Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 83/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 83/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 23. febrúar 2011 tekið ákvörðun um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur skv. c-lið 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ástæðan var sú að kærandi var í námi. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 24. maí 2011. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 17. nóvember 2010. Afgreiðsla umsóknar hans var frestað þar sem hann gat ekki hafið störf fyrr en 1. janúar 2011 eins og fram kemur í samskiptasögu og vinnuveitandavottorð lá ekki fyrir. Vottorðið barst Vinnumálastofnun þann 17. desember 2011.

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 3. febrúar 2011, kemur fram að hann sé í MBA námi í Háskóla Íslands og sé á annarri önn af fjórum. Á vorönn 2011 hafi hann verið í 24 ECTS einingum. Næstu önn þar á eftir yrði hann í 18 ECTS. Nám þetta sé hugsað samhliða starfi og sé kennt aðra hverja helgi, föstudag og laugardag. Námið sé ekki lánshæft til framfærslu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi telur sig eiga rétt á atvinnuleysisbótum skv. 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. júlí 2011, áréttar stofnunin að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „námi“ sem samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Vinnumálastofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er mælt fyrir um réttindi námsmanna. Fram kemur að í rökstuðningi kæranda sem fylgi með kæru hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segi að kærandi hafi fengið inngöngu í áðurgreint nám áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur og að námið sé enn fremur ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun bendir á að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði. Meðal skilyrða sem þurfi að vera uppfyllt sé að námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, og að námið kunni að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Það sé mat stofnunarinnar að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt því ákvæði teljist hann ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann sé skráður í nám.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júlí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. ágúst 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

 

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna eiga ekki við í máli kæranda þar sem hann lagði, á vorönn 2011, stund á 24 ECTS einingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. febrúar 2011 í máli A um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum