völ er á. Ráðuneytið vísar einnig til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga sem og til þess sem áður greinir, þ.e. að um er að ræða nýja og að mati leyfisveitanda kostnaðarsama tækni. Einnig er vísað til þess að ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til þess í BAT viðmiðunum hver sé besta fáanleg tækni í mykjudreifingu. Kröfu kæranda um styttingu á umræddum fresti er því hafnað.

Starfsleyfishafi hefur bent á það að í starfsleyfi Stjörnugríss hf. fyrir svínabú að Hýrumel í Borgarbyggð, sem gefið var út sama dag og hið kærða starfsleyfi, sé ekki gerð krafa um að fella svínamykju í svörðinn. Eins og fram hefur komið er það mat ráðuneytisins að um sé að ræða lögmætt skilyrði í hinu kærða starfsleyfi. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að ítreka, vegna starfsleyfis að Hýrumel, þær kröfur sem gerðar eru til leyfisveitanda í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999, sbr. einnig 1. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998. Þá hefur komið fram í umsögn Umhverfisstofnunar að hefðbundin mykjudreifing teljist ekki uppfylla BAT viðmið. Ráðuneytið bendir einnig á þær skyldur leyfisveitanda skv. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að samræma skilyrði í starfsleyfum og veitingu þeirra, sem og skyldu Umhverfisstofnunar til að hafa yfirumsjón með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt og að mengunarvarnir séu samræmdar og samþættar, sbr. 1. mgr. 5. gr. Í ljósi þessa telur ráðuneytið rétt að beina því til Umhverfisstofnunar að skoða frekar umrædda leyfisveitingu vegna yfirumsjónarhlutverks stofnunarinnar.


2. Ákvæði 2.7 í starfsleyfi um safnþrær fyrir svínamykju.

Í kæru Solveigar K. Jónsdóttur er gerð sú krafa að hauggeymslur séu að lágmarki tvær og rúmi 12 mánaða framleiðslu búsins af seyru. Hvalfjarðarsveit gerir þá kröfu að safnþrær fyrir mykju séu lokaðar og rúmi a.m.k. 8 mánaða birgðir.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands segir ákvæði 2.7 í starfsleyfi samræmast 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 og starfsreglum um góða búskaparhætti frá 2002. Bendir hún á að hauggeymslur starfsleyfishafa séu tvær og að frestur til að yfirbyggja þá nýrri sé til 1. maí 2013.
Starfsleyfishafi telur ákvæði 2.7 í starfsleyfi vera í samræmi við fyrra starfsleyfi sem og önnur sambærileg starfsleyfi svínabúa.

Reglugerð nr. 804/1999 fjallar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri. Í 6. gr. reglugerðarinnar er fjallað um söfnun, geymslu og notkun áburðar. Í 1. mgr. 6. gr. segir að taka skuli mið af starfsreglum um góða búskaparhætti við geymslu og dreifingu tilbúins áburðar. Í 2. mgr. 6. gr. segir að við gripahús, þ.m.t. svínabú, skuli vera vandaðar og þéttar hauggeymslur og þurfi stærð hauggeymslu að miða við að hægt sé að nýta hauginn sem áburð á skynsamlegan hátt þegar jörðin getur tekið við honum eða taka a.m.k. sex mánaða haug.

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 segir að í starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu skuli vera ákvæði um söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. Í 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er búfjárskarn skilgreint sem úrgangur, s.s. skítur, hland og mykja, frá búfjárhaldi.

Í ákvæði 2.7 í hinu kærða starfsleyfi segir: „Safnþrær fyrir svínamykju skulu rúma a.m.k. 6 mánaða birgðir.“ Í ákvæði 2.8 segir þá: „Safnþrær skulu yfirbyggðar, þéttar og þannig frá þeim gengið að ekki leki úr þeim út í umhverfið. Frestur til að byggja yfir þrærnar er veittur til 1. maí 2013.“

Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt framangreindu að ákvæði 2.7 í hinu kærða starfsleyfi samræmist lágmarkskröfum 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999, þar sem kveðið er á um að safnþrær fyrir svínamykju skuli rúma a.m.k. 6 mánaða birgðir. Samræmist ákvæðið einnig því að í starfsleyfi skuli vera ákvæði um söfnun og geymslu búfjárskarns, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram hefur komið í umsögn Umhverfisstofnunar þá felur þrenging í ákvæði 2.9 í starfsleyfinu á því tímabili sem almennt er heimilt að dreifa mykju ekki í sér lengingu á þeim lengsta samfellda tíma sem bannað er að dreifa mykju skv. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999, heldur er mykjudreifing bönnuð á miðju sumri. Að mati Umhverfisstofnunar kallar þessi þrenging því ekki sérstaklega á auknar kröfur um rými í hauggeymslu. Bendir stofnunin þó á að veðurfarslegar aðstæður á hverjum stað geti kallað á auknar kröfur um geymslugetu. Ráðuneytið telur þó ljóst að gögn málsins benda ekki til þess að taka beri tillit til veðurfarslegra ástæðna í þessu sambandi og er t.a.m. engar slíkar málsástæður að finna í framlögðum kærum. Það er því mat ráðuneytisins að ekkert í máli þessu leiði til þess að gera eigi frekari kröfur um rými í hauggeymslu en fram koma í ákvæði 2.7 í hinu kærða starfsleyfi. Ráðuneytið hafnar því kröfum kærenda um að safnþrær skuli rúma meira en 6 mánaða birgðir.

Í 2. málsl. ákvæðis 2.8 í starfsleyfinu er starfsleyfishafa veittur frestur til 1. maí 2013 til að uppfylla þá skyldu 1. málsl. ákvæðisins að hafa safnþrær yfirbyggðar og þéttar og þannig frágengnar að ekki leki úr þeim út í umhverfið. Ráðuneytið telur hins vegar að sú skylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, þ.e. að við gripahús, þ.m.t. svínabú, skuli vera vandaðar og þéttar hauggeymslur, sé ótvíræð og án undantekninga. Ljóst er að haughús sem ekki eru yfirbyggð uppfylla ekki kröfur um þéttleika, enda kemur fram í starfsleyfinu sú meginkrafa að safnþrær séu yfirbyggðar og þéttar. Í reglugerð nr. 804/1999 er þá ekki að finna ákvæði er heimilar undanþágu frá umræddri kröfu eða frest til að uppfylla hana. Við setningu reglugerðar nr. 804/1999 var kveðið á um aðlögun í ákvæði til bráðabirgða þar sem sagði að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. skyldi innan 10 ára frá gildistöku reglugerðarinnar koma upp hauggeymslum af réttri stærð á búum þar sem slíkar hauggeymslur væru ekki til við gildistöku reglugerðarinnar. Ákvæði þetta gilti til ársins 2010 og var því þá breytt með setningu nýs ákvæðis til bráðabirgða, sbr. reglugerð nr. 339/2010, þar sem kúabúum var veittur frekari frestur til að koma upp hauggeymslum af réttri stærð. Samkvæmt þessu er ljóst að frestur starfsleyfishafa til að uppfylla kröfur 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um hauggeymslur rann út á árinu 2010. Vegna þessa er það mat ráðuneytisins að fella beri út ákvæði 2. málsl. ákvæðis 2.8 í hinu kærða starfsleyfi, sem kveður á um frest starfsleyfishafa til 1. maí 2013 til að uppfylla kröfur 1. málsl. ákvæðisins, þannig að starfsleyfishafi beri því að uppfylla strax þá kröfu að safnþrær séu yfirbyggðar og þéttar og þannig frágengnar að ekki leki úr þeim út í umhverfið, sbr. ákvæði 2.8 í starfsleyfinu.


3. Ákvæði 2.1 og 2.2 í starfsleyfi, önnur hugsanleg umhverfisáhrif og besta fáanleg tækni.

Kærandi, Solveig K. Jónsdóttur, telur að ákvæði 2.2 í hinu kærða starfsleyfi taki ekki til þess að beitt skuli bestu fáanlegu tækni til þess að draga úr lyktarmengun frá þauleldishúsum starfsleyfishafa. Þá sé ekki tilgreint eða skýrt í ákvæði 2.1 hvaða hugsanlegu umhverfisáhrifa ákvæðið taki til. Hvalfjarðarsveit telur að bestu fáanlegu tækni skuli skilgreina í starfsleyfi og miða við „Reference Document on Best Available Techniques for Intensive Rearing of Poultry and Pigs, july 2003“. Þar sem við eigi skuli einnig taka mið af starfsreglum Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti. Hvalfjarðarsveit telur einnig að hreinsun á útblæstri eigi að vera einn af þáttum starfsleyfisins og að fordæmi séu fyrir því að sett séu viðmið um styrk lyktar í starfsleyfi.

Í III. kafla reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði er fjallað um varnir gegn loftmengun. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir að halda skuli loftmengun í lágmarki og viðhalda skuli þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti. Í 2. mgr. 5. gr. segir að í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Í 9. gr. reglugerðarinnar segir að forráðamenn fyrirtækja og stofnana skuli sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.

Eins og áður segir þá kemur fram í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að í starfsleyfum skuli vera ákvæði sem tryggja að atvinnureksturinn sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar að í starfsleyfum skuli gera kröfu um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því og IV. viðauka. Einnig er gerð krafa um bestu fáanlegu tækni í starfsleyfi í c-lið 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um samþættar mengunarvarnir. Ef sett eru strangari gæðamarkmið fyrir umhverfið en hægt er að uppfylla með bestu fáanlegu tækni skal krefjast viðbótarráðstafana í starfsleyfi. Segir þá í 2. mgr. 13. gr. að Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) og heilbrigðisnefndum beri að fylgjast með og hafa tiltækar upplýsingar um bestu fáanlegu tækni. Í 1. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar segir að útgefanda starfsleyfis sé skylt að endurskoða það m.a. ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gera það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar.

Í ákvæði 1.1 í hinu kærða starfsleyfi segir að starfsleyfið skuli endurskoða á 4 ára fresti að jafnaði og einnig skuli endurskoða starfsleyfið m.a. ef: ?c. gerðar eru nýjar kröfur eða breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gildir um reksturinn.? Í ákvæði 2.1 í starfsleyfinu segir: „Beita skal aðgerðum til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum vegna starfseminnar. Yfirbragð svínabúsins skal vera snyrtilegt, mannvirkjum vel við haldið og ekkert geymt á lóð þess óviðkomandi rekstrinum. Rekstraraðila er skylt að gæta að eftirfarandi, sbr. ákvæði greinar 12.3 í reglugerð nr. 785/1999: a) að orka sé vel nýtt, b) að dregið verði með skipulegum hætti úr myndun úrgangs og úrgangi komið til endurnýtingar eða skipulagðrar förgunar.“ Þá segir í ákvæði 2.2: „Ávallt skal beita bestu fáanlegu tækni (BAT) við reksturinn eftir því sem hún verður tiltæk, með eðlilegum aðlögunartíma fyrir fyrirtækið. Starfsreglur um góða búskaparhætti sem Umhverfisstofnun gefur út skulu hafðar til viðmiðunar.“

Markmið reglugerðar nr. 785/1999 er að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. 1. mgr. 1. gr. Eins og fram hefur komið þá ber samkvæmt reglugerðinni að krefjast bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint. Í hinu kærða starfsleyfi er gerð sú almenna krafa að ávallt skuli beita bestu fáanlegu tækni við reksturinn eftir því sem hún verður tiltæk, með eðlilegum aðlögunartíma fyrir fyrirtækið, sbr. ákvæði 2.2 í starfsleyfinu. Er í því sambandi vísað til BAT viðmiðunarreglna eða „Best Available Technique“. Þar er einnig vísað til starfsreglna Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti, en í þeim er m.a. sérstakur kafli þar sem fjallað er um lyktarmengun og aðgerðir til að draga úr slíkri mengun. Þá er einnig gert ráð fyrir að starfsleyfið sé endurskoðað ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gildir um reksturinn, sem samræmist áðurgreindu ákvæði 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Ráðuneytið tekur undir það með Umhverfisstofnun að ákvæði 2.2 í hinu kærða starfsleyfi taki til allra mengunarvarna, þ.m.t. til lyktarmengunar, í ljósi þeirra skyldna sem hvíla á starfsleyfishafa samkvæmt reglugerðum 785/1999 og 787/1999. Hið sama á við um ákvæði 2.1 í starfsleyfinu, þar sem telja verður að sú almenna skylda að beita aðgerðum til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum vegna starfseminnar taki einnig til aðgerða vegna lyktarmengunar. Ráðuneytið telur þó að líta beri einnig til þess að skv. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999 skal í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að hamla gegn loftmengun og beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Ljóst er að krafa í ákvæði 2.13 í starfsleyfi um að fella svínamykju í svörðinn og takmarkanir á dreifingartíma svínamykju í ákvæði 2.9 fela í sér aðgerðir til að draga úr lyktarmengun. Ráðuneytið telur hins vegar rétt, sérstaklega í ljósi 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999, að kveða nánar á um þær kröfur sem vísað er til í ákvæði 2.1 í starfsleyfinu hvað varðar aðgerðir til að draga úr lyktarmengun og þá þær mögulegu aðferðir sem unnt er að grípa til í því skyni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ráðuneytið bendir á að öðru leyti að Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndum ber að fylgjast með og hafa tiltækar upplýsingar um bestu fáanlegu tækni, sem ættu því að vera aðgengilegar starfsleyfishafa. Það er mat ráðuneytisins með vísan til ofangreinds að hið kærða starfsleyfi uppfylli skilyrði 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 785/1999 hvað varðar tilgreiningu á bestu fáanlegu tækni. Eins og áður segir þá kemur fram í ákvæði 2.2 í starfsleyfinu að hafa skuli til viðmiðunar starfsreglur Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti, sem samræmist framangreindum kröfum í kæru Hvalfjarðarsveitar hvað varðar tilvísun í starfsreglur Umhverfisstofnunar

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að fordæmi séu fyrir því að í starfsleyfisskilyrðum séu sett viðmið um styrk lyktar miðað við samþykktar aðferðir starfsleyfishafa og telur kærandi einnig að hreinsun á útblæstri eigi að vera einn af þáttum hins kærða starfsleyfis. Ráðuneytið vísar í þessu sambandi til þess sem fram hefur komið um að skylda til að beita bestu fáanlegu tækni í ákvæði 2.2 í hinu kærða starfsleyfi taki einnig til lyktarmengunar sem og ákvæði 2.1. um að beita skuli aðgerðum til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum vegna starfseminnar. Ráðuneytið telur því ekki vera fyrir hendi ástæðu til að setja sérstök viðmið í starfsleyfi um styrk lyktar eða hreinsun á útblæstri. Vísar ráðuneytið í þessu sambandi til úrskurðar ráðuneytisins í máli UMH0806022, dags. 8. júní 2009, er varðaði kæru á starfsleyfi hreinsivirkis og svínabús að Brautarholti, Kjalarnesi. Í því máli var talið eðlilegt að gera ríkari kröfur um mengunarvarnir til viðkomandi svínabús en annarra svínabúa í ljósi þess að rekstraraðilinn starfaði á undanþágu frá þeirri reglu að svínahús skyldu vera í 500 metra fjarlægðar frá íbúðarhúsi. Það er mat ráðuneytisins að ekkert í máli þessu gefi tilefni til að gera ríkari kröfur um mengunarvarnir til þess svínabús sem hér um ræðir en almennt eru gerðar til starfandi svínabúa, að öðru leyti en greinir í 7. hluta kafla þessa.

Í ljósi alls sem að framan greinir hafnar ráðuneytið framangreindum kröfum kærenda um breytingar á ákvæði 2.2 í hinu kærða starfsleyfi sem og kröfum um að sett verði sérstök viðmið í starfsleyfi um styrk lyktar eða hreinsun á útblæstri. Ráðuneytið telur þó rétt í ljósi 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999 að tilgreina nánar í ákvæði 2.1 í starfsleyfinu skyldur starfsleyfishafa hvað varðar aðgerðir til að draga úr lyktarmengun vegna starfseminnar, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.


4. Uppsetning starfsleyfis og gildistími.

Hvalfjarðarsveit telur að ákvæði hins kærða starfsleyfis eigi ekki vera sem fylgiskjal með starfsleyfi og telur ennfremur að gildistími leyfisins sé of langur þegar horft sé til þess að áætluð endurskoðun á „Reference Document on Best Available Techniques for Intensive Rearing of Poultry and Pigs, july 2003“ sé á árinu 2012.

Hið kærða leyfi er gefið út samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, eins og fram kemur í leyfisbréfi. Í 15. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er starfsleyfi skilgreint sem ákvörðun í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins. Um almenn skilyrði starfsleyfis er fjallað í IV. kafla reglugerðarinnar. Skv. 1. mgr. 12. gr. skal starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og skal endurskoða starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti, sbr. 20. gr. Að öðru leyti er tilgreint í 12. gr. hvað starfsleyfisskilyrðin eiga að fela í sér. Sú skylda hvílir þá á útgefanda starfsleyfis að endurskoða leyfið ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út eða ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gera það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar. Einnig ber að endurskoða leyfið ef öryggi við rekstur eða vinnslu krefst þess að önnur tækni sé notuð en upphaflega var miðað við, ef breytingar verða á atvinnurekstri eða ef nýjar reglur um mengunarvarnir taka gildi. Skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar ber rekstraraðila að veita útgefanda starfsleyfis upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á atvinnurekstri með góðum fyrirvara og metur leyfisveitandinn í kjölfarið hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi, sbr. 2. mgr. 18. gr.

Umrætt starfsleyfi ber yfirheitið „Starfsleyfi“ og segir þar: „Fyrirtækið skal hlíta ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og öðrum reglugerðum sem gildi um starfsemina á hverjum tíma, svo og skilyrðum á fylgiskjali með leyfi þessu.“ Síðastnefnda atriðið er undirstrikað sérstaklega. Ráðuneytið telur ljóst skv. framangreindu að í reglugerð nr. 785/1999 eru ekki gerðar sérstakar formkröfur um það hvernig starfsleyfisskilyrði skuli sett fram í starfsleyfi, en leyfið skal þó vera skriflegt. Í hinu kærða starfsleyfi kemur með skýrum hætti fram að leyfishafi skuli hlíta þeim skilyrðum sem fram koma í fylgiskjali með leyfinu. Í ljósi þessa er það mat ráðuneytisins að framsetning leyfisveitanda á starfsleyfisskilyrðum í starfsleyfi fullnægi ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999 og þar með lögum nr. 7/1998.

Gildistími hins kærða starfsleyfis er 12 ár, sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um að leyfi skuli vera tímabundið. Í ákvæði 1.1 í skilyrðum leyfisins segir að leyfið skuli endurskoða að jafnaði á fjögurra ára fresti og einnig a) ef breytingar verða á eignarhaldi eða rekstri, b) ef fram koma skaðleg áhrif starfseminnar á umhverfið, meiri mengun af völdum atvinnurekstrarins en búast mátti við eða hætta sem ekki var áður ljós, eða c) ef gerðar eru nýjar kröfur eða breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gildir um reksturinn. Samkvæmt framangreindu telur ráðuneytið ljóst að leyfisveitanda ber að meta það hvort gefa þurfi út nýtt starfsleyfi ef tilefni er til endurskoðunar þess, m.a. ef gerðar eru nýjar kröfur eða breytingar verða á bestu fáanlegu tækni, og því sé ekki þörf á að hafa gildistíma umrædds leyfis styttri. Ráðuneytið telur þá að ekkert í máli þessu gefi sérstakt tilefni til að stytta gildistímann umfram venju, en í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins kemur fram að gildistíminn sé í samræmi við almennt verklag stofnunarinnar. Er það því mat ráðuneytisins að gildistími hins kærða starfsleyfis sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999 og lög nr. 7/1998.

Í samræmi við það sem að framan greinir hafnar ráðuneytið framangreindum kröfum kæranda um breytingu á formi hins kærða starfsleyfis eða gildistíma.


5. Ákvæði 1.3 í starfsleyfi, fjöldi svína og ársframleiðsla.

Hvalfjarðarsveit telur að í hinu kærða starfsleyfi þurfi að tryggja með skýrum hætti að ekki séu fleiri en 8.000 grísir samtímis í svínahúsum og að eðlilegt sé að miða við að heildarársframleiðsla fari ekki yfir 24.000 grísi. Einnig er gerð athugasemd við að ekki sé tekið á því hversu margar gyltur séu leyfðar á búinu.

Umhverfisstofnun gerir athugasemd við framsetninguna í ákvæði 1.3 í hinu kærða starfsleyfi. Telur stofnunin að eðlilegra sé að í leyfinu sé tilgreint hversu margar stíur sé heimilt að reka. Þá bendir stofnunin á að í starfsleyfinu sé ekki gert ráð fyrir gyltum.

Samkvæmt I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999 veita heilbrigðisnefndir starfsleyfi fyrir atvinnurekstur skv. 6. tölul. 6. liðar, þ.á m. stöðvar þar sem þauleldi eða svína fer fram með fleiri en: b) 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða c) 750 stæði fyrir gyltur. Í 14. gr. reglugerðarinnar er fjallað um samþættar mengunarvarnir o.fl. Segir þar m.a. í 2. mgr. 14. gr. að starfsleyfi skuli innihalda skv. a-lið lýsingu á þeirri starfsemi sem heimiluð er, stærð hennar og staðsetningu.

Í hinu kærða starfsleyfi segir að um sé að ræða starfsleyfi til að starfrækja þauleldi á fráfærugrísum allt að 8.000 stæðum. Í gr. 1.3 í fylgiskjali segir að leyfið gildi fyrir þauleldi á fráfærugrísum (≥30 kg), þar til þeir nái sláturstærð, í svínahúsum, þar sem ekki skuli hýstir fleiri en 8.000 grísir samtímis.

Ráðuneytið telur ljóst að b-liður 6. tölul. 6. liðar I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999 eigi við um hið kærða starfsleyfi, þ.e. starfsleyfi fyrir atvinnurekstur stöðvar þar sem þauleldi svína með fleiri en 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) fer fram. Í starfsleyfinu segir að um sé að ræða leyfi fyrir allt að 8.000 stæðum og er það því mat ráðuneytisins að tilvísun starfsleyfisins uppfylli umræddan I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999. Í ljósi þess að í viðaukanum er ekki sérstaklega miðað við ársframleiðslu á svínum telur ráðuneytið ekki tilefni til að gera kröfu um að starfsleyfinu verði breytt í þá veru. Telur ráðuneytið þá umrætt atriði starfsleyfisins einnig uppfylla kröfu a-liðar 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um tilgreiningu á lýsingu á starfseminni og stærð hennar. Þá telur ráðuneytið athugasemd Hvalfjarðarsveit um að ekki sé tekið á því hversu margar gyltur séu leyfðar á búinu ekki eiga við í ljósi þess sem fram hefur komið hjá leyfisveitanda um að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir gyltur. Í ljósi alls þessa er framangreindum kröfum kæranda um breytingu á hinu kærða starfsleyfi hvað varðar lýsingu á umræddri starfsemi og umfangi hennar hér með hafnað.


6. Ákvæði 1.3 í starfsleyfi um kröfur ef starfsemi hættir.

Hvalfjarðarsveit telur að gera þurfi frekari kröfur í starfsleyfi varðandi þá stöðu ef starfsemin leggst niður, þannig að tekið sé á því hvernig ganga skuli frá rekstrarúrgangi, spilliefnum, dýrum og mannvirkjum.

Í 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 er fjallað um almenn skilyrði starfsleyfis. Í 4. mgr. 12. gr. segir að gera skuli nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar rekstur er stöðvaður og til að koma rekstrarsvæði í viðunandi horf, að mati útgefanda starfsleyfis, þegar atvinnurekstur er endanlega stöðvaður eða starfsemi lögð niður.

Í ákvæði 1.4 í fylgiskjali með hinu kærða starfsleyfi segir: „Leggist starfsemin niður skal fjarlægja öll dýr úr húsunum og rekstrarúrgang ásamt spilliefnum. Úrgangi skal skilað til viðeigandi móttökustöðva sem hafa til þess starfsleyfi. Einnig skal ganga frá mannvirkjum þannig að hætta stafi ekki af þeim.“

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að í ákvæði 1.4 í starfsleyfi virðist hafa verið tekið tillit til framangreindrar athugasemdar kæranda. Ráðuneytið tekur undir þetta og telur að umrædd skilyrði komi í reynd fram í umræddu ákvæði starfsleyfisins. Bendir ráðuneytið jafnframt á að sú skylda hvílir ætíð á leyfishafa skv. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar starfsemi hættir og koma svæðinu í viðunandi horf að mati leyfisveitanda. Sú skylda hvílir þá jafnframt á leyfisveitanda að gefa leyfishafa fyrirmæli um viðeigandi frágang á starfseminni ef hún er stöðvuð eða lögð niður. Í ljósi alls þessa hafnar ráðuneytið því að tilgreina skuli frekari kröfur í umræddu starfsleyfi hvað þetta varðar en fram koma í ákvæði 1.4 í starfsleyfinu.


7. Ákvæði 2.9 í starfsleyfi um takmarkanir á dreifingu svínamykju o.fl.

Hvalfjarðarsveit gerir kröfu um að öll svínamykja frá umræddri starfsemi verði nýtt sem áburður og að heimilt sé að dreifa svínamykju á eignar- og leigulönd rekstaraðila. Gerð er krafa um að gera þurfi skriflegan samning ef heimilt verði að dreifa svínamykju á önnur eignarlönd en rekstraraðila og að ákvæði starfsleyfisins um dreifingu gildi einnig um dreifingu á önnur eignarlönd en starfsleyfishafa. Telur kærandi að vegna förgunar á svínamykju sem menguð sé af salmonellu skuli fylgt leiðbeiningum Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 2002 og leiðbeiningum Matvælastofnunar um meðhöndlun húsdýraáburðar sem sé mengaður af salmonellu. Þá skuli dreifingartími mykju vera frá 15. mars til 15. júní og frá 31. ágúst til 1. nóvember og ekki skuli veita undanþágu frá þessum dreifingartíma. Taka skuli þá fram að dreifing mykju í sjó sé bönnuð.

Kærandi, Solveig K. Jónsdóttir, telur að starfsleyfið opni fyrir að starfsleyfishafi geti afhent þriðja aðila svínamykju til dreifingar með takmarkalausum hætti. Krefst hún þess að starfsleyfishafa verði óheimilt að afhenda þriðja aðila svínamykju til dreifingar nema hann lúti sömu skilyrðum og starfsleyfishafi.

Starfsleyfishafi telur kröfur kærenda hvað varðar afhendingu á mykju til þriðja aðila ekki eiga sér stoð í lögum eða reglugerð. Telur hann ennfremur að takmörkun í starfsleyfi á undanþáguheimild hvað varðar dreifingu svínamykju sé ólögmæt og vísar einnig til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Segir hann takmörkunina úr hófi og að hún takmarki reksturinn umfram keppinauta hans.

Reglugerð nr. 804/1999 fjallar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri. Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni og um athafnir einstaklinga eins og við getur átt. Meginreglur reglugerðarinnar koma fram í III. kafla hennar og er m.a. fjallað um söfnun, geymslu og notkun áburðar í 6. gr. Í 1. og 4. mgr. 6. gr. kemur fram að taka skuli mið af starfsreglum um góða búskaparhætti við geymslu og dreifingu tilbúins áburðar sem og varðandi notkun hans. Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að taka skuli tillit til nálægrar starfsemi, íbúðarhúsa og orlofshverfa við dreifingu búfjáráburðar, m.a. með því að virða hæfileg fjarlægðarmörk og miða við hagstæðar vindáttir við dreifingu.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 er fjallað um starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að í slíku starfsleyfi skuli vera ákvæði um söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. Við það skal miðað að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð. Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að í umsókn um starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu skuli fyrirtæki gera grein fyrir söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar. Einnig ráðstafanir fyrirtækisins til vatnsverndar og til að draga úr óþægindum m.a. vegna lyktarvandamála vegna geymslu búfjárskarns og dreifingar búfjáráburðar. Þá skulu áætlanir fyrirtækisins taka mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar skal fyrirtækið gera grein fyrir því landrými sem til ráðstöfunar er til dreifingar búfjáráburðar og hvernig sé tryggður annar farvegur til förgunar ef landrými er ekki nægjanlegt fyrir áburðardreifingu þar sem tekið sé mið af starfsreglum um góða búskaparhætti hvað varðar áburðarmagn. Þá segir í 4. mgr. 7. gr. að með umsókn um starfsleyfi skuli einnig skila inn upplýsingum þar sem gerð er grein fyrir magni köfnunarefnis í hverju tonni mykju, gróðurfari á mismunandi dreifingarlandi og upplýsingum um fyrirhugað magn áburðar sem dreifa á hvert svæði og annað sem máli kann að skipta í ákvörðun um magn til dreifingar.

Reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, tekur einnig til svínamykju þar sem landbúnaðarúrgangur er skilgreindur í 3. gr. sem  „Úrgangur frá landbúnaði, til dæmis húsdýraskítur, gamalt hey, heyrúlluplast og dýrahræ.“ Í II. kafla reglugerðarinnar er fjallað um meðhöndlun úrgangs og í 2. mgr. 11. gr. segir að allur úrgangur skuli færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir því sem nánar sé kveðið á um í reglugerðinni, öðrum reglugerðum um úrgang eða samþykktum sveitarfélaga. Í 13. gr. segir að hreinsunarúrgang sem falli til við hreinsun, s.s. salernisúrgang, síu- eða ristarúrgang og seyru sem ekki verður nýtt, skuli flytja til móttökustöðvar. Þetta gildi einnig um úrgang frá landbúnaði nema reglugerð kveði á um annað. Taka skuli mið af ákvæðum reglugerðar um seyru þegar seyra sé nýtt til uppgræðslu, í landbúnaði eða til annarra nota. Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar skal meðferð á sýktu heyi, dýrahræjum, smitandi sláturúrgangi og öðrum smitandi úrgangi en fjallað er um í 14. gr. vera á viðunandi hátt og þess gætt að hann blandist ekki við annan úrgang og valdi ekki smiti. Um meðferð á þessum úrgangi skal hafa samráð við heilbrigðisnefnd og viðkomandi héraðsdýralækni eftir því sem við á. Að öðru leyti er vísað til reglugerðar um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi.

Í gr. 2.6 í hinu kærða starfsleyfi segir: „Alla svínamykju sem verður til við starfsemina skal nýta sem áburð. Vegna förgunar á svínamykju sem menguð er salmonella skal fylgt leiðbeiningum Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 2002 og reglum Matvælastofnunar.“ Þá segir í gr. 2.9: „Dreifing á mykju skal fara fram á tímabilinu 15. mars - 1. júní og 1. september - 1. nóvember ár hvert. Tekið skal mið af vindátt við dreifinguna þannig að hún valdi nágrönnum sem minnstum óþægindum. Aldrei skal dreifa áburði á frosna jörð eða gegnblauta. Heilbrigðisnefnd Vesturlands er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef nauðsyn ber til, þó aldrei lengur en viku í senn og aðeins ef aðstæður eru heppilegar til dreifingar. Undanþáguheimildir gilda aðeins til dreifingar mykju á virkum dögum (mánudaga kl. 7 - föstudags kl. 14.00).“


Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt framangreindu að ríkar skyldur hvíla á aðilum með starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu hvað varðar meðhöndlun á húsdýraskít sem kemur frá starfseminni. Eins og fram hefur komið, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999, ber umsækjanda um leyfi fyrir búfjárframleiðslu að gera grein fyrir söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar; honum ber að gera grein fyrir því landrými sem til ráðstöfunar er til dreifingar búfjáráburðar og hvernig sé tryggður annar farvegur til förgunar ef landrými er ekki nægjanlegt fyrir áburðardreifingu og einnig að skila inn upplýsingum um fyrirhugað magn áburðar sem dreifa á hvert svæði og annað sem máli kann að skipta í ákvörðun um magn til dreifingar. Það er mat ráðuneytisins að í ljósi umræddra ákvæða beri starfsleyfishafi ábyrgð á meðhöndlun og förgun þeirrar svínamykju sem frá starfsemi hans kemur og beri að gera grein fyrir því hvernig henni er hagað. Ljóst er að honum ber að gera grein fyrir því landrými sem notað er til dreifingar búfjáráburðar frá starfsemi hans, hvort sem um er að ræða land sem hann hefur til umráða eða einhver annar aðili, og ber hann ábyrgð á þeirri dreifingu áburðar sem á sér stað, sem verður þ.a.l. að fara fram á grundvelli skilyrða í starfsleyfi hans. Í ljósi þessarar ábyrgðar starfsleyfishafa telur ráðuneytið rétt að í starfsleyfinu komi fram krafa um gerð skriflegs samnings ef dreifa á svínamykju á önnur lönd en starfsleyfishafi hefur umráð yfir, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ráðuneytið ítrekar einnig þær skyldur sem hvíla á leyfisveitanda að sjá til þess að umsækjandi um starfsleyfi veiti þær upplýsingar sem fram koma í framangreindu ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999.

Ráðuneytið bendir á að krafa Hvalfjarðarsveitar um að öll svínamykja sem verði til við starfsemi starfsleyfishafa verði nýtt sem áburður kemur fram í áðurgreindri gr. 2.6 í hinu kærða starfsleyfi. Slíkt ákvæði ber að setja fram með hliðsjón af 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 og fyrirliggjandi upplýsingum starfsleyfishafa um það landrými sem hann hefur til ráðstöfunar til áburðardreifingar. Einnig kemur fram í gr. 2.6 að vegna förgunar á svínamykju sem menguð sé salmonellu skuli fylgt leiðbeiningum Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 2002 og reglum Matvælastofnunar. Samræmist það ákvæði kröfum kæranda sem og áðurnefndri 15. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðferð á smitandi úrgangi.

Hvalfjarðarsveit gerir þá kröfu að dreifingartími mykju sé 15. mars til 15. júní og 31. ágúst til 1. nóvember og krefst kærandi þess einnig að ekki verði veittar undanþágur frá dreifingartímanum. Samkvæmt þessu fer kærandi fram á að umrætt dreifingartímabil sé í reynd rýmkað um 16 daga, þ.e. frá 1. júní til 15. júní og einnig 31. ágúst. Telur ráðuneytið óljóst á hverju kærandi byggir þá kröfu, sérstaklega í ljósi þess að kærandi fer einnig fram á að ekki verði kveðið á undanþáguheimildir frá dreifingartímanum. Ráðuneytið bendir á að það dreifingartímabil sem fram kemur í gr. 2.6 í hinu kærða starfsleyfi er þrengra en almennt er kveðið á um í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 og er starfsleyfishafa því almennt óheimilt að dreifa svínaskít mánuðina júní, júlí og ágúst. Vegna þessa tekur ráðuneytið undir það mat Umhverfisstofnunar að réttlætanlegt geti verið að veita í einhverjum tilvikum undanþágu frá umræddu starfsleyfisskilyrði, en í umsögn stofnunarinnar segir að óraunhæft sé að ætla að aldrei geti komið upp aðstæður sem réttlæti veitingu undanþágu frá dreifingartíma á mykju.

Af hálfu starfsleyfishafa eru ekki gerðar athugasemdir við tilgreint dreifingartímabil á mykju í starfsleyfi heldur telur hann þrengingu á reglum um undanþáguveitingar heilbrigðisnefndarinnar vera ólögmætar. Ráðuneytið bendir á í því sambandi að ákvæði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um dreifingartímabil felur eingöngu í sér almenna viðmiðunarreglu og getur leyfisveitandi metið það hverju sinni við útgáfu starfsleyfis hvort aðstæður kalli á þrengingu á tímabilinu í tilteknu starfsleyfi. Ráðuneytið telur að ekki séu efni til að hnekkja þessu mati heilbrigðisnefndarinnar og vísar m.a. til áðurnefnds dóms héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-124/2011 þar sem talið var að lyktarmengun frá svínabúinu gagnvart nágrannajörðinni Melaleiti væri veruleg og mun meiri en almennt mætti gera ráð fyrir til sveita þar sem stundaður væri landbúnaður. Ráðuneytið bendir einnig á að ákvæði 2.9 í hinu kærða starfsleyfi um undanþáguheimild heilbrigðisnefndarinnar felur í sér möguleika á því að hið tilgreinda tímabil dreifingar á mykju sé í einhverjum tilvikum rýmt, þ.e. ef nauðsyn ber til og aðstæður eru heppilegar til dreifingar. Er það mat ráðuneytisins að sú takmörkun á undanþáguheimildinni að hún nái eingöngu til virkra daga feli ekki í sér viðurhlutamikla skerðingu á möguleikum starfsleyfishafa til dreifingar á mykju heldur feli í sér hagkvæma leið til að draga úr lyktarmengun með tilliti nágranna svínabúsins. Í því sambandi ber að líta til þeirrar meginreglu sem kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, þ.e. að halda skuli loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti. Ráðuneytið vísar einnig í þessu sambandi til 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 þar sem segir að taka skuli tillit til nálægrar starfsemi, íbúðarhúsa og orlofshverfa við dreifingu búfjáráburðar, m.a. með því að virða hæfileg fjarlægðarmörk og miða við hagstæðar vindáttir við dreifingu.

Í ljósi framangreinds hafnar ráðuneytið kröfu kæranda um breytingu á ákvæði 2.9 í hinu kærða starfsleyfi um dreifingartímabil á svínamykju og tilgreindri undanþáguheimild.

Hvað varðar kröfu Hvalfjarðarsveitar um að fram komi í starfsleyfi að dreifing mykju í sjó sé bönnuð þá tekur ráðuneytið undir það sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar um að ekki sé þörf á slíku banni í ljósi þess að hið kærða starfsleyfi heimilar eingöngu að svínamykjan sé nýtt sem áburður. Dreifing mykju í sjó sé því ekki heimil skv. starfsleyfinu.


8. Þrif á húsum og bundið slitlag.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að tryggja þurfi þrif á húsum með skýrum hætti í hinu kærða starfsleyfi. Þá skuli bundið slitlag vera við dyr þar sem afhending dýra fari fram og eins á öllum aksturs- og vinnusvæðum við húsin.

Ákvæði 2.1 í hinu kærða starfsleyfi hefur áður verið reifað en þar segir m.a. að yfirbragð svínabúsins skuli vera snyrtilegt, mannvirkjum vel við haldið og ekkert geymt á lóð þess óviðkomandi rekstrinum. Þá ber m.a. gæta að því að dregið verði með skipulegum hætti úr myndun úrgangs og úrgangi komið til endurnýtingar eða skipulagðrar förgunar. Í gr. 2.14 í hinu kærða starfsleyfi segir að bundið slitlagi með niðurfalli skuli vera við dyr þar sem afhending dýra fari fram.

Reglugerð nr. 785/1999 tilgreinir ekki sérstaklega þær kröfur sem kærandi telur að gera eigi í hinu kærða starfsleyfi, þ.e. að þrif á húsum sé tryggð með skýrum hætti í starfsleyfi. Ráðuneytið tekur því undir það með Umhverfisstofnun að ekki sé sérstök ástæða til að slíkt ákvæði sé sett í hið kærða starfsleyfi umfram það sem fram komi í gr. 2.1 í starfsleyfinu, þar sem segir m.a. að yfirbragð svínabúsins skuli vera snyrtilegt og mannvirkjum sé vel við haldið. Kröfum kæranda hvað þetta varðar er því hér með hafnað.

Eins og fram hefur komið þá er sú krafa gerð í gr. 2.14 í hinu kærða starfsleyfi að bundið slitlag með niðurfalli sé við dyr þar sem afhending dýra fer fram. Krafa kæranda um að bundið slitlag sé einnig á öllum aksturs- og vinnusvæðum er hins vegar órökstudd af hálfu kæranda auk þess ekkert kemur fram í reglugerð nr. 785/1999 um að heilbrigðisnefnd sé skylt að setja fram slíka kröfu í starfsleyfi. Er það því mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi rök til þess að setja slíkt skilyrði í hið kærða starfsleyfi og hafnar því framangreindri kröfu kæranda.


9. Tilkynning mengunaróhappa og sýkinga og aðgengi að grænu bókhaldi.

Hvalfjarðarsveit leggur á það áherslu að starfsleyfishafa beri að tilkynna öll mengunaróhöpp og sýkingar á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar og að grænt bókhald rekstraraðila sé gert almenningi aðgengilegt.

Í gr. 6.1 í hinu kærða starfsleyfi segir: „Skylt er að tilkynna öll mengunaróhöpp til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Þetta á líka við ef úrgangur er mengaður af salmonella eða sambærilegum örverum.“ Í gr. 6.2 í starfsleyfinu segir þá m.a.: „Almenningur á rétt á upplýsingum um niðurstöður mengunareftirlits vegna rekstursins hjá eftirlitsaðila.“ Þá segir í gr. 4.3 í starfsleyfinu að fyrirtækinu beri að halda grænt bókhald með vísan til reglugerðar nr. 851/2002.

Vegna framangreinds bendir ráðuneytið í fyrsta lagi á að leyfisveitandi og eftirlitsaðili í máli þessu er Heilbrigðisnefnd Vesturlands og því í samræmi við lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 að starfsleyfishafi tilkynni mengunaróhöpp og það ef úrgangur er mengaður af salmonellu eða sambærilegum örverum til heilbrigðisnefndarinnar. Það er ennfremur mat ráðuneytisins að ekki sé sérstök þörf á því að beina slíkum tilkynningum einnig til sveitarfélagsins, en ekki er mælt fyrir um slíkar tilkynningar í reglugerð nr. 785/1999. Er því kröfu kæranda um að kveðið verði á um slíka tilkynningu í starfsleyfi hér með hafnað.

Hvað varðar þá kröfu kæranda að grænt bókhald starfsleyfishafa verði gert almenningi aðgengilegt þá bendir ráðuneytið á að markmið reglugerðar nr. 851/2002 um grænt bókhald er m.a. að veita almenningi, félagasamtökum og stjórnvöldum upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í starfsemi sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. gr. Skv. 4. gr. reglugerðarinnar skal færa grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi samkvæmt 5. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og nánar greinir í fylgiskjali, þ.á m. stöðvar þar sem þauleldi svína fer fram með fleiri en 2.000 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg. eða 750 stæði fyrir gyltur. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar annast Umhverfisstofnun framkvæmd reglugerðarinnar og skal m.a. veita upplýsingar til almennings og hagsmunaaðila um grænt bókhald ef óskað er eftir. Fyrirtæki sem færa eiga grænt bókhald skulu árlega senda útgefanda starfsleyfis skýrslu um grænt bókhald, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún senda Umhverfisstofnun viðkomandi skýrslu um grænt bókhald að lokinni könnun á kröfum sbr. 6.-8. gr. Heilbrigðisnefnd skal senda Umhverfisstofnun skýrslu um grænt bókhald til birtingar og skal Umhverfisstofnun skv. 12. gr. birta skýrsluna. Það er mat ráðuneytisins að í ljósi þess að reglugerð nr. 851/2002 tekur sérstaklega á aðgengi almennings að grænu bókhaldi og birtingu skýrslu um grænt bókhald sé ekki sérstök þörf á því að á þessu atriði sé tekið í hinu kærða starfsleyfi, enda ekki gerð sérstök krafa um slíkt í reglugerð nr. 785/1999. Kröfu kæranda um að kveðið sé nánar í starfsleyfi um aðgengi almennings að grænu bókhaldi starfsleyfishafa er því hafnað.



Úrskurðarorð:

Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 29. júní 2011 um útgáfu starfsleyfis til að starfrækja svínabú Stjörnugríss hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit er staðfest með eftirfarandi breytingum:

1. Eftirfarandi tveir málsliðir skulu koma í stað 1. málsliðar í ákvæði 2.1 í fylgiskjali með hinu kærða starfsleyfi:
„Beita skal aðgerðum til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum vegna starfsseminnar, svo sem vegna lyktarmengunar. Sem dæmi um aðferðir sem unnt er að beita til að draga úr lyktarmengun er að setja íbætiefni í flóra, auka þrif, breyta fóðri eða beita vökvun.“

2. Á eftir ákvæði 2.6 í fylgiskjali með hinu kærða starfsleyfi kemur nýtt ákvæði, svohljóðandi:
„Ef dreifa á svínamykju á önnur lönd en þau sem rekstraraðili hefur til umráða skal vera fyrir hendi skriflegur samningur þess efnis. Skal samningurinn m.a. innihalda ákvæði um leigutíma, stærð lands, dreifingartíma og staðfestingu á móttöku til dreifingar.“

3. Starfsleyfishafi skal strax uppfylla kröfu um safnþrær í 1. málsl. ákvæðis 2.8 í fylgiskjali með hinu kærða starfsleyfi og skal því 2 málsl. í ákvæði 2.8, sem er svohljóðandi, falla brott:
„Frestur til að byggja yfir þrærnar er veittur til 1. maí 2013.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum