Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2010

Miðvikudaginn 3. nóvember 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. september 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. september 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. ágúst 2010, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Með bréfi, dags. 13. september 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 15. september 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. september 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um framlengingu á fæðingarorlofi vegna fæðingarþunglyndis sem hafi byrjað á meðgöngu en því hafi fylgt mikil vanlíðan. Þá greinir kærandi frá því að hún sé fyrst eftir sjö mánaða streð með barnið farin að geta notið þess að vera í fæðingarorlofi. Hún hafi leitað sér aðstoðar læknis sem hafi tjáð henni að hægt væri að fara þá leið að óska eftir framlengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda svo hún gæti byggt sig upp andlega, tengst barninu og notið orlofsins. Kærandi hafi bundið miklar vonir við þetta.

Enn fremur bendir kærandi á að sér þyki miður að andlegir sjúkdómar sem geti verið mjög alvarlegir hljóti ekki sömu meðferð í kerfinu og hinir líkamlegu. Fæðingarþunglyndi sem og annað þunglyndi geti verið mjög alvarlegt.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 6. nóvember 2009, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns sem fæddist Y. janúar 2010. Samkvæmt tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 3. nóvember 2009, hafi kærandi óskað eftir því að orlofstíma yrði dreift á átta mánuði frá og með fæðingardegi barns. Í framhaldinu hafi kæranda verið send greiðsluáætlun, dags. 18. janúar 2010, með útreikningum á væntanlegum greiðslum til hennar sem ekki hafi verið gerð nein athugasemd við.

Þann 19. ágúst 2010 hafi Fæðingarorlofssjóði borist læknisvottorð, dags. 18. ágúst 2010, vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu. Þann 30. ágúst 2010 hafi kæranda verið synjað um framlengingu á fæðingarorlofi þar sem ekki hafi verið séð að veikindi hennar mætti rekja til fæðingarinnar.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, þar sem fram kemur að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segi að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í málum nr. 43/2009 og 10/2010.

Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt sé að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem koma upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis. Jafnframt þurfa veikindin að vera þess eðlis að móðir sé ófær að annast barnið af þeim völdum.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að í læknisvottorði B, dags. 18. ágúst 2010, komi fram að sjúkdómsgreining sé þunglyndi R45.2, kvíði 146 og svefnleysi F51. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu segi: „Meðgangan gekk vel. Engin sjúkdómur fyrir hendi þá.“ Í lýsingu á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi orðrétt: „[...] átti sitt annað barn í janúar sl. Það er heilbrigð stúlka. Hún hefur verið mjög óvær og kröfuhörð á móður sína. Hún hefur lítið sofið á nóttunni og [...] verið illa sofin í lengri tíma. Þetta hefur svo valdið kvíða og vanlíðan hjá [...] sem svo aftur veldur verri samskiptum hennar við aðra fjölskyldumeðlimi. Hún hefur ekki heldur náð að mynda eðlileg tengsl við dóttur sína. Í byrjun júlí sáum við hér á heilsugæslunni að ekki mátti við þetta una. [...] hefur síðan gengið til sálfræðings og notað þunglyndislyf. Við ræddum saman í vikunni. Nú gengur allt mun betur, hún er hætt að fá grátköst og reiðiköst og telpan er orðin mikið værari en hún var. [...] er mjög þreytt eftir þennan erfiða tíma og núna fyrst að ná þeirri innri ró sem er svo mikilvæg við tengslamyndun móður og barns. Þess vegna þarf hún lengingu á fæðingarorlofi sínu.“ Enn fremur greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að samkvæmt læknisvottorðinu hafi kærandi verið skoðuð 7. júlí 2010 og hafi þá verið staðreynt að um greindan sjúkdóm væri að ræða eða hálfu ári eftir fæðingu barnsins þann Y. janúar 2010.

Loks greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að af læknisvottorðinu verði ekki séð að veikindi kæranda megi rekja til fæðingarinnar. Ekkert virðist hafa komið upp á í fæðingunni sjálfri heldur virðist dóttir kæranda hafa verið óvær og kröfuhörð á kæranda eins og fram komi í læknisvottorðinu. Það hafi leitt til þess að kærandi hafi verið illa sofin í lengri tíma sem hafi valdið hjá henni kvíða og vanlíðan. Þá telur Fæðingarorlofssjóður að ekki verði heldur séð að veikindi kæranda hafi verið þess eðlis að hún hafi verið ófær að annast barn sitt af þeim völdum.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf dags. 30. ágúst 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. ágúst 2010, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda hennar eftir fæðingu barns.

Í 3. mgr. 17. gr. ffl. er kveðið á um að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Jafnframt segir í athugasemdunum að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Í 5. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 14. gr. laga nr. 74/2008, kemur meðal annars fram að rökstyðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis.

 

Kærandi ól barn Y. janúar 2010. Í læknisvottorði B, dags. 18. ágúst 2010, eru heiti sjúkdóma hennar tilgreind sem þunglyndi, kvíði og svefnleysi. Vottorðið er reifað hér að framan en þar kemur fram að barn kæranda hafi lítið sofið á nóttunni og kærandi hafi verið illa sofin í lengri tíma. Þetta hafi valdið kvíða og vanlíðan hjá kæranda sem hafi leitt til þess að starfsfólk heilsugæslunnar ávísaði henni þunglyndislyfjum og sálfræðimeðferð. Kærandi sé mjög þreytt eftir þennan erfiða tíma og sé núna fyrst að fá innri ró sem sé svo mikilvæg í tengslamyndun móður og barns. Því þurfi kærandi að fá lengingu fæðingarorlofs.

Til þess að veikindi, hvort heldur sem er líkamleg eða geðræn, veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfa þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3. mgr. 17. gr. ffl. Af framangreindu læknisvottorði verður hins vegar ekki séð að mati nefndarinnar að þau veikindi kæranda sem þar eru greind megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar. Þá verður heldur ekki talið að veikindi kæranda hafi verið þess eðlis að hún hafi verið ófær um að annast barnið, en það er sérstaklega áskilið í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 sem skilyrði fyrir framlengingu orlofs, sbr. einnig greinargerð með frumvarpi til 17. gr. ffl. Með hliðsjón framangreindu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um rétt til lengingar fæðingarorlofs í tilviki kæranda. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum