Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli AA, nr. 23/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, AA, um atvinnuleysisbætur var hafnað á fundi Vinnumálastofnunar þann 28. janúar 2011. Ástæðan var sú að vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við bótarétt sinn. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. mars 2010 en umsókn hennar var hafnað á þeim grundvelli að vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum nægði ekki til þess að mynda lágmarksbótarétt, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hún sótti aftur um atvinnuleysisbætur 2. júlí 2010. Umsókninni fylgdi landbúnaðarskýrsla, en engin staðfesting á greiðslu tryggingagjalds eða staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafði kærandi ekki greitt reiknað endurgjald eða tryggingagjald á ávinnslutímabili og var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 30. ágúst 2010, sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Mál kæranda var endurupptekið 28. janúar 2011 með tilliti til nýrra gagna en afrit af skattframtali hennar hafði borist Vinnumálastofnun 30. desember 2010. Samkvæmt skattframtalinu sem og upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafði kærandi hvorki greitt reiknað endurgjald né tryggingagjald á skattaárunum 2008–2010 og var umsókn hennar um atvinnuleysisbætur því hafnað með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. janúar 2011.

Kærandi kveður BB hafa rekið búið á jörð hennar síðan það hafi verið stofnað árið 1990 og greitt tryggingargjald og laun hennar. Það hafi skilað landbúnaðarframtali vegna rekstrarársins 2009 þann 7. júní 2010 og hafi það verið hluti af framtali kæranda og maka hennar vegna þess að félagsbúið hafi ekki verið sjálfstæður skattaðili. Hún kunni ekki að skýra ástæðu þess. Ríkisskattstjóri hafi ekki lokið athugun sinni á skýrslunni fyrr en þann 29. desember 2010 sem jafnframt hafi verið leiðrétting á álagningu, sama dag hafi verið sent inn afrit af framtalinu til Vinnumálastofnunar sem hafi hafnað því þann 28. janúar 2011. Samkvæmt vottorði vinnuveitenda, BB, dags. 15. mars 2010, lét kærandi af störfum þann 28. febrúar 2010 vegna þess að fyrirtækið hætti.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 8. júlí 2011, kemur fram að í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í b-lið 3. gr. laganna komi fram að hver sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum sé gert að standa mánaðalega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Þá komi fram í 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Vinnumálastofnun bendir á að það sé ljóst að þegar umsókn kæranda hafi verið tekin til skoðunar hafi ekki verið staðið skil á mánaðarlegri staðgreiðslu af sjálfstæðum atvinnurekstri vegna tekjuáranna 2008–2010 og reiknist því ekki bótahlutfall vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda á þeim tíma.

Í ljósi ummæla kæranda í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi Vinnumálastofnun leitað eftir afdráttarlausri staðfestingu frá ríkisskattstjóra um skattaskil kæranda. Í tölvupósti til Vinnumálastofnunar, dags. 7. júlí 2011, frá fulltrúa ríkisskattstjóra segi meðal annars að kærandi sé hvorki með reiknað endurgjald eða greidd laun í staðgreiðslu 2008, 2009, 2010 eða 2011. Á skattframtali 2009 séu ekki talin fram nein laun. Á skattframtali 2010 séu talin fram laun frá BB 1.350.000 kr., án þess að gerð sé grein fyrir þeim launum í staðgreiðslu.B sé ekki sjálfstæður skattaðili. Ef kærandi sé aðili að félagsbúinu beri henni að skila reiknuðu endurgjaldi sem einstaklingur, eða vera með reiknað endurgjald maka ef maki hennar er skráður fyrir búinu.

Vinnumálastofnun kveður ljóst af framangreindu að kærandi hafi ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda og uppfylli því ekki skilyrði 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi skýrra fyrirmæla h-liðar 18. gr. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telji Vinnumálastofnun að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. júlí 2011, og var henni veittur frestur til 9. ágúst 2011 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt landbúnaðarskýrslu sem var fylgiskjal með skattframtali kæranda 2010 og er meðal gagna málsins stundaði kærandi búskap. Hún sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 28. janúar 2011 en var hafnað eins og fram hefur komið. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn þess efnis að hún hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts. Í skjalfestum upplýsingum frá ríkisskattstjóra til Vinnumálastofnunar sem eru meðal gagna málsins var kærandi ekki með reiknað endurgjald árin 2008, 2009, 2010 eða 2011. Hún taldi fram laun á skattframtali 2010 án þess að gera grein fyrir þeim launum í staðgreiðslu. Það liggur því fyrir að kærandi hefur ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts og uppfyllir því ekki skilyrði h-liðar 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja AA um atvinnuleysisbætur er staðfest.

  

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum