Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 77/2011

Miðvikudaginn 24. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 77/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dagsettri 20. júní 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 27. maí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Kærendur hafi eignast fasteignina D við fráfall dóttur þeirra, en búa sjálf að C.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 27. maí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að D í Reykjavík 14.700.000 kr. Verðmat íbúðarinnar nam 110% af fasteignamati eða 16.170.000 kr., en áhvílandi veðlán á fasteigninni voru 20.099.917 kr. Í ákvörðun Íbúðalánasjóðs kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar X sem metin er á 430.466 kr., auk innstæðna á bankareikningi, alls 7.691.197 kr. Auk fasteignarinnar að C í Reykjavík eru kærendur einnig eigendur fasteignanna að E sem metin er á 465.000 kr., F sem metin er á 8.025.000 kr. og C sem metin er á 17.400 kr. Aðfararhæfar eignir kærenda nema því samtals 34.087.172 kr. Íbúðalánaskuldir vegna D nema samtals 20.099.917 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 22. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 27. júní 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 29. júní 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning íbúðarlána vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Kærendur segja að þeim hafi verið neitað um endurútreikning þar sem þau eigi aðra íbúð sem þau búi í, en íbúðin að D hafi verið færð yfir á þeirra nafn við andlát dóttur þeirra. Kærendur segjast vera komin á eftirlaun og hafi aldrei ætlað sér að standa í rekstri íbúða á efri árum.

Kærendur gera kröfu um að lánin á íbúðinni verði færð niður í 110% til þess að auðvelda kærendum rekstur hennar og jafnvel sölu hennar. Þau kjósi heldur að Íbúðalánasjóður taki íbúðina yfir, til þess að kærendur lendi ekki á vanskilaskrá vegna áhvílandi veðlána. Kærendur benda á að fasteignamat fasteignarinnar hafi lækkað en lánið hafi hækkað, nú sitji þau uppi með íbúðina og geti ekkert aðhafst. Kærendur segjast vera í erfiðri aðstöðu vegna málsins, bæði fjárhagslega og tilfinningalega. Þau hafi þurft að ganga í gegnum mjög sára lífsreynslu, en við bætist nú að þau sitji uppi með fjárhagslegar skuldbindingar sem þau eigi enga möguleika á að standa undir. Því treysti þau því að mál þeirra fái sanngjarna meðferð.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að samkvæmt niðurstöðu útreikninga vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteigna, sé íbúðalán umfram 110% af fasteignamati íbúðar kærenda að D 3.929.917 kr. Útreikningar og gögn sýni að mun hærri aðfararhæfar eignir með veðrými hafi verið í eigu kærenda um síðustu áramót, þ. á m. bankainnstæður að fjárhæð um 8,3 milljónir króna, auk tveggja annarra fasteigna og bifreiða í eigu kærenda. Því hafi kærendum verið synjað um niðurfærslu lána Íbúðalánasjóðs.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Verður hér leyst úr þeim ágreiningi sem upp hefur komið í tengslum við ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að hafna umsækjendum um niðurfærslu veðlána á fasteigninni að D.

Í máli þessu liggur fyrir að íbúðarlán hjá Íbúðalánasjóði er umfram 110% af skráðu fasteignamati íbúðar kærenda. Íbúðalánasjóður synjaði kærendum um endurútreikning íbúðarláns þeirra þar sem aðfararhæfar eignir með veðrými í eigu kærenda voru töluvert hærri en áhvílandi íbúðarlán.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Ekki er um það deilt að eignir kærenda eru hærri en sem nemur mismuni á áhvílandi veðláni og verðmati fasteignar miðað við 110% mat hennar.

Íbúðalánasjóði ber að fylgja fyrrgreindum reglum og er þar ekki að finna undanþágur, í þeim tilvikum þegar sérstaklega standi á hjá umsækjendum. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kærenda, dags. 27. júní 2011 er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Umrædd ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, og er kærufrestur nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun á endurútreikning á lánum A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum