Hoppa yfir valmynd
18. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 18. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 2/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 3. október 2011 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 3. október 2011 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði Guðmundur Kristjánsson hrl. hana, fyrir hönd kæranda, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. janúar 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 14. nóvember 2008. Ferilskrá kæranda var send til B. 17. ágúst 2011. Vinnumálastofnun barst upplýsingar frá tengilið B þess efnis að kærandi hefði mætt í atvinnuviðtal en ekki verið tilbúin að vinna strax, meðal annars vegna heilsufarsvanda og þyrfti hún að fara í aðgerð á næstunni. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á vinnunni með bréfi, dags. 31. ágúst 2011. Í bréfinu var ranglega sagt að kærandi hefði ekki mætt í atvinnuviðtalið. Í bréfinu var kæranda bent á að skv. a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að vera virkur í atvinnuleit en með virkni í atvinnuleit skv. 14. gr. laganna væri meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, hafa frumkvæði að starfsleit, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem væri á Íslandi, vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu væri að ræða og hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða. Í bréfi Vinnumálastofnunar var bent einnig bent á að hafni atvinnuleitandi atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna geti hinn tryggði þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í svarbréfi sínu kvaðst kærandi vera á leið í aðgerð vegna skemmds liðþófa í hné og hún gæti ekki staðið lengi í fæturna. Hún tók fram að hún hefði mætt í viðtalið. Kærandi lagði fram læknisvottorð, dags. 30. september 2011, þar sem gerð er grein fyrir óþægindum í hægra hné kæranda og tekið fram að þessa vegna hafi hún ekki getað stundað vinnu sem reyni á hnéð undanfarna 2–3 mánuði.

 

Kærandi fékk annað bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 26. september 2011, þar sem óskað var eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á umræddri vinnu. Í skýringarbréfi kæranda, dags. 30. september 2011, segir að kærandi og tengiliður B hafi rætt það að hún yrði í sambandi við B að lokinni læknisaðgerðinni sem hún þyrfti að fara í. Fram kemur af hálfu kæranda að við læknisskoðun hafi komið í ljóst að hún væri með slit í hné og hafi samkvæmt læknisvottorði ekki geta stundað vinnu sem reynir á hnéð undanfarna 2–3 mánuði.

 

Hin kærða ákvörðun var síðan tekin 3. október 2011 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 10. október 2011. Lögmaður kæranda óskaði rökstuðnings og endurupptöku á máli hennar þann 17. október 2011. Vinnumálastofnun sendi kæranda rökstuðning fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 3. nóvember 2011.

 

Kærandi mótmælir því að hún hafi hafnað starfi hjá B í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni hafi litist vel á starfið en talið réttast að hún fengi fyrst bót meina sinna og hefði síðan samband við vinnustaðinn þegar hún væri orðin góð.

 

Kærandi bendir á að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi einungis verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og í greinargerð sinni sé hins vegar einnig byggt á 1. mgr. 59. gr. laganna. Þessi málsgrundvöllur og tilbúnaður sé bæði ólögmætur og of seint fram kominn og gegn mótmælum kæranda verði ekki á honum byggt. Þá hafi Vinnumálastofnun ekki uppfyllt það skilyrði sem 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, setur áður en hún tók ákvörðun sína. Loks bendir kærandi á að við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana skuli ávallt gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. apríl 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. laganna komi meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Fram komi í greinargerðinni að heimilt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni atvinnuleitanda við mat á því hvort ástæður séu gildar. Sjaldan muni þó reyna á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna. Komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið sé í boði kunni að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.

 

Vinnumálastofnun bendir á að stofnuninni hafi ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni kæranda þegar ferilskrá hennar var send til B. Í umsókn um atvinnuleysisbætur sé ekki minnst á slíkt og kærandi hafi ekki tilkynnt um breytta hagi sína svo sem henni bar að gera skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun barst ekki tilkynning um slíkt fyrr en eftir að ferilskrá kæranda hafði verið send til B. Þá komi fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Bent er á að fram komi í athugasemdum með 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar að kveða þurfi á um skyldu hins tryggða til að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með umsókn um atvinnuleysisbætur, svo sem hvort hann geti ekki unnið tiltekin störf vegna heilsu sinnar ásamt vottorði sérfræðilæknis því til stuðnings, sbr. 4. mgr., til að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar í upphafi. Enn fremur segi að láti hinn tryggði hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geti máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði geti það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta, sbr. 59. gr. frumvarpsins.

 

Kærandi hafi ekki upplýst um skerta vinnufærni sína eins og henni hafi borið að gera skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafi Vinnumálastofnun fyrst verið það ljóst eftir að hún hafnaði vinnu hjá B. Læknisvottorð það sem kærandi hafi lagt fram sé gefið út eftir að hún hafi hafnað atvinnutilboði.

 

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt lagagreininni þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. apríl 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. maí sama ár. Frekari athugasemdir bárust frá Guðmundi Kristjánssyni hrl., lögmanni kæranda með bréfi, dags. 23. maí 2012. Þar ítrekar hann fyrri sjónarmið kæranda.

 

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi mætti í atvinnuviðtal í B í ágúst 2011, en hafnaði starfi þar vegna heilsufarsvandamála sinna og aðgerðar sem hún þurfti að fara í. Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

 

Vinnumálastofnun varð fyrst kunnugt um skerta vinnufærni kæranda eftir að ferilskrá hennar hafði verið send til B. Kærandi tilkynnti ekki til stofnunarinnar um breytta hagi sína og var stofnuninni því ekki kunnugt um veikindi kæranda fyrr en eftir að hún hafði hafnað umræddu starfi. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal taka fram í umsókn sinni, skv. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni hans. Þá skal sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur, upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Kærandi lagði fram læknisvottorð varðandi heilsufarsástand sitt eftir að hún hafnaði atvinnutilboði og óskað hafði verið eftir skýringum frá henni.

 

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við þegar hinn tryggði hafi vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna.

 

Ekki verður fallist á þá staðhæfingu kæranda að fólki sé almennt ókunnugt um lög um atvinnuleysistryggingar. Upplýsingar um atvinnuleysistryggingar eru aðgengilegar á heimasíðu Vinnumálastofnunar auk þess sem stofnunin heldur kynningarfundi fyrir atvinnuleitendur. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og með vísan til röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. október 2011 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður 

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum