Hoppa yfir valmynd
9. september 2000 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 21/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 21/1999:

 

A

gegn

Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, vegna Skólaskrifstofu Suðurlands

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 9. september 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I.

Inngangur

Með bréfi dags. 14. desember 1999 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislög, hefðu verið brotin við tímabundna ráðningu í stöðu forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands en í stöðu þessa var ráðið hinn 1. desember 1999. Erindi kæranda fylgdu ýmis gögn, m.a. bréfaskipti kæranda og stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands.

Erindi kæranda var kynnt kærða, SASS, með bréfi dags. 27. desember 1999. Var þar m.a. með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem gáfu kost á sér í stöðuna, menntun og starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var, hæfnisröð þeirra sem gáfu kost á sér, hvað hafi ráðið vali þess sem ráðinn var, fjöldi og kyn forstöðumanna á vegum SASS, auk annarra upplýsinga.

Með bréfi SASS, dags. 17. janúar 2000, ásamt fylgiskjölum, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum SASS við erindi kæranda.

Með bréfi dags. 21. janúar 2000 var kæranda kynnt erindi SASS, dags. 17. janúar 2000, og óskað umsagnar kæranda. Var sú umsögn veitt með bréfi dags. 4. febrúar 2000, þar sem athugasemdir voru gerðar við fyrrgreint erindi SASS, auk þess sem nánari upplýsingar voru m.a. veittar um náms- og starfsferil kæranda. Með bréfi dags. 14. mars 2000 var SASS gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda og komu þær athugasemdir SASS fram í erindi dags. 6. apríl 2000.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar, og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Með lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem tóku gildi 22. maí 2000, ákvæði til bráðabirgða, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, en nefndin hafði þá ekki lokið umfjöllum um mál þetta. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún þá við meðferð máls þessa. Álit þetta er veitt á grundvelli laga nr. 28/1991, sem í gildi voru á þeim tíma þegar tilvísuð ráðning átti sér stað.

II.

Málavextir

Á fundi stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands, sem haldinn var 25. nóvember 1999, var tekið fyrir bréf þáverandi forstöðumanns skrifstofunnar þar sem hann óskaði eftir eins árs leyfi frá störfum, frá 1. desember 1999 að telja. Samþykkti stjórnin að veita umbeðið leyfi, en samþykkti jafnframt eftirfarandi tillögu: "Stjórn samþykkir að fela formanni að leita eftir því við starfsmenn skrifstofunnar hvort einhver hafi hug á starfi forstöðumanns á meðan hann er í leyfi. Niðurstaða stjórnar liggi fyrir 1. des. nk."

Formaður stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands kannaði í framhaldi af þessu hug starfsmanna til stöðunnar og leiddi sú athugun í ljós, að tveir starfsmenn höfðu áhuga á stöðunni, karl sem ráðinn var og kærandi. Að sögn SASS fór stjórn skrifstofunnar yfir og bar saman menntun umræddra aðila og starfsreynslu í ráðgjafarstörfum, skv. fyrri umsóknargögnum og öðrum gögnum sem fyrir lágu á skólaskrifstofunni, á fundi sínum 30. nóvember 1999. Taldi stjórnin menntun og reynslu viðkomandi álíka, en með tillit til ákveðinna áherslubreytinga í starfsemi skrifstofunnar, ákvað stjórnin að leggja það til að karlinn, B, yrði ráðinn í starfið. Á fundi stjórnar SASS, hinn 1. desember 1999, var samþykkt samhljóða að fenginni tillögu stjórnar skólaskrifstofu, að ráða karlinn, sem er sálfræðingur, í stöðuna til 31. desember 2000.

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er litið svo á að henni hafi verið mismunað vegna kynferðis við ráðningu forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands. Tveir aðilar hafi gefið kost á sér í stöðuna, karlmaður og hún, en ekki hafi verið gætt jafnréttissjónarmiða við ráðningu í stöðuna. Telur kærandi að engin rök séu fyrir því að karlmaðurinn skyldi tekinn framfyrir kæranda. Í því sambandi bendir kærandi á að enginn forstöðumanna stofnana SASS sé kona, og vísar kærandi jafnframt til starfsmannastefnu SASS, sem gerir ráð fyrir, að gætt skuli ítrustu jafnréttissjónarmiða við ráðningar og tilfærslur í störfum innan SASS.

Telur kærandi að hún hafi á fundi með formanni stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands hinn 26. nóvember 1999 lýst því yfir að hún hefði áhuga á að taka að sér stöðu forstöðumanns meðan á tímabundnu leyfi stóð. Hafi því legið fyrir, að fleiri en einn sóttist eftir viðkomandi stöðu. Á hinn bóginn telur kærandi, að stjórnarformaður Skólaskrifstofu Suðurlands hafi ekki upplýst stjórn SASS um áhuga sinn á starfinu. Þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu í starfið virðist sem að stjórn SASS hafi álitið að engir aðrir hafi boðið sig fram til starfsins og að nafn hennar hafi ekki borið á góma á þeim fundi.

Kærandi hefur upplýst, að hún hafi lokið kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972, stundað framhaldsnám við Kennaraháskóla Íslands á árinu 1974 (fyrri hluta sérkennaraprófs), stundað nám í sérkennslufræðum í Háskólanum í Pittsburgh árin 1989-1990, tekið BA gráðu í sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1992 og lokið meistaraprófi í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla á árinu 1999.

Kærandi starfaði sem kennari og sérkennari við Grunnskóla Reykjavíkur á árunum 1972-1975, sérkennari við barna- og gagnfræðaskólann í Neskaupstað á árunum 1976-1991, kennsluráðgjafi við Fræðsluskrifstofu Suðurlands árin 1991-1996, en sérkennslufulltrúi við Skólaskrifstofu Suðurlands frá þeim tíma. Að auki hefur kærandi sótt ýmis starfsréttindanámskeið, stundað rannsóknir og þróunarstörf, haldið fyrirlestra og haft umsjón með fræðslufundum, og m.a. sótt endurmenntunarnámskeið. Þá telur kærandi sig hafa reynslu af sveitarstjórnarstörfum en kærandi hafi verið um átta ára skeið varabæjarfulltrúi.

Telur kærandi að hún hafi verið hæfari en sá sem ráðinn var, bæði að því er varðar menntun og starfsreynslu.

Kærandi hafnar þeim skýringum SASS að áherslubreytingar í starfsemi skrifstofunnar sem fram hafi komið í bréfi formanns stjórnar skólaskrifstofu, dags. 12. desember 1999, sbr. og bréf SASS til kærunefndar jafnréttismála, dags. 17. janúar 2000, enda geti þær ekki átt við rök að styðjast. Bendir kærandi að á fundi stjórnar skólaskrifstofu hinn 25. nóvember 1999 hafi stjórnin samþykkt að fela formanni að leita eftir því hvort einhver starfsmanna skrifstofunnar hefði hug á starfi forstöðumanns, en ekki hafi verið ástæða til að leita til kennsluráðgjafanna, ef aldrei hafi staðið til að ráða þá. Dregur kærandi í efa að sérstaklega hafi verið óskað eftir að vægi sálfræðiþjónustu yrði aukið enda liggi ekki fyrir nein skrifleg gögn um það. Oftsinnis hafi hins vegar verið óskað eftir aukinni þjónustu yfirleitt. Í þessu sambandi bendir kærandi á að með ráðningu B sem forstöðumanns hafi sálfræðiþjónusta í reynd verið skert þar sem hann hafi tekið við starfi forstöðumanns, en sálfræðingur sem ráðinn hafi verið, gegni hlutastarfi. Telur kærandi að engin fagleg umræða hafi farið fram um þessa endurskipulagningu og að hún sé ekki í samræmi við stofnsamning um Skólaskrifstofu Suðurlands en í stofnsamningnum sé að finna starfslýsingu fyrir forstöðumann.

III.

Sjónarmið SASS

Af hálfu SASS er á því byggt að á fundi Skólaskrifstofu Suðurlands hinn 25. nóvember 1999, er forstöðumanni skrifstofunnar var veitt leyfi frá störfum, hafi stjórnin ákveðið að auglýsa ekki starfið en falið formanni að kanna hvort einhver starfsmanna hefði hug á stöðunni. Formaðurinn kannaði hug starfsmanna og kom í ljós að tveir höfðu áhuga á stöðunni. Í umsögn SASS frá 17. janúar 2000 kemur fram að á fundi stjórnar skólaskrifstofu hinn 30. nóvember 1999 hafi verið farið yfir og borin saman menntun þeirra tveggja og starfsreynsla í ráðgjafastörfum, samkv. fyrri umsóknargögnum og öðrum gögnum sem fyrir lágu á skólaskrifstofu. Töldu stjórnarmenn skólaskrifstofu menntun þeirra og starfsreynslu álíka. Með tilliti til ákveðinna áherslubreytinga sem stjórnarmenn vildu sjá í starfsemi skrifstofunnar ákvað stjórnin að leggja það til að karlinn yrði ráðinn í starfið. Á fundi stjórnar SASS, hinn 1. desember 1999, var samþykkt að fenginni tillögu stjórnar skólaskrifstofu að ráða karlinn, B, sálfræðing, í starfið. Í umsögn SASS, dags. 17. janúar 2000, kemur jafnframt fram að í gögnum sem lágu fyrir stjórnarfundi þessum hafi allur ferill málsins verið ljós en ekki hafi verið spurt sérstaklega um hverjir starfsmanna skólaskrifstofunnar hefðu sýnt starfinu áhuga. Eftir á að hyggja teldi stjórn SASS að heppilegra hefði verið að geta beggja einstaklinganna sem áhuga höfðu á starfi forstofumanns í fundargerð stjórnar skólaskrifstofu. Það hefði þó engu breytt um niðurstöðu ráðningarinnar.

Af því er varðar áherslubreytingar í starfsemi skrifstofunnar tekur SASS fram að frá því að Skólaskrifstofa Suðurlands tók til starfa hafi alla tíð verið kvartað yfir því að sálfræðiþjónusta skrifstofunnar þyrfti að vera meiri. Við tímbundið brotthvarf forstöðumanns hafi verið ákveðið að reyna að mæta þessum óskum með endurskipulagningu meðal annars með því að breyta viðfangsefnum forstöðumanns, s.s. varðandi lagaleg og stjórnsýsluleg álitaefni, ráðgjöf varðandi kjarasamninga, framkvæmd endurmenntunar o.fl. Jafnframt tekur SASS fram, að með því að ráða sálfræðing, teldi stjórn skrifstofunnar meiri líkur á að áherslur á aukna sálfræðiþjónustu næðu fram að ganga. Ákveðið hefði verið að nota árið til að kanna hvernig þessi áherslubreyting kæmi út. Sú afstaða stjórnar skólaskrifstofunnar, að ráða sálfræðing til starfans, hafi ekki verið fullmótuð fyrr en á fundi stjórnar skólaskrifstofunnar hinn 30. nóvember 2000. Þess var getið að síðan hefði verið ráðinn nýr sálfræðingur til starfa, þannig að hlutur sálfræðiþjónustu hefði nú þegar vaxið töluvert.

Af hálfu SASS kemur fram, að umræddar áherslubreytingar séu innan ramma stofnsamnings um skólaskrifstofuna, en samningurinn geri ráð fyrir, að skólaskrifstofan sinni ákveðnum þjónustuþáttum í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, og við það hafi verið staðið, enda hafi aðildarsveitarfélög ekki gert athugasemdir við umrætt fyrirkomulag á aðalfundi, sem haldinn var í mars 2000. Að því er varðar óskir um aukna sálfræðiþjónustu skrifstofunnar vísar SASS t.d. til könnunar skólaskrifstofunnar, sem kynnt hafi verið haustið 1997.

Í umsögn SASS kemur fram að á vegum SASS starfi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Skólaskrifstofa Suðurlands. Samkvæmt skipuriti SASS fer framkvæmdastjóri SASS með yfirstjórn starfseminnar, en hann er karl. Næstu undirmenn hans eru framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits, sem er karl, forstöðumaður skólaskrifstofu, sem er karl og skrifstofustjóri, sem er kona.

Í gögnum sem SASS lagði fyrir kærunefnd jafnréttismála kemur fram, að B, sem ráðinn var í umrætt starf, lauk stúdentsprófi árið 1979 og BA prófi í sálarfræði frá HÍ 1989. B lauk prófi í uppeldisfræðum til kennsluréttinda frá HÍ árið 1990 og lauk mastersprófi (master of science) í hagnýtri sálarfræði frá háskóla í Minnesota árið 1992. B starfaði sem sálfræðingur hjá Fræðsluskrifstofu Suðurlands frá árinu 1992-1997 auk aukastarfa við sálfræðilega ráðgjöf frá árinu 1992. Frá 1997 starfaði B sem sálfræðingur á Skólaskrifstofu Suðurlands. Þá var B um 6 mánaða skeið við starfsnám í Minnesota.

Af því er kennslureynslu varðar hefur B verið kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri síðan árið 1997 (fjarkennsla). Þá hefur B kennt á ýmsum námskeiðum og stundað forfallakennslu. B hefur stundað rannsóknir, tilraunir o. fl., sbr. náms- og starfsferilsskrá sem lögð hefur verið fram í málinu.

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála, að tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 hafi verið að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Í því skyni skyldi sérstaklega bæta stöðu kvenna. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun stöðu kynjanna, og voru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti.

Skv. 6. gr. laganna var óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar. Atvinnurekandi skyldi, ef máli var vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. var kveðið á um að öll laus störf skyldu standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. var að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti bæri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar var tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar. Túlka verður jafnréttislögin nr. 28/1991 svo að ef umsækjendur af gagnstæðu kyni teljast ámóta hæfir, þá skyldi ráða umsækjanda sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Tilgangi laganna verði ekki náð með öðrum hætti, sbr. 1. gr., 1. ml. 3. gr. og 5. gr. laga nr. 28/1991.

Fyrir liggur að ráðning í stöðu forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands var tímabundin og var staðan ekki auglýst laus til umsóknar. Stjórn skólaskrifstofunnar samþykkti á fundi sínum hinn 25. nóvember 1999 að leita eftir því hjá starfsmönnum skrifstofunnar, hvort þeir hefðu hug á starfinu. Með vísan til þessa, 2. og 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991, sbr. og starfsmannastefnu SASS frá 3. nóvember 1999, bar að gæta þess við ráðninguna, að hún væri í samræmi við ákvæði jafnréttislaga.

Líta verður svo á, að við mat á hæfni umsækjenda um starf hjá opinberum aðila, skuli sá sem stöðuna veitir leggja til grundvallar þau atriði, sem talið er að varpi ljósi á hæfni umsækjenda til að gegna því starfi sem um ræðir. Ræðst það af aðstæðum í hverju tilfelli hvaða sjónarmið leggja skal til grundvallar, en við það mat ber að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða í samræmi við stjórnsýslulög og jafnréttislög, hér lög nr. 28/1991.

Á fundi stjórnar skólaskrifstofunnar, þar sem ákveðið var að mæla með ráðningu B, munu hafa verið tiltæk gögn varðandi þá sem um ræðir, m.a. vegna fyrri umsókna.

Fyrri liggur, að kærandi lauk kennaraprófi árið 1972, hlaut B.A. gráðu í sérkennslufræðum frá Kennaraskóla Íslands árið 1992 og lauk meistaraprófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999. Jafnframt er upplýst, að kærandi stundaði nám í sérkennslufræðum í Pittsburgh í Bandaríkjunum árin 1989-1990. Sá sem ráðinn var lauk stúdentsprófi 1979, B.A. prófi í sálarfræði frá HÍ 1990 og mastersprófi í hagnýtri sálarfræði frá háskóla í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1992.

Kærandi og sá sem ráðinn var hafa báðir lokið meistaranámi, en á nokkuð mismunandi sviðum. Nám kæranda getur ekki á almennan mælikvarða talist standa námi þess sem ráðinn var að baki, nema síður sé.

Að því er starfsreynslu varðar liggur fyrir, að kærandi hefur mun lengri starfsreynslu en sá sem ráðinn var. Kærandi hefur starfað að kennslu- og ráðgjafarmálum allt frá árinu 1972, þar af við kennsluráðgjöf frá árinu 1991 og sem sérkennslufulltrúi frá árinu 1996. Með vísan til þess, að starfsreynsla kæranda á sviði kennslu- og skólamála telst mun meiri en þess sem ráðinn var, verður að álíta kæranda hafa staðið framar að því er þennan þátt varðar.

Kemur þá til skoðunar, hvort líta megi svo á, að sérstakir kostir þess sem ráðinn var, kunni að leiða til þess að hann hafi engu að síður mátt teljast standa kæranda framar við ráðninguna. Í þessu sambandi hefur verið á það bent, að vegna fyrirhugaðra áherslubreytinga í störfum forstöðumanns, hafi menntun og reynsla hans verið taldir eftirsóknarverðir kostir. Var á því byggt, að sérstaklega hefði verið leitað eftir því á undanförnum árum, að þáttur sálfræðiráðgjafar yrði aukinn í starfi skrifstofunnar, en ráðningin hefði átt að mæta þeim þörfum.

Ekki verður séð, að þessar áherslubreytingar hafi verið sérstaklega til umræðu eða til meðferðar hjá stjórn skólaskrifstofunnar eða á vegum SASS, áður en til umræddrar ráðningar kom, og ekki hefur verið sýnt fram á, að breyting á starfslýsingu forstöðumanns, sem fram kemur í 6. gr. stofnsamnings skrifstofunnar, hafi verið ráðgerð eða undirbúin af hálfu aðildarsveitarfélaga þegar ákvörðunin var tekin.

Stjórn skólaskrifstofunnar leitaði skömmu áður en til ráðningar kom til annarra starfsmanna skrifstofunnar, þ.m.t. kæranda, um að taka að sér starfið og var stjórn SASS um það kunnugt. Verður því ekki fallist á að tilvísuð ráðagerð um aukinn þátt sálfræðiráðgjafar hafi getað rutt úr vegi skyldum sem á ráðningaraðila hvíldu samkvæmt jafnréttislögum nr. 28/1991, sbr. og grein 2.1. í starfsmannastefnu SASS, sem samþykkt hafði verið hinn 3. nóvember 1999.

Óumdeilt er, að konur voru í minnihluta í hópi forstöðu- og yfirmanna hjá SASS, en framkvæmdstjóri samtakanna, og forstöðumenn tveggja undirstofnana voru karlar. Skyldi því líta til þess við ráðningu í stöðuna, að jöfnuð yrði staða kynjanna í æðstu stjórnunarstöðum innan SASS, sbr. 2. ml. 5. gr. laga nr. 28/1991. Bar stjórn SASS að gæta þess við ráðninguna, að velja konu, enda teldist hún a.m.k. jafn hæf og karl sá, sem eftir stöðunni leitaði.

Það er því álit kæruefndar, að SASS hafi með ráðningu B í stöðu forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. nú 24. gr. laga nr. 96/2000.

Þeim tilmælum er beint til stjórnar SASS að fundin verði lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum