Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 A

gegn

Byggðastofnun

 

Byggðastofnun setti á laggirnar sérstakan lánaflokk fyrir fyrirtækjarekstur kvenna á starfssvæði stofnunarinnar í því skyni að ýta undir fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir konur í byggðum landsins. Kærandi taldi lánaflokkinn brjóta gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi var ekki talinn hafa einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn um ágreiningsefnið. Málinu var því vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 17. febrúar 2015 er tekið fyrir mál nr. 7/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með ódagsettri kæru, móttekinni 5. desember 2014, kærði A ákvörðun Byggðastofnunar að setja á laggirnar sérstakan lánaflokk fyrir fyrirtækjarekstur kvenna á starfssvæði stofnunarinnar. Kærandi telur að lánveitingar afmarkaðar á þennan hátt brjóti gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Kærunefndin ritaði kæranda bréf, dagsett 8. desember 2014, þar sem greint var frá að aðild einstaklings að málum fyrir nefndinni væri bundin því skilyrði að viðkomandi hefði einstaklingbundna og lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreiningsefnisins. Kærunefndin óskaði því eftir að kærandi rökstyddi nánar aðild sína að kæruefninu. Svar barst frá kæranda með bréfi, dagsettu 10. desember 2014.

    MÁLAVEXTIR

  4. Á fundi stjórnar Byggðastofnunar 14. nóvember 2014 var samþykkt að setja á laggirnar sérstakan lánaflokk fyrir fyrirtækjarekstur kvenna á starfssvæði stofnunarinnar í því skyni að ýta undir fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir konur í byggðum landsins. Vísað var til þess að ákvörðunin væri byggð á heimild í 7. tölul. 2. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi kom á framfæri kæru við kærunefnd jafnréttismála af þessu tilefni.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  5. Kærandi telur lánaflokk Byggðastofnunar stangast á við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Nýi lánaflokkurinn veiti konum forgang að lánum með lægri vöxtum og setji vægari kröfur um veð. Í lögum nr. 10/2008 sé að finna heimild til sértækra aðgerða til að veita öðru kyninu tímabundinn forgang til að ná fram jafnvægi. Lög nr. 10/2008 veiti ekki heimild til þess að bjóða konum betri kjör og gera vægari kröfur um veð. Þá sé ekki að finna svigrúm fyrir forgang kvenna í stjórnarskránni en þar sé skýrt kveðið á um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann eigi hagsmuna að gæta þar sem hann sé karlmaður og fái ekki að njóta sömu kjara og konum sé boðið í nýja lánaflokknum. 

    NIÐURSTAÐA

  6. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

  7. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu er skilyrði kæru til nefndarinnar að kærandi hafi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefnisins. Slíku er ekki borið við af hálfu kæranda heldur er á því byggt að í lánveitingum Byggðastofnunar felist kynbundin mismunun og að hann sem karlmaður eigi hagsmuna að gæta. Því er á hinn bóginn ekki borið við af hálfu kæranda að hann sé meðal lántaka hjá Byggðastofnun eða hafi sótt um lánafyrirgreiðslu hjá stofnuninni. Þannig hefur ekki verið á því byggt af hálfu kæranda að hann hafi persónulega hagsmuni umfram aðra einstaklinga af úrlausn þess erindis sem hér er borið undir kærunefndina. Þar sem á það hugtaksskilyrði skortir verður að vísa máli þessu frá kærunefnd jafnréttismála.

     

 Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum