Hoppa yfir valmynd
22. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2011

Fimmtudaginn 22. september 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. júlí 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. júlí 2011. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. maí 2011, um að synja kæranda um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna, nr. 22/2006, vegna barns hennar, B.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins sem barst með bréfi, dags. 15. ágúst 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. ágúst 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um foreldragreiðslur, greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og þann 27. maí 2011 hafi umsókn hennar verið synjað. Hafi ástæða synjunarinnar verið sú að foreldrar fengu framlengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda barnsins og því öðlist móðir ekki rétt til launatengdra greiðslna sbr. 29. gr. laga nr. 22/2006.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast barn Y. september 2009. Barnið hafi strax eftir fæðingu verið lagt inn á vökudeild. Rannsóknir hafi fljótlega leitt í ljós að barnið væri með Prader-Willi heilkenni. Barnið hafi verið mikið veikt fyrstu mánuðina og hafi meðal annars fengið næringu í gegnum sondu fyrstu þrjá mánuðina. Vegna veikinda og erfiðleika með barnið hafi foreldrarnir fengið framlengingu á fæðingarorlof. Þegar fæðingarorlofi hafi lokið vorið 2010 hafi ekki verið tímabært að fara út á vinnumarkað vegna heilsu og þroska barnsins. Því hafi kærandi sótt um sjúkradagpeninga frá VR og fengið þá samþykkta vegna veikinda/fötlunar þess. Haustið 2010 hafi þeim boðist vistun hálfan daginn á X en X þjónusti þá sem búa við mesta fötlun og geta ekki nýtt sér almenn tilboð. Kærandi hafi því séð fram á að geta farið í hlutastarf og fékk þá sjúkradagpeninga á móti þeirri vinnu.

Þegar réttur til sjúkradagpeninga hafi verið fullnýttur sótti kærandi um launatengdar foreldragreiðslu samkvæmt lögum nr. 22/2006, á þeirri forsendu að undirrituð gæti ekki sinnt fullri vinnu vegna veikinda/ fötlunar barnsins.

Kærandi telur það ekki réttláta meðferð mála að framlenging á fæðingarorlofi útiloki foreldragreiðslur til foreldra á vinnumarkaði. Barnið hafi verið mikið veikt fyrstu þrjá mánuði lífsins og því hafi þau fengið framlengingu á fæðingarorlofi. Í kjölfar veikindanna hafi barnið greinst með litningagalla, Prader-Willi heilkenni, sem krefjist mikillar umönnunar og vinnu foreldra. Eitt af einkennum barna með Prader-Willi heilkenni séu erfiðleikar við fæðuinntöku en síðan taki við óstjórnleg matarlyst. Því sé það verkefni foreldra fyrst að koma næringu í barnið og um leið að passa upp á að venja barnið á fæði sem sé orkusnautt til að koma í veg fyrir síðari tíma vandamál með offitu. Einnig sé barnið seint í þroska og þurfi mikla örvun og aðhald í daglegu lífi. Hafi foreldrarnir verið í tengslum við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og fengið þar ráðgjöf.

Vegna veikinda/fötlunar barnsins hafi kærandi ekki haft möguleika á að fara í fullt starf þegar fæðingarorlofi lauk. Bæði hafi aðeins verið mögulegt að fá vistun hálfan daginn á X og aðrir vistunarmöguleikar eins og dagmæður hafi ekki staðið til boða fyrir barn eins og barnið hennar.

Það hafi því verið góður kostur að geta farið út á vinnumarkaðinn hálfan daginn og fá sjúkradagpeninga á móti þeirri vinnu. Þegar þau réttindi hafi verið fullnýtt hafi verið eðlilegt að sækja um foreldragreiðslur þar sem fötlun barnsins hafi verið ástæða þess að kærandi var ekki í fullri vinnu.

Kærandi greinir frá því að veikindum barnsins hafi ekki verið lokið eftir fyrstu þrjá mánuðina heldur hafi tekið við mikil umönnun og vinna foreldranna sem tengist heilkenni barnsins. Möguleikar á að afla fjölskyldunni tekna séu því takmarkaðir og eðlilegt að geta sótt um foreldragreiðslur á móti hlutavinnu. Það að hafa fengið framlengingu á fæðingarorlofi ætti ekki að útiloka þann möguleika.

Þá greinir kærandi frá því að hún telji 29. gr. laga nr. 22/2006 eigi ekki endilega við í þessu tilviki þar sem ekki hafi verið sótt um foreldragreiðslur strax að loknu fæðingarorlofsgreiðslum heldur í kjölfar þess að hún fór aftur út á vinnumarkaðinn og fullnýtti rétt sinn til sjúkradagpeninga.

 

II.

Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í málinu liggi fyrir umsókn kæranda, um foreldragreiðslur sem foreldri á vinnumarkaði, dags. 18. apríl 2011, læknisvottorð C, barnalæknis, dags. 13. apríl 2011, staðfesting frá fyrri vinnuveitanda um starfshlutfall fyrir fæðingu og frá núverandi vinnuveitanda um hlutastarf ásamt staðfestingu á lokum greiðslna úr sjúkrasjóði. Þá liggi einnig fyrir staðfesting á því að kærandi fékk framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

Tryggingastofnun ríkisins greinir frá því að í fyrrgreindu læknisvottorði og umsókn kæranda komi fram að barið hafi greinst með Prader-Willi heilkenni fljótlega eftir fæðingu. Því fylgi aðallega þroskavandi, einkenni frá miðtaugakerfi, en einnig mikil vanspenna í vöðvum og erfiðleikar við fæðuinntöku fyrstu árin. Komi fram að barnið fái daglega lyfjameðferð vegna síns sjúkdóms en einnig að barnið sé á fyrirbyggjandi sýklalyfjum vegna þvagfærabakflæðis. Barnið sé í sjúkraþjálfun og sé með pláss á Lyngási hálfan daginn en móðir sé í hlutastarfi og hafi fengið greidda sjúkradagpeninga á móti þeirri vinnu en ekki lengur.

Tryggingastofnun ríkisins vísar til þess að í 1. mgr. 29. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum, komi fram að þegar barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun meðan foreldar þess eru í fæðingarorlofi eða fá greiddan fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldrarnir ekki jafnframt rétt á greiðslum skv. III. eða IV. kafla laganna vegna sama barns á þeim tíma. Þá komi fram í 2. mgr. að foreldrar skv. 1. málsl. sem eigi rétt á framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda eða fötlunar barnsins öðlist jafnframt ekki rétt til greiðslna skv. III. kafla laganna þegar fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks lýkur en þeir geta þá átt rétt á greiðslum skv. IV. kafla laganna að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi fengið samþykkta framlengingu á fæðingarorlofi og með vísan til ofangreinds hafi hún því ekki átt rétt á greiðslum samkvæmt III. kafla laganna, þ.e. sem foreldri á vinnumarkaði, eftir að fæðingarorlofi og greiðslu sjúkradagpeninga lauk, hvorki fullar greiðslur né hlutfallslegar. Þá hafi hún ekki heldur átt rétt á almennri fjárhagsaðstoð samkvæmt IV. kafla laganna, þ.e. 19. gr. laganna, þar sem hún sé í 40% hlutastarfi.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur til foreldra á vinnumarkaði, skv. III. kafla laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna með bréfi, dags. 27. maí 2011.

Barn kæranda er fætt Y. september 2009. Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði þurfti barn kæranda að dveljast á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu til Y. september 2009. Kærandi hafi því fengið framlengingu á fæðingarorlof í 16 daga skv. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) en þar kemur fram að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði fékk kærandi einnig framlengingu á fæðingarorlof vegna alvarlegra veikinda barnsins í þrjá mánuði skv. 1. mgr. 17. gr. ffl. en þar segir að einnig sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Samkvæmt III. kafla laga nr. 22/2006 getur foreldri átt rétt á tekjutengdum greiðslum sem foreldri á vinnumarkaði að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 29. gr. laganna er hins vegar fjallað um ósamrýmanleg réttindi. Í 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. kemur fram að þegar barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun meðan foreldrar þess eru í fæðingarorlofi eða fá greiddan fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof öðlist foreldrarnir ekki jafnframt rétt til greiðslna skv. III. eða IV. kafla laganna vegna sama barns á þeim tíma. Í 2. málsl. ákvæðisins kemur fram að foreldrar sem svo sé ástatt um, þ.e. foreldrar sem eiga rétt á framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks, öðlist jafnframt ekki rétt til greiðslna skv. III. kafla þegar fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks lýkur. Þeir geti hins vegar átt rétt á greiðslum skv. IV. kafla laganna að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Foreldrar skv. 2. málsl. geta síðar átt rétt á greiðslum skv. III. kafla laganna þegar skilyrði 28. gr. laganna eiga við skv. lokamálsl. 2. mgr. 29. gr.

Fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 29. gr. laga nr. 22/2006, um að foreldrar sem eigi rétt á framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda eða fötlunar barnsins öðlist jafnframt ekki rétt til greiðslna skv. III. kafla laganna þegar fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks lýkur, er afdráttarlaust þess efnis að eftir að foreldrar hafa fengið framlengingu á fæðingarorlofi eigi þau ekki tilkall til greiðslna skv. III. kafla laga nr. 22/2006, þegar framlengingu á fæðingarorlofi lýkur. Ekki er að finna undanþágu hvorki í lögum nr. 22/2006 né í reglugerð, nr. 1277/2007, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna til að víkja frá umræddu ákvæði, en kærandi uppfyllir ekki skilyrði 28. gr. laganna. Þar sem kærandi fékk framlengingu á fæðingarorlof vegna veikinda barnsins skv. 2. mgr. 17. gr. ffl. er óhjákvæmilegt að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslum til foreldra á vinnumarkaði skv. III. kafla laga nr. 22/2006.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram það álit stofnunarinnar að kærandi eigi ekki heldur rétt til greiðslna skv. IV. kafla laga nr. 22/2006, þar sem kærandi sé í 40% starfi. Af gögnum málsins fæst ekki séð að fyrir liggi stjórnsýsluákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um þetta atriði. Þá lýtur kæran í málinu ekki að þessum þætti og mun því úrskurðarnefndin ekki fjalla nánar um það.  

Rétt þykir að vekja athygli kæranda á því að skv. upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði á hún enn eftir að taka út réttindi skv. 1. mgr. 17. gr. ffl., þ.e. 16 daga í fæðingarorlofi, vegna sjúkrahúslegu barnsins strax eftir fæðingu. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 8. gr. ffl. fellur réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar niður er barn nær 36 mánaða aldri. Þar sem barn kæranda hefur ekki enn náð 36 mánaða aldri er réttur kæranda til 16 daga í fæðingarorlofi enn í gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslur samkvæmt III. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum