Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 19/2015.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 21. janúar 2016

í máli nr. 19/2015:

Superlit Romania S.A.

gegn

Fallorku ehf. og

Amiantit Norway AS

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. október 2015 kærði Superlit Romania S.A. útboð varnaraðila, Fallorku ehf., nr. FO-1502 auðkennt „Glera II Hydopower Project. Penstock pipes“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun varnaraðila Fallorku ehf. um að ganga til samninga við félagið Amiantit Norway AS, að kærunefnd leggi fyrir kærða að auglýsa útboðið á nýjan leik og að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Auk þess er krafist málskostnaðar.

          Kærunefnd útboðsmála móttók athugasemdir varnaraðila Fallorku ehf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) 23. október og 13. nóvember sl. þar sem krafist var aðallega frávísunar málsins en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kærandi skilaði andsvörum 11. desember sl. Amiantit Norway AS var jafnframt gefin kostur á að tjá sig um kæru málsins og skilaði félagið greinargerð af sinni hálfu 17. desember sl. þar sem þess var krafist að kröfum kæranda yrði hafnað.

          Með ákvörðun 3. nóvember sl. féllst kærunefnd útboðsmála á kröfu kæranda um að stöðva framangreint innkaupaferli um stundarsakir.

I

Í maí 2015 bauð varnaraðili út hönnun, framleiðslu, afhendingu og eftirlit við uppsetningu á þrýstipípu í Glerá í Eyjafirði. Í grein I.5 a) í útboðsgögnum var kveðið á um hæfi bjóðenda en þar sagði meðal annars:

„The Bidder shall submit a presentation of his balance sheets or an extract for the last three years, 2012 to 2014 inclusive. The Bidder´s net worth, calculated as the difference between total assets and total liabilities, shall be positive for each of the years and the minimum annual turnover shall not be less than 5 million EUR. [/] The Bidder shall provide verification of aforesaid if required by the Owner. [/] The Bidder shall submit að list of all works similar in scope as the Glera II penstock he or his principal Manufacturer have completed or signed in the last five years, including each works value and proprietor. Bidder´s principal Manufacturer shall have at least 5 years experience of similar works and have delivered Glass Reinforced Polyester (GRP) penstock pipe for at least one similar project in the European Economic Area, EEA (EC and EFTA) in the last 5 years, both in technical scope and value.”

Í grein I.6 kom fram að frávikstilboð væru heimil en þó aðeins að bjóðendur skiluðu einnig inn tilboðum sem væru að öllu leyti í samræmi við kröfur útboðsgagna. Í grein I.8 var kveðið á um hvaða sjónarmið yrðu höfð til hliðsjónar við val tilboða, en þar sagði meðal annars:

„An evaluation will be made of all factors which, in the opinion of the Owner, are determinative, significant and in consistency with the intended execution of the Contract, including Alternative Proposals submitted in accordance with I.6, Alternative Proposals. Such evaluation may include past experience of the bidder as well as the quality and efficiency of methods and organisation suggested by the bidder. [/] The respective bids will be evaluated economically and technically with respect to the offered materials and equipment, in terms of price, installation cost, profitability, quality, technical merit, after-sales service and technical back-up.

Í grein II.3 kom eftirfarandi fram:

„The specified equipment shall be delivered CIF Akureyri, Iceland, not later than April 30th, 2016.”

Í grein III.2 kom meðal annars eftirfarandi fram:

„The pipes shall be manufactured in sections of 6-12 m length, unless otherwise approved.” […] For bidding purposes, an estimated period for the required supervision at site is 60 days and price for the 60 days shall be included in the main Bids A and/or B. The supervision period will be adjusted at a later time. Price adjustment according to actual length of the supervision will be based on the offered daily rate for the 60 days.“

Við opnun tilboða 26. júní sl. kom í ljós að kærandi átti lægsta tilboðið í útboðinu, en Amiantit Norway AS það næstlægsta. Hinn 9. október sl. var kæranda tilkynnt að tilboði hans yrði ekki tekið. Kærandi kveðst hafa verið upplýstur munnlega um að varnaraðili hygðist taka tilboði Amiantit Norway AS, en ekki kemur fram í fyrirliggjandi gögnum hvenær kærandi var upplýstur um þetta. Hinn 13. október 2015 óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans, en engin rökstuðningur mun hafa borist.

II

Kærandi byggir á því að innkaup varnaraðila falli undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu („veitutilskipunin“), sem innleidd var með reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. Til vara er byggt á því að innkaup varnaraðila falli undir ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Kærandi telur að forsendur fyrir vali á tilboði  í grein I.8 í útboðsgögnum hafi verið háðar huglægu mati í veigamiklum atriðum í andstöðu við ákvæði 55. gr. veitutilskipunarinnar og 45. gr. laga um opinber innkaup og meginreglur um jafnræði og gagnsæi. Valforsendur hafi veitt varnaraðila of víðtækt mat við einkunnagjöf og kæranda hafi því verið ómögulegt að átta sig á hvernig staðið yrði að mati á tilboðum. Því hafi efnisleg niðurstaða útboðsins ekki getað orðið lögmæt. Í ljósi þessa hafi lægsta verð átt að ráða vali á tilboði í útboðinu, en kærandi hafi átt læsta tilboðið.  Þá byggir kærandi á því að skortur á rökstuðningi fyrir ákvörðun varnaraðila feli í sér brot gegn 1. mgr. 75. gr. laga um opinber innkaup.

Kærandi mótmælir því að tilboð hans hafi ekki fullnægt áskilnaði útboðsgagna eins og varnaraðili heldur fram. Tilboð kæranda og fylgigögn hafi verið skýr. Af tölvupóstsamskiptum kæranda og varnaraðila verði ráðið að kærandi hafi boðist til að svara spurningum um boðna vöru og fyrirtækið auk þess sem hann hafi boðist til að koma á fund til að svara spurningum um boðnar vörur. Varnaraðila hafi því verið í lófa lagið að óska eftir frekari upplýsingum eða gögnum teldi hann einhver vanta. Umboðsmaður kæranda hafi margoft haft samband við varnaraðila til að athuga hvort þeir kynnu að hafa einhverjar spurningar. Þá hafi bæði kærandi og móðurfélag þess, Superlit Boru San AS í Tyrklandi, boðið saman í verkið líkt og heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 46. gr. laga um opinber innkaup. Þá heimili 2. mgr. 49. gr. sömu laga fyrirtæki að byggja á fjarhagslegri getu annarra aðila. Þá byggir kærandi á því að fylgiskjal með tilboði hans, þar sem fram hafi komið að boðin verð byggðu á CPT til Stettin í Póllandi í stað CIF til Akureyrar, hafi slæðst með tilboði kæranda fyrir augljós mistök. Á tilboðsblaði hafi komið fram að vörur skyldu afhentar CIF til Akureyrar. Það hafi að auki verið fyllt út á tilboðsblað þar sem fram hafi komið lengd og verð á pípum í samræmi við það sem óskað var eftir í útboðslýsingu. Fylgiskjalið hafi varðað annað verk og ekki passað við útboðslýsingu varnaraðila og því verið um augljós mistök að ræða. Hafi varnaraðila borið að hafa samband við kæranda og óska skýringa á þessu skjali. Þá hafi kærandi nefnt mörg dæmi um sambærileg verkefni með tölvupósti 5. október 2015 í kjölfar fyrirspurnar varnaraðila. Einnig hafi kærandi umboðsmann á Íslandi sem varnaraðili hafi oft haft beint samband við auk þess sem hann hafi verið viðstaddur opnun tilboða og átt fund með varnaraðila. Varnaraðila hafi því ekki getað dulist að kærandi hefði umboðsmann á Íslandi þó hann hefði ekki verið nefndur í tilboðinu. Þá hafi útboðsgögn ekki gert neinar kröfur um lengd á múffum í rörum. Tilboð kæranda hafi því uppfyllt kröfur útboðsgagna í hvívetna.

III

Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun á því að hann falli hvorki undir gildissvið veitutilskipunarinnar né ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar sem hann teljist ekki til opinbers aðila í skilningi 3. gr. laganna. Ekki hafi verið til hans stofnað til þess að þjóna almannahagsmunum og starfsemi hans verði jafnað við starfsemi einkaaðila. Félagið framleiði og selji raforku á samkeppnismarkaði með hagnað að leiðarljósi. Félagið sé ekki veitufyrirtæki í skilningi veitutilskipunarinnar heldur framleiðslu- eða sölufyrirtæki. Mikilvægt sé að gildissvið regluverks um útboð sé túlkað þröngt og að ósamræmi sé túlkað þeim í vil sem ekki sé skýrt hvort falli undir regluverkið eða ekki. Félagið sem raforkuframleiðanda hafi ekki verið úthlutuð sérstök eða einstök réttindi sem kynni að fella það undir regluverkið, heldur starfi félagið á almennum markaði í samkeppni við aðra raforkuframleiðendur. Þá getið félagið ekki fallið undir regluverk um opinber innkaup þegar horft sé til 13. tl. í inngangskafla tilskipunar ráðsins nr. 93/38/EBE og 40 og 41 lið í veitutilskipuninni.

Því er mótmælt að XIV. og XV. kafli laga um opinber innkaup eigi að gilda um hið kærða útboð þó svo komist verði að því að varnaraðili falli almennt undir ákvæði laganna eða tilskipunarinnar, enda sé félagið raforkuframleiðandi á samkeppnismarkaði auk þess sem félagið félli undir undanþáguákvæði 30. gr. veitutilskipunarinnar. Telur félagið að ekki þurfi að fá leyfi eftirlitsaðila til þess að undanskilja samkeppnisrekstur kröfum veitutilskipunarinnar með hliðsjón af 41. tölulið í aðfararorðum hennar. Tilskipanir Evrópusambandsins á sviði raforku hafi verið teknar upp í íslensk lög, en þær mæli fyrir um samkeppni í framleiðslu og dreifingu. Þá byggir varnaraðili á því að framleiðsla og sala á rafmagni sé undanþegið veitutilskipuninni samkvæmt ákvæði 3. mgr. 3. gr. hennar.

          Kröfu um að kröfum kæranda verði synjað að efni til er byggð á því að tilboð kæranda hafi verið óljóst. Fyrir tilboðinu hafi virst skrifuð tvö fyrirtæki, Superlit Boru San AS í Tyrklandi og kærandi. Gögn stafi ýmist frá fyrrnefnda félaginu eða kæranda. Þannig kjósi kærandi að skila inn efnahagsreikningi síðastliðinna þriggja ára fyrir fyrrnefnda fyrirtækið en ekki kæranda og engar fjárhagsupplýsingar komi fram um kæranda og þar með ekki umbeðnar upplýsingar um veltu, hvorki hjá kæranda né Superlit Boru San AS. Þá komi fram í fylgiskjali með tilboði kæranda að boðin verð hafi byggt á CPT til Stettin í Póllandi og ýmis atriði þar upp talinn séu ekki innifalin í tilboðinu. Tilboð kæranda hafi því ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna sem hafi gert ráð fyrir afhendingu CIF til Akureyrar. Þá hafi kærandi einnig áskilið sér rétt í fylgiskjali til að afhenda allt að 15% af boðnum pípum í annarri lengd en áskilið er í útboðsgögnum. Í tilboði kæranda séu einnig engin dæmi nefnd um að kærandi hafi unnið sambærileg verkefni eins og áskilið hafi verið í útboðsgögnum. Jafnframt hafi útboðsgögn gert ráð fyrir eftirliti með verkinu í allt að 60 daga, en í tilboði kæranda sé einungis gert ráð fyrir að starfsmaður framleiðanda komi þrisvar sinnum til landsins á verktímanum. Þá séu múffur í rörum kæranda verulega styttri en í rörum þess framleiðanda sem ákveðið var að taka tilboði frá. Ljóst sé því að tilboð kæranda hafi verið ógilt og fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið, þ.e. tilboð Amiantit Norway AS, því valið.

IV

Amiantit Norway AS byggir á því að að hvorki kærandi né tilboð hans hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna. Athugasemdir kæranda varðandi matsforsendur og kröfur um innbyrðis vægi þeirra skipti því engu máli við úrlausn málsins. Þannig hafi kærandi ekki uppfyllt kröfur um tæknilegt og fjárhagslegt hæfi. Hann hafi ekki lagt fram fjárhagsupplýsingar og ekki staðfestingu á framleiðslu og afhendingu á 12 metra rörum eins og áskilið hafi verið. Auk þess ríki vafi um það hvaða lögaðili hafi í raun boðið í verkið. Þá hafi tilboð kæranda ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna. Það verð sem hann hafi boðið hafi miðast við afhendingarstað í Stettin í Póllandi en ekki CIF á Akureyri. Þá sé fyrirvari í tilboði kæranda um afhendingu á rörum í öðrum stærðum en gerð sé krafa um í útboðsgögnum. Þá uppfylli tengimúffur ekki þá staðla sem gildi um 12 metra pípur. Tilboð kæranda hafi því verið ógilt og eigi hann enga lögvarða hagsmuni af því að fjallað verði um aðra þætti í útboðinu. Enginn annar bjóðandi hafi kvartað vegna útboðsskilmála og allir frestir hafi verið löngu liðnir til að gera athugasemdir við þá þegar kæra kom fram.

V

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup taka lögin ekki til samninga sem undanþegnir eru tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar („veitutilskipunarinnar“), eins og tilskipunin hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Að því er snertir innkaup sem falla undir tilskipunina gilda aðeins XIV. og XV. kafli laganna samkvæmt því sem fram kemur í 2. mgr. 7. gr. þeirra, en að öðru leyti er gert ráð fyrir því að ráðherra setji um þessi innkaup reglugerð til samræmis við nánari ákvæði veitutilskipunarinnar, sbr. nú reglugerð nr. 755/2007 með síðari breytingum. Af þessu leiðir að innkaup sem alfarið eru undanþegin veitutilskipuninni falla ekki undir lög um opinber innkaup og sæta þar með ekki úrlausn kærunefndar samkvæmt 91. gr. laganna, sbr. 18. gr. laga nr. 58/2013.

          Í 2. mgr. 2. gr. veitutilskipunarinnar kemur fram að tilskipunin gildi um samningsstofnanir sem eru samningsyfirvöld eða opinber fyrirtæki og reka einhverja þá starfsemi sem um getur í 3. til 7. gr. tilskipunarinnar. Í b-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar segir að opinbert fyrirtæki sé fyrirtæki sem samningsyfirvöld, eins og þau eru skilgreind í a-lið ákvæðisins, geta haft bein eða óbein yfirráð yfir í krafti eignarhalds fjárhagslegrar þátttöku eða gildandi reglna, en samningsyfirvöld teljast hafa yfirráð yfir fyrirtækjum þegar þau, beint eða óbeint, eiga meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki eða ráða yfir meirihluta atkvæða sem fylgja hlutabréfum sem fyrirtækið gefur út eða hafa rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins. Í b-lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar kemur síðan fram að hún gildi um þá starfsemi að afhenda raforku til veitukerfa sem eiga að þjóna almenningi í tengslum við raforkuframleiðslu, raforkuflutning eða rafveitu.

          Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. veitutilskipunarinnar falla samningar, sem gerðir eru með það fyrir augum að inna af hendi starfsemi, sem getið er um í 3. -. 7. gr., ekki undir tilskipunina ef sú starfsemi fer fram í beinni samkeppni á mörkuðum þar sem aðgangur er ótakmarkaður í aðildarríkinu þar sem starfsemin er stunduð. Í 3. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar kemur fram að aðgangur að markaði skuli ekki teljast takmarkaður í skilningi 1. mgr. 30. gr. hennar ef aðildarríkið hefur hrundið í framkvæmd og beitt þeim ákvæðum í þeim gerðum sem getið er um í XI. viðauka tilskipunarinnar. Í viðauka þessum er meðal annars getið um tilskipun nr. 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Af 4. til 6. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar verður hins vegar ráðið að heimild 1. mgr. til að undanþiggja þá samninga sem hér um ræðir er háð því að Framkvæmdastjórn ESB, eða Eftirlitsstofnun EFTA vegna EFTA-ríkja EES-samningsins, hafi veitt samþykki sitt samkvæmt þeirri málsmeðferð sem þar er kveðið á um.

          Í gögnum málsins er upplýst varnaraðili er að fullu í eigu Norðurorku hf., sem aftur er í eigu sex sveitarfélaga á Norðurlandi og er stjórn félagsins skipuð að meirihluta kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum þessum. Þá liggur fyrir að varnaraðili stundar framleiðslu og sölu á raforku. Verður því að telja að varnaraðili teljist til opinbers fyrirtækis í skilningi b-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar sem stundi starfsemi sem tilgreind er í b-lið 3. mgr. 3. gr. hennar. Þótt leggja verði til grundvallar að varnaraðili starfi við framleiðslu og heildsölu á rafmagni á markaði, þar sem samkeppni er ekki takmörkuð, liggur ekki fyrir að sótt hafi verið um staðfestingu Eftirlitsstofnunar EFTA á því að umræddur markaður fullnægi því frekara skilyrði að starfsemin fari fram í beinni samkeppni, sbr. nánari viðmið 2. mgr. 30. gr. veitutilskipunarinnar.  Verður þar af leiðandi að leggja til grundvallar að málið falli undir gildissvið veitutilskipunarinnar og þar með undir fyrrnefndra reglugerð nr. 755/2007 sem innleiðir tilskipunina í íslenskan rétt.

VI

Í opinberum innkaupum er kaupendum játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða forsendur þeir leggja til grundvallar mati á tilboðum. Hins vegar er sú skylda lögð á kaupendur að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar slíku mati og hvaða upplýsinga er krafist, sbr. 47. og 55. gr. veitutilskipunarinnar. Forsendur eiga að vera hlutlægar og tengjast fjárhagslegri hag­kvæmni og ekki svo mats­kenndar að kaupendum séu í raun og veru engar skorður settar við mat tilboða. Helgast þetta af nauðsyn þess að takmarka svigrúm kaupanda til að meta tilboð eftir eigin geðþótta þegar þau hafa verið opnuð. Í samræmi við meginreglur opinbers útboðsréttar um gegnsæi og jafnræði bjóðenda eiga bjóðendur þannig að geta áttað sig á því fyrirfram í meginatriðum hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta boði.

          Í fyrrgreindri grein I.8 útboðsgagna kemur meðal annars fram að við mat á tilboðum verði horft til allra þátta sem, að mati kaupanda, hafi verulega þýðingu fyrir fyrirhugaða framkvæmd samningsins. Við slíkt mat eigi að taka mið af fyrri reynslu bjóðenda og gæðum og skilvirkni verkferla þeirra. Þá verði við fjárhagslegt og tæknilegt mat horft til verðs, kostnaðar við uppsetningu, gæða, tæknilegrar getu og fleiri atriða.

          Að mati nefndarinnar er umrædd lýsing á valforsendum svo almenn að hún setur varnaraðila nær engar skorður við mat á tilboðum, t.d. hvort leggja beri til grundvallar verð eða einnig önnur atriði við mat á fjárhagslegri hagkvæmni. Við þær aðstæður að ákvæði útboðsgagna um forsendur fyrir vali tilboða skortir eða þær eru ólögmætar hefur kærunefnd útboðsmála lagt til grundvallar að kaupanda sé að jafnaði skylt að miða við lægsta verð. Verður og ráðið af málatilbúnaði kæranda, sem ekki gerði athugasemdir við téð ákvæði útboðsgagna fyrir framlagningu tilboða eða óskaði skýringar á þeim, að hann telji sig hafa átt hagkvæmasta tilboð þar sem boð hans hafi verið lægst. Eins og málið liggur fyrir verður umræddur annmarki á útboðsgögnum því ekki sjálfkrafa talinn leiða til ógildis útboðsins í heild sinni.

VII

Varnaraðili og Amiantit Norway AS telja tilboð kæranda hafa verið ógilt þar sem það hafi ekki fullnægt óundanþægum kröfum útboðsgagna. Í fylgiskjölum tilboðsins hafi boðin verð byggt á afhendingu CPT (Carriage Paid To) til Stettin í Póllandi, á meðan útboðsgögn hafi gert kröfu um afhendingu CIF (Cost, Insurance, Freight) á Akureyri. Þá hafi komið fram í fylgiskjölunum að bjóðandi hafi áskilið sér rétt til að afhenda 15% af pípunum í annarri lengd en áskilið var í útboðsgögnum, þ.e. 6 – 12 metra pípum, allt niður í 1,5 m pípur.

          Í kæru, þar sem lagt var fram afrit tilboðs kæranda, var ekki að finna framangreind fylgiskjöl með þeim atriðum sem varnaraðili og Amiantit Norway AS hafa vísað til. Voru skjölin fyrst lögð fram með greinargerð varnaraðila sem barst nefndinni 13. nóvember sl. Í þessum skjölum, sem kærandi hefur ekki mótmælt að hafi fylgt tilboði hans, kemur meðal annars fram að 15% af afhentum pípum megi vera í ýmsum lengdum, þó ekki styttri en 1,5 m („[...] 15% of the supplied GRP Pipes may be supplied in random length. Minimum pipe length shall not be less than 1,50 m.“). Verður þetta orðalag ekki skilið á aðra leið en að gerður sé fyrirvari um að víkja megi frá kröfum útboðsgagna um lengd pípa og afhenda, án samþykkis kaupanda, pípur í ýmsum öðrum stærðum. Í skjölunum kemur einnig fram að verð miðist við afhendingu í Stettin, Póllandi, og séu gjöld og álögur í því landi ekki innifalin. Að mati nefndarinnar verður umrætt orðalag ekki skilið á aðra leið en að vikið sé frá þeirri skýlausu kröfu útboðsgagna að varan sé afhent á Akureyri með öllum kostnaði meðtöldum (CIF).

          Þótt aðeins sé litið til framangreindra atriða telur nefndin að nægilega sé fram komið að tilboð kæranda hafi verið bundið fyrirvörum sem voru í ósamræmi við kröfur útboðsgagna. Með hliðsjón af því að þessar kröfur voru skýrar og fortakslausar verður ekki litið svo á að kaupanda hafi borið að gefa kæranda kost á frekari útskýringum eða lagfæringum á tilboði sínu. Samkvæmt framangreindu verður því á það fallist með varnaraðila að tilboð kæranda hafi verið ógilt og honum verið skylt að hafna því. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili hyggst semja við Amiantit Norway AS sem átti næst lægsta tilboð. Er ekki fram komið að annmarkar hafi verið á tilboði þess bjóðanda þannig að jafnræði fyrirtækja hafi verið raskað við val tilboða. Verður kröfum kæranda því hafnað.

          Með hliðsjón af aðdraganda málsins, svörum varnaraðila við kvörtunum kæranda og niðurstöðu kærunefndar í ákvörðun sinni 3. nóvember 2015, verður varnarðili úrskurðaður til að greiða málskostnað kæranda að hluta, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Að öðru leyti þykir rétt að hver aðili ber sinn  kostnað af málinu. 

 Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Superlit Romania S.A, vegna útboðs varnaraðila, Fallorku ehf., nr. FO-1502 auðkennt „Glera II Hydopower Project. Penstock pipes“ er hafnað.

            Varnaraðili Fallorka ehf. greiði kæranda 400.000 krónur í málskostnað, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

                                                                                       Reykjavík, 21. janúar 2016

                                                                                       Skúli Magnússon

                                                                                       Stanley Pálsson

                                                                                       Sandra Baldvinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum