Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 21/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 1. september 2010 hafnað rétti hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta. Ástæðan var sú að kærandi var í 93% hlutastarfi hjá B. Meðaltekjur kæranda námu 222.712 kr. og að frádregnu frítekjumarki, 59.047 kr., var skerðingin meiri en réttur hennar til atvinnuleysisbóta. Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi, sbr. 17. og 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og atvinnuleysisbótum skv. 21.–34. gr. laganna eru hærri en sem nemur óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. 36. gr. laganna skal skerða atvinnuleysisbæturnar um helming þeirra tekna sem umfram eru. Kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 17. ágúst 2009–19. júlí 2010, samtals að fjárhæð 98.348 kr., sem Vinnumálastofnun ákvað að innheimta skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði C hdl., hana fyrir hönd kæranda, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 25. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir hinni kærðu ákvörðun frá 16. september 2010. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2010. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið í 93% starfi hjá B og hafi fengið 7% atvinnuleysisbætur. Með hinni kærðu ákvörðun hafi bætur hennar verið felldar niður og hún krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Af hálfu kæranda er á því byggt að við meðferð málsins hafi Vinnumálastofnun ekki farið eftir þeim meginreglum sem í gildi séu varðandi góða stjórnsýsluhætti og hafi stuðlað að því að krafa sú sem stofnunin haldi nú fram hafi orðið til. Kærandi telji ljóst að þær ofgreiðslur sem hér um ræði hafi eingöngu stafað af því að Vinnumálastofnun hafi ekki í störfum sínum gætt að því að réttur til bótagreiðslna væri til staðar og með greiðslum til kæranda myndað smátt og smátt stofn til endurgreiðslu. Kærandi óskar þess að kærunefndin taki afstöðu til þess og skoði sérstaklega hvernig staðið hafi verið að afgreiðslu máls hennar og leggi mat á það með hvaða hætti Vinnumálastofnun hafi nálgast málið. Hún telji það með öllu ótækt að það sé látið undir höfuð leggjast að kanna með viðhlítandi hætti hver réttindi umsækjenda atvinnuleysisbóta séu og að þeim sé, í tilfellum eins og hennar, greiddar út bætur án þess að réttur til þeirra sé til staðar. Kærandi bendir á að hún sé fremur tekjulág og umræddar ofgreiðslur hafi á sínum tíma komið henni vel. Það sé henni þungbært að vera nú krafin um endurgreiðslu enda sé um töluverða fjárhæð að ræða. Kærandi hafi verið í góðri trú um að hún ætti rétt til greiðslnanna og hafi því tekið athugasemdalaust við þeim.

 

Af hálfu kæranda er bent á að það sé ekki í samræmi við 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hversu síðbúinn rökstuðningur Vinnumálastofnunar á máli þessu var og ætti það eitt og sér að nægja til þess að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 6. júní 2011, er meðal annars vísað í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að launamaður sem missir starf sitt að hluta teljist hlutfallslega tryggður samkvæmt lögunum og nemi tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr. laganna, og þess starfshlutfalls sem hann gegni áfram frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögunum.

 

Enn fremur vitnar Vinnumálastofnun í 1. mgr. 36. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna umsækjanda. Fram kemur að í samræmi við tilvitnaða 1. mgr. laga um atvinnuleysistrygginga hafi tekjur vegna starfa kæranda hjá B komið til frádráttar atvinnuleysisbótum á tímabilinu. Samanlagðar tekjur hennar fyrir 93% vinnu, að frádregnu frítekjumarki hafi numið hærri upphæð en réttur hennar til atvinnuleysistrygginga. Hafi safnast upp skuld, samtals að fjárhæð 98.348 kr. í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar, á sama tíma og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnunni.

 

Þegar skerðing vegna hlutastarfs nemi meira en réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga sé ljóst að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé ekki fyrir hendi. Þrátt fyrir atvik í máli kæranda telji Vinnumálastofnun að henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur er hún hafi fengið greiddar fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

 

Vinnumálastofnun bendir á að samkvæmt 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi. Hafi ofgreiðsla bóta komið til vegna annmarka er rekja megi til Vinnumálastofnunar skuli fella niður álag. Vinnumálastofnun geri ekki kröfu um 15% álag enda megi rekja ástæður fyrir atvikum í máli þessu til mistaka hjá Vinnumálastofnun. Þó ofgreiðsla atvinnuleysistrygginga til kæranda starfi af ástæðum sem rekja megi til stofnunarinnar sé ljóst að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur sem hún eigi ekki rétt á. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að innheimta ofgreiddar atvinnuleysistryggingar hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Kærandi beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 98.348.  

 

 Lögmanni kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. 

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 17. ágúst 2009 og fékk í kjölfarið greiddar 7% atvinnuleysisbætur, en hún var jafnframt í 93% starfi hjá B. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 1. september 2010 var tekin ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um og krefja hana um ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 16. september 2010.

 

Í 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að launamaður sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum.

 

Í 1. mgr. 36. gr. laganna segir að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.

 

Eins og á stóð í máli kæranda nam skerðing vegna hlutastarfs meira en rétti hennar til atvinnuleysistrygginga og er því ljóst að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistryggingar eru ekki fyrir hendi. Sú ákvörðun er því staðfest að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda.

 

Vinnumálastofnun krefur kæranda einnig um ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals 98.348 kr. Vinnumálastofnun gerir ekki kröfu um greiðslu 15% álags enda má rekja ástæður máls þessa til mistaka hjá Vinnumálastofnun. Krafa stofnunarinnar er reist á svohljóðandi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddur til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Í þessu máli er ekki ágreiningur á milli aðila um heildarfjárhæð endurgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar. Hins vegar telur kærandi að endurkrafan eigi sér ekki stoð í lögum þar eð stofnunin hafi gert mistök við meðferð málsins og kærandi hafi í góðri trú tekið á móti greiðslu atvinnuleysisbóta. Á þessar málsástæður kæranda verður ekki fallist. Löggjafinn hefur tekið af öll tvímæli um að Vinnumálastofnun geti ávallt krafið þann um endurgreiðslu sem hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. fyrstu tvo málsliði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi Vinnumálastofnun gert mistök, sem leitt hafa til ofgreiðslu atvinnuleysisbóta, er stofnunin óheimilt að krefjast 15% álags, sbr. lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Krafa Vinnumálastofnunar er því í samræmi við lög og verður á hana fallist.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að A endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 98.348 kr. er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum