Hoppa yfir valmynd
16. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 154/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. október 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 154/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málavextir eru þeir að Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, A, með bréfi, dags. 4. júlí 2011, um ákvörðun sína frá 28. júní 2011 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá og með 4. júlí 2011 þar sem skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væru ekki uppfyllt. Kæranda var jafnframt tilkynnt að réttur hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta yrði felldur niður í þrjá mánuði frá og með 4. júlí 2011 skv. 59. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig var kæranda gert að greiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 21. janúar til 19. apríl 2011, samtals 358.170 kr. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og hún eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í sex mánuði. Jafnframt krefst kærandi þess að „tal um svik“ af sinni hálfu verði dregið til baka og viðurkennt að hún hafi komið fram í málinu eins og vænta hefði mátt miðað við þær upplýsingar sem hún fékk. Vinnumálastofnun fer fram á að málinu verði vísað frá þar sem það sé of seint fram komið. Til vara krefst Vinnumálastofnun þess að ákvarðanir í máli kæranda verði staðfestar.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænum hætti 1. desember 2010. Hinn 13. desember sama ár kom kærandi á skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu og staðfesti umsókn sína. Við það tækifæri veitti hún upplýsingar um mögulegar tilfallandi tekjur sínar hjá B. Í framhaldi af þeim upplýsingum sem lágu fyrir um umsókn hennar til atvinnuleysisbóta sendi Vinnumálastofnun henni tvö bréf, bæði dagsett 27. desember 2010. Efni annars bréfsins laut að vinnu kæranda hjá B og hitt laut að ástæðum þess að hún hafi hætt námi við Háskóla Íslands. Varðandi efni fyrra bréfsins svaraði kærandi því á þá leið, með rafpósti, dags. 30. desember 2010, að ekki væri um vinnu að ræða heldur „fría starfsþjálfun“.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 24. janúar 2011, var henni tilkynnt að fallist hefði verið á umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta en vegna þess að hún hafi hætt í námi án gildra ástæðna væri greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar frestað um tvo mánuði. Þessi ákvörðun, að fresta greiðslum til hennar í tvo mánuði, var felld niður með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. október 2011. Þetta atriði í samskiptum Vinnumálastofnunar og kæranda kemur því ekki til endurskoðunar í þessu máli.

Það er ekki deilt um það í málinu að kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. janúar til 19. apríl 2011, samtals 358.170 kr. Í mars 2011 barst Vinnumálastofnun ábending um að kærandi væri titluð sölufulltrúi hjá B Á netsíðunni C, þann 21. mars 2011, var nafn kæranda sem og netfang hennar gefið upp sem tengiliður við B. Í auglýsingu var kærandi sögð vera sölufulltrúi hjá fyrirtækinu. Þá átti kærandi eigið fyrirtæki, D, sem var stofnað samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá 14. febrúar 2011, en dagsetning samþykkta er 5. janúar 2011.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. maí 2011, kom fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hafi verið við vinnu hjá fasteignasölunni B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu var meðal annars vísað til 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og kæranda veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum fyrir 24. maí 2011. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að bærust andmæli ekki fyrir tilskilinn tíma myndi stofnunin taka ákvörðun um rétt hennar til frekari greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Með rafbréfi, dags. 22. maí 2011, hafnaði kærandi því að hafa brotið á skyldum sínum sem atvinnuleitandi. Í bréfinu var vísað til skilgreininga á hugtökunum launamanni og sjálfstætt starfandi einstaklingi í a–b-liðum 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kvaðst hvorki hafa verið launamaður hjá B né neinum öðrum. Jafnframt taldi kærandi sig ekki vera sjálfstætt starfandi einstakling vegna þess að „D, sem ég á eignarhlut í og keypti í febrúar til að reyna að stunda fasteignaviðskipti, hefur enn ekki getað greitt mér laun fell ég heldur ekki undir ofangreinda skilgreiningu“. Jafnframt bætti kærandi við að þar sem hún hafi verið launalaus teldur hún „ekki forsendur til að beita þeim viðurlögum sem þið nefnið í bréfi ykkar“. Þessu til viðbótar tók kærandi fram að „hugmyndir mínar um að selja fasteignir eru ekki búnar að gefa af sér neinn ágóða og er ég í virkri atvinnuleit, við að reyna að selja fasteignir og við að reyna að finna mér önnur störf“. Að endingu tók kærandi fram að meint brot sín á 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ættu ekki við rök að styðjast enda hafi hún greint skilmerkilega frá áformum sínum í fyrsta viðtali sínu við þjónustufulltrúa stofnunarinnar í desember 2010.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 31. maí 2011, var óskað eftir nánari upplýsingum um að hún væri eigandi að D. án þess að hafa tilkynnt um slíkt til stofnunarinnar. Þessu bréfi svaraði kærandi efnislega með bréfi, dags. 13. júní 2011. Í bréfi kæranda kom meðal annars fram að hún teldi Vinnumálastofnun hafa brotið á 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við meðferð málsins þar sem sú ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar hafi hvorki verið framkvæmd með sannanlegum hætti né hafi hún verið tilkynnt að lágmarki fimm virkum dögum fyrir greiðsludag. Jafnframt kom fram í bréfi kæranda að hún hafi haft tilfallandi tekjur í desember 2010 og síðan engar tekjur fyrr en hún hafi komist í hlutastarf hjá D. í maí 2011 og síðan í fullt starf frá 1. júní 2011. Kærandi kveðst hafa gert skilmerkilega grein fyrir þessu.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 4. júlí 2011, þá ákvörðun sína frá 28. júní 2011 að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar með vísan til þess að skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit væru ekki uppfyllt. Var kæranda jafnframt birt ákvörðun stofnunarinnar að fella niður rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, sbr. 59. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 358.170 kr. fyrir tímabilið 21. janúar til 19. apríl 2011. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar og var hann sendur kæranda með bréfi, dags. 12. ágúst 2011.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar 14. nóvember 2011. Í kærunni kveður kærandi Vinnumálastofnun hafa brugðist leiðbeiningarskyldu sinni með því að vekja ekki athygli á vinnumarkaðsúrræði 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Segist kærandi hafa komið til Vinnumálastofnunar með viðskiptahugmynd, en hafi ekki verið bent á að sækja um þróun eigin viðskiptahugmyndar. Kærandi gerir kröfu um að Vinnumálastofnun greiði sér atvinnuleysisbætur í sex mánuði líkt og samningur um þróun eigin viðskiptahugmyndar hafi verið samþykktur. Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að tal um svik af hennar hálfu verði dregið til baka og viðurkennt að hún hafi komið fram í málinu eins og vænta hafi mátt miðað við þær upplýsingar sem hún hafi fengið.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar sem send var úrskurðarnefndinni, dags. 16. apríl 2012, að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar gerð grein fyrir því hvað felist í virkri atvinnuleit. Af ákvæðinu megi sjá að strangar kröfur séu gerðar til þeirra er þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga um að vera virkir í atvinnuleit. Uppfylli sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum augljóslega ekki skilyrði þess að teljast virkur í atvinnuleit í skilningi ákvæðisins á sama tíma og málsaðili sinnir rekstri fyrirtækis eða sölustörfum hjá fasteignasölu, hvort sem slík störf eru launuð eða ekki.

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi enn fremur að lögin skuli gilda um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Það sé ljóst að kærandi starfi í þágu fyrirtækis í eigin eigu við sölu fasteigna. Sé því ráðningarsamband til staðar milli kæranda og einkahlutafélags í hennar eigu. Á netsíðunni C, þann 21. mars 2011, hafi nafn kæranda sem og netfang hennar verið gefið upp sem tengiliður við B. Í auglýsingu sé kærandi sögð vera sölufulltrúi hjá fyrirtækinu. Sé ekki hægt að fallast á að kærandi uppfylli skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og teljist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hún sinni störfum hjá fasteignasölu. Í bréfi sínu til Vinnumálastofnunar 22. maí 2011 segist kærandi ekki geta talist launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi ekki getað greitt sér laun fyrir störf sín. Vinnumálastofnun vekur athygli á því að kærandi sé sjálf launagreiðandi sem um ræði og að skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Verði ekki fallist á það að kærandi hafi ekki starfað við sölu fasteigna í þágu eigin fyrirtækis einungis sökum þess að hún greiddi sér ekki laun á tímabilinu.

Ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir hafi verið tekin á grundvelli 14. gr. og 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur er bent á 3. mgr. 9. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar séu gefnar komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að samkvæmt gögnum máls þessa hafi kærandi hafið störf í desember 2010. Hafi kærandi tjáð stofnuninni að um starfsþjálfun hafi verið að ræða. Stofnuninni hafi ekki verið gert ljóst að kærandi hafi starfað í þágu eigin félags eða um áframhaldandi störf sem fasteignasali. Telji Vinnumálastofnun að í umrætt sinn hafi kærandi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um veigamikil atriði er höfðu áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Í ljósi skýrra fyrirmæla tilvitnaðra lagagreina telji Vinnumálastofnun að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

Vinnumálastofnun bendir á að með bréfi, dags. 7. október 2011, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurfellingu á biðtíma. Með bréfi þessu hafi ákvörðun stofnunarinnar frá 21. janúar 2011 verið afturkölluð. Ákvörðun stofnunarinnar frá 4. júlí 2011 hafi því ekki ítrekunaráhrif. Kærandi geri ekki kröfu um að Vinnumálastofnun falli frá afturköllun í máli sínu. Kærandi hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar 14. nóvember 2011 og hafi kærufrestur vegna annarra ákvarðana í máli hennar þá verið liðinn. Vinnumálastofnun telur því að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2012. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í þessu máli er verið að endurskoða ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var á fundi 28. júní 2011 og tilkynnt kæranda með bréfi 4. júlí 2011. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 7. október 2011, að fella niður ákvörðun um tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta frá því í janúar 2011, er ekki tekin til umfjöllunar í þessu máli. Á hinn bóginn er litið svo á að ákvörðunin frá 28. júní 2011 hafi verið breytt í október 2011 þannig að kærandi skyldi sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í stað þriggja mánaða biðtíma.

Aðalkrafa Vinnumálastofnunar er sú að máli þessu verði vísað frá þar sem kæra barst utan kærufrests. Á þessa kröfu verður ekki fallist. Að fenginni beiðni kæranda um rökstuðning fyrir hinn kærðu ákvörðun þá var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2011. Þessi rökstuðningur var skriflegur og var í honum vísað til þess að kæra til úrskurðarnefndarinnar vegna hans skyldi hafa borist innan þriggja mánaða frá því að hann var birtur kæranda. Þessar leiðbeiningar voru í samræmi við 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar er meðal annars tekið fram að kærufrestur hefst ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur kæranda. Rökstuðningurinn var veittur með bréfi sem er dagsett föstudaginn 12. ágúst 2011. Því má ætla að rökstuðningurinn hafi borist kæranda eigi síðar en þriðjudaginn 16. ágúst 2011 og við það hafi hinn þriggja mánaða kærufrestur hafist. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni mánudaginn 14. nóvember 2011. Í samræmi við 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, telst kæran því hafa borist innan kærufrestsins.

Í hinni endanlegu kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar fólst að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru stöðvaðar, henni gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslur atvinnuleysisbóta og að lokum var hún krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 358.170 kr. Kærandi hafnar þessum málalyktum.

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni með því að hafa ekki leiðbeint sér um úrræði stofnunarinnar „Eigið frumkvöðlastarf“ og því eigi stofnunin að greiða sér atvinnuleysisbætur í sex mánuði. Á þessar málsástæður kæranda verður ekki fallist. Þegar kærandi sótti í upphafi um greiðslu atvinnuleysisbóta gaf hún sjálf í skyn að viðvera sín hjá B væri „frí starfsþjálfun“. Starfsmenn Vinnumálastofnunar brutu því á engan hátt skyldum sínum með því að hafa ekki bent kæranda á þann möguleika að sækja um fyrrnefnt vinnumarkaðsúrræði. Engar upplýsingar lágu fyrir hjá Vinnumálastofnun í upphafi árs 2011 sem gáfu til kynna að kærandi félli sérstaklega vel að þessu vinnumarkaðsúrræði. Einnig stóð kæranda til boða að kynna sér þetta málefni sjálf en upplýsingar um atriði af þessum toga eru meðal annars að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Kærandi krefst þess að „tal um svik“ af sinni hálfu verði dregið til baka og viðurkennt að hún hafi komið fram í málinu eins og vænta hefði mátt miðað við þær upplýsingar sem hún fékk. Verði á þessa kröfu fallist, stendur eftir sem áður það úrlausnarefni óleyst hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á réttum lagagrundvelli. Þessi krafa felur því í sér að viðurkenna eigi einhverjar málsástæður sem þó leysa ekki úr þeim kæruatriðum sem tekist er á um. Af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að vísa þessum kröfulið frá úrskurðarnefndinni.

Telja verður að það liggi fyrir í þessu máli að kærandi hafi í ársbyrjun 2011 staðið að stofnun einkahlutafélags sem átti meðal annars að sinna starfsemi á sviði fasteignasölu. Kærandi er stjórnarformaður félagsins og hefur verið það frá öndverðu, sbr. samþykktir félagsins, dags. 5. janúar 2011. Jafnframt liggur fyrir að kærandi var titluð sem sölufulltrúi á B eigi síðar en 21. mars 2011. Kærandi gerði engan reka að því að skýra frá þessum breyttu högum sínum heldur þáði hún áfram greiðslur atvinnuleysisbóta eins og ekkert hefði í skorist. Með vísan til ofangreinds var rétt af hálfu Vinnumálastofnunar að hefja rannsókn á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur og hvort kærandi hafi þá þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þessi rannsókn hófst með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. maí 2011. Miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir hefði í bréfi Vinnumálastofnunar átt að vísa til svohljóðandi 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 10. gr. laga nr. 134/2009:

„Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.“

Í bréfi Vinnumálastofnunar skorti á að tekið væri nægjanlega skýrt fram að fyrirhugað væri að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli þessa lagaákvæðis. Þetta er þýðingarmikið þar sem eðli málsins samkvæmt er íþyngjandi fyrir atvinnuleitanda ef greiðslur atvinnuleysisbóta eru stöðvaðar með skömmum fyrirvara. Þessi ágalli í málsmeðferðinni breytir því ekki að kærandi nýtti tækifæri sitt til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun Vinnumálastofnunar og reiddi fram upplýsingar sem ótvírætt bentu til þess að hún væri ekki í virkri atvinnuleit. Jafnframt verður til þess að líta að í niðurlagi bréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. maí 2011, kom fram að ef engin andmæli bærust, myndi stofnunin taka ákvörðun um rétt hennar til frekari greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með vísan til þessa verður talið að Vinnumálastofnun hafi ekki brotið á 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þannig að þýðingu hafi haft um réttar lyktir málsins.

Með hliðsjón af gögnum málsins verður talið nægjanlega í ljós leitt að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit frá og með 21. janúar 2011. Þetta stafar meðal annars af því að verkefni tengd fasteignasölu eru órjúfanlega tengd þeirri staðreynd að engin laun fást greidd fyrir slík verkefni fyrr en við sölu fasteigna. Með vísan til þessa var kærandi að sinna verkefnum sem fólu í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hún gat vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir. Þessi staða kæranda var í ósamræmi við g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt braut kærandi á skyldu sinni skv. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segir að atvinnuleitandi skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að vera á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti. Þessu til viðbótar verður talið að kærandi hafi veitt villandi upplýsingar um hagi sína þegar hún í rafpósti til Vinnumálastofnunar, dags. 30. desember 2010, kvaðst vera í frírri starfsþjálfun hjá B. Engan reka gerði hún að því að leiðrétta þessa upplýsingagjöf þótt hún hafi eftir þetta tímamark stofnað einkahlutafélag og verið titluð sem sölufulltrúi hjá B.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu verður talið að rétt hafi verið af Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá og með 20. apríl 2011, sbr. ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 4. júlí 2011.

Í málinu liggur fyrir að Vinnumálastofnun hefur tekið þá ákvörðun að kærandi skuli sæta viðurlögum sem felast í tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður talið að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun, er hún starfaði við fasteignasölu jafnhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að láta vita af því fyrir fram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna.

Telja verður að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. janúar til 19. apríl 2011. Ekki er tölulegur ágreiningur um það á milli aðila að sú fjárhæð sé 358.170 kr. Með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga atvinnuleysistryggingar verður ákvörðun Vinnumálastofnunar um þessa endurgreiðslu staðfest.

Með vísan til alls ofangreinds, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Þeirri kröfu kæranda, að „tal um svik“ af sinni hálfu verði dregið til baka og viðurkennt að hún hafi komið fram í málinu eins og vænta hefði mátt miðað við þær upplýsingar sem hún fékk, er vísað frá.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda, A, er staðfest. Jafnframt er sú ákvörðun staðfest að kæranda eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Einnig skal kærandi endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, 358.170 kr.

                                           

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum