Hoppa yfir valmynd
17. október 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 17/2016.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. október 2016

í máli nr. 17/2016:

Trésmiðja GKS ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Isavia ohf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 27. september 2016 kærir Trésmiðja GKS ehf. útboð varnaraðila Ríkiskaupa nr. 20324 auðkennt „Furniture for FLE South Building“. Kærandi krefst þess meðal annars að sú ákvörðun varnaraðila að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og „að tilboð kæranda verði úrskurðað gilt.“ Þá er þess krafist að felldir verði niður skilmálar greinar 1.6.4 í útboðsgögnum. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili Ríkiskaup f.h. Isavia ohf. hafi auglýst útboð um kaup á húsgögnum fyrir suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í júlí 2016. Í grein 1.6.4 í útboðsgögnum kom fram að gerð væri krafa um að bjóðendur skyldu hafa reynslu af sölu flugvallarhúsgagna. Var kveðið á um að þeir skyldu hafa selt slík húsgögn til að lágmarki fimm annarra flugstöðva á EES-svæðinu af sambærilegri stærð og Flugstöð Leifs Eiríkssonar á síðastliðnum þremur árum og í sambærilegu magni og gert var ráð fyrir í hinu kærða útboði. Jafnframt var gerð krafa um að með tilboðum fylgdu upplýsingar um reynslu flugstöðvanna af notkun húsgagna frá viðkomandi bjóðanda. Tilboð í útboðinu voru opnuð hinn 30. ágúst sl. og var kærandi lægstbjóðandi. Með tölvupósti 21. september 2016 var kæranda tilkynnt að tilboð hans hefði verið metið ógilt með vísan til ákvæðis í grein 1.6.4 í útboðsgögnum þar sem þar hefði hvorki verið að finna nægjanlegan fjölda flugstöðva sem kærandi hefði selt húsgögn til né hefðu húsgögn verið seld í því magni sem greinin áskildi.

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að kröfur greinar 1.6.4 í útboðsgögnum útiloki hann með ómálefnalegum hætti frá þátttöku í útboðinu. Byggt er á því að engin málefnaleg rök búi að baki þeim kröfum að bjóðendur hafi reynslu af sölu til flugstöðva á EES-svæðinu eða að miðað sé við sölur undanfarin þrjú ár. Með því sé jafnræði bjóðenda raskað, sem og samkeppni, í andstöðu við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, 65. gr. stjórnarskrárinnar sbr. lög nr. 33/1944 og ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005. 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn rétti sínum. Í máli þessu byggir kærandi á því að framangreint ákvæði greinar 1.6.4. í útboðsgögnum sé ómálefnalegt og brjóti því gegn ákvæðum ýmissa laga, þ.á m. gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Af gögnum málsins verður ráðið að útboðsgögn hafi verið gerð aðgengileg 20. júlí 2016 og að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir efni þeirra, þ.á m. efni greinar 1.6.4., í kjölfar þess. Ekki liggur fyrir hvenær kærandi sótti útboðsgögn en hins vegar er á það að líta að tilboð voru opnuð 30. ágúst 2016. Var kærufrestur því augljóslega liðinn þegar kærunefnd útboðsmála móttók kæru í málinu hinn 27. september 2016. Af þessari ástæðu eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Trésmiðju GKS ehf., um að útboð varnaraðila, Ríkiskaupa nr. 20324 auðkennt „Furniture for FLE South Building“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                                                                                     Reykjavík, 13. október 2016

                                                                                     Skúli Magnússon       

                                                                                     Stanley Pálsson

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum