Hoppa yfir valmynd
6. mars 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 22/2014.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 6. mars 2015

í máli nr. 22/2014:

Tölvu- og rafeindaþjónusta Suðurlands ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með kæru 7. nóvember 2014 kærir Tölvu- og rafeindaþjónusta Suðurlands ehf. örútboð varnaraðila nr. 15669 um hýsingar- og rekstrarþjónustu sem fram fór á grundvelli rammasamnings RK 03.06 um hýsingar- og rekstrarþjónustu. Kröfur kæranda eru að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Símans hf. og að nefndin láti uppi álit á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 14. nóvember 2014. Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 27. janúar 2015.

Á fundi kærunefndar útboðsmála 8. desember 2014 var upplýst að varnaraðili hefði hinn 3. desember 2014 gert samning á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. Með hliðsjón af þeim upplýsingum bókaði nefndin að hún myndi ekki taka sérstaka ákvörðun um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

I

Hinn 25. september 2014 auglýsti varnaraðili örútboð innan rammasamnings RK 03.06 til að afla tilboða í hýsingar- og rekstrarþjónustu. Í skilmálum örútboðsins kom fram að núverandi GoPro lausn og Notes kerfi yrði skipt út fyrir nýjan verkefnavef (Workpoint) sem byggði á staðlaðri lausn. Um væri að ræða skjalavistunar- og samskiptakerfi er byggði á Sharepoint samtvinnuðu við MS Outlook umhverfið. GoPro kerfið yrði keyrt áfram samhliða WorkPoint og því væri óskað eftir hýsingu á GoPro kerfinu. Fram kom að samið yrði við þann bjóðanda sem byði lægsta verðtilboð. Í 4 kafla örútboðslýsingar sagði svo m.a.:

„Ríkiskaup hefur fest kaup á MS Office 2013 – án uppfærsluréttar. Ekkert er því þannig til fyrirstöðu að stofnunin noti MS Office án neins kostnaðar í 2 – 3 ár. Sem fyrr segir munu Ríkiskau6p taka upp sérstakan verkefnavef sem byggir á Sharepoint umhverfinu. Kostnaður við Sharepoint leyfi (miðlara og biðlara) er ekki innifalinn í kostnaði við kaupum á umræddum hugbúnaði og þarf því að taka inn í fyrirhugaðan hýsingarsamning. Gera þarf ráð fyrir allt að 30 biðlaraleyfum fyrir SQL annars vegar og Sharepoint hins vegar.“

Kærandi var einn níu samningshafa rammasamningsins og tók þátt í örútboðinu. Í tilboði kæranda sagði m.a. eftirfarandi: „Ekki er gert ráð fyrir neinum leyfiskostnaði á Sharepoint í þessu tilboði þar sem skv. framleiðanda Workpoint-kerfisins er hægt að keyra það á Sharepoint foundations sem er frítt“. Kærandi átti lægsta tilboðið sem barst, að fjárhæð 11.460.476 krónur, en Síminn hf. bauð 11.502.720 krónur. Hinn 4. nóvember 2014 var tilkynnt um val tilboðs Símans hf. Kærandi óskaði eftir nánari skýringum og í rökstuðningi varnaraðila sagði m.a.:

„Í fyrsta lagi, þá er ljóst að með tillögu sinni um að nota Sharepoint foundation er bjóðandinn ekki að uppfylla kröfur útboðsgagna hvað Sharepoint varðar. Í gögnum kemur fram að þörf sé á miðlara og biðlarahluta, en í skilgreiningu á Sharepoint foundation segir að um sé að ræða útgáfu án allrar miðlara virkni („without all of the Server functionality“). Í öðru lagi hefur söluaðili Workpoint kerfisins á Íslandi staðfest að ekki sé unnt að nota Sharepoint foundation með Workpoint öðruvísi en að glata virkni úr kerfinu, virkni sem er verkkaupa mjög mikilvæg.“

II

Kærandi telur að varnaraðili hafi brotið gegn 72. gr. laga um opinber innkaup enda hafi hagstæðasta tilboð ekki verið valið. Tilboði kæranda hafi verið vísað frá á grundvelli forsendna sem ekki hafi komið fram í lýsingu örútboðsins. Kærandi segir að í skilmálum örútboðsins hafi ekki verið skilgreint hvaða útgáfu af Sharepoint varnaraðili óskaði eftir. Einungis hafi verið óskað eftir að Workpoint kerfið hefði fulla virkni. Kærandi telur að sú útgáfa sem hann bauð, Sharepoint foundation, hafi alla þá virkni sem óskað hafi verið eftir í lýsingu örútboðsins. Útgáfan hafi m.a. miðlara- og biðlaravirkni og hafi ekki áhrif á virkni Workpoint. Kærandi telur að útboðsgögn hafi verið skýr og þar hafi einungis komið fram að Sharepoint eigi að hýsa Workpoint vef en hvergi hafi komið fram að gera skyldi tilboð í tiltekna útgáfu af Sharepoint. Í útboðslýsingu hafi einungis verið óskað eftir tilteknum eiginleikum sem Sharepoint útgáfan þyrfti að uppfylla og að tilboð kæranda hafi uppfyllt þá alla. Kærandi segir að varnaraðili hafi ekki minnst á að ætlunin væri að nota infopath, auditing eða aðra þætti Sharepoint kerfisins, hvorki í útboðsgögnum né rökstuðningi.

III

Varnaraðili byggir á því að tilboð kæranda hafi ekki uppfyllt tækniforskriftir útboðsskilmála og hafi því verið ógilt. Varnaraðili segir að kærandi hafi ekki gert ráð fyrir kostnaði við Sharepoint leyfi í sínu tilboði en það hafi aftur á móti verið innifalið í tilboði Símans og annarra bjóðenda. Augljóst hafi verið af örútboðslýsingu að óskað væri eftir þróaðri útgáfu af Sharepoint sem greiða þyrfti fyrir. Sú tegund Sharepoint sem kærandi bauð sé ókeypis útgáfa sem allir geti hlaðið niður sér að kostnaðarlausu. Rétt sé að full virkni í Workpoint náist með Sharepoint foundation en rökstuðningur varnaraðila eftir val tilboða hafi byggst á misskilningi varnaraðila og ráðgjafa hans. Varnaraðili ætli að nota Workpoint með Sharepoint virkni en hún fáist ekki í Sharepoint foundation heldur einungis í keyptum Sharepoint leyfum. Varnaraðili þarfnist virkni á borð við „verkflæði, InfoPath, auditing o.fl.“, sem einungis séu í keyptum leyfum.

IV

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort kærandi hafi boðið fullnægjandi útgáfu af Sharepoint umhverfi. Varnaraðili telur að sú útgáfa hugbúnaðarins, sem tilboð kæranda gerði ráð fyrir, fullnægi ekki skilyrðum útboðsgagna. Kaupendur í opinberum innkaupum hafa víðtækt svigrúm til að ákveða kröfur til boðinna vara og þjónustu svo lengi sem þær eru í málefnalegum tengslum við það sem kaupa á. Í samræmi við meginreglur opinberra innkaupa um gegnsæi og jafnræði bjóðenda er sú skylda þó lögð á kaupandann að tilgreina með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða kröfur eru gerðar. Þannig verða allir bjóðendur að geta áttað sig á skilmálum útboðsins þannig að þeir viti fyrirfram hvaða kröfur eru gerðar að þessu leyti.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér skilmála hins kærða örútboðs en þar er á nokkrum stöðum vísað til „Sharepoint“ og einnig samspils þess við hugbúnaðinn „Workpoint“ án þess að tilgreint sé nánar við hvaða útgáfu Sharepoint átt sé við. Fyrir liggur að útgáfan „Sharepoint foundation“ styður við hugbúnaðinn Workpoint með fullnægjandi hætti. Með annarri og leyfisskildri útgáfu af Sharepoint gefst hins vegar kostur á aukalegri virkni með samverkan við Workpoint. Sem dæmi eru nefnd „verkflæði“, „InfoPath“ og „auditing“. Þessi atriði komu hins vegar ekki með neinum hætti fram í örútboðslýsingu. Að mati nefndarinnar var varnaraðila í lófa lagið að taka það skýrt fram ef hann óskaði eftir því að hinn boðni hugbúnaður fæli í sér þessa aukalegu virkni. Verður hann að bera hallann af því að örútboðsgögn voru óljós um kröfur að þessu leyti. Það fær ekki haggað þessari niðurstöðu þótt í skilmálum og á tilboðsblaði hafi verið vísað til þess að bjóðendur þyrftu að gera ráð fyrir kostnaði við leyfi vegna Sharepoint.

Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 17. gr. laga nr. 58/2013, segir að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur gert samning um hýsingar- og rekstrarþjónustu á grundvelli hins kærða örútboðs. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um að ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Símans hf. verði felld úr gildi.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga um opinber innkaup er kaupandi í opinberum innkaupum skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Að framan hefur því verið slegið föstu að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup við höfnun á tilboði kæranda. Kærandi átti lægsta gilda boð og verður þannig að ætla að hann hafi a.m.k. átt raunhæfa möguleika á að verða valinn til samningsgerðar og þeir möguleikar hafi verið skertir við brotið. Með hliðsjón af þessu er það er álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda.

Varnaraðila verður gert að greiða kæranda málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Tölvu- og rafeindaþjónustu Suðurlands ehf., um að ákvörðun varnaraðila, Ríkiskaupa, um að taka tilboði Símans hf. í örútboði nr. 15669 um hýsingar- og rekstrarþjónustu, verði felld úr gildi.

Það er álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna téðrar ákvörðunar.

Varnaraðili Ríkiskaup greiði kæranda 500.000 krónur í málskostnað.

Reykjavík, 6. mars 2015.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum