Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 163/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 163/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið staðin að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 2. júlí til 19. ágúst 2011 þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 249.219 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ný ákvörðun verði tekin í máli hans. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 29. október 2009. Þann 2. júlí 2011, í eftirlitsferð fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, var komið að kæranda við störf hjá fyrirtækinu X ehf. Eftirlitsferðir eru farnar samkvæmt heimild í 4. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010. Með bréfi, dags. 4. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hafi ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar, þar sem hún hafi verið staðin að vinnu hjá X ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.

Af hálfu kæranda kemur fram að í byrjun júlí 2011 hafi hún verið á landsmóti Z. X ehf. hafi verið með bás á svæðinu og hafi hún tekið að sér að aðstoða í básnum þegar aðilar frá RSK hafi komið. Hún hafi verið alveg meðvituð um það enda hafi þeir tekið niður nafn hennar og kennitölu. Þar sem engar launagreiðslur hafi komið til, hafi hún hins vegar ekki áttað sig á því að hún hefði þurft að tilkynna til Vinnumálastofnunar að hún hefði verið þarna aðeins til aðstoðar. Í bréfi X ehf., dags. 29. desember 2011, sem er meðal gagna málsins, er staðfest að kærandi hafi aldrei verið á launaskrá hjá X ehf. Um mánaðamótin júní/júlí 2011 hafi verið tekinn sölubás á landsmóti Z, í nafni fyrirtækisins. Aðilar sem hafi tekið að sér að standa í básnum hafi meðal annars lent í veikindum og hafi kærandi komið þeim til aðstoðar, en hún hafi ekki þegið laun við þá aðstoð.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. mars 2012, kemur fram að kæranda hafi með bréfi, dags. 14. september 2011, verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hún hafi verið í vinnu hjá fyrirtækinu X ehf. samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfi þessu hafi kæranda einnig verið veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessa. Kærandi skilaði inn skýringum til Vinnumálastofnunar þess efnis að hún hafi verið að aðstoða við bás X ehf. á landsmóti Z. Kærandi segist ekki hafa þegið laun fyrir aðstoðina, en eigendur X ehf. séu venslamenn hennar.

Vinnumálastofnun bendir á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Fram kemur að í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.

Vísað er í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að af samkvæmt eftirlitsfulltrúum aðila vinnumarkaðarins hafi kærandi verið við störf hjá X ehf. á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar frá Vinnumálastofnun. Það sé óumdeilt að kærandi hafi verið við störf á bás X ehf. á landsmóti Z án þess að tilkynna tilfallandi starf til Vinnumálastofnunar. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Beri því að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og skuli kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í samræmi við fyrirmæli 60. gr. laganna skuli þeim sem sæti viðurlögum á grundvelli ákvæðisins jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið við störf þann 2. júlí 2011. Beri henni því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 2. júlí til 19. ágúst 2011 að fjárhæð 249.219 kr. með 15% álagi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. apríl 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar, með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.

Samkvæmt gögnum þessa máls aðstoðaði kærandi venslamenn sína, þann 2. júlí 2011, í bás á landsmóti Z. Hún fékk ekki greitt fyrir aðstoðina. Í ljósi þessarar atvikalýsingar kemur því eingöngu til skoðunar hvort beita eigi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi orðið uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar.

Í framangreindum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir um þá lagagrein sem varð að 35. gr. a að tilkynningarskyldan sé liður í því að koma í veg fyrir að þeir sem verði uppvísir að því að vinna á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna geti komið með þá skýringu að eingöngu sé um tilfallandi vinnu að ræða, jafnvel þótt vinnan hafi staðið yfir í einhvern tíma. Sé þetta því liður í bættu eftirliti með því að koma í veg fyrir að þeir sem séu virkir á vinnumarkaði geti jafnframt fengið greiddar atvinnuleysisbætur eða sætt biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna á sama tíma.

Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um virka atvinnuleit og í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem uppfyllir það skilyrði að vera í virki atvinnuleit, sbr. 14. gr., teljist tryggður samkvæmt lögunum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra. Í orðskýringum við a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að launamaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt sé tryggingagjald vega starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Af gögnum þessa máls má ráða að kærandi aðstoðaði, án þess að þiggja laun fyrir, í einn dag í bás á útihátíð. Ekki verður fallist á þá túlkun Vinnumálastofnunar að það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi hafi ekki brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að hrinda hinni kærðu ákvörðun. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með því tímamarki sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar voru stöðvaðar, að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

 

Úrskurðarorð

Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. október 2011 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er hrundið. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með því tímamarki sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar voru stöðvaðar, að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum