Hoppa yfir valmynd
20. september 2002 Matvælaráðuneytið, Úrskurðir landbúnaðarráðuneytis - til 2008

2/2002 Úrskurður frá 20. september 2002

Árið 2002, fimmtudaginn 20. september, var í landbúnaðarráðuneytinu í máli nr. LAN02060151

Stefán G.Ármannsson og Brynjólfur Ottesen
(Jón Haukur Haukson hdl.)

gegn
Hreppsnefnd Skorradalshrepps
(Árni Grétar Finnsson hrl.)

kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.

Með bréfi, sem barst Landbúnaðarráðuneytinu þann 21. júní 2002, hefur Jón Haukur Hauksson, hdl. f.h. Stefáns G. Ármannssonar, kt. 200266-5369, Leirár- og Melahreppi og Brynjólfs Ottesen, kt. 240860-2609, Innri Akraneshreppi, kært til úrskurðar ráðuneytisins, samkvæmt heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að neyta forkaupsréttar að 50% eignarhluta af landi Efstabæjar í Skorradal.

Kærendur, krefjast þess að ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps varðandi málefni kærenda verði endurskoðuð og breytt í þá veru að kaup þeirra á 50% hluta af landi Efstababæjar verði samþykkt.

Kærða, hreppsnefnd Skorradalshrepps, krefst þess aðallega að stjórnsýslukærunni verði vísað frá. Til vara að kröfum kærenda verði synjað og að ákvörðun kærðu um að neyta forkaupsréttar á 50% hluta jarðarinnar Efstabæjar í Skorradalshreppi verði staðfest.

II.

Með kaupsamningi sem dagsettur er hinn 8. apríl 2002, ákváðu kærendur að kaupa og Guðrún Hannesdóttir, Snartarstöðum, að selja 50% eignarhluta af landi Efstabæjar í Skorradal og var afrit kaupsamnings sent kærðu, hreppsnefnd Skorradalshrepps. Þann 8. maí 2002 voru kærendur boðaðir til fundar hreppsnefndar Skorradalshrepps þar sem málefni Efstabæjar voru rædd. Í kjölfar fundarins þann sama dag er af hálfu kærðu tekin ákvörðun um að neita forkaupsréttar að eignarhluta Guðrúnar Hannesdóttur í landi Efstabæjar.

Með bréfi kærenda sem barst ráðuneytinu 21. júní sl. er ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. maí 2002 kærð til ráðuneytisins.

Kærðu var veittur frestur til 5. júlí 2002 til að neyta andmælaréttar. Óskaði kærða eftir framlenginu þess frests og var orðið við því. Greinargerð kærðu barst ráðuneytinu 5. júlí s.l. og var kærendum veittur frestur til að andmæla greinargerðinni. Andmæli kærenda bárust ráðuneytinu 15. júlí 2002. Enn var kærðu veittur réttur til andmæla og bárust athugasemdir kærðu 2. ágúst sl. Í framhaldi af því að málið var talið nægilega vel upplýst sendi ráðuneytið deiluaðilum bréf þann 19. ágúst s.l. hvar fram kom að málið væri þar með tekið til úrskurðar. Gerðu deiluaðilar ekki sérstaka athugasemd við þann framgang. Engar frekari athugasemdir bárust frá deiluaðilum.

III.

Málsástæður og lagarök kærenda:

Ákvörðun hreppsnefndar skorradalshrepps sem tekin var þann 8. maí 2002 og kærð hefur verið er tekin með eftirfarandi bókun:

?Forkaupsréttur í 50% Efstabæjar. Grund 8. maí 2002

Í stefnumörkun í 3. kafla Svæðisskipulags norðan Skarðsheiðar segir á bls. 69: ?Stefnt er að því að gera innri hluta Skorradalshrepps að sérstöku verndarsvæði þar sem áhersla verði lögð á að afla grunnupplýsinga um vistkerfið í heild sinni og síðan að vakta það með sýnatöku og annari tækni. Áhersla verði jafnframt lögð á að greina þá starfsemi sem líklegust er að hafa haft eða geta haft skaðleg áhrif á verndaráform þessi.?

Í 6. kafla segir : ?Gera landgræðsluáætlun fyrir svæðið?

Með vísan til framanritaðs, upplýsinga frá RALA um mjög alvarlegt jarðvegsrof í landi Efstabæjar ásamt vísan í 25. gr. fjallskilareglugerðar Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstaðar, þá sér hreppnefndin ekki annað fært en neyta forkaupsréttar síns, samkvæmt fyrirliggjandi kauptilboði, og stuðla þannig að því að fyrirhuguð girðing, sem áður hefur verið nefnd (úr Geitabergsvatni í Eiríksvatn) komist upp og þar með verði hið gróðursnauða land innan girðingarinnar friðað.

Oddvita falið að tilkynna aðilum málsins þessa afgreiðslu?.

Kærendur benda á að þegar ofangreind ákvörðun var tekin hafi verið boðað til umrædds fundar símleiðis. Kærendur hafi í síma gengið eftir því hvert fundarefnið ætti að vera en ekki fengið við því skýr svör, önnur en þau að ræða ætti málefni Efstabæjar. Slíkur framgangsmáti sé ekki í samræmi við lög og hafi ekki gefið þeim færi á að undirbúa sig nægilega vel fyrir fundinn þann 8. maí.

Kærendur telja rökstuðning kærðu, er kemur fram í ofangreindri bókun, dags. 8. maí 2002, vera dæmi um misnotkun á forkaupsrétti. Í röksemdum kærðu í hinu tilvitnaða bréf sé í fyrsta lagi vikið að þeirri stefnumörkun sem komi fram í svæðisskipulagi sem gildi fyrir þetta svæði, en hvorki aðal- né deiliskipulag sé þar í gildi. Telja kærendur að umfjöllun í svæðisskipulagi sé í raun ekkert annað en grundvallar stefnumörkun sem ekki sé hægt að byggja sértækar aðgerðir á. Þær þurfi að byggjast á ýtarlegri skipulagsvinnu. Benda kærendur á að ekkert hafi komið fram um að unnið hafi verið að þeim markmiðum sem fjallað sé um í svæðisskipulaginu, t.d. hafi ekki verið unnið að öflun upplýsinga um vistkerfið eða unnið að vöktun umhverfisins. Kærendur vitna til þess að fremst í Skorradal, þar á meðal á landi Efstabæjar hafi hingað til gengið fé og verði þess vegna ekki um neina breytingu á nýtingu landsins að ræða þó að kærendur eignist landið. Telja kærendur að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um að beitarálag sé of mikið á landinu og slík sjónarmið styðji því heldur ekki ákvörðun hreppsnefndar, enda ekki vísað til þeirra í bréfi kærða til seljanda.

Kærendur benda á, að á fundi með hreppsnefnd hafi þeir lýst þeim fyrirætlunum sínum að leggja land Efstabæjar við beitiland þeirra fyrir sauðfé. Kærendur benda á að þeir stundi fjárbúskap á jörðum sínum en hafi takmarkað upprekstrarland. Með kaupunum á Efstabæ hafi þeir í hyggju að skjóta sterkari rótum undir búskap sinn. Telja kærendur ákvörðun kærðu vega að landbúnaði í Borgarfjarðarsýslu og sé slíkt í andstöðu við tilgang jarðalaga sem sé að stuðla að uppbyggingu og viðhaldi landbúnaðar í landinu og hafi land Efstabæjar ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum svo vitað sé.

Kærendur telja einnig þá röksemd kærðu, sem sett sé fram með tilvísun í svæðisskipulags, en þar komi fram að gera skuli landgræðsluáætlun fyrir svæðið, ekki standast. Benda kærendur á að engin slík áætlun hafi verið gerð og ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um að vinna sé hafin eða í undirbúningi við slíka áætlun og sé ekki vísað til þess í bréfi kærðu til seljanda. Telja kærendur að þó slík áætlun væri fyrir hendi myndi hún engu að síður ekki hefta kaup þeirra á hinu umdeilda landi og sé ekki nægileg röksemd fyrir því að sveitarstjórn eignist landið. Sveitarstjórn geti beitt ýmsum aðferðum við að vinna að landgræðslu, telji hún þörf á því, án þess að eiga viðkomandi land. Telja kærendur það ólögmætt sjónarmið, að fyrirhuguð nýting þeirra á landi Efstabæjar til einnar tegundar landbúnaðar, sauðfjárræktar, geti staðið í vegi fyrir nýtingu lands til skógræktar á annarri bújörð og sé því ekki hægt að nýta sér forkaupsrétt á þeim forsendum.

Kærendur hafna því að röksemdir kærðu um að á landi Efstabæjar sé alvarlegt jarðvegsrof og þess vegna sé nauðsynlegt fyrir hið kærða sveitarfélag að neyta forkaupsréttar eigi við í málinu og benda á að kærðu séu aðrar leiðir færar telji kærða aðgerða þörf vegna jarðvegsrofs, ekki sé heimilt að styðjast við slíkar röksemdir er sveitarfélög neyti forkaupsréttar.

Kærendur benda á að þau rök kærðu, að nauðsynlegt hafi verið að neyta forkaupsréttar til að fyrirhuguð friðunargirðing úr Geitabergsvatni í Eiríksvatn komist upp fái ekki staðist. Kærendur hafi ekki sett sig upp á móti slíkum hugmyndum. Þær séu þó ómótaðar og séu kærendur reiðubúnir til samstarf um þau mál. Ákvörðun kærðu um að neyta forkaupsréttar vegna þessa sé óskiljanleg.

Kærendur benda á að hinn seldi jarðarhluti hafi lengi verið til sölu. Seljandi hafi m.a. boðið hann Skógrækt ríkisins en ekkert hafi orðið úr þeim viðskiptum vegna þess hve verðhugmyndir skógræktarinnar hafi verið lágar. Benda kærendur á að kærða hafi aldrei sýnt landinu áhuga fyrr en nú, en hafi haft fulla vitneskju um að landið væri til sölu. Hafi landakaupin ekki verið fyrirhuguð hjá kærðu og sé ekki heimild fyrir kaupunum í fjárhagsáætlun kærða.

Telja kærendur það ólögmæt sjónarmið af hálfu kærðu að nýta sér forkaupsrétt til þess að koma í veg fyrir útgjöld vegna uppbyggingu réttar sem hugsanlega þurfi að byggja á svæðinu ef af kaupunum verði, en kærða hafi vísað til þess í gögnum sínum.

Kærendur telja að ómálefnaleg og ólögmæt sjónarmið hafi ráðið ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps. Vísa kærendur til þess að einn hreppsnefndarmanna, Ágúst Árnason sem setið hafi umræddan fund, er kærð ákvörðun var tekin, sé vanhæfur vegna fyrri starfa hans fyrir skógræktina, enda séu hagsmunir kærðu og Skógræktar ríkisins samtvinnaðir vegna umsvifa skógræktarinnar í hreppnum og beinna og óbeinna áhrifa hennar þar.

Málsástæður og lagarök kærðu:

Kærða fer í aðalkröfu sinni fram á að kæru verði vísað frá þar sem hvorki kærendur né seljandi hafi gert fyrirvara um að forkaupsréttur kærðu væri ekki fortakslaus, enda komi fram í kaupsamningi kærenda, sem saminn sé af lögmanni þeirra að kærða hafi forkaupsrétt. Þar með hafi kærendur fyrirvaralaust staðfest og viðurkennt forkaupsrétt kærðu að jarðarhlutanum.

Vegna varakröfu sinnar um staðfestingu á ákvörðun kærðu bendir kærða á að hreppsnefndarfundur sem haldinn var 8. maí 2002, hafi verið fullkomlega löglegur, sbr. 15. og 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Því er mótmælt að Ágúst Árnason, hreppsnefndarmaður, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í ákvarðanatöku á þeim fundi, enda sé hann ekki lengur starfandi hjá Skógrækt ríkisins og hafi engra persónulegra hagsmuna að gæta og eigi vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga ekki við.

Benda kærðu á að kærendur hafi alfarið hafnað öllu samkomulagi við kærðu um legu girðingar sem áformað væri að reisa frá Geitabergsvatni í Eiríksvatn er skipta eigi landi Efstabæjar í tvennt. Hafi kærða því ákveðið með öllum greiddum atkvæðum að neyta forkaupsréttar samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi að 50% hluta lands Efstabæjar.

Í nánari rökstuðningi kærðu fyrir ákvörðun sinni bendir kærða á að mjög hafi dregið úr hefðbundnum landbúnaði í Skorradal síðari árin. Í stað hans hafi komið til aukin skógrækt og sumarbústaðabyggð. Hafi kærða stutt við skógræktina og m.a. neytt forkaupsréttar að jörðinni Vatnshorni til að tryggja umráð skógræktarinnar yfir því landssvæði. Bendir kærða á að þær girðingar í landi Efstabæjar sem rætt er um að reisa, en hafi ekki náðst samkomulag um við kærendur, séu hluti af stærri framkvæmd til friðunar lands. Áformuð sé önnur girðing úr Villingadal í ósa Geitabergsvatns og einnig að girt verði á landamerkjum Mófellsstaða og Indriðastaða. Þar með verði friðaðar eftirtaldar jarðir og jarðarpartar í Skorradal: Indriðastaðir, Litla-Drageyri, Stóra-Drageyri, Hagi, Vatnshorn, Fitjar, Sarpur, Efstibær og í Hvalfjarðarstrandarhreppi: Grafardalur og Dragháls. Á flestum þessara jarða sé stunduð skógrækt eða áform uppi um slíkt. Bendir kærða á að ennfremur friðist við þær girðingarframkvæmdir sem áður var minnst á og fyrirhugaðar eru í Skorradal jarðirnar, Selskógur, Þrætueyri og Bakkakot. Sýni þessi upptalning svo ekki verði um villst að ötullega hafi verið og sé unnið að landfriðun og skógrækt í Skorradalshreppi og hagsmunamál íbúanna að svo verði áfram.

Telur kærða að skýrt komi fram í gögnum málsins þau verndunarsjónarmið sem ákvörðun þeirra um að neyta forkaupsréttar sé byggð á. Hér sé því ekki um geðþóttaákvörðun að ræða.

Kærða vísar einnig til 25. gr. fjallskilasamþykktar fyrir svæðið en þar sé kveðið á um skyldu sveitarstjórnar hverrar fjallskiladeildar, til að sjá um byggingu aðalréttar, þar sem slíkar réttir skulu vera. Bendir kærða á að komi kærendur nú með mörg hundruð fjár til beitar í landi Efstabæjar þurfi að byggja nýja rétt í stað Bakkakotsréttar. Slíkt muni kosta kærðu ?einhverjar milljónir króna? og eingöngu vera í þágu utansveitarmanna, sem ekki greiði útsvar til sveitarfélagsins. Engin rök séu fyrir því að leggja slíka kvöð á sveitarfélagið með stjórnvaldsákvörðun, enda sé þá lítið orðið eftir af sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.

Kærða bendir á að Efstibær hafi verið eyðijörð í allmörg ár. Kærendur ætli ekki að byggja upp jörðina og setjast þar að, heldur einvörðungu að nýta landið til sauðfjárbeitar. Slík notkun jarðarinnar sé í algjörri andstöðu við friðunaráform kærðu og íbúa sveitarfélagsins. Kærða telur ljóst af stjórnvaldsákvörðunum og lögum sem séu yngri en jarðalögin, að þeim tilgangi jarðalaganna að stuðla að uppbyggingu og viðhaldi landbúnaðar í formi mjólkur og kjötframleiðslu, hafi verið vikið til hliðar og unnið að því að takmarka þessa hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu.

IV.

I. Kærða krefst þess aðallega að stjórnsýslukærunni verði vísað frá þar sem hvorki kærendur né seljandi hafi gert fyrirvara um að forkaupsréttur kærðu væri ekki fortakslaus, enda komi fram í kaupsamningi kærenda, sem saminn sé af lögmanni þeirra að kærða hafi forkaupsrétt og hafi kærendur því í raun fyrirvaralaust staðfest og viðurkennt forkaupsrétt kærðu að jarðarhlutanum.

Í 1. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976 er ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Þar segir, að sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem fasteign sem selja á er staðsett eigi forkaupsrétt að fasteignarréttindinum. Í 32. gr. jarðalaga er skýrt kveðið á um að forkaupsréttur skv. 30. gr. skuli jafnan boðinn sveitarstjórnum skriflega. Samkvæmt skýrum ákvæðum laganna bar því að tilkynna kærðu um kaupin. Hvorki kærendur né seljandi þurftu því að gera sérstaka fyrirvara er þeir uppfylltu lagaskilyrði og sendu kærðu afrit umrædds kaupsamnings til umfjöllunar, enda um lögákveðinn forkaupsrétt að ræða og neyting hans háð ákveðnum lagaskilyrðum. Ekki er því fallist á frávísunarkröfu kærðu.

II. Við skoðun á lögmæti ákvörðunarinnar ber fyrst að líta til þess hvort löglega var að töku hennar staðið. Álitaefni um það hvort farið var eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga í fundarboði heyrir undir Félagsmálaráðuneytið, sbr. 103. gr. laga nr. 45/1998 og verður því ekki fjallað sérstaklega um það hér. Hafi það verið ætlun kærenda að láta ógilda ákvörðun hreppsnefnda á þeim grundvelli var rétt að kæra hana til Félagsmálaráðuneytisins á grundvelli sveitarstjórnarlaga.

III. Kærendur virðast vísa til þess í greinargerð sinni að andmælaréttar hafi ekki verið gætt í málinu þar sem þeim hafi ekki verið gefinn nægilegur tími til að undirbúa sig fyrir fundinn með kærðu og ekki greint nægilega vel frá fundarefni áður en til fundarins kom þar sem hin kærða ákvörðun var tekin. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur boðaðir til fundar við kærðu áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Í gögnum málsins kemur fram að á fundi með kærðu hafi verið rædd áform kærenda með kaupum þeirra á landinu ásamt hugsanlegum leiðum sem báðir aðilar gætu fellt sig við hvað varðaði girðingastæði eða hugsanlega uppskiptingu jarðarinnar. Í gögnum málsins kemur m.a. fram að samkomulag náðist ekki milli kæruaðila og var ákvörðun kærðu tekin að umræddum fundi loknum. Kærendur hafa borið því við að þeir hafi ekki vitað fyrirfram áður en þeir komu til fundarins hvert efni fundarins hafi átt að vera ?einugis að ræða ætti málefni Efstabæjar?

Ekki verður fallist á þau sjónarmið kærenda að andmælaréttar hafi ekki verið gætt. Eina umfjöllunarefni fundar hreppsnefndarinna er varðaði kærendur var ákvörðunartaka sveitarstjórnar um hvort neyta ætti forkaupsréttar að landi Efstabæjar eða ekki. Telja verður að kærendum hafi verið fundarefnið ljóst eða mátt vera það ljóst þegar kærða vísaði til þess að ræða ætti málefni Efstabæjar. Á fundinum ræddu aðilar hugmyndir kærenda um notkun landsins og reynt var að komast að samkomulagi við þá af hálfu kærðu um atriði er vörðuðu væntanlegar girðinar o.fl. Því verður að telja að gætt hafi verið ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvað andmælarétt kærenda varðar. Einnig verður talið að hreppsnefnd hafi fullnægt ákvæðum 10. gr. sveitarstjórnarlaganna er þeir könnuðu hugmyndir kærenda með landakaupunum og hafi því rannsóknarskylda stjórnvalds verið uppfyllt, sbr. Hæstaréttardóm 1998:601.

IV. Kærendur hafa vísað til þess að einn sveitarstjórnarmanna sem setið hafi hreppsnefndarfund og tekið hafi þátt í umræðum þegar hin kærða ákvörðun var tekin, sé vanhæfur vegna fyrri starfa hans fyrir skógræktina, enda séu hagsmunir kærðu og Skógræktar ríkisins samtvinnaðir vegna umsvifa skógræktarinnar í hreppnum og beinna og óbeinna áhrifa hennar þar. Hafi starfsmaðurinn unnið fyrir skógræk ríkisins í fjölda ára.

Samkvæmt upplýsingum kærðu hætti hinn umræddi starfmaður störfum hjá Skógrækt ríkisins fyrir tveimur árum og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið mótmælt af hálfu kærenda. Ekki hefur heldur verið bent á neina persónulega hagsmuni sem kynnu að valda vanhæfi hins umrædda hreppsnefndarmanns. Fyrri störf umrædds hreppsnefndarmanns fyrir skógrækt ríkisins valda ekki vanhæfi hans skv. ákvæðum 3. gr. stjórnsýslulaga og þar sem ekki hefur verið bent á önnur atriði er kynnu að valda vanhæfi sveitarstjórnarmanns eftir 5. eða 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ekki fallist á að um vanhæfi sé að ræða í þessu máli.

V. Fallast má á þau rök kærenda, að vísan kærðu til þeirrar ástæðu fyrir neytingu forkaupsréttar er fram kemur í greinargerð kærðu, þ.e. að ekki sé hægt að leggja á kærðu aukinn kostnað vegna hugsanlegrar byggingu nýrrar réttar í Skorradal gangi kaup kærenda eftir, séu ólögmæt og verður ekki á þau fallist. Slík sjónarmið um að væntanleg kaup einstaklings valdi kostnaði hjá sveitarfélagi geta ekki stutt ákvörðun kærðu um að neyta forkaupsréttar eftir ákvæðum 1. mgr. 30. gr. jarðalaga.

VI. Ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að Efstabæ í Skorradalshreppi var byggð

á heimild í 1. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Við notkun jarðalaga ber að líta til tilgangs laganna, en um hann segir í 1. gr., að tilgangur laganna sé að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.

Í bókun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. maí 2002, þar sem ákvörðun hreppsnefndar um neytingu forkaupsréttar er rökstudd, er vísað til 3. kafla Svæðisskipulags norðan Skarðsheiðar þar sem segir að stefnt sé að því að gera innri hluta Skorradalshrepps að sérstöku verndarsvæði þar sem áhersla verði lögð á að afla grunnupplýsinga um vistkerfið í heild sinni og síðan að vakta það með sýnatöku og annarri tækni. Áhersla verði jafnframt lögð á að greina þá starfsemi sem líklegust er til að hafa haft eða geta haft skaðleg áhrif á verndaráform. Einnig er í bókuninni vísað til 6. kafla svæðisskipulagsins en þar kemur fram að gera eigi landgræðsluáætlun fyrir svæðið. Með vísan til framanritaðs, upplýsinga frá RALA um mjög alvarlegt jarðvegsrof í landi Efstabæjar og vísan í 25. gr. fjallskilareglugerðar Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstaðar, er ákvörðun kærðu um neytingu forkaupsréttar rökstudd. Þannig telur kærða einnig að stuðlað verði að því að fyrirhuguð girðing, sem áður hefur verið nefnd (úr Geitabergsvatni í Eiríksvatn) komist upp og þar með verði hið gróðursnauða land innan girðingarinnar friðað.

Af framansögðu má ljóst vera að rökstuðningur hreppsnefndar Skorradalshrepps fyrir hinni kærðu ákvörðun snýr aðallega að sjónarmiðum landverndar og landfriðunar. Tekið er til meint jarðvegsrof í landi Efstabæjar og m.a. talið að nauðsynlegt sé að neyta forkaupsréttar til að hægt verði að koma upp fyrirhugaðri friðunargirðinu. Fallast má á þau sjónarmið kærenda að þessum tilgangi sé hægt að ná með öðrum aðgerðum en neytingu forkaupsréttar á grundvelli jarðalaga. Nægir þar að nefna lög um afréttarmál og fjallskil o.fl. nr. 6/1986 og girðingalög nr. 135/2001. Ekki verður talið að kærðu hafi tekist að sýna fram á nauðsyn þess að neyta forkaupsréttarins út frá þeim ákvæðum sem sett eru fram í 1. gr. jarðalaga. Kærða hefur hvorki sýnt fram á að fyrirhuguð nýting kærenda á landinu sé ósamrýmanleg þeirri nýtingu sem fyrir er á svæðinu né sýnt fram á að ekki sé hægt að ná markmiðum kærðu með öðrum og vægari aðferðum. Ekki hefur verið sýnt fram á að það að breyting á eignarhaldi á hinu umrædda landi skaði hagsmuni sveitarfélagsins eða þeirra sem innan þess búa.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir nægilega sýnt fram á að á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps sem tekin var á grundvelli 1. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, séu slíkir annmarkar að ógilda beri hana af hálfu landbúnaðarráðuneytisins sem æðra stjórnvalds. Því er fallist á aðalkröfu kærenda í máli þessu og ógild sú ákvörðun kærðu að neyta forkaupsréttar að 50% eignarhluta lands Efstabæjar, Skorradalshreppi, sem tekin var þann 8. maí 2002. Fallist er á aðilaskipti skv. kaupsamningi dags. 8. apríl 2002, milli Stefáns G. Ármannssonar og Brynjólfs Ottesen sem kaupenda og Guðrúnar Hannesdóttur sem seljanda 50% eignarhluta í Efstabæ, Skorradalshreppi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun hreppnefndar Skorradalshrepps um að neyta forkaupsréttar að 50% eignarhluta lands Efstabæjar, Skorradalshreppi er felld úr gildi.

Aðilaskipti skv. kaupsamningi dags. 8. apríl 2002, milli Stefáns G Ármannssonar og Brynjólfs Ottesen, sem kaupenda, og Guðrúnar Hannesdóttur, sem seljanda, eru staðfest.

Guðni Ágústsson.

________________

Atli Már Ingólfsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum