Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 26/2014.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 27. mars 2015

í máli nr. 26/2014:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Landspítala og

Inter Medica ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. desember 2014 kærði Fastus ehf. rammasamningsútboð varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala nr. 15585 vegna kaupa á hjartagangráðum, hjartabjargráðum, leiðslum o.fl. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala um val á tilboði í útboðinu, en til vara að þeim verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju. Þess er einnig krafist til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar. 

          Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerðum 7. janúar 2015 kröfðust varnaraðilar Ríkiskaup og Landspítali þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Varnaraðilanum Inter Medica ehf. var gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum en engar athugasemdir bárust frá fyrirtækinu.

          Með ákvörðun 14. janúar 2015 féllst kæruefnd á kröfur varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala um að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar.

I

Mál þetta lýtur að fyrrgreindu rammasamningsútboði Ríkiskaupa og Landspítala (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“ nema annað sé tekið fram) um kaup á hjartagangráðum, hjartabjargráðum, leiðslum o.fl. Gerðu útboðsskilmálar ráð fyrir því að samið yrði við einn bjóðanda um að lágmarki 70% viðskipta sem boðin voru út en aðrir bjóðendur gætu vænst allt að 30% viðskiptanna.  Í grein 3.11.a. í viðauka 14 í útboðsskilmálum var að finna eftirfarandi ákvæði um svokallaða vöktunarstöð sem staðsett er á heimili sjúklinga og nemur boð frá bjargráðum og gangráðum um líðan sjúklinga:

The home monitoring system SHALL be able to send data automatically and manually.

Þann 19. desember 2014 var upplýst að fjögur tilboð hefðu borist í útboðinu. Var tilboð Inter Medica ehf., sem bauð vörur frá Medtronic, metið fjárhagslega hagkvæmast, en tilboðið fékk 87,4 stig samkvæmt valforsendum útboðsskilmála á meðan tilboð kæranda fékk 71,9 stig. Var tilkynnt í kjölfarið að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Inter Medica ehf. um að lágmarki 70% fyrirhugaðra viðskipta, en við aðra bjóðendur, þ.á m. kæranda, um allt að 30% viðskipta í samræmi við áðurnefnda heimild í útboðsskilmálum. 

II

Kærandi byggir á því að í grein 3.11.a. í viðauka 14 í útboðsskilmálum hafi verið gert ráð fyrir því að miðlun gagna úr vöktunarstöð þyrfti í öllum tilvikum að geta átt sér stað bæði sjálfvirkt og handvirkt. Þetta staðfesti svar Ríkiskaupa við fyrirspurn kæranda á fyrirspurnartímabili. Vöktunarkerfi það sem Inter Medica ehf. hafi boðið hafi hins vegar ekki uppfyllt þessa kröfu þar sem það hafi ekki búið yfir þeim eiginleikum að geta sent gögn með sjálfvirkum hætti. Vísar kærandi máli sínu til stuðnings til útprentunar af vef framleiðanda vörunnar, Medtronic. Tilboð Inter Medica ehf. hafi því verið ógilt og óheimilt að taka því.

            Í síðari greinargerð kæranda er því hafnað að mögulegt sé að leggja að jöfnu heimavöktunarkerfi þau sem kærandi bauð annars vegar og Inter Medica ehf. hins vegar. Tæki þau sem Inter Medica ehf. hafi boðið þarfnist aðkomu sjúklinga við sendingu gagna sem tæki kæranda þarfnist ekki. Þá hafi Inter Medica ehf. staðfest í tölvupósti að bjargráðar þeirra bjóði ekki upp á sjálfkrafa gagnasendingar. Jafnframt er byggt á því að með tilgreiningu á „home monitoring system“ í grein 3.11.a. í viðauka 14 í útboðsskilmálum felist að beðið sé um heildstætt heimavöktunarkerfi, en slíkt kerfi hljóti að innifela gangráð, ekki aðeins vöktunarstöð eins og varnaraðili Landspítali haldi fram. Fyrir liggi að gangráðar þeir sem Inter Medica ehf. bauð bjóði ekki upp á sjálfkrafa sendingar gagna þar sem aðkoma sjúklinga sé nauðsynleg. Það hafi verið andstætt jafnræðissjónarmiðum að taka tilboði Inter Medica ehf.

III

Varnaraðili Landspítali byggir á því að staðhæfing kæranda um að ekki hafi verið fullnægt áðurlýstum áskilnaði greinar 3.11.a. í viðauka 14 í útboðsskilmálum sé röng eða byggist á misskilningi. Í tilboði sínu hafi bjóðandinn staðfest að boðið tæki uppfyllti umrætt skilyrði. Það skjal sem kærandi telji staðfesta staðhæfingu um að boðið tæki uppfylli ekki framangreint skilyrði, sýni í reynd fram á hið gagnstæða. Því hafi tilboðið ekki verið ógilt og jafnræðis gætt. Varnaraðili Ríkiskaup vísar í greinargerð sinni alfarið til athugasemda Landspítalans og tekur undir þær.

 IV

Í grein 3.11.a í viðauka 14 í útboðsskilmálum kemur fram að svokallað „home monitoring system“ skuli geta sent gögn sjálfvirkt og handvirkt. Kærandi heldur því fram að með ákvæði þessu hafi varnaraðili Landspítali gert kröfu um kaup á heildstæðu vöktunarkerfi sem hafi falið í sér vöktunarstöð á heimili sjúklings og gangráð í sjúklingi. Þar sem gangráðar þeir sem Inter Medica ehf. bauð feli ekki í sér þráðlausar gagnasendingar hafi tilboð fyrirtækisins ekki uppfyllt framangreint skilyrði.

Skilja verður framangreindan skilmála á þá leið að í honum felist eingöngu tilvísun til vöktunarstöðvarinnar sem slíkrar. Í málinu er fram komið að sá búnaður sem tilboð Inter Medica ehf. fól í sér getur sent gögn bæði handvirkt og sjálfvirkt. Er því ekki annað komið fram en að tilboð Inter Medica ehf. hafi fullnægt kröfum útboðsgagna. Verður því ekki talið að varnaraðilum hafi verið óheimilt að taka tilboði Inter Medica ehf. svo sem haldið er fram af kæranda. Verður öllum kröfum kæranda því hafnað.

          Rétt þykir að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Fastus ehf., vegna rammasamningsútboðs varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala nr. 15585 um kaup á hjartagangráðum, hjartabjargráðum, leiðslum o.fl., er hafnað.

          Málskostnaður fellur niður.

                                                                                       Reykjavík, 27. mars 2015.

                                                                                       Skúli Magnússon

                                                                                       Stanley Pálsson

                                                                                       Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum