Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2011

Miðvikudaginn 25. janúar 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. nóvember 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. nóvember 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. nóvember 2011, um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að hann hafi verið á innlendum vinnumarkaði sex mánuði fyrir fæðingu barns.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 1. desember 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. desember 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hafi verið tekjulaus á tímabilinu 3.–11. apríl 2011. Hann hafi byrjað að vinna hjá B 11. apríl 2011 og hafi starfað þar síðan. Fæðingarorlofssjóður hafi greint frá því að allir sem vinni a.m.k. 25% starfshlutfall síðustu sex mánuði fyrir fæðingu eigi rétt á fæðingarorlofi. Kærandi kveðst hafa verið ráðinn tímabundið fyrstu mánuðina og fengið laun greidd eftir á, þannig að launatímabilið hafi verið frá 16. hvers mánaðar til 15. næsta mánaðar á eftir. Kærandi kveður Fæðingarorlofssjóð líta á launaseðil hans á þann hátt að hann hafi einungis unnið á tímabilinu 11.–15. apríl. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið starf sem S í byrjun janúar 2011 en verið sagt upp rúmlega mánuði seinna vegna fjárhagserfiðleika. Hann hafi verið atvinnulaus til 11. apríl 2011. Kærandi kveðst ekki hafa átt rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hann hafi verið skráður í 9 eininga nám í kvöldskóla.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 23. ágúst 2011, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 1. október 2011. Með umsókn kæranda hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 4. ágúst 2011, vottorð um væntanlega barnsfæðingu, dags. 23. ágúst 2011, staðfesting á umgengnisrétti forsjárlauss foreldris í fæðingarorlofi, dags. 25. október 2011, fæðingarvottorð, dags. 11. október 2011, launaseðlar fyrir júní og júlí 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. nóvember 2011, hafi athygli kæranda verið vakin á því að samkvæmt tekjum hans í apríl 2011 virtist hann ekki ná 25% starfshlutfalli í þeim mánuði. Hafi kæranda verið leiðbeint um hvað jafnframt teldist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Í framhaldinu hafi borist yfirlit um tímaskráningu kæranda hjá vinnuveitanda hans í apríl ásamt launaseðli þess mánaðar og skýringum vinnuveitanda í tölvupósti, dags. 7. nóvember 2011. Einnig hafi kærandi upplýst í símtali við Fæðingarorlofssjóð þann 8. nóvember 2011 að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum í apríl 2011 þar sem hann hafi verið skráður í skóla.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kæranda hafi verið sent bréf að nýju, dags. 8. nóvember 2011, þar sem fram komi að samkvæmt upplýsingum úr innsendum gögnum og skýringum og samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK verði ekki ráðið að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.),  þar sem engar tekjur séu skráðar á hann á tímabilinu 3.–10. apríl 2011.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 13. gr. ffl., sbr. 7. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum teljist starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011, sé skilgreint hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. Þannig komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðist við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almanna­tryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda sé fætt Y. október 2011. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé frá 3. apríl 2011 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt skrám ríkisskattstjóra sé kærandi með laun frá B í apríl 2011 og fram að fæðingu barns. Samkvæmt tímaskráningu hafi hann hafið störf hjá B 11. apríl 2011 og samkvæmt tölvupósti frá vinnuveitanda kæranda, dags. 7. nóvember 2011, komi fram að kærandi hafi verið starfsmaður fyrirtækisins frá og með 11. apríl 2011. Sé það jafnframt staðfest í bréfi frá vinnuveitanda, dags. 8. nóvember 2011, sem fylgt hafi með kæru, sem og í kærunni sjálfri. Í símtali kæranda við Fæðingarorlofssjóð, dags. 8. nóvember 2011, hafi komið fram að hann hafi verið í skóla og því ætti hann ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 3.–10. apríl 2011. Sé það einnig staðfest í kæru.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að samkvæmt framangreindu verði ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði ákvæðanna tímabilið 3.–10. apríl 2011.

Enga heimild sé að finna í ffl. eða í reglugerð sem sett hafi verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. ffl.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. nóvember 2011, um að synja kæranda um greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingar barns hinn Y. október 2011.

Af hálfu kæranda er haldið fram að nægilegt sé að hafa verið í 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns til þess að eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum. Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. er tekið fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þannig taka lögin einungis til foreldra sem teljast starfsmenn, þ.e. eru í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 13. gr. þurfa foreldrar, sem eru í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi getur því aðeins átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, að hann hafi verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns hans.  

Fæðingardagur barns kæranda er Y. október 2011. Samkvæmt því er sex mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið frá Y. apríl 2011 fram að fæðingardegi barnsins Y. október s.á.  

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 136/2011, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. b-lið 4. gr. laga nr. 136/2011, telst eftirfarandi jafnframt til þátttöku á innlendum vinnumarkaði:

 

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Óumdeilt er að kærandi var atvinnulaus áður en hann hóf störf hjá B hinn 11. apríl 2011. Eftir að kæra barst hefur nefndin jafnframt aflað staðfestingar Vinnumálastofnunar-Greiðslustofu á því að kærandi hafi ekki átt tilkall til atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 3. til 11. apríl 2011 sökum þess að hann hafi verið í skóla og ekki með námssamning við Vinnumálastofnun. Af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki fyrrgreint skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Einungis vantar nokkra daga upp á að kærandi uppfylli framangreint skilyrði ffl. Hins vegar er enga heimild að finna í ffl. né reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns sem átt getur við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls þessa er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum