Hoppa yfir valmynd
8. júní 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 7/2013.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. maí 2013

í máli nr. 7/2013:

Kone ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með kæru 1. mars 2013 kærði Kone ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um að velja tilboð Íslandslyftna ehf. í útboði nr. 15373 „FLE – Lyftur og rúllustigar Endurhönnun Suðurbyggingar 2013“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1.       Að kærunefnd ógildi með úrskurði þá ákvörðun kærða, að ganga að tilboði frá Íslandslyftum ehf. í útboði nr. 15373, og leggi fyrir kærða að bjóða út innkaupin að nýju, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

2.         Að kærða verði gert skylt að greiða kæranda þann kostnað sem kærandi hefur þurft að bera vegna kæru þessarar.

3.         Að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu.“

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi, 21. mars 2013, krafðist kærði þess að kærunni yrði vísað frá eða að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og kæranda gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Hinn 26. apríl 2013 tilkynnti kærandi að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir af hans hálfu.

I.

Í desember 2012 auglýsti kærði útboð nr. 15373 „FLE – Lyftur og rúllustigar Endurhönnun Suðurbyggingar 2013“. Verkið felst í að setja upp lyftubúnað, rúllustiga og allar tilheyrandi raflagnir.

            Tilboð voru opnuð hinn 16. janúar 2013 og áttu Íslandslyftur ehf. lægsta tilboð, að upphæð kr. 53.275.000, en kærandi næst lægsta tilboð, að upphæð kr. 83.319.000. Hinn 24. janúar 2013 sendi kærði bjóðendum tölvupóst þar sem tilkynnt var að ákveðið hefði verið að velja tilboð Íslandslyftna ehf. Hinn 28. janúar 2013 var tilkynningin send kæranda að nýju enda hafði þá komið í ljós að upphaflega var hún send á rangt netfang.                       

II.

Kærandi segir að nafni félagsins Íslandslyftur ehf. hafi verið breytt árið 2011 og heiti nú Lyftusmiðjan. Nýtt félag hafi verið stofnað sem tekið hafi yfir nafnið Íslandslyftur og það félag sinni nú þeirri starfsemi sem áður var í Lyftusmiðjunni. Kærandi segir að ársreikningur Lyftusmiðjunnar sýni að félagið sé ógreiðsluhæft og með neikvæða eiginfjárstöðu. Kærandi segir að stofnun nýs félags, með nafninu Íslandslyftur, hafi einungis haft þann tilgang að auðvelda þátttöku í útboðum. Þá segir kærandi að það félags sem kærði hafi samið við, og tekið hafi yfir nafnið Íslandslyftur, hafi verið stofnað í nóvember 2011. Samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri félagsins árið 2011 komi fram að félagið sé með neikvætt eigið fé. Kærandi telur að Íslandslyftur hafi ekki veitt réttar upplýsingar um reynslu og þekkingu félagsins við þátttöku í útboðinu. Félagið sé nýtt og hafi því ekki þá rekstrarsögu og þekkingu sem gerð hafi verið krafa um í útboðsgögnum. 

III.

Kærði segir að kæranda hafi verið tilkynnt um val tilboða hinn 28. janúar 2013 og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Þá segir kærði að Íslandslyftur ehf. hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna um reynslu og fjárhagslegt hæfi. Í framlögðum gögnum hafi komið fram að fyrirtækið hefði jákvætt eigið fé í samræmi við skilmála útboðsgagna. Þá segir kærði að tilboð kæranda hafi verið ógilt enda hafi í því verið gerður fyrirvari við óundanþægt skilyrði um afhendingartíma. 

IV.

Kæranda var tilkynnt um val á tilboði hinn 28. janúar 2013 og kærandi óskaði ekki eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Kærufrestur ræðst þannig af þágildandi 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, þar sem kveðið var á um að kæru yrði að bera undir nefndina innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann teldi brjóta gegn réttindum sínum. Sú ákvörðun sem kærandi telur að hafi falið í sér brot er ákvörðunin um val tilboðs. Kæra var móttekin meira en fjórum vikum eftir að kærandi vissi um þá ákvörðun og kærufrestur var þannig liðinn. Af þeirri ástæðu ber að vísa kærunni frá kærunefnd útboðsmála.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt þágildandi seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Með hliðsjón af málsatvikum þykir skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.   

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Kone ehf., er vísað frá kærunefnd útboðsmála. 

Kröfu kærða, Ríkiskaupa, um að kæranda verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.

 

 

Reykjavík, 28. maí 2013.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                maí 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum